Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 44

Hvaða þýðingu hefur tryggur kærleikur Jehóva fyrir þig?

Hvaða þýðingu hefur tryggur kærleikur Jehóva fyrir þig?

„Tryggur kærleikur [Jehóva] varir að eilífu.“ – SÁLM. 136:1NW.

SÖNGUR 108 Elska Guðs er trúföst

YFIRLIT *

1. Hvaða hvatningu veitir Jehóva okkur?

 TRYGGUR kærleikur er mjög dýrmætur í augum Jehóva. (Hós. 6:6, NW) Hann hvetur okkur hlýlega til að hafa sama viðhorf. Fyrir munn Míka spámanns hvetur Guð okkur til að „elska tryggan kærleika“. (Míka 6:8, NW, neðanmáls) En áður en við getum gert það þurfum við að vita hvað tryggur kærleikur er.

2. Hvað einkennir tryggan kærleika?

2 Hvað er „tryggur kærleikur“? Hugtakið er þýðing á hebresku orði og kemur fyrir um 230 sinnum í Nýheimsþýðingu Biblíunnar. Í íslensku Biblíunni frá 2010 er orðið þýtt með ýmsum hætti, oftast sem „miskunn“, „miskunnsemi“, „kærleikur“ eða „náð“. Þegar biblíuvers í þessari grein nota þessi orð er átt við „tryggan kærleika“. Hvað felur þessi eiginleiki í sér? Sá sem sýnir tryggan kærleika elskar aðra persónu innilega og tryggð hans er varanleg. Hugtakið er oft notað í tengslum við kærleika Guðs til manna en getur líka átt við um kærleika milli manna. Jehóva er besta fyrirmyndin um tryggan kærleika. Í þessari grein skoðum við hvernig Jehóva sýnir mönnum þennan eiginleika. Í næstu grein skoðum við hvernig við sem þjónar Jehóva getum líkt eftir honum og sýnt hvert öðru tryggan kærleika.

JEHÓVA „SÝNIR TRYGGAN KÆRLEIKA Í RÍKUM MÆLI“

3. Hvað sagði Jehóva Móse um sjálfan sig?

3 Fljótlega eftir brottför Ísraelsmanna úr Egyptalandi opinberaði Jehóva Móse sjálfan sig og sagði honum frá nafni sínu og eiginleikum. Hann sagði: „Jehóva, Jehóva, miskunnsamur og samúðarfullur Guð sem er seinn til reiði, sýnir tryggan kærleika í ríkum mæli og er alltaf sannorður. Hann sýnir þúsundum tryggan kærleika og fyrirgefur misgerðir, afbrot og syndir.“ (2. Mós. 34:6, 7, NW) Með þessari hlýlegu yfirlýsingu um eiginleika sína opinberaði Jehóva Móse einstakan þátt í tryggum kærleika sínum. Hver er hann?

4, 5. (a) Hvernig lýsti Jehóva sjálfum sér? (b) Hvaða spurningar skoðum við?

4 Jehóva sagðist ekki aðeins sýna tryggan kærleika, heldur „tryggan kærleika í ríkum mæli“. Sama hugmynd kemur fram á nokkrum öðrum stöðum í Biblíunni og er í Biblíunni frá 2010 oft þýdd „gæskuríkur“. (4. Mós. 14:18; Neh. 9:17; Sálm. 86:15; 103:8; Jóel 2:13; Jónas 4:2) Í öllum tilfellum er átt við Jehóva. Er ekki sérstakt að Jehóva skuli leggja svo ríka áherslu á tryggan kærleika sinn? Það leikur enginn vafi á því að tryggur kærleikur er honum mikilvægur. Það er ekki að undra að Davíð konungur skyldi finna sig knúinn til að segja: „Jehóva, tryggur kærleikur þinn nær til himins ... Hversu dýrmætur er ekki tryggur kærleikur þinn, Guð! Mennirnir leita skjóls í skugga vængja þinna.“ (Sálm. 36:5, 7, NW) Metum við mikils tryggan kærleika Guðs rétt eins og Davíð?

5 Til að skilja betur hvað tryggur kærleikur felur í sér skulum við skoða tvær spurningar: Hverjum sýnir Jehóva tryggan kærleika? Og hvernig getur tryggur kærleikur Jehóva komið okkur að gagni?

HVERJUM SÝNIR JEHÓVA TRYGGAN KÆRLEIKA?

6. Hverjum sýnir Jehóva tryggan kærleika?

6 Hverjir njóta góðs af tryggum kærleika Jehóva? Í Biblíunni er sagt að menn geti elskað ýmislegt, eða haft mætur á því, eins og landbúnaði, víni og olíu, aga, þekkingu og visku, svo fátt eitt sé nefnt. (2. Kron. 26:10; Orðskv. 12:1; 21:17; 29:3) Tryggur kærleikur beinist hins vegar aldrei að hlutum heldur alltaf að fólki. En Jehóva sýnir ekki hverjum sem er tryggan kærleika. Hann sýnir hann þeim sem eiga sérstakt samband við hann. Guð okkar er trúr vinum sínum. Hann hefur frábæra framtíð í huga handa þeim og hann gefst ekki upp á þeim.

Jehóva sér öllum fyrir margs konar gæðum, jafnvel þeim sem tilbiðja hann ekki. (Sjá 7. grein.) *

7. Hvernig hefur Jehóva sýnt öllu mannkyninu kærleika?

7 Jehóva hefur sýnt öllu mannkyninu kærleika. Jesús sagði við mann að nafni Nikódemus: „Guð elskaði heiminn [mannkynið] svo heitt að hann gaf einkason sinn til þess að þeir sem trúa á hann farist ekki heldur hljóti eilíft líf.“ – Jóh. 3:1, 16; Matt. 5:44, 45.

Samkvæmt því sem Davíð konungur og Daníel spámaður sögðu sýnir Jehóva þeim tryggan kærleika sem þekkja hann, óttast hann, elska hann og hlýða boðum hans. (Sjá 8. og 9. grein.)

8, 9. (a) Hvers vegna sýnir Jehóva þjónum sínum tryggan kærleika? (b) Hvað skoðum við núna?

8 Eins og áður hefur komið fram sýnir Jehóva tryggan kærleika sinn aðeins þeim sem eiga náið samband við hann – þjónum hans. Það má sjá af því sem Davíð konungur og Daníel spámaður sögðu. Davíð sagði til dæmis: „Lát miskunn þína [tryggan kærleika þinn] haldast við þá sem þekkja þig.“ „Miskunn [tryggur kærleikur] Drottins við þá sem óttast hann varir frá eilífð til eilífðar.“ Og Daníel sagði: „Drottinn, mikli ... Guð, sem heldur sáttmálann dyggilega [sýnir þeim tryggan kærleika] sem elska hann og varðveita boðorð hans.“ (Sálm. 36:10; 103:17; Dan. 9:4) Samkvæmt þessum innblásnu orðum sýnir Jehóva þjónum sínum tryggan kærleika vegna þess að þeir þekkja hann, óttast hann, elska hann og halda boðorð hans. Jehóva sýnir tryggan kærleika aðeins þeim sem þjóna honum á réttan hátt.

9 Áður en við þjónuðum Jehóva nutum við þess kærleika sem Guð sýnir öllu mannkyni. (Sálm. 104:14) En sem tilbiðjendur hans fáum við einnig að njóta góðs af tryggum kærleika hans. Jehóva fullvissar þjóna sína um tryggan kærleika sinn: ,Kærleikur [tryggur kærleikur] minn til þín mun ekki bifast.‘ (Jes. 54:10) Davíð sjálfur fékk að reyna að „Drottinn er náðugur þeim sem honum er trúr“. (Sálm. 4:4) Hvernig ættum við að bregðast við þessari sérstöku umhyggju Jehóva? Sálmaskáldið sagði: „Hver sem er vitur gefi gætur að þessu og menn taki eftir náðarverkum [tryggum kærleika] Drottins.“ (Sálm. 107:43) Með þetta innblásna ráð í huga skulum við skoða á hvaða þrjá vegu þjónar Jehóva njóta góðs af tryggum kærleika hans.

HVERNIG NJÓTUM VIÐ GÓÐS AF TRYGGUM KÆRLEIKA JEHÓVA?

Jehóva sér þeim sem tilbiðja hann fyrir enn meiri gæðum. (Sjá 10.–16. grein.) *

10. Hvernig hjálpar það okkur að vita að tryggur kærleikur Jehóva er varanlegur? (Sálmur 31:8)

10 Tryggur kærleikur Guðs er varanlegur. Þessi mikilvæga staðreynd er nefnd 26 sinnum í Sálmi 136. Í fyrsta versinu lesum við: „Þakkið Jehóva því að hann er góður. Tryggur kærleikur hans varir að eilífu.“ (Sálm. 136:1, NW) Í hverju versi frá versi 2 til 26 er að finna orðin „því að tryggur kærleikur hans varir að eilífu“. Þegar við lesum það sem eftir er af þessum sálmi er ekki annað hægt en að dáðst að því á hve marga vegu Jehóva sýnir stöðugt tryggan kærleika. Orðin „því að tryggur kærleikur hans varir að eilífu“ fullvissa okkur aftur og aftur um að kærleikur Guðs til fólks síns breytist ekki. Það er hughreystandi til þess að vita að Jehóva gefst ekki auðveldlega upp á þjónum sínum. Nei, hann binst þjónum sínum nánum böndum og styður þá dyggilega, sérstaklega á erfiðleikatímum. Hvernig er það okkur til góðs? Að vita að Jehóva styður okkur dyggilega gefur okkur gleði og styrk til að takast á við erfiðleika og til að halda áfram að ganga á veginum til lífsins. – Lestu Sálm 31:8.

11. Hvað fær Jehóva til að fyrirgefa samkvæmt Sálmi 86:5?

11 Tryggur kærleikur Guðs fær hann til að fyrirgefa. Þegar Jehóva tekur eftir syndara sem iðrast og snýr baki við syndugri stefnu fær tryggur kærleikur hann til að fyrirgefa. Sálmaritarinn Davíð sagði um Jehóva: „Hann hefur eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum.“ (Sálm. 103:8–11) Davíð þekkti af sárri reynslu hversu þung byrði slæm samviska getur verið. En hann hafði líka komist að því að Jehóva er „fús til að fyrirgefa“. Hvað fær Jehóva til að fyrirgefa? Svarið er að finna í Sálmi 86:5. (Lestu.) Eins og kemur fram í bæn Davíðs fyrirgefur Jehóva vegna þess að hann er gæskuríkur, eða ber tryggan kærleika í miklum mæli til allra sem ákalla hann.

12, 13. Hvað getur hjálpað okkur ef við erum þjökuð af sektarkennd?

12 Þegar við syndgum er viðeigandi og jafnvel hollt að fá samviskubit. Það getur fengið okkur til að iðrast og taka skref til að leiðrétta mistök okkar. En sumir þjónar Guðs hafa orðið gagnteknir af sektarkennd vegna fyrri mistaka. Þeim finnst enn þá að Jehóva muni aldrei geta fyrirgefið þeim jafnvel þótt þeir hafi beðið um fyrirgefningu og hætt að gera það sem er rangt. Ef þú ert að glíma við slíkar tilfinningar getur það að öðlast skilning á fúsleika Jehóva til að sýna þjónum sínum tryggan kærleika hjálpað þér.

13 Hvernig er það okkur til góðs: Þrátt fyrir ófullkomleika okkar getum við verið glöð og þjónað Jehóva með hreinni samvisku. Þetta er mögulegt vegna þess að „blóð Jesú sonar hans hreinsar okkur af allri synd“. (1. Jóh. 1:7) Þegar þú ert niðurdreginn vegna ófullkomleika þíns skaltu rifja upp að Jehóva er fús, já ákafur, að fyrirgefa syndara sem iðrast. Taktu eftir því hvernig Davíð tengir tryggan kærleika við fyrirgefningu. Hann skrifaði: „Svo hár sem himinninn er yfir jörðinni, svo voldug er miskunn [tryggur kærleikur] hans við þá er óttast hann. Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefur hann fjarlægt afbrot vor frá oss.“ (Sálm. 103:11, 12) Já, Jehóva „fyrirgefur ríkulega“. – Jes. 55:7.

14. Hvernig lýsti Davíð því hvernig tryggur kærleikur Guðs verndar okkur?

14 Tryggur kærleikur Guðs veitir andlega vernd. Davíð sagði í bæn til Jehóva: „Þú ert skjól mitt, verndar mig í þrengingum, bjargar mér, umlykur mig fögnuði ... þann sem treystir Drottni umlykur hann elsku [tryggum kærleika].“ (Sálm. 32:7, 10) Rétt eins og borgarveggir umkringdu borgir til forna borgarbúum til varnar umkringir tryggur kærleikur Jehóva okkur og sér okkur fyrir andlegri vernd gegn hættu sem gæti ógnað sambandi okkar við hann. Tryggur kærleikur Jehóva fær hann líka til að draga okkur til sín. – Jer. 31:3.

15. Hvernig er tryggur kærleikur eins og athvarf eða virki þar sem við njótum verndar?

15 Davíð notaði annað myndmál til að lýsa þeirri vernd sem fólk Guðs nýtur. Hann skrifaði: „Guð er mér öruggt athvarf, hann sem sýnir mér tryggan kærleika.“ Davíð sagði einnig um Jehóva: „Hann er tryggur kærleikur minn og vígi, öruggt athvarf mitt og bjargvættur, skjöldur minn og sá sem ég leita skjóls hjá.“ (Sálm. 59:17, NW; Sálm. 144:2, NW) Hvers vegna líkti Davíð tryggum kærleika Jehóva við athvarf og vígi? Hvar sem við búum á jörðinni og eins lengi og við þjónum Jehóva mun hann sjá okkur fyrir allri þeirri vernd sem við þurfum til að standa vörð um dýrmætt samband okkar við hann. Sama fullvissa kemur fram í Sálmi 91. Sá sem skrifaði þann sálm sagði: „Sá er ... segir við Drottin: ,Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á.‘“ (Sálm. 91:1–3, 9, 14) Móse notaði líka myndmál um hæli, eða athvarf. (Sálm. 90:1) Stuttu áður en hann dó koma hann með aðra fallega samlíkingu. Hann skrifaði: „Guð er athvarf frá fornu fari, eilífir armar hans halda þér uppi.“ (5. Mós. 33:27, NW) Hvað segja orðin „eilífir armar hans halda þér uppi“ um Jehóva?

16. Hvernig hjálpar Jehóva okkur? (Sálmur 136:23)

16 Þegar Jehóva er athvarf okkar erum við örugg. En það geta komið dagar sem við erum niðurdregin og eigum erfitt með að losna við þá tilfinningu. Hvað gerir Jehóva þá fyrir okkur? (Lestu Sálm 136:23) Hann lyftir okkur varlega með örmum sínum og hjálpar okkur að komast aftur á fætur. (Sálm. 28:9; 94:18) Hvernig er það okkur til góðs? Við vitum að við getum alltaf reitt okkur á Guð og að hann hjálpar okkur og styður. Við höfum öruggt athvarf sama hvar við búum og kærleiksríkur faðir okkar á himni lætur sér innilega annt um okkur.

VIÐ GETUM VERIÐ VISS UM AÐ GUÐ HELDUR ÁFRAM AÐ SÝNA OKKUR TRYGGAN KÆRLEIKA

17. Hverju getum við treyst? (Sálmur 33:18–22)

17 Eins og fram hefur komið getum við verið fullviss um að Jehóva muni koma okkur til hjálpar þegar við lendum í erfiðleikum með því að gefa okkur þann stuðning sem við þurfum til að hafa gott samand við hann. (2. Kor. 4:7–9) Spámaðurinn Jeremía sagði: „Náð [tryggur kærleikur] Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda.“ (Harmlj. 3:22) Við getum treyst því að Jehóva heldur áfram að sýna okkur tryggan kærleika. Í Biblíunni erum við fullvissuð: „Augu Drottins vaka yfir þeim sem óttast hann, þeim er vona á miskunn [tryggan kærleika] hans.“ – Lestu Sálm 33:18–22.

18, 19. (a) Hverju megum við ekki gleyma? (b) Hvað skoðum við í næstu grein?

18 Hverju megum við ekki gleyma? Áður en við þjónuðum Jehóva nutum við góðs af kærleikanum sem Jehóva sýnir mannkyninu almennt. En sem tilbiðjendur hans njótum við einnig góðs af tryggum kærleika hans. Knúinn af þeim kærleika heldur Jehóva utan um okkur með verndandi örmum sínum. Hann mun alltaf halda okkur nálægt sér og uppfyllir fyrirætlun sína með okkur. Hann vill eiga okkur að vinum um alla framtíð. (Sálm. 46:2, 3, 8) Þess vegna gefur Jehóva okkur þann styrk sem við þurfum til að vera honum trú óháð því hvaða prófraunum við mætum.

19 Við höfum skoðað hvernig Jehóva sýnir þjónum sínum tryggan kærleika. Hann væntir þess að við sýnum hvert öðru tryggan kærleika líka. Hvernig getum við gert það? Í næstu grein verður fjallað um þetta mikilvæga mál.

SÖNGUR 136 Jehóva launi þér að fullu

^ gr. 5 Hvað er tryggur kærleikur? Hverjum sýnir Jehóva tryggan kærleika og hvernig gagnast hann þeim sem þiggja hann? Við ræðum þessar spurningar í þeirri fyrri af tveim greinum sem fjalla um þennan einstaka eiginleika.

^ gr. 53 MYND: Jehóva sýnir öllu mannkyni kærleika, þar á meðal þjónum sínum. Myndirnar fyrir ofan hóp fólks sýnir hvernig Guð sýnir kærleika sinn með mismunandi hætti. Mikilvægast er að hann gaf Jesú son sinn til að deyja fyrir okkur.

^ gr. 61 MYND: Þeir sem verða þjónar Jehóva og trúa á lausnarfórnina njóta góðs af kærleika Guðs á annan veg. Auk þess að njóta góðs af kærleika Guðs til alls mannkynsins njóta þjónar Jehóva góðs af tryggum kærleika Guðs. Myndirnar sýna dæmi um það.