Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 48

Horfðu fram á við

Horfðu fram á við

„Beindu augum þínum fram á við og sjónum þínum að því sem fram undan er.“ – ORÐSKV. 4:25.

SÖNGUR 77 Ljós í myrkum heimi

YFIRLIT *

1, 2. Hvernig getum við fylgt ráðinu í Orðskviðunum 4:25? Nefndu dæmi.

ÍMYNDAÐU þér eftirfarandi dæmi. Eldri trúsystir rifjar upp góða tíma. Þó að líf hennar sé erfiðara núna heldur hún áfram að gera sitt besta í þjónustunni við Jehóva. (1. Kor. 15:58) Á hverjum degi sér hún sjálfa sig og ástvini sína fyrir sér saman í nýja heiminum. Önnur systir man eftir að trúsystkini særði hana en hún ákveður að láta af gremjunni. (Kól. 3:13) Bróðir man vel eftir fyrri mistökum sínum en einbeitir sér að því að vera trúfastur héðan í frá. – Sálm. 51:12.

2 Hvað eiga þessi þrjú trúsystkini sameiginlegt? Þau muna öll eftir því sem gerðist áður, en þau lifa ekki í fortíðinni. Þau horfa öllu heldur „fram á við“. – Lestu Orðskviðina 4:25.

3. Hvers vegna þurfum við að horfa „fram á við“?

3 Hvers vegna er mikilvægt að horfa „fram á við“? Maður getur ekki gengið beint ef maður er stöðugt að horfa aftur fyrir sig. Við getum ekki heldur tekið framförum í þjónustunni við Jehóva ef við lítum stöðugt um öxl. – Lúk. 9:62.

4. Hvað ræðum við um í þessari grein?

4 Í þessari grein ræðum við um þrennt sem gæti fengið okkur til að lifa í fortíðinni. * Það er: (1) fortíðarþrá, (2) gremja og (3) óhófleg sektarkennd. Við skoðum hvernig meginreglur Biblíunnar geta hjálpað okkur að einbeita okkur ekki að „því sem er að baki“ heldur teygja okkur eftir „því sem er fram undan“. – Fil. 3:13.

FORTÍÐARÞRÁ

Hvað getur hindrað okkur í að horfa fram á við? (Sjá 5., 9. og 13. grein.) *

5. Hverju varar Prédikarinn 7:10 okkur við?

5 Lestu Prédikarann 7:10Taktu eftir að í þessu versi er ekki sagt að það sé rangt að spyrja: „Hvernig stendur á því að hinir fyrri dagar voru góðir?“ Góðar minningar eru gjöf frá Jehóva. Í versinu segir öllu heldur: „Segðu ekki: Hvernig stendur á því að hinir fyrri dagar voru betri en þessir?“ Við þurfum því að gæta okkar á að bera ekki saman líf okkar nú og áður og hugsa sem svo að allt sé verra núna. Í annarri biblíuþýðingu hljómar versið svona: „Þú skalt aldrei spyrja: ,Æ, hvers vegna var lífið miklu betra í gamla daga?‘ Það er ekki gáfuleg spurning.“

Hvaða mistök gerðu Ísraelsmenn eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland? (Sjá 6. grein.)

6. Af hverju er ekki skynsamlegt að hugsa sem svo að líf okkar hafi verið betra áður? Nefndu dæmi.

6 Af hverju er ekki skynsamlegt að hugsa sem svo að líf okkar hafi verið betra áður? Fortíðarþrá getur fengið okkur til að muna bara eftir því góða úr fortíðinni eða að gera lítið úr erfiðleikunum sem við þurftum að þola. Tökum Ísraelsmenn til forna sem dæmi. Eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland voru þeir fljótir að gleyma því hve erfitt líf þeirra var þar. Þess í stað beindu þeir athyglinni að góða matnum sem þeir borðuðu þar. Þeir sögðu: „Nú munum við eftir fiskinum sem við fengum fyrir ekkert í Egyptalandi, gúrkunum, melónunum, blaðlaukunum, laukunum og hvítlaukunum.“ (4. Mós. 11:5) En fengu þeir þennan mat „fyrir ekkert“? Nei. Ísraelsmenn greiddu hann dýru verði því að á þessum tíma voru þeir kúgaðir í þrælkun í Egyptalandi. (2. Mós. 1:13, 14; 3:6–9) En með tímanum gleymdu þeir þessum erfiðleikum og þráðu fortíðina. Þeir völdu að beina athyglinni að „gömlu góðu dögunum“ í stað þess að einbeita sér að því góða sem Jehóva var nýbúinn að gera fyrir þá. Jehóva var ekki ánægður með viðhorf þeirra. – 4. Mós. 11:10.

7. Hvað hjálpaði systur einni að forðast að fyllast fortíðarþrá?

7 Hvernig getum við forðast að fyllast fortíðarþrá? Lítum á reynslu systur einnar sem hóf þjónustu á Betel í Brooklyn árið 1945. Nokkrum árum seinna giftist hún bróður á Betel og þau þjónuðu saman þar í mörg ár. En árið 1976 veiktist maðurinn hennar. Hún segir að þegar hann áttaði sig á að hann ætti stutt eftir hafi hann gefið henni góð ráð sem myndu hjálpa henni eftir að hann dæi. Hann sagði við hana: „Við höfum átt hamingjuríkt hjónaband. Margir njóta þess aldrei.“ Hann gaf henni líka þessa hvatningu: „Ekki lifa í fortíðinni þó að þú eigir enn þá minningarnar. Með tímanum gróa sárin. Ekki verða bitur og vorkenna sjálfri þér. Vertu ánægð með þá gleði og blessun sem við nutum saman ... Minningar eru gjöf frá Guði.“ Þetta voru góð ráð.

8. Hvernig var það systur okkar til góðs að lifa ekki í fortíðinni?

8 Systir okkar tók þessi ráð til sín. Hún þjónaði Jehóva trúföst þar til hún lést 92 ára að aldri. Nokkrum árum áður en hún lést sagði hún: „Þegar ég lít til baka á meira en 63 ár í fullu starfi í þjónustu Jehóva get ég sagt að ég hef átt hamingjuríkt líf.“ Hún útskýrir hvers vegna: „Það sem veitir sanna hamingju í lífinu er frábært bræðralag okkar og vonin um um að lifa í paradís á jörð með bræðrum okkar og systrum þar sem við munum þjóna Jehóva, hinum eina sanna Guði og skapara okkar, að eilífu.“ * Þetta er frábært dæmi um að horfa fram á við.

GREMJA

9. Hvenær getur okkur fundist sérstaklega erfitt að láta af gremju eins og sjá má af 3. Mósebók 19:18 (Biblían 1981)?

9 Lestu 3. Mósebók 19:18(Biblían 1981) Okkur finnst oft erfitt að láta af gremju ef sá sem gerði á hlut okkar er trúsystkini okkar, náinn vinur eða ættingi. Systir sakaði til dæmis aðra systur ranglega um að hafa stolið peningum frá sér. Hún baðst síðar afsökunar en hin systirin gat ekki hætt að hugsa um ásökunina. Hefur þér einhvern tímann liðið þannig? Þó að við höfum ekki lent í sömu aðstæðum höfum við líklega flest fundið fyrir gremju sem við töldum okkur aldrei geta látið af.

10. Hvað getur hjálpað okkur þegar við finnum fyrir gremju?

10 Hvað getur hjálpað okkur þegar við finnum fyrir gremju? Við ættum að minna okkur á að Jehóva sér allt. Hann tekur eftir öllu sem við göngum í gegnum, meðal annars óréttlætinu sem við verðum fyrir. (Hebr. 4:13) Hann finnur til með okkur þegar við þjáumst. (Jes. 63:9) Og hann lofar að fjarlægja að lokum alla þá kvöl sem við höfum orðið fyrir vegna óréttlætis. – Opinb. 21:3, 4.

11. Hvernig er það okkur sjálfum til góðs að láta af gremju?

11 Við ættum einnig að muna að það er okkur sjálfum til góðs að láta af gremju. Systirin sem var höfð fyrir rangri sök komst að raun um það. Hún gat með tímanum látið af gremjunni. Hún skildi að Jehóva fyrirgefur okkur þegar við fyrirgefum öðrum. (Matt. 6:14) Hún gerði ekki lítið úr því sem trúsystir hennar hafði gert eða afsakaði það, en hún valdi að láta af gremjunni. Fyrir vikið varð hún ánægðari og gat einbeitt sér að þjónustunni við Jehóva.

ÓHÓFLEG SEKTARKENND

12. Hvað lærum við af 1. Jóhannesarbréfi 3:19, 20?

12 Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20Það er ekki óeðlilegt að finna til sektarkenndar. Sumir finna til sektarkenndar vegna þess sem þeir gerðu áður en þeir kynntust sannleikanum. Aðrir finna til sektarkenndar vegna mistaka sem þeim urðu á eftir að þeir létu skírast. Slíkar tilfinningar eru ekki óalgengar. (Rómv. 3:23) Við viljum auðvitað gera það sem er rétt en ,við hrösum öll margsinnis‘. (Jak. 3:2; Rómv. 7:21–23) Okkur finnst ekki gott að finna til sektarkenndar en það getur gert okkur eitthvað gott. Hvernig þá? Sektarkennd getur fengið okkur til að gera breytingar í lífinu og til að vera ákveðin í að endurtaka ekki mistök okkar. – Hebr. 12:12, 13.

13. Hvers vegna þurfum við að gæta okkar á að fara ekki að finna til óhóflegrar sektarkenndar?

13 Hins vegar er hægt að finna til óhóflegrar sektarkenndar – að halda áfram að vera með sektarkennd eftir að við höfum iðrast og Jehóva hefur sýnt að hann sé búinn að fyrirgefa okkur. Slík sektarkennd er skaðleg. (Sálm. 31:11; 38:4, 5) Hvernig þá? Tökum sem dæmi systur sem glímdi við sektarkennd vegna fyrri synda. Hún sagði: „Mér fannst tilgangslaust að leggja mig fram í þjónustu Jehóva vegna þess að ég hélt að mér yrði hvort sem er ekki bjargað.“ Mörg okkar kannast kannski við þessa tilfinningu. Við þurfum að gæta okkar á að fara ekki að finna til óhóflegrar sektarkenndar. Hugsaðu þér hve glaður Satan yrði ef við myndum gefast upp á sjálfum okkur þó að Jehóva hafi ekki gefist upp á okkur. – Samanber 2. Korintubréf 2:5–7, 11.

14. Hvernig getum við verið viss um að Jehóva hafi ekki gefist upp á okkur?

14 En við gætum velt fyrir okkur hvernig við getum verið viss um að Jehóva hafi ekki gefist upp á okkur. Ef við erum að velta þessu fyrir okkur er það merki um að Jehóva geti fyrirgefið okkur. Í Varðturninum sagði fyrir mörgum áratugum: „Við gætum verið með slæman ávana sem er rótgrónari en við gerðum okkur grein fyrir svo að við föllum í sama farið aftur og aftur ... Örvæntu ekki. Ekki halda að þú hafir drýgt ófyrirgefanlega synd. Satan vill að þú hugsir þannig. Það að þú sért dapur yfir þessu og gramur út í sjálfan þig sannar að Jehóva getur fyrirgefið þér. Ekki þreytast á að leita fyrirgefningar Guðs í einlægni og auðmýkt og biðja hann um hreina samvisku og hjálp til að hætta að gera þessi mistök. Leitaðu til hans eins og barn leitar til föður síns þegar það er í vandræðum, sama hve oft þú ræðir um sama veikleika. Og Jehóva mun í miskunn sinni hjálpa þér vegna einstakrar góðvildar sinnar.“ *

15, 16. Hvernig hefur sumum liðið eftir að þeir komust að raun um að Jehóva hefur ekki gefist upp á þeim?

15 Mörgum þjónum Jehóva hefur fundist hughreystandi að komast að raun um að Jehóva hefur ekki gefist upp á þeim. Fyrir nokkrum árum fékk bróðir til dæmis hvatningu úr reynslusögu í greinaflokknum „Biblían breytir lífi fólks“. Í greininni skýrði systir frá því að vegna fyrri reynslu hafi henni fundist erfitt að trúa því að Jehóva gæti elskað hana. Hún barðist við þessa tilfinningu, jafnvel mörgum árum eftir að hún lét skírast. En hún fór að sjá málið öðrum augum þegar hún hugleiddi lausnarfórnina. *

16 Hvernig hjálpaði reynsla hennar bróðurnum? Hann sagði: „Þegar ég var ungur var ég háður klámi og átti erfitt með að losna undan því. Nýlega féll ég aftur. Ég leitaði hjálpar hjá öldungunum og hef tekið framförum í að sigrast á fíkninni. Öldungarnir hafa fullvissað mig um kærleika og miskunn Guðs. Samt finnst mér stundum enn þá að ég sé einskis verður og að Jehóva geti ekki elskað mig. Að lesa um reynslu [þessarar systur] hjálpaði mér mikið. Ég skil núna að þegar ég segi að Guð geti ekki fyrirgefið mér er ég í raun að segja að fórn sonar hans dugi ekki til að hylja syndir mínar. Ég er búinn að klippa út greinina svo að ég geti lesið og hugleitt hana þegar mér finnst ég einskis verður.“

17. Hvað gerði Páll postuli til að fyllast ekki óhóflegri sektarkennd?

17 Frásögur sem þessar minna okkur á Pál postula. Hann drýgði alvarlegar syndir áður en hann tók kristna trú. Páll mundi eftir því sem hann gerði en hann hugsaði ekki stöðugt um það. (1. Tím. 1:12–15) Hann leit á lausnargjaldið sem persónulega gjöf til sín. (Gal. 2:20) Páll fylltist ekki óhóflegri sektarkennd heldur einbeitti sér að því að gera sitt besta í þjónustu Jehóva.

BEINUM ATHYGLINNI AÐ NÝJA HEIMINUM

Verum staðráðin í að láta líf okkar snúast um það sem fram undan er. (Sjá 18. og 19. grein.) *

18. Hvað höfum við lært í þessari grein?

18 Hvað höfum við lært í þessari grein? (1) Góðar minningar eru blessun frá Jehóva. En sama hve gott líf okkar var áður verður það betra í nýja heiminum. (2) Aðrir geta sært okkur, en þegar við veljum að fyrirgefa getum við einbeitt okkur að þjónustunni við Jehóva. (3) Óhófleg sektarkennd getur hindrað okkur í að þjóna Jehóva með gleði. Við þurfum því, líkt og Páll, að trúa að Jehóva hafi fyrirgefið okkur.

19. Hvernig vitum við að engin minning á eftir að plaga okkur í nýja heiminum?

19 Við eigum í vændum að lifa að eilífu. Og í nýja heiminum á engin minning eftir að plaga okkur. Biblían segir um þann tíma: „Hins fyrra verður ekki minnst framar.“ (Jes. 65:17) Hugsið ykkur: Sum okkar eru farin að eldast í þjónustu Jehóva, en í nýja heiminum verðum við ung aftur. (Job. 33:25) Verum því staðráðin í að lifa ekki í fortíðinni. Horfum frekar fram á við og látum líf okkar snúast um það sem fram undan er.

SÖNGUR 142 Höldum fast í vonina

^ gr. 5 Það getur verið gott að muna eftir því sem er liðið. En við viljum ekki vera svo upptekin af fortíðinni að við gerum ekki okkar besta núna eða gleymum því sem á eftir að gerast í framtíðinni. Í þessari grein ræðum við um þrennt sem gæti fengið okkur til að lifa í fortíðinni. Við skoðum meginreglur í Biblíunni og nútímadæmi sem geta hjálpað okkur að forðast að gera það.

^ gr. 4 ORÐASKÝRING: Í þessari grein þýðir það „að lifa í fortíðinni“ að hugsa stöðugt um fortíðina – að tala stöðugt um hana, velta sér upp úr henni eða hugsa að lífið hafi verið betra áður.

^ gr. 14 Sjá Varðturninn á ensku 15. febrúar 1954, bls. 123.

^ gr. 59 MYND: Fortíðarþrá, gremja og óhófleg sektarkennd eru eins og þungir baggar sem við drögum á eftir okkur og hindra okkur á göngunni á veginum til lífsins.

^ gr. 66 MYND: Þegar við sleppum takinu á þessum íþyngjandi tilfinningum er okkur létt, við verðum ánægð og við fáum nýjan kraft. Þá getum við horft fram á við.