Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 45

Höldum áfram að sýna hvert öðru tryggan kærleika

Höldum áfram að sýna hvert öðru tryggan kærleika

„Sýnið hver öðrum miskunnsemi [tryggan kærleika, NW] og samúð.“ – SAK. 7:9.

SÖNGUR 107 Guð er fyrirmynd um kærleikann

YFIRLIT *

1, 2. Hvaða góðu ástæður höfum við til að sýna öðrum tryggan kærleika?

 VIÐ höfum góðar ástæður til að sýna hvert öðru tryggan kærleika. Hvaða ástæður? Tökum eftir því hvernig spurningunni er svarað í þessum innblásnu orðskviðum: „Kærleikur [tryggur kærleikur, NW] og tryggð munu aldrei yfirgefa þig ... þá muntu hljóta hylli og góð hyggindi, jafnt í augum Guðs sem manna.“ „Kærleiksríkur maður vinnur sjálfum sér gagn.“ „Sá sem ástundar réttlæti og kærleika [tryggan kærleika, NW] öðlast líf.“ – Orðskv. 3:3, 4; 11:17; 21:21.

2 Þessir orðskviðir nefna þrjár ástæður fyrir því að við ættum að sýna tryggan kærleika. Í fyrsta lagi erum við dýrmæt í augum Guðs þegar við gerum það. Í öðru lagi njótum við sjálf góðs af því. Við myndum til dæmis varanleg vináttubönd við aðra. Í þriðja lagi njótum við blessunar í framtíðinni. Við fáum meðal annars eilíft líf ef við sýnum tryggan kærleika. Við höfum sannarlega ástæðu til að hlýða orðum Jehóva: „Sýnið hver öðrum miskunnsemi [tryggan kærleika, NW] og samúð.“ – Sak. 7:9.

3. Hvaða spurningar skoðum við í þessari grein?

3 Í þessari grein fáum við svör við fjórum spurningum. Hverjum ættum við að sýna tryggan kærleika? Hvað getum við lært af Rutarbók um að sýna þennan eiginleika? Hvernig getum við sýnt hann? Hvernig er það okkur til góðs að gera það?

HVERJUM ÆTTUM VIÐ AÐ SÝNA TRYGGAN KÆRLEIKA?

4. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva í að sýna tryggan kærleika? (Markús 10:29, 30)

4 Eins og við lærðum í greininni á undan sýnir Jehóva aðeins þeim sem elska hann og þjóna honum tryggan kærleika. (Dan. 9:4, NW) Við viljum líkja eftir Guði „sem elskuð börn hans“. (Ef. 5:1) Okkur langar því að bera hlýjar tilfinningar til trúsystkina okkar – mynda traust og varanlegt samband við þau. – Lestu Markús 10:29, 30.

5, 6. Hvað merkir orðið „tryggð“?

5 Þú felst örugglega á að því betur sem við skiljum hvað tryggur kærleikur er því betur tekst okkur að sýna bræðrum okkar og systrum þennan eiginleika. Til að átta okkur betur á því hvað tryggur kærleikur er skulum við skoða hvað hann er í samanburði við tryggð, eins og það orð er venjulega notað. Tökum dæmi.

 6 Við myndum trúlega segja að sá sem hefur unnið fyrir sama fyrirtæki í mörg ár væri tryggur starfsmaður. En allan þennan tíma hjá fyrirtækinu hefur hann kannski aldrei hitt neinn af eigendum þess. Hann er kannski ekki alltaf sammála þeim ákvörðunum sem eru teknar. Hann elskar ekki fyrirtækið en hann er ánægður að hafa vinnu sem hann fær borgað fyrir. Hann heldur áfram að vinna þar þangað til hann fer á eftirlaun nema honum sé boðin betri staða annars staðar.

7, 8. (a) Hvað fær fólk til að sýna tryggan kærleika? (b) Hvers vegna ætlum við að skoða nokkur vers í Rutarbók?

7 Munurinn á tryggð eins og henni var lýst í  grein sex og tryggum kærleika er hvötin að baki. Hvers vegna sýndu þjónar Guðs á biblíutímanum tryggan kærleika? Þeir gerðu það ekki vegna þess að þeir urðu að gera það heldur vegna þess að hjarta þeirra knúði þá til þess. Tökum Davíð sem dæmi. Hjarta hans knúði hann til að sýna kærum vini sínum, Jónatan, tryggan kærleika, jafnvel þótt faðir Jónatans vildi drepa Davíð. Mörgum árum eftir dauða Jónatans hélt Davíð áfram að sýna Mefíbóset syni Jónatans tryggan kærleika. – 1. Sam. 20:9, 14, 15, NW; 2. Sam. 4:4; 8:15; 9:1, 6, 7NW.

8 Við getum lært margt um tryggan kærleika með því að hugleiða nokkur vers í Rutarbók í Biblíunni. Hvað getum við lært af þeim sem er fjallað um í þessari bók? Hvernig getum við heimfært það sem við lærum í samskiptum við trúsystkini okkar í söfnuðinum? *

HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT AF RUTARBÓK UM AÐ SÝNA TRYGGAN KÆRLEIKA?

9. Hvers vegna ályktaði Naomí að Jehóva væri á móti sér?

9 Í Rutarbók getum við lesið um Naomí, Rut tengdadóttur hennar og guðhræddan mann sem hét Bóas og var ættingi eiginmanns Naomí. Naomí flutti til Móabs með eiginmanni sínum og tveim sonum vegna hungursneyðar í Ísrael. Meðan þau voru þar dó eiginmaður Naomí. Synir hennar tveir giftust en því miður dóu þeir líka. (Rut. 1:3–5; 2:1) Þessi áföll urðu til þess að Naomí sökk niður í meiri og meiri örvæntingu. Hún varð svo gagntekin af angist að hún dró þá ályktun að Jehóva væri á móti sér. Tökum eftir hvernig hún tjáir tilfinningar sínar: „Hönd Drottins hefur lagst þungt á mig.“ „Hinn almáttugi hefur búið mér beiska harma.“ Hún sagði líka: „Drottinn hefur niðurlægt mig og Hinn almáttugi hrellt mig.“ – Rut. 1:13, 20, 21.

10. Hvernig brást Jehóva við bitrum orðum Naomí?

10 Hvernig brást Jehóva við bitrum orðum Naomí? Hann snerist ekki gegn örvingluðum þjóni sínum. Þvert á móti sýndi hann Naomí samúð. Jehóva skilur að „kúgun gerir vitran mann að heimskingja“. (Préd. 7:7) Naomí þurfti samt hjálp til að skilja að Jehóva stæði með henni. Hvernig hjálpaði Guð henni? (1. Sam. 2:8) Hann lét Rut finna hjá sér hvöt til að sýna Naomí tryggan kærleika. Rut hjálpaði tengadamömmu sinni fúslega og með mildi að endurheimta tilfinningalegt jafnvægi sitt og sjá að Jehóva væri enn annt um hana. Hvað lærum við af Rut?

11. Hvers vegna reyna góðviljaðir bræður og systur að hjálpa þeim sem eru daprir eða kjarklitlir?

11 Tryggur kærleikur knýr okkur til að reyna að hjálpa þeim sem eru daprir eða kjarklitlir. Rétt eins og Rut stóð með Naomí standa góðviljaðir bræður og systur fúslega með þeim í söfnuðinum sem eru kjarklausir. Þau elska trúsystkini sín og vilja gera allt sem þau geta til að hjálpa þeim. (Orðskv. 12:25; 24:10) Það er í samræmi við hvatningu Páls postula: ,Hughreystið niðurdregna, styðjið þá sem eru veikburða og verið þolinmóð við alla.‘ – 1. Þess. 5:14.

Við getum hjálpað niðurdregnu trúsystkini með því að hlusta. (Sjá 12. grein.)

12. Hver er oft áhrifaríkasta leiðin til að hjálpa niðurdregnu trúsystkini?

12 Oft er það besta sem þú getur gert til að hjálpa niðurdregnu trúsystkini að vera tilbúinn að hlusta og fullvissa hann eða hana um kærleika þinn. Jehóva kann að meta það sem þú gerir til að hjálpa dýrmætum þjónum hans. (Sálm. 41:1) Í Orðskviðunum 19:17 segir: „Sá lánar Drottni sem líknar fátækum, hann mun endurgjalda honum.“

Orpa sneri aftur til Móabs en Rut varð eftir hjá Naomí og sagði við hana: „Hvert sem þú ferð þangað fer ég.“ (Sjá 13. grein.)

13. Að hvaða leyti var Rut ólík Orpu og hvers vegna var ákvörðun Rutar merki um tryggan kærleika? (Sjá forsíðumynd.)

13 Við skiljum betur hvað felst í tryggum kærleika þegar við skoðum hvað henti Naomí eftir dauða eiginmanns hennar og tveggja sona. Þegar Naomí frétti að „Drottinn hefði komið þjóð sinni til hjálpar og séð henni fyrir fæðu“ ákvað hún að snúa heim. (Rut. 1:6) Báðar tengdadætur hennar héldu af stað með henni. En á leiðinni hvatti Naomí þær þrisvar til að snúa aftur til Móabs. Hvað gerðist? Við lesum: „Orpa kvaddi tengdamóður sína með kossi en Rut var kyrr hjá henni.“ (Rut. 1:7–14) Með því að kjósa að fara til baka var Orpa að fylgja tilmælum Naomí. Hún gerði það sem vænst var af henni. En Rut gerði meira en það. Henni var líka frjálst að fara en tryggur kærleikur fékk hana til að vera áfram með Naomí. (Rut. 1:16, 17) Rut valdi að standa með Naomí, ekki vegna þess að hún væri tilneydd heldur vegna þess að hún vildi það. Rut sýndi tryggan kærleika í raun. Hvað lærum við af þessari frásögu?

14. (a) Hvað gera margir bræður og systur? (b) Hvernig fórnir eru Guði velþóknanlegar samkvæmt Hebreabréfinu 13:16?

14 Tryggur kærleikur fer lengra en vænst er. Nú sem fyrr hafa margir bræður og systur kosið að sýna trúsystkinum sínum tryggan kærleika, jafnvel þeim sem þau hafa aldrei hitt. Þegar þau frétta til dæmis af náttúruhamförum reyna þau tafarlaust að komast að því hvað þau geta gert til að hjálpa. Þegar einhver í söfnuðinum lendir í fjárkröggum hika þau ekki við að koma honum til hjálpar. Líkt og Makedóníumenn á fyrstu öldinni gera þau meira en vænst er af þeim. Þau færa fórnir og gefa „meira að segja um efni fram“ til að hjálpa ólánsömum trúsystkinum. (2. Kor. 8:3) Jehóva hlýtur að vera ánægður þegar hann sér slíkan kærleika í verki. – Lestu Hebreabréfið 13:16.

HVERNIG GETUM VIÐ SÝNT TRYGGAN KÆRLEIKA?

15, 16. Hvernig sýndi Rut seiglu?

15 Við getum lært margt með því að skoða frásögu Biblíunnar af Rut og Naomí. Skoðum fáein dæmi.

16 Sýnum seiglu. Þegar Rut bauðst til að fara með tengdamömmu sinni til Júda mótmælti Naomí fyrst í stað. En Rut gafst ekki upp. Með hvaða árangri? „Er Naomí sá að Rut var staðráðin í að fylgja henni hætti hún að reyna að tala um fyrir henni.“ – Rut. 1:15–18.

17. Hvað hjálpar okkur að gefast ekki auðveldlega upp?

17 Heimfærsla: Það útheimtir þolinmæði að hjálpa þeim sem eru niðurdregnir en við ættum ekki að gefast upp á þeim. Systir sem þarf á hjálp að halda vill kannski ekki fá hjálp til að byrja með. * En tryggur kærleikur knýr okkur til að gera okkar besta til að standa með henni. (Gal. 6:2) Við vonumst til að hún vilji að lokum þiggja hjálp og leyfa okkur að styðja sig í erfiðleikum sínum.

18. Hvað hlýtur að hafa verið sársaukafullt fyrir Rut?

18 Tökum það ekki persónulega. Þegar Naomí og Rut komu til Betlehem hitti Naomí fyrrverandi nágranna sína. Hún sagði við þá: „Rík fór ég héðan en tómhenta hefur Drottinn sent mig heim.“ (Rut. 1:21) Ímyndaðu þér hvernig Rut hefur liðið þegar Naomí sagði þetta. Rut hafði gert allt sem hún gat til að hjálpa Naomí. Hún hafði grátið með henni, huggað hana og gengið með henni dögum saman. En þrátt fyrir þetta sagði Naomí: „Tómhenta hefur Drottinn sent mig heim.“ Þetta hljómaði eins og hún kynni ekki að meta hjálp Rutar sem stóð við hlið hennar. Þetta hlýtur að hafa gert Rut mjög dapra. En hún stóð samt með Naomí.

19. Hvað hjálpar okkur að standa með þeim sem er niðurdreginn?

19 Heimfærsla: Niðurdregin systir gæti sagt eitthvað sem særir okkur þrátt fyrir allt sem við höfum reynt að gera til að hjálpa henni. En við reynum að taka það ekki persónulega. Við stöndum með systur okkar sem þarf á hjálp að halda og við biðjum Jehóva um hjálp til að finna leið til að hugga hana. – Orðskv. 17:17.

Hvernig geta öldungar líkt eftir Bóasi? (Sjá 20. og 21. grein.)

20. Hvað gaf Rut þann styrk sem hún þurfti til að halda áfram að hjálpa Naomí?

20 Veitum uppörvun á réttum tíma. Rut hafði sýnt Naomí tryggan kærleika en nú þurfti Rut sjálf á uppörvun að halda. Og Jehóva lét Bóas finna hjá sér hvöt til að uppörva hana. Bóas sagði við Rut: „Drottinn, Guð Ísraels, launi þér verk þitt til fullnustu fyrst að þú ert komin til að leita verndar undir vængjum hans.“ Þessi hlýlegu orð snertu Rut djúpt. Rut sagði við Bóas: „Þú hefur hughreyst mig með því að tala vinsamlega við mig.“ (Rut. 2:12, 13) Þessi tímabæru orð Bóasar gáfu Rut þann styrk sem hún þurfti til að halda áfram.

21. Hverju sjá umhyggjusamir öldungar fyrir, samanber Jesaja 32:1, 2?

21 Heimfærsla: Þeir sem sýna öðrum tryggan kærleika þurfa stundum sjálfir á uppörvun að halda. Rétt eins og Bóas fullvissaði Rut um að góðvild hennar hefði ekki farið fram hjá öðrum hrósa athugulir öldungar þeim sem veita öðrum í söfnuðinum kærleiksríka hjálp. Tímabært og hlýlegt hrós gefur bræðrum og systrum þann styrk sem þau þurfa til að halda áfram. – Lestu Jesaja 32:1, 2.

HVAÐ GOTT HLÝST AF ÞVÍ AÐ SÝNA TRYGGAN KÆRLEIKA?

22, 23. Hvernig breyttist viðhorf Naomí og hvers vegna? (Sálmur 136:23, 26)

22 Að nokkrum tíma liðnum gaf Bóas Naomí og Rut rausnarlega matargjöf. (Rut. 2:14–18) Hvernig brást Naomí við örlæti Bóasar? Hún sagði: „Drottinn blessi hann því að Drottinn hefur ekki látið af miskunn sinni [tryggum kærleika sínum, NW] við lifandi eða látna.“ (Rut. 2:20a) Hvílík breyting! Hún hafði áður sagt í örvæntingu sinni: „Drottinn hefur niðurlægt mig.“ En núna sagði hún glöð: „Drottinn hefur ekki látið af miskunn sinni [tryggum kærleika sínum, NW].“ Hvers vegna breyttist viðhorf Naomí?

23 Naomí var loksins farin að sjá hönd Jehóva að verki í lífi sínu. Hann hafði fyrir tilstuðlan Rutar veitt henni stuðning á ferð hennar til Júda. (Rut. 1:16) Naomí sá líka hönd Jehóva þegar Bóas, sem var ,einn lausnarmanna þeirra‘, sýndi konunum tveim kærleiksríkt örlæti. * (Rut. 2:19, 20b) „Nú skil ég,“ hlýtur hún að hafa hugsað, „Jehóva yfirgaf mig aldrei. Hann var með mér allan tímann!“ (Lestu Sálm 136:23, 26.) Naomí hlýtur að hafa verið mjög þakklát að Rut og Bóas skyldu ekki hafa gefist upp á sér. Við getum rétt ímyndað okkur að öll þrjú hafi fagnað þessum farsælu málalokum.

24. Hvers vegna viljum við halda áfram að sýna trúsystkinum okkar tryggan kærleika?

24 Hvað höfum við lært um tryggan kærleika af Rutarbók? Tryggur kærleikur fær okkur til að gefast ekki auðveldlega upp á bræðrum okkar og systrum sem eiga í erfiðleikum. Hann knýr okkur líka til að leggja lykkju á leið okkar til að hjálpa þeim. Öldungar ættu að hvetja þá hlýlega sem sýna öðrum tryggan kærleika. Við finnum til djúprar gleði þegar við sjáum þá sem eru hjálparþurfi endurheimta gleði sína og styrk í þjónustunni við Jehóva. (Post. 20:35) En hver er mikilvægasta ástæðan fyrir því að við höldum áfram að sýna tryggan kærleika? Við viljum líkja eftir og gleðja Jehóva sem sýnir tryggan kærleika í ríkum mæli. – 2. Mós. 34:6; Sálm. 33:22.

SÖNGUR 130 Fyrirgefum fúslega

^ gr. 5 Jehóva vill að við sýnum bræðrum okkar og systrum í söfnuðinum tryggan kærleika. Við getum skilið betur hvað tryggur kærleikur er með því að skoða hvernig sumir af þjónum Guðs áður fyrr sýndu þennan eiginleika. Í þessari grein skoðum við hvað við getum lært af Rut, Naomí og Bóasi.

^ gr. 8 Til að hafa sem mest gagn af þessari grein hvetjum við þig til að lesa 1. og 2. kafla í Rutarbók.

^ gr. 17 Við fjöllum um systur sem eru hjálparþurfi þar sem frásagan af Naomí er til umræðu. En það sem er sagt í greininni á eins við um bræður.

^ gr. 23 Sjá greinina „Imitate Their Faith–,An Excellent Woman‘“ í Varðturninum á ensku 1. október 2012 til að fá meiri upplýsingar um hlutverk Bóasar sem lausnarmanns.