Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

1918 – fyrir hundrað árum

1918 – fyrir hundrað árum

Varðturninn 1. janúar 1918 (á ensku) hófst með orðunum: „Hvað ber árið 1918 í skauti sér?“ Stríðið mikla geisaði enn í Evrópu en ákveðnir atburðir í byrjun ársins bentu til þess að góðir tímar væru fram undan, bæði fyrir Biblíunemendurna og heiminn í heild.

FRIÐARUMRÆÐUR Í HEIMINUM

Hinn 8. janúar 1918 flutti Woodrow Wilson forseti ræðu fyrir þjóðþingi Bandaríkjanna og lýsti 14 atriðum sem hann taldi nauðsynleg til að „réttlátur og stöðugur friður“ næðist. Hann lagði fram tillögur um samskipti milli ríkja og að minnka herafla og einnig að koma á fót „samtökum til að efla samvinnu milli þjóða“, en þau áttu að koma „stórum jafnt sem smáum ríkjum“ að gagni. Þessi „fjórtán atriði“ voru síðar notuð þegar Þjóðabandalagið var stofnað og líka þegar Versalasamningurinn var gerður en með honum endaði stríðið mikla.

ANDSTÆÐINGAR BÍÐA ÓSIGUR

Þrátt fyrir ringulreiðina sem hafði ríkt árið áður * virtist friður í sjónmáli. Það átti einnig við um Biblíunemendurna eins og atburðir á ársfundi Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn báru vitni um.

Þessi fundur var haldinn 5. janúar 1918. Á honum reyndu nokkrir áhrifamiklir menn, sem höfðu verið látnir yfirgefa Betel, að ná völdum yfir söfnuðinum. Richard H. Barber, trúfastur farandhirðir, hóf fundinn með bæn. Eftir að hafa gefið skýrslu um starfið á liðnu ári voru stjórnarmenn kosnir eins og gert var á hverju ári. Bróðir Barber tilnefndi Joseph Rutherford og sex aðra bræður. Lögmaður, sem hafði tekið afstöðu með andstæðingunum, tilnefndi síðan sjö aðra menn, þar á meðal þá sem höfðu verið látnir fara af Betel. En þeir biðu ósigur. Yfirgnæfandi meirihluti meðlima kaus bróður Rutherford og sex aðra trúfasta bræður til að sitja í stjórn.

Margir bræðranna, sem voru á þessum fundi, kölluðu hann „einn blessunarríkasta fund sem þeir höfðu nokkurn tíma sótt“. En gleðin var skammvinn.

BÓKIN THE FINISHED MYSTERY VEKUR VIÐBRÖGÐ

Biblíunemendurnir höfðu um nokkurra mánaða skeið dreift bókinni The Finished Mystery (Leyndardómurinn upplýstur). Einlægir lesendur brugðust vel við þeim biblíusannindum sem þeir lásu.

Edward F. Crist, farandhirðir í Kanada, sagði frá hjónum sem höfðu lesið bókina og tekið afstöðu með sannleikanum á innan við fimm vikum. Hann sagði: „Bæði hjónin hafa helgað sig þjónustunni og taka miklum framförum.“

Maður nokkur, sem fékk þessa bók, sagði vinum sínum strax frá henni. Boðskapurinn „sló“ hann. Hann segir svo frá: „Ég var að ganga niður þriðju breiðgötu þegar eitthvað féll á öxlina á mér og ég hélt að það væri steinn. En viti menn, það var ,The Finished Mystery‘. Ég tók hana með heim og las hana alla í gegn ... Síðar frétti ég að það hefði verið prestur ... sem henti bókinni út um glugga í reiðikasti ... Ég er sannfærður um að það sem hann gerði þarna hjálpaði fleirum að eignast lifandi von en nokkuð annað sem hann gerði á ævi sinni ... Vegna reiðikasts prestsins lofum við Guð núna.“

Viðbrögð prestsins voru ekkert einsdæmi. Kanadísk yfirvöld bönnuðu bókina 12. febrúar 1918 og staðhæfðu að hún innihéldi uppreisnaráróður og mælti gegn stríðinu. Yfirvöld í Bandaríkjunum fóru fljótlega að dæmi þeirra. Þau sendu út menn sem gerðu húsleit á Betelheimilinu og skrifstofunum í New York, Pennsylvaníu og Kaliforníu til að finna sönnunargögn gegn þeim sem fóru með forystuna í söfnuðinum. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna bannaði síðan bókina The Finished Mystery 14. mars 1918 og hélt því fram að útgáfa hennar og dreifing ynni gegn stríðsrekstrinum og bryti þannig gegn njósnalögunum.

HNEPPTIR Í FANGELSI

Hinn 7. maí 1918 fékk dómsmálaráðuneytið heimild til að handtaka Giovanni DeCecca, George Fisher, Alexander Macmillan, Robert Martin, Frederick Robison, Joseph Rutherford, William Van Amburgh og Clayton Woodworth. Þeir voru ákærðir fyrir að hafa „á ólöglegan, glæpsamlegan og yfirvegaðan hátt ýtt undir mótþróa og óhlýðni og að fólk neitaði að gegna herskyldu í land- og sjóher Bandaríkjanna“. Réttarhöld yfir þeim hófust 3. júní 1918 en það var nánast öruggt að þeir yrðu fundnir sekir. Hvers vegna?

Ríkissaksóknari Bandaríkjanna kallaði lögin, sem þeir voru sakaðir um að hafa brotið gegn, það er að segja njósnalögin, „áhrifaríkt vopn gegn áróðri“. Hinn 16. maí 1918 hafnaði þjóðþingið tillögu um að breyta lögunum, en það hefði verndað þá sem „segja sannleikann af góðum hvötum og í réttlætanlegum tilgangi“ í útgefnum ritum. Bókin The Finished Mystery átti stóran þátt í þessu máli. Í opinberri skýrslu þjóðþingsins stendur um bókina: „Eitt hættulegasta dæmið um slíkan áróður er bók sem heitir ,The Finished Mystery‘ ... Það eina sem hún kemur til leiðar er að vekja efasemdir hjá hermönnum um málstað okkar og að hvetja til ... andstöðu gegn herskyldu.“

Hinn 20. júní 1918 komst kviðdómur að þeirri niðurstöðu að bræðurnir átta væru sekir í öllum ákæruliðum. Daginn eftir kvað dómarinn upp úrskurð sinn. Hann sagði: „Trúaráróðurinn sem þessir sakborningar hafa boðað og dreift af svo miklum ákafa ... er hættulegri en heil herdeild Þjóðverja ... Dómurinn ætti að vera þungur.“ Tveim vikum síðar voru þessir átta bræður færðir í alríkisfangelsið í Atlanta í Georgíu þar sem þeir áttu að afplána allt frá 10 til 20 ára fangelsisdóm.

BOÐUNIN HELDUR ÁFRAM

Biblíunemendurnir mættu harðri andstöðu á þessum tíma. Alríkislögregla Bandaríkjanna grandskoðaði starfsemi þeirra og gerði skýrslur í þúsundatali. Af þeim má sjá að bræður okkar voru ákveðnir í að halda boðuninni áfram.

Póstmeistarinn í Orlando í Flórída skrifaði í bréfi til alríkislögreglunnar: „[Biblíunemendurnir] eru iðnir við að fara hús úr húsi í bænum og gera það helst að næturlagi ... Það lítur að minnsta kosti út fyrir að þeir vilji halda pottinum á suðu fyrst þeir hræra stöðugt í honum.“

Ofursti hjá hermálaráðuneytinu skrifaði til alríkislögreglunnar til að segja frá starfsemi Fredericks W. Franz sem sat síðar í stjórnandi ráði. Ofurstinn skrifaði: „Frederick W. Franz ... hefur tekið virkan þátt í sölu þúsunda eintaka bókarinnar ,The Finished Mystery‘.“

Charles Fekel, sem einnig átti eftir að sitja í hinu stjórnandi ráði, þurfti að þola harðar ofsóknir. Yfirvöld handtóku hann fyrir að dreifa bókinni The Finished Mystery og fylgdust með öllum póstinum hans. Hann sat í fangelsi í Baltimore í Maryland um mánaðarskeið og var kallaður „útlenski óvinurinn frá Austurríki“. Meðan hann bar hugrakkur vitni fyrir þeim sem yfirheyrðu hann minntist hann orða Páls í 1. Korintubréfi 9:16 en þar segir: „Vei mér ef ég boða ekki [fagnaðarerindið].“ *

Biblíunemendurnir boðuðu ekki aðeins trúna heldur fóru líka stöðugt með beiðnir um að láta bræðurna í fangelsinu í Atlanta lausa. Anna K. Gardner sagði: „Við gerðum alltaf eitthvað. Þegar bræðurnir voru í fangelsi söfnuðum við undirskriftum. Við fórum hús úr húsi. Þúsundir skrifuðu undir! Við sögðum fólkinu, sem við töluðum við, að þetta væru sannkristnir menn og að þeir hefðu verið hnepptir í fangelsi fyrir rangar sakir.“

MÓT

Á þessum erfiðu tímum voru mörg mót haldin til að styrkja bræður og systur í trúnni. Í Varðturninum stóð: „Yfir 40 mót ... hafa verið haldin á árinu ... Hrífandi skýrslur hafa borist frá öllum mótunum. Áður voru öll mót haldin síðla sumars eða snemma hausts en núna eru mót haldin í hverjum mánuði.“

Hjartahreint fólk hélt áfram að sýna áhuga á fagnaðarboðskapnum. Á móti í Cleveland í Ohio voru um 1.200 mótsgestir og 42 létu skírast, þar á meðal ungur drengur sem „hafði svo miklar mætur á Guði og vígsluheitinu að margir fullorðnir myndu blygðast sín“.

HVAÐ NÆST?

Undir lok ársins 1918 blasti óviss framtíð við Biblíunemendunum. Sumar af eignum safnaðarins í Brooklyn voru seldar og aðalstöðvarnar fluttar til Pittsburgh í Pennsylvaníu. Meðan þeir sem fóru með forystuna sátu enn í fangelsi var annar ársfundur skipulagður og hann skyldi haldinn 4. janúar 1919. Hvað var í vændum?

Bræður okkar héldu verkinu ótrauðir áfram. Þeir voru svo öruggir um framhaldið að þeir völdu eftirfarandi árstexta fyrir árið 1919: „Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér, skal reynast sigursælt.“ (Jes. 54:17) Þeir voru búnir undir byltingarkenndar breytingar sem myndu efla trú þeirra og styrkja svo að þeir gætu tekist á við hið mikla starf sem var fram undan.

^ gr. 6 Sjá greinina „One Hundred Years Ago – 1917“ í árbók Votta Jehóva 2017 á ensku, bls. 172-176.

^ gr. 22 Sjá ævisögu Charles Fekels, „Joys Through Perseverance in Good Work“, í Varðturninum 1. mars 1969 á ensku.