Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kennið sannleikann

Kennið sannleikann

„Drottinn ... sérhvert orð þitt er satt.“ – SÁLM. 119:159, 160.

SÖNGVAR: 29, 53

1, 2. (a) Um hvaða starf lét Jesús líf sitt snúast og hvers vegna? (b) Hvernig getum við orðið góðir „samverkamenn Guðs“?

JESÚS KRISTUR var smiður og boðberi. (Mark. 6:3; Rómv. 15:8) Hann náði fullkomnum tökum á báðum starfsgreinum. Sem smiður lærði hann að nota smíðaverkfæri og búa til gagnlega gripi úr timbri. Sem boðberi fagnaðarerindisins var hann leikinn í að nota nákvæma þekkingu sína á Ritningunni til að hjálpa almenningi að skilja sannleikann í orði Guðs. (Matt. 7:28; Lúk. 24:32, 45) Þrítugur að aldri lagði Jesús smíðaverkfærin á hilluna vegna þess að hann vissi að boðun fagnaðarerindisins væri mikilvægara starf. Hann sagði að Guð hefði sent hann til jarðar meðal annars til að boða fagnaðarerindið um ríkið. (Matt. 20:28; Lúk. 3:23; 4:43) Jesús lét líf sitt snúast um boðunina og hann vildi að aðrir tækju þátt í henni með sér. – Matt. 9:35-38.

2 Fæst okkar eru smiðir en við erum öll boðberar fagnaðarerindisins. Það er svo mikilvægt starf að Guð tekur þátt í því með okkur. Við erum kölluð „samverkamenn Guðs“. (1. Kor. 3:9; 2. Kor. 6:4) Við erum sannfærð um að „sérhvert orð [Drottins] er satt“. (Sálm. 119:159, 160) Við viljum því vera viss um að við förum „rétt með orð sannleikans“ þegar við boðum trúna. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 2:15.) Þess vegna reynum við að verða færari í að nota Biblíuna en hún er aðalverkfæri okkar við að kenna öðrum sannleikann um Jehóva Guð, ríki hans og Jesú Krist. Söfnuður Jehóva hefur gefið okkur fleiri verkfæri til að hjálpa okkur í boðuninni og við þurfum að læra að nota þau vel. Þessi kennslugögn eru í verkfærakistunni okkar.

3. Að hverju ættum við að einbeita okkur þann tíma sem við höfum enn til að flytja fólki fagnaðarerindið og hvernig hjálpar Postulasagan 13:48 okkur til þess?

3 Í verkfærakistunni höfum við verkfæri til að kenna fólki. Það felur í sér að útskýra boðskapinn þannig að fólk skilji hann og finni hvöt hjá sér til að breyta eftir því sem það lærir. Við þurfum að einbeita okkur að því að hefja biblíunámskeið og kenna fólki sannleikann þann tíma sem við höfum enn til að flytja fagnaðarerindið. Það felur í sér að leita í einlægni að þeim sem ,hneigjast til eilífs lífs‘ og hjálpa þeim að verða þjónar Jehóva. – Lestu Postulasöguna 13:44-48. *

4. Hvernig vitum við hverjir ,hneigjast til eilífs lífs‘ og hvernig finnum við þá?

4 Hvernig getum við vitað hverjir ,hneigjast til eilífs lífs‘? Eina leiðin til þess er að boða þeim trúna, rétt eins og var á fyrstu öld. Við þurfum því að fara eftir boði Jesú: „Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um hver þar sé verðugur.“ (Matt. 10:11) Við reiknum ekki með að þeir sem eru hrokafullir bregðist vel við fagnaðarerindinu, né heldur þeir sem finna enga andlega þörf hjá sér eða eru ekki einlægir. Við leitum að einlægu og auðmjúku fólki sem þyrstir í að heyra sannleikann. Við getum líkt þessari leit okkar við leit Jesú að réttum efnivið í húsgögn, hurðir, ok og fleiri hluti meðan hann var smiður. Þegar hann hafði fundið hentugt efni gat hann sótt verkfæri í verkfærakistuna og beitt færni sinni til að smíða það sem hann ætlaði sér. Við förum eins að þegar við kappkostum að gera réttsinnað fólk að lærisveinum. – Matt. 28:19, 20.

5. Hvað þurfum við að vita um verkfærin í verkfærakistunni okkar? Lýstu með dæmi. (Sjá mynd í upphafi greinar.)

5 Eins og í öðrum verkfærakistum er hvert verkfæri ætlað til ákveðinna nota. Tökum sem dæmi smíðaverkfærin sem Jesús notaði. * Hann þurfti verkfæri til að merkja og mæla timbrið, höggva, bora og móta viðinn, slétta, jafna og negla. Á sama hátt á hvert og eitt verkfæri í verkfærakistunni okkar sitt hlutverk. Skoðum nú hvað er í kistunni og hvernig við getum notað þessi mikilvægu verkfæri.

VERKFÆRI TIL AÐ KYNNA OKKUR

6, 7. (a) Hvernig hefurðu notað nafnspjöldin? (b) Hvaða tvennum tilgangi þjóna boðsmiðar á samkomur?

6 Nafnspjöld. Þau eru lítil en áhrifarík verkfæri sem við getum notað til að kynna okkur fyrir öðrum og beina þeim inn á vefsíðuna okkar. Þar geta þeir síðan fræðst meira um okkur og jafnvel beðið um biblíunámskeið. Hingað til hafa fleiri en 400.000 beiðnir um biblíunámskeið verið sendar á jw.org og á hverjum degi bætast við mörg hundruð beiðnir í viðbót. Þú getur haft nokkur nafnspjöld á þér til að nota þegar tækifæri gefst í dagsins önn.

7 Boðsmiðar. Boðsmiðar á samkomur gegna tvennum tilgangi. Á þeim stendur: „Þér er boðið að kynna þér Biblíuna hjá Vottum Jehóva“. Síðan er boðið upp á að gera það annaðhvort „á samkomum okkar“ eða „með aðstoð kennara“. Þetta verkfæri gerir því meira en að kynna okkur. Það býður þeim sem „skynja andlega þörf sína“ að kynna sér Biblíuna með okkur. (Matt. 5:3, NW) Fólki er að sjálfsögðu velkomið að sækja samkomur okkar hvort sem það vill þiggja biblíunámskeið eða ekki. Þeir sem koma á samkomu sjá og heyra að við bjóðum upp á ósvikna biblíufræðslu.

8. Hve mikilvægt er að fólk komi að minnsta kosti einu sinni á samkomu hjá okkur? Nefndu dæmi.

8 Mikilvægt er að við höldum áfram að bjóða fólki að koma að minnsta kosti einu sinni á samkomu hjá okkur. Hvers vegna? Vegna þess að þeir sem koma sjá að vottar Jehóva kenna sannleika Biblíunnar og aðstoða fólk við að kynnast Guði en enga slíka fræðslu er að fá í Babýlon hinni miklu. (Jes. 65:13) Hjón í Bandaríkjunum, sem heita Ray og Linda, komust að þessu fyrir nokkrum árum. Þau ákváðu að byrja að sækja kirkju því að þau trúðu á Guð og fundu fyrir andlegri þörf. Þau heimsóttu því markvisst hinar fjölmörgu kirkjur í borginni þar sem þau bjuggu. Sú kirkja, sem þau gátu hugsað sér að tilheyra, þurfti að uppfylla tvö skilyrði. Í fyrsta lagi þyrftu þau að læra eitthvað og í öðru lagi þyrftu kirkjumeðlimir að vera til fara eins og fulltrúar Guðs. Nokkrum árum síðar höfðu þau heimsótt allar kirkjurnar á staðnum en orðið fyrir sárum vonbrigðum. Þau höfðu ekki lært neitt og kirkjugestir voru langt frá því að vera virðulega til fara. Þegar þau gengu út úr síðustu kirkjunni á listanum fór Linda í vinnuna og Ray fór heim. Á leiðinni keyrði hann fram hjá ríkissal og hugsaði með sér: „Hvernig væri að fara inn og sjá út á hvað þetta gengur?“ Og að sjálfsögðu bar sú samkoma af öðrum trúarsamkomum sem þau höfðu sótt. Allir í ríkissalnum voru vingjarnlegir, hlýlegir og snyrtilega til fara. Ray sat á fremsta bekk og naut þess sem hann lærði á samkomunni. Þetta var alveg eins og Páll sagði um einstakling sem kæmi inn á samkomu kristna safnaðarins í fyrsta sinn og lýsti yfir: „Guð er sannarlega hjá ykkur.“ (1. Kor. 14:23-25) Ray mætti á samkomu á hverjum sunnudegi þaðan í frá og síðan einnig á samkomuna í miðri viku. Linda byrjaði líka að sækja samkomurnar og þau þáðu biblíunámskeið og létu skírast komin á áttræðisaldur.

VERKFÆRI TIL AÐ HEFJA SAMRÆÐUR

9, 10. (a) Hvers vegna er auðvelt að nota smáritin? (b) Útskýrðu hvernig er hægt að nota smáritið Hvað er ríki Guðs?

9 Smárit. Við eigum átta smárit sem auðvelt er að nota og eru góð verkfæri til að hefja samræður við fólk. Byrjað var að gefa þau út árið 2013 og um fimm milljarðar af þeim hafa verið prentaðir síðan. Það góða við þessi verkfæri er að hafi maður lært að nota eitt þeirra getur maður notað þau öll því að þau eru öll með sama sniði. Hvernig er hægt að nota smárit til að hefja samræður?

10 Segjum að þú viljir nota smáritið Hvað er ríki Guðs? Sýndu viðmælandanum þá spurninguna framan á ritinu og spyrðu: „Hefurðu velt fyrir þér hvað ríki Guðs er? Heldurðu að það sé ...?“ Spyrðu hann síðan hvert af svörunum þrem hann myndi velja. Án þess að segja hvort svarið sé rétt eða rangt skaltu opna smáritið og sýna honum Daníel 2:44 og Jesaja 9:5 undir millifyrirsögninni „Hvað segir Biblían?“ Haltu síðan umræðunum áfram ef hægt er. Að síðustu skaltu benda honum á spurninguna „Hvernig verður lífið þegar ríki Guðs stjórnar?“ undir millifyrirsögninni „Til umhugsunar“ á baksíðu ritsins. Það leggur grunninn að næsta samtali. Þegar þú hittir viðmælanda þinn aftur geturðu vísað í 7. kafla bæklingsins Gleðifréttir frá Guði en hann er eitt af verkfærum okkar til að hefja biblíunámskeið.

VERKFÆRI SEM ÖRVA ÁHUGANN

11. Hvaða hlutverki gegna blöðin okkar og hvað þurfum við að vita um þau?

11 Blöð. Varðturninn og Vaknið! eru útbreiddustu tímarit í heimi og eru gefin út á fleiri tungumálum en nokkur önnur tímarit. Þar sem þau eru gefin út svo víða er forsíðuefnið hannað til að höfða til fólks hvar sem er í heiminum. Við ættum að nota þau til að örva áhuga fólks á því sem skiptir mestu máli núna. En til að geta komið blöðunum í réttar hendur þurfum við að vita hverjum þau eru ætluð hvort fyrir sig.

12. (a) Fyrir hverja er Vaknið! gefið út og hvert er markmið blaðsins? (b) Hvernig hefur þér gengið undanfarið að nota þetta verkfæri?

12 Vaknið! er gefið út með lesendur í huga sem hafa litla eða enga biblíuþekkingu. Það er jafnvel fyrir þá sem þekkja ekkert til kristinna kenninga, líta trúarbrögð hornauga eða vita ekki að Biblían hefur hagnýtt gildi. Meginmarkmið Vaknið! er að sannfæra lesandann um að Guð sé til. (Rómv. 1:20; Hebr. 11:6) Það hefur einnig að markmiði að hjálpa lesandanum að byggja upp trú á ,Guðs orð‘ eins og Biblían „í sannleika er“. (1. Þess. 2:13) Forsíðuefni blaðanna þriggja árið 2018 er: „Hamingjurík lífsstefna“, „Hvað einkennir farsælar fjölskyldur?“ og „Hjálp fyrir syrgjendur“.

13. (a) Hverjum er almenn útgáfa Varðturnsins ætluð? (b) Hvernig hefur þér gengið undanfarið að nota þetta verkfæri?

13 Varðturninn. Almenn útgáfa blaðsins beinir athyglinni að andlegum málum og er ætluð þeim sem bera vissa virðingu fyrir Guði og orði hans. Þeir þekkja kannski Biblíuna að einhverju leyti en hafa ekki nákvæma þekkingu á kenningum hennar. (Rómv. 10:2; 1. Tím. 2:3, 4) Forsíðuefni blaðanna þriggja árið 2018 er: „Á Biblían enn erindi til okkar?“, „Hvað ber framtíðin í skauti sér?“ og „Er Guði annt um þig?

VERKFÆRI SEM HVETJA TIL VERKA

14. (a) Hvaða hlutverki gegna myndskeiðin fjögur í verkfærakistunni okkar? (b) Hvernig hefur þér gengið að nota myndskeiðin?

14 Myndskeið. Á dögum Jesú notuðu trésmiðir aðeins handverkfæri. Nú á dögum nota smiðir líka rafmagnsverkfæri – sagir, borvélar, slípirokka, naglabyssur og fleira. Auk prentaðra rita eigum við núna falleg myndskeið til að sýna fólki. Fjögur þeirra eru í verkfærakistunni. Þau eru: Hvers vegna ættum við að kynna okkur Biblíuna?, Hvernig fer biblíunámskeið fram?, Hvernig fara samkomur okkar fram? og Vottar Jehóva – hverjir erum við? Í fyrstu heimsókn er gott að nota myndskeiðin sem eru innan við tvær mínútur. Þau lengri er hægt að sýna þegar við hittum fólk aftur og hjá þeim sem hafa nægan tíma. Þessi frábæru verkfæri geta hvatt fólk til að kynna sér Biblíuna og sækja samkomur.

15. Lýstu hvaða áhrif það getur haft á fólk að horfa á myndskeiðin okkar á sínu tungumáli.

15 Til dæmis hitti systir okkar konu frá Míkrónesíu sem átti yapeysku að móðurmáli. Systirin sýndi henni myndskeiðið Hvers vegna ættum við að kynna okkur Biblíuna? á hennar máli. Þegar myndskeiðið byrjaði sagði konan: „Þetta er mitt tungumál. Ég trúi þessu ekki! Það heyrist á hreimnum að hann er frá eyjunni minni. Hann talar málið mitt!“ Eftir það sagðist hún ætla að lesa og horfa á allt efni sem hún fyndi á sínu máli á jw.org. (Samanber Postulasöguna 2:8, 11.) Annað dæmi er af systur í Bandaríkjunum sem sendi frænda sínum erlendis slóðina á sama myndskeið á hans tungumáli. Hann horfði á það og sendi henni síðan tölvupóst og sagði: „Það sem var sagt um illt afl, sem stjórnar heiminum, vakti sérstaka athygli. Ég sendi inn beiðni um biblíunámskeið.“ Hann býr í landi þar sem hömlur eru á starfi okkar.

VERKFÆRI TIL AÐ KENNA SANNLEIKANN

16. Útskýrðu til hvers bæklingarnir eru notaðir hver fyrir sig: (a) Hlustaðu á Guð og lifðu að eilífu. (b) Gleðifréttir frá Guði. (c) Hverjir gera vilja Jehóva?

16 Bæklingar. Hvernig getum við kennt sannleikann þeim sem er illa læs eða á ekki biblíurit á sínu tungumáli? Bæklingurinn Hlustaðu á Guð og lifðu að eilífu er rétta verkfærið til þess. Og bæklingurinn Gleðifréttir frá Guði er einstakt hjálpargagn til að koma af stað biblíunámskeiðum. Við getum sýnt viðmælandanum umræðuefnin 14 á baksíðu bæklingsins og spurt hann hverju hann vilji helst fá svar við. Síðan má hefja námið í þeim hluta. Hefurðu prófað þetta þegar þú ferð aftur til fólks? Þriðji bæklingurinn í verkfærakistunni heitir Hverjir gera vilja Jehóva? Hann er hannaður til að beina biblíunemendum til safnaðarins. Í ritinu Líf okkar og boðun – vinnubók fyrir samkomur í mars 2017 má sjá hvernig hægt er að nota bæklinginn í hverri námsstund.

17. (a) Hvert er hlutverk hvorrar námsbókar fyrir sig? (b) Hvað þurfa allir að gera sem vilja láta skírast og hvers vegna?

17 Bækur. Þegar biblíunámskeið er komið af stað í bæklingi má hvenær sem er skipta yfir í bókina Hvað kennir Biblían? Þetta verkfæri hjálpar fólki að fá betri skilning á undirstöðukenningum Biblíunnar. Ef búið er að fara yfir bókina og nemandinn tekur framförum er náminu haldið áfram í bókinni „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“. * Þetta verkfæri kennir nemandanum að heimfæra meginreglur Biblíunnar á daglegt líf sitt. Hafðu í huga að jafnvel þó að nemandinn hafi látið skírast þarf hann að halda áfram í biblíunámi þar til hann hefur farið yfir báðar bækurnar. Það hjálpar honum að festa rætur í sannleikanum. – Lestu Kólossubréfið 2:6, 7.

18. (a) Hvað hvetur 1. Tímóteusarbréf 4:16 okkur til að gera þegar við kennum fólki sannleikann og hvaða árangur hlýst af því? (b) Hvert ætti að vera markmið okkar þegar við notum verkfærakistuna?

18 Okkur sem erum vottar Jehóva hefur verið treyst fyrir „orði sannleikans, fagnaðarerindinu“ sem getur hjálpað fólki að fá eilíft líf. (Kól. 1:5; lestu 1. Tímóteusarbréf 4:16.) Við höfum fengið verkfærakistu með öllu sem við þurfum til að gera það. (Sjá rammagreinina „ Verkfærakistan“.) Við skulum nota verkfærin okkar eins vel og við getum. Hver boðberi getur ákveðið hvaða rit í verkfærakistunni hann vill kynna fyrir áhugasömum og hvenær hann notar þau. En markmið okkar er ekki aðeins að dreifa ritum og við ættum ekki að skilja eftir rit hjá þeim sem sýna boðskapnum engan áhuga. Við viljum finna þá sem eru einlægir, auðmjúkir og langar að kynnast Guði, og gera þá að lærisveinum – þá sem ,hneigjast til eilífs lífs‘. – Post. 13:48, NW; Matt. 28:19, 20.

^ gr. 3 Postulasagan 13:48 (NW): „Þegar menn af þjóðunum heyrðu þetta glöddust þeir og tóku að vegsama orð Jehóva, og allir tóku trú sem hneigðust til eilífs lífs.“

^ gr. 5 Sjá greinina „Smiðurinn“ og rammagreinina „Verkfærakista smiðsins“ í Varðturninum október-desember 2010.

^ gr. 17 Þegar bækurnar What Can the Bible Teach Us? og How to Remain in Godʹs Love verða til á íslensku ætti að nota þær.