Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 46

Þið sem eruð nýlega gift – látið líf ykkar snúast um þjónustuna við Jehóva

Þið sem eruð nýlega gift – látið líf ykkar snúast um þjónustuna við Jehóva

„Drottinn er styrkur minn ... honum treystir hjarta mitt.“ – SÁLM. 28:7.

SÖNGUR 131 „Það sem Guð hefur tengt saman“

YFIRLIT *

1, 2. (a) Hvers vegna ættu nýlega gift hjón að treysta á Jehóva? (Sálmur 37:3, 4) (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

 ERTU að fara að gifta þig, eða ertu nýlega giftur? Ef svo er hlakkarðu án efa til þess að njóta lífsins með persónunni sem þú elskar innilega. Hjónaband er að sjálfsögðu ekki alltaf auðvelt. Og það þarf að taka mikilvægar ákvarðanir. En það sem þið gerið þegar þið mætið erfiðleikum eða þurfið að taka ákvarðanir hefur áhrif á hamingju ykkar á komandi árum. Ef þið treystið á Jehóva munuð þið taka viturlegar ákvarðanir, hjónabandið styrkist og þið verðið hamingjusamari. Ef þið fylgið ekki ráðleggingum Guðs lendið þið að öllum líkindum í erfiðleikum sem íþyngja ykkur og valda óhamingju í hjónabandi ykkar. – Lestu Sálm 37:3, 4.

2 Þótt þessi grein sé samin fyrir nýlega gift hjón fjallar hún um vandamál sem öll hjón geta staðið frammi fyrir. Við skoðum hvað við getum lært af trúföstum körlum og konum sem Biblían greinir frá. Það sem við lærum af þessum fordæmum getur nýst okkur á mismunandi sviðum lífsins, þar á meðal í hjónabandinu. Við drögum líka lærdóm af reynslu hjóna í nútímanum.

HVAÐ GÆTU NÝGIFT HJÓN ÞURFT AÐ TAKAST Á VIÐ?

Hvaða ákvarðanir nýlega giftra hjóna gætu komið í veg fyrir að þau geri meira í þjónustu Jehóva? (Sjá 3. og 4. grein.)

3, 4. Hvað gætu nýgift hjón þurft að takast á við?

3 Sumir gætu hvatt þá sem eru nýlega gengnir í hjónaband til að lifa svokölluðu eðlilegu lífi. Foreldrar og aðrir ættingjar gætu til dæmis þrýst á hjón að eignast börn eins fljótt og mögulegt er. Og vinir og ættingjar sem meina vel gætu hvatt nýgift hjón til að kaupa sér hús og fylla það þægindum.

4 Ef hjón eru ekki varkár gætu þau tekið ákvarðanir sem leiða til þess að þau stofna til íþyngjandi skulda. Þá þurfa bæði hjónin líklega að vinna mikið til að borga skuldir. Vinnan gæti farið að taka tíma frá sjálfsnámi, fjölskyldunámi og boðuninni. Hjónin gætu jafnvel misst af samkomum til að þéna meira eða halda vinnunni. Ef þau gera það missa þau af spennandi tækifærum til að gera meira í þjónustu Jehóva.

5. Hvað lærum við af Klaus og Marisu?

5 Það hefur sýnt sig að það færir fólki ekki hamingju að láta líf sitt snúast um efnislega hluti. Skoðum reynslu Klaus og Marisu. * Í upphafi hjónabandsins unnu þau bæði fulla vinnu til að geta lifað þægilegu lífi. Innst inni voru þau samt ekki hamingjusöm. „Við höfðum meira en við þurftum efnislega en við höfðum engin markmið í þjónustu Jehóva,“ viðurkennir Klaus. „Í raun var líf okkar flókið og fullt af streitu.“ Þú hefur kannski líka tekið eftir því að það hefur ekki veitt þér hamingju að einbeita þér að því að safna efnislegum hlutum. Láttu það ekki draga úr þér kjarkinn. Að skoða gott fordæmi annarra getur hjálpað þér að gera breytingar. Fyrst skoðum við hvað eiginmenn geta lært af Jósafat konungi.

TREYSTIÐ Á JEHÓVA RÉTT EINS OG JÓSAFAT KONUNGUR

6. Hvernig tókst Jósafat konungur á við alvarlegt vandamál í samræmi við leiðbeiningarnar í Orðskviðunum 3:5, 6?

6 Eiginmenn, finnst ykkur ábyrgð ykkar stundum yfirþyrmandi? Ef svo er getið þið lært af fordæmi Jósafats konungs. Sem konungur var hann ábyrgur fyrir öryggi heillar þjóðar. Hvað gerði hann til að standa undir þessari miklu ábyrgð? Jósafat gerði það sem í hans valdi stóð til að vernda þjóðina. Hann víggirti borgirnar í Júda og safnaði saman miklum her, meira en 1.160.000 hermönnum. (2. Kron. 17:12–19) Síðar stóð Jósafat frammi fyrir alvarlegu vandamáli. Fjölmennur her Ammoníta, Móabíta og Seírfjallabúa ógnaði honum, fjölskyldu hans og þjóð. (2. Kron. 20:1, 2) Hvað gerði Jósafat? Hann leitaði til Jehóva til að fá hjálp og styrk. Hann fór eftir þeim góðu leiðbeiningum sem koma fram í Orðskviðunum 3:5, 6. (Lestu.) Auðmjúk bæn Jósafats í 2. Kroníkubók 20:5–12 sýnir hve mikið traust hann hafði á kærleiksríkum föður sínum á himnum. Hvernig brást Jehóva við bæn Jósafats?

7. Hvernig brást Jehóva við bæn Jósafats?

7 Jehóva talaði við Jósafat fyrir milligöngu Levíta sem hét Jehasíel. Jehóva sagði: „Fylkið ykkur, standið og horfið á þegar Drottinn vinnur sigur fyrir ykkur.“ (2. Kron. 20:13–17) Þetta er sannarlega ekki nein venjuleg aðferð til að vinna orrustu. En þessi fyrirmæli komu ekki frá manni, þau komu frá Jehóva. Jósafat treysti Guði fullkomlega og hlýddi fyrirmælunum. Þegar hann gekk til móts við óvininn ásamt mönnum sínum setti hann ekki hæfustu hermennina fremst heldur óvopnaða söngvara. Jehóva brást ekki Jósafat og hann sigraði óvinaherinn. – 2. Kron. 20:18–23.

Nýlega gift hjón geta látið þjónustuna við Jehóva vera það mikilvægasta í lífinu með því að biðja og rannsaka orð hans. (Sjá 8., og 10. grein.)

8. Hvað geta eiginmenn lært af Jósafat?

8 Þið eiginmenn getið lært af Jósafat. Þið eruð ábyrgir fyrir velferð fjölskyldu ykkar og leggið þess vegna hart að ykkur að vernda og styðja hana. Þegar þú stendur frammi fyrir vandamálum finnst þér kannski að þú getir leyst þau upp á eigin spýtur. En forðastu tilhneiginguna til að treysta á eigin styrk. Þess í stað skaltu í einrúmi biðja Jehóva um hjálp. Biddu líka í einlægni með konunni þinni. Leitaðu leiðsagnar Jehóva með því að rannsaka Biblíuna og rit sem söfnuður Guðs sér okkur fyrir og farðu síðan eftir því sem þú lærir. Aðrir eru kannski ekki sammála ákvörðunum þínum sem eru byggðar á Biblíunni og segja þær jafnvel óskynsamar. Þeir segja kannski að peningar og það sem fæst fyrir þá veiti bestu verndina fyrir fjölskylduna þína. En mundu eftir fordæmi Jósafats. Hann sýndi í verki að hann treysti Jehóva. Jehóva yfirgaf ekki þennan trúfasta mann og hann yfirgefur þig ekki heldur. (Sálm. 37:28; Hebr. 13:5) Hvað fleira geta hjón gert til að stuðla að hamingjuríku lífi saman?

SETJIÐ ÞJÓNUSTUNA VIÐ JEHÓVA Í FYRSTA SÆTI RÉTT EINS OG JESAJA SPÁMAÐUR OG EIGINKONA HANS

9. Hvað er hægt að segja um Jesaja spámann og eiginkonu hans?

9 Líf Jesaja spámanns og eiginkonu hans snerist um þjónustuna við Jehóva. Jesaja var spámaður og vera má að konan hans hafi haft spámannleg verkefni þar sem hún er kölluð spákona. (Jes. 8:1–4) Þau hjónin einbeittu sér greinilega að tilbeiðslunni á Jehóva. Þau settu hjónum nú á dögum frábært fordæmi.

10. Hvernig getur það að rannsaka spádóma Biblíunnar hjálpað hjónum að vera staðráðin í að gera eins mikið og þau geta fyrir Jehóva?

10 Hjón geta látið þjónustuna við Jehóva vera þungamiðju í lífi sínu með því að gera sitt besta í þjónustu hans. Þau geta styrkt traust sitt til Jehóva með því að rannsaka biblíuspádóma saman og taka eftir hvernig þeir rætast alltaf. * (Tít. 1:2) Þau geta hugleitt þann þátt sem þau eiga í að uppfylla ákveðna biblíuspádóma. Þau geta til dæmis hjálpað til við að uppfylla spádóm Jesú um að fagnaðarboðskapurinn verði boðaður um alla jörðina áður en endirinn kemur. (Matt. 24:14) Því vissari sem hjón eru um að biblíuspádómar rætist, þeim mun ákveðnari verða þau að gera eins mikið og þau geta fyrir Jehóva.

SETJIÐ GUÐSRÍKI Í FYRSTA SÆTI RÉTT EINS OG PRISKILLA OG AKVÍLAS

11. Hvað gátu Priskilla og Akvílas gert og hvers vegna?

11 Ung hjón geta lært af Priskillu og Akvílasi, en þau voru Gyðingar og áttu heima í Róm. Þau höfðu heyrt fagnaðarboðskapinn um Jesú og tekið kristna trú. Þau voru eflaust ánægð með líf sitt. En líf þeirra breyttist skyndilega þegar Kládíus keisari skipaði öllum Gyðingum að yfirgefa Róm. Hvað þýddi það fyrir Akvílas og Priskillu? Þau þurftu að yfirgefa umhverfi sem þau þekktu, finna nýtt heimili og byrja að vinna við tjaldgerð á nýjum stað. Mundi þessi röskun á lífi þeirra verða til þess að þau ýttu hagsmunum Guðsríkis úr fyrsta sæti? Við vitum líklega svarið. Eftir að hafa fundið sér heimili í Korintu aðstoðuðu Akvílas og Priskilla söfnuðinn þar og unnu með Páli postula við að styðja bræður og systur. Seinna fluttu þau til annarra bæja þar sem þörfin fyrir boðbera var meiri. (Post. 18:18–21; Rómv. 16:3–5) Líf þeirra hlýtur að hafa verið innihaldsríkt og gefandi.

12. Hvers vegna ættu hjón að setja sér andleg markmið?

12 Hjón nú á dögum geta líkt eftir Priskillu og Akvílasi með því að setja hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti. Besti tíminn fyrir par að ræða markmið í lífinu er í tilhugalífinu. Þegar par tekur ákvarðanir saman og reynir að ná andlegum markmiðum saman eru tækifærin fleiri til að sjá anda Jehóva að verki í lífinu. (Préd. 4:9, 12) Tökum reynslu Russells og Elizabeth sem dæmi. Russell segir: „Meðan við vorum að kynnast ræddum við markvisst andleg markmið okkar.“ Elizabeth segir: „Við ræddum þetta svo að ákvarðanir okkar síðar meir stæðu ekki í vegi fyrir því að við næðum markmiðum okkar.“ Aðstæður Russells og Elizabeth gerðu þeim kleift að flytja til Míkrónesíu til að þjóna Jehóva þar sem þörfin fyrir boðbera var meiri.

Nýlega gift hjón geta látið þjónustuna við Jehóva vera það mikilvægasta í lífinu með því að setja sér markmið í þjónustunni. (Sjá 13. grein.)

13. Hver er árangurinn af því að treysta Jehóva samkvæmt Sálmi 28:7?

13 Rétt eins og Russell og Elizabeth hafa mörg hjón ákveðið að lifa einföldu lífi til að verja sem mestum tíma í boðun og kennslu. Það hefur margt gott í för með sér þegar hjón setja sér góð andleg markmið í þjónustu Jehóva og vinna síðan saman að því að ná þeim. Þau sjá hvernig Jehóva annast þau, traust þeirra til hans vex og þau öðlast sanna hamingju. – Lestu Sálm 28:7.

TREYSTIÐ LOFORÐUM JEHÓVA RÉTT EINS OG PÉTUR POSTULI OG EIGINKONA HANS

14. Hvernig sýndu Pétur postuli og eiginkona hans að þau treystu loforðinu í Matteusi 6:25, 31–34?

14 Hjón geta líka lært af Pétri postula og eiginkonu hans. Um hálfu til einu ári eftir að Pétur postuli komst í kynni við Jesú þurfti hann að taka mikilvæga ákvörðun. Hann starfaði sem fiskimaður til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Þegar Jesús bauð Pétri að fylgja sér í fullu starfi þurfti Pétur því að taka fjölskylduaðstæður sínar með í reikninginn. (Lúk. 5:1–11) Hann kaus að slást í för með Jesú að boða trúna. Hann tók skynsamlega ákvörðun. Og það er mjög trúlegt að eiginkona Péturs hafi stutt ákvörðun hans. Biblían gefur til kynna að hún hafi ferðast með Pétri um nokkurt skeið eftir upprisu Jesú. (1. Kor. 9:5) Fordæmi hennar sem kristinnar eiginkonu hefur án efa auðveldað Pétri að skrifa innblásnar leiðbeiningar til kristinna eiginmanna og eiginkvenna. (1. Pét. 3:1–7) Það er augljóst að Pétur og eiginkona hans treystu loforðum Jehóva um að hann sæi fyrir þeim ef þau settu Guðsríki í fyrsta sæti í lífi sínu. – Lestu Matteus 6:25, 31–34.

15. Hvað lærum við af reynslu Tiago og Esther?

15 Hvernig getið þið ræktað með ykkur löngun til að gera meira í þjónustu Jehóva ef þið hafið verið gift í nokkur ár? Ein leið er að læra af reynslu annarra hjóna. Þið gætuð til dæmis lesið grein í greinaröðinni „Þau buðu sig fúslega fram“. Þessar greinar hjálpuðu Tiago og Esther, hjónum frá Brasilíu, að fá löngun til að boða trúna þar sem þörfin væri meiri. Tiago segir: „Þegar við lesum frásögur þjóna Jehóva nú á dögum um það hvernig Jehóva hefur hjálpað þeim langar okkur líka til að finna hvernig hönd Jehóva leiðir okkur og hvernig hann annast okkur.“ Þau fluttu að lokum til Paragvæ þar sem þau hafa þjónað frá árinu 2014 á málsvæði þar sem er töluð portúgalska. Esther segir: „Efesusbréfið 3:20 er biblíuvers sem er okkur mjög kært. Við höfum séð þessi orð rætast aftur og aftur í þjónustu Jehóva.“ Í bréfi Páls til Efesusmanna lofar hann að Jehóva sjái okkur fyrir því sem er langt umfram það sem við biðjum um. Þetta eru orð að sönnu.

Nýlega gift hjón geta látið þjónustuna við Jehóva vera það mikilvægasta í lífinu með því að leita ráða hjá reyndum hjónum. (Sjá 16. grein.)

16. Hvar geta ung hjón fengið ráð þegar þau hugsa um markmið í lífi sínu?

16 Ung hjón geta haft gagn af reynslu annarra sem hafa lært að treysta á Jehóva. Sum hjón hafa ef til vill þjónað Jehóva í fullu starfi í áratugi. Hvernig væri að leita ráða hjá þeim ef þið eruð að velta markmiðum ykkar fyrir ykkur? Þetta er önnur leið til að sýna að þið treystið á Jehóva. (Orðskv. 22:17, 19) Öldungar geta líka hjálpað ungum hjónum að setja sér markmið og ná þeim.

17. Hvernig gekk hjá Klaus and Marisu og hvað getum við lært af reynslu þeirra?

17 En stundum fara áform okkar um að gera meira í þjónustu Jehóva ekki á þann veg sem við væntum. Skoðum til dæmis hvað gerðist hjá Klaus og Marisu sem minnst er á í byrjun greinarinnar. Eftir að þau höfðu verið gift í þrjú ár buðu þau sig fram í byggingarvinnu við deildarskrifstofuna í Finnlandi og fluttu þangað. En þeim var sagt að þau fengju ekki að vera þar lengur en í sex mánuði. Í fyrstu voru þau vonsvikin. En stuttu seinna var þeim boðið að læra arabísku og þjóna núna með arabískumælandi söfnuði í öðru landi. Marisa viðurkennir þegar hún lítur til baka: „Maður getur verið hræddur að fara út fyrir þægindarammann og treysta algerlega á Jehóva. En ég hef séð hvernig hann hefur alltaf hjálpað okkur með óvæntum hætti. Ég hef lært að treysta Jehóva betur.“ Eins og sést af þessari frásögu getum við verið viss um að Jehóva muni alltaf umbuna okkur ef við treystum algerlega á hann.

18. Hvað getur hjálpað hjónum að halda áfram að treysta á Jehóva?

18 Hjónaband er gjöf frá Jehóva. (Matt. 19:5, 6) Hann vill að hjón njóti þessarar gjafar. (Orðskv. 5:18) Þið ungu hjón, hvers vegna ekki að skoða hvernig þið verjið lífi ykkar? Eruð þið að gera allt sem þið getið til að sýna Jehóva hversu mikils þið metið gjafir hans til ykkar? Talið við Jehóva í bæn. Leitið að meginreglum í orði hans til að heimfæra upp á aðstæður ykkar. Farið síðan eftir ráðunum sem Jehóva gefur ykkur. Þið getið verið viss um að þið munuð eiga hamingjuríkt og innihaldsríkt líf ef þið látið þjónustuna við Jehóva hafa forgang í hjónabandi ykkar.

SÖNGUR 132 Nú erum við eitt

^ gr. 5 Sumar ákvarðanir sem við tökum geta haft áhrif á það hversu mikinn tíma og krafta við höfum til að þjóna Jehóva. Nýlega gift hjón standa sér í lagi frammi fyrir ákvörðunum sem geta haft langtímaáhrif á líf þeirra. Þessi grein mun hjálpa þeim að taka viturlegar ákvarðanir sem hafa í för með sér hamingjuríkt og innihaldsríkt líf.

^ gr. 5 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 10 Sjá dæmi í 6., 7. og 19. kafla bókarinnar Pure Worship of Jehovah – Restored At Last!