Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Jehóva gleymdi mér ekki

Jehóva gleymdi mér ekki

ÉG Á heima í Orealla, frumbyggjaþorpi með um 2.000 íbúum í Gvæjana í Suður-Ameríku. Þorpið er einangrað. Það er aðeins hægt að komast þangað með lítilli flugvél eða á báti.

Ég fæddist árið 1983. Ég var heilbrigður strákur fram að tíu ára aldri. En þá fór ég að finna fyrir sárum verkjum um allan líkamann. Um tveim árum síðar gat ég ekki hreyft mig einn morguninn þegar ég vaknaði. Ég gat ekki hreyft fæturna sama hvað ég reyndi. Þeir voru alveg máttlausir. Og ég hef ekki gengið síðan. Ég hætti líka að vaxa vegna veikindanna. Ég er enn á stærð við barn.

Ég hafði verið fastur heima vegna veikindanna í nokkra mánuði þegar tveir vottar Jehóva heimsóttu okkur. Ég var vanur að fela mig þegar gestir komu en í þetta sinn leyfði ég konunum að tala við mig. Þegar þær töluðu um paradís minnti það mig á það sem ég heyrði þegar ég var um það bil fimm ára. Þá heimsótti trúboði að nafni Jethro sem bjó í Súrínam þorpið okkar einu sinni í mánuði og aðstoðaði pabba við biblíunám. Jethro var góður við mig og ég kunni mjög vel við hann. Afi og amma tóku mig líka stundum með á samkomur hjá vottunum sem voru haldnar í þorpinu. Þegar Florence, önnur kvennanna sem komu í heimsókn þennan dag, spurði hvort ég vildi vita meira svaraði ég því játandi.

Florence kom aftur með Justusi, manninum sínum, og saman aðstoðuðu þau mig við biblíunám. Þegar þau tóku eftir að ég var ólæs kenndu þau mér að lesa. Áður en langt um leið var ég farinn að lesa sjálfur. Einn daginn sögðu þau mér að þeim hefði verið falið að boða trúna í Súrínam. Því miður var engin í Orealla sem gat haldið áfram að aðstoða mig við biblíunámið. En sem betur fer gleymdi Jehóva mér ekki.

Stuttu síðar kom brautryðjandi að nafni Floyd til Orealla. Hann hitti mig þegar hann boðaði trúna kofa úr kofa. Ég brosti þegar hann nefndi biblíunám við mig. „Hvers vegna brosirðu?“ spurði hann. Ég sagði honum að ég væri búinn að fara yfir bæklinginn Hvers krefst Guð af okkur? og hefði byrjað á bókinni Þekking sem leiðir til eilífs lífs. * Ég sagði honum hvers vegna náminu hefði ekki verið haldið áfram. Floyd fór með mér yfir það sem eftir var af Þekkingarbókinni en síðan var honum líka falið að þjóna annars staðar. Og aftur hafði ég engan biblíukennara.

En árið 2004 voru tveir sérbrautryðjendur, Granville og Joshua, sendir til Orealla. Þeir boðuðu trúna kofa úr kofa, og fundu mig. Ég brosti þegar þeir buðu mér biblíunámskeið. Ég bað þá að fara með mér yfir Þekkingarbókina frá byrjun. Ég vildi komast að því hvort þeir myndu kenna mér það sama og fyrri kennarar. Granville sagði mér að það væru haldnar samkomur í þorpinu. Ég hafði ekki farið að heiman í næstum tíu ár en mig langaði til að mæta. Granville sótti mig, setti mig í hjólastól og keyrði mig í honum í ríkissalinn.

Seinna hvatti Granville mig til að skrá mig í Boðunarskólann. Hann sagði: „Þú getur talað þó að þú sért fatlaður. Einhvern tíma áttu eftir að flytja opinberan fyrirlestur. Þú munt gera það.“ Hvetjandi orð hans juku sjálfstraust mitt.

Ég byrjaði að boða trúna með Granville. En margir moldarvegirnir í þorpinu voru of holóttir fyrir hjólastól. Ég bað því Granville að keyra mig um í hjólbörum. Það virkaði mjög vel. Ég lét skírast í apríl 2005. Stuttu síðar þjálfuðu bræðurnir mig í að sjá um bókadeildina og hljóðkerfið í ríkissalnum.

Árið 2007 varð fjölskylda mín fyrir því áfalli að pabbi fórst í bátaslysi. Við vorum harmi slegin. Granville bað með okkur og las með okkur uppörvandi vers úr Biblíunni. Tveim árum síðar urðum við svo fyrir öðru hræðilegu áfalli þegar Granville fórst í bátaslysi.

Litli söfnuðurinn okkar var í sorg og það var enginn öldungur eftir og aðeins einn safnaðarþjónn. Andlát Granvilles fékk verulega á mig. Hann var kær vinur og alltaf til staðar til að hjálpa mér með það sem ég þurfti bæði andlega og líkamlega. Á fyrstu samkomunni eftir að hann lést hafði ég það verkefni að lesa í Varðturnsnáminu. Mér tókst að lesa fyrstu tvær greinarnar en byrjaði síðan að gráta og tárin héldu bara áfram að renna. Ég varð að fara niður af sviðinu.

Ég fór að taka gleði mína aftur þegar bræður frá öðrum söfnuði komu til að aðstoða okkur í Orealla. Deildarskrifstofan sendi líka til okkar sérbrautryðjanda að nafni Kojo. Það gladdi mig mjög að mamma mín og yngri bróðir fóru að kynna sér Biblíuna og létu skírast. Í mars 2015 var ég svo útnefndur safnaðarþjónn. Einhverju seinna flutti ég fyrsta opinbera fyrirlesturinn minn. Ég brosti í gegnum tárin þegar ég hugsaði með þakklæti til þess sem Granville sagði við mig mörgum árum áður: „Einhvern tíma áttu eftir að flytja opinberan fyrirlestur. Þú munt gera það.“

Í Sjónvarpi Votta Jehóva hef ég lært um trúsystkini sem eru í svipaðri stöðu og ég. Þrátt fyrir fötlun sína geta þau gert margt og eru glöð. Ég get líka gert ýmislegt. Mig langaði til að gefa Jehóva eins mikið og ég gat og þess vegna ákvað ég að verða brautryðjandi. Og í september 2019 fékk ég óvæntar fréttir. Þá var mér falið að þjóna sem öldungur í söfnuðinum okkar sem í eru um 40 boðberar.

Ég er þakklátur þeim kæru bræðrum og systrum sem aðstoðuðu mig við að kynna mér Biblíuna og að þjóna Jehóva. Umfram allt er ég þakklátur að Jehóva skuli ekki hafa gleymt mér.

^ gr. 8 Gefin út af Vottum Jehóva en ekki lengur fáanleg.