Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Er trúlegt að einhver hafi í raun sáð illgresi í akur annars manns til forna?

Þetta afrit af Digestae frá árinu 1468 eftir Jústiníanus keisara er ein heimild af mörgum sem gefa nákvæmar lýsingar á lagalegum málum til forna.

Í MATTEUSI 13:24-26 er vitnað í orð Jesú þar sem hann sagði: „Líkt er um himnaríki og mann er sáði góðu sæði í akur sinn. En er menn voru í svefni kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt kom illgresið og í ljós.“ Ýmsir ritarar hafa dregið í efa að þessi dæmisaga hafi átt sér stoð í veruleikanum. En af fornum ritum Rómverja, sem fjalla um lagaleg mál, má ráða að svo hafi verið.

„Að sá rýgresi í akur í hefndarskyni ... var brot á lögum Rómverja. Þörfin á lögum um svona mál bendir til þess að slíkur verknaður hafi ekki verið óalgengur,“ segir í biblíuorðabók. Alastair Kerr, fræðimaður á sviði laga, segir að árið 533 hafi Jústiníanus Rómarkeisari gefið út Digestae sem innihélt samantekt um rómversk lög og tilvitnanir í lagaspekinga frá árunum 100-250 eða þar um bil. Samkvæmt verkinu (Digestae, 9.2.27.14) vitnar lögspekingurinn Úlpíanus í mál sem rómverski stjórnmálamaðurinn Celsus tók fyrir á annarri öld. Illgresi hafði verið sáð í akur annars manns með þeim afleiðingum að uppskeran eyðilagðist. Í Digestae er rætt um lagalegar aðgerðir sem eigandi akursins eða leiguliði gat beitt til að fá skaðabætur frá lögbrjótinum.

Að slík spellvirki hafi verið framin í Rómaveldi til forna gefur til kynna að aðstæðurnar, sem Jesús lýsti, hafi átt sér stoð í veruleikanum.

Hve mikið frelsi veittu Rómverjar valdamönnum Gyðinga í Júdeu á fyrstu öld?

JÚDEU var á þessum tíma stjórnað af Rómverjum. Þeir voru með landstjóra á staðnum, en hann var með herlið undir sinni stjórn. Helsta hlutverk hans var að innheimta skatta fyrir Rómaveldi og halda uppi friði og reglu. Rómverjum var umhugað um að halda lögbrotum í skefjum og refsa hverjum þeim sem var valdur að ófriði. Þar fyrir utan létu Rómverjar yfirleitt daglega stjórnsýslu skattlandsins í hendur valdamönnum á staðnum.

Dómsmál fyrir Æðstaráði Gyðinga.

Æðstaráð Gyðinga gegndi hlutverki hæstaréttar og stjórnandi ráðs þegar um málefni tengd lögum Gyðinga var að ræða. Undirréttir voru hvarvetna um Júdeu. Slíkir dómstólar tóku líklega að sér flest borgaraleg mál og sakamál án afskipta rómverskra valdamanna. Dómstólum Gyðinga voru þó takmörk sett. Þeir fengu til dæmis ekki að dæma glæpamenn til dauða – Rómverjar áskildu sér yfirleitt sjálfir þann rétt. Þekkt undantekning var þó þegar menn í Æðstaráði Gyðinga réttuðu yfir Stefáni og létu grýta hann til dauða. – Post. 6:8-15; 7:54-60.

Æðstaráð Gyðinga fór því með mikil völd. En „mestu hömlurnar“, segir sagnfræðingurinn Emil Schürer, „voru að rómversk yfirvöld gátu hvenær sem er og að eigin frumkvæði farið sínu fram óháð Æðstaráðinu eins og þau reyndar gerðu þegar þau grunaði að brotið væri gegn valdstjórninni“. Slíkt mál kom til dæmis upp undir yfirumsjón Kládíusar Lýsíusar hershöfðingja þegar hann tók Pál postula, rómverskan ríkisborgara, og setti hann í varðhald. – Post. 23:26-30.