1919 – fyrir hundrað árum
Í BYRJUN árs 1919 var stríðinu mikla (síðar kallað fyrri heimsstyrjöldin) lokið, en það hafði staðið yfir í rúmlega fjögur ár. Undir lok 1918 hættu þjóðirnar að berjast og 18. janúar 1919 var friðarráðstefnan í París sett. Eitt af því sem tókst með ráðstefnunni var að undirrita Versalasamninginn. Hann var undirritaður 28. júní 1919 og þar með var stríði Bandamanna við Þýskaland formlega lokið.
Með Versalasamningnum voru þar að auki stofnuð ný samtök sem fengu nafnið Þjóðabandalagið. Markmið bandalagsins var „að stuðla að samvinnu um allan heim og koma á friði og öryggi í heiminum“. Mörg trúfélög kristna heimsins studdu Þjóðabandalagið. Alríkisráð kirkna Krists í Ameríku fögnuðu því og kölluðu það „pólitíska ímynd Guðsríkis á jörð“. Ráðið studdi bandalagið með því að senda fulltrúa á friðarráðstefnuna í París. Einn þeirra lýsti yfir að ráðstefnan „boðaði komu nýs tímabils í sögu veraldar“.
Nýtt tímabil var að hefjast. En það kæmi ekki til vegna þeirra sem stóðu að friðarráðstefnunni. Nýtt tímabil í sögu boðunarstarfsins hófst árið 1919 þegar Jehóva gaf þjónum sínum styrk til að boða fagnaðarerindið í meiri mæli en nokkru sinni fyrr. En fyrst þurftu aðstæður Biblíunemendanna að breytast verulega.
ERFIÐ ÁKVÖRÐUN
Laugardagurinn 4. janúar 1919 hafði verið valinn til að kjósa stjórnarmenn Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, en kosið var um stjórn á hverju ári. Joseph F. Rutherford fór með forystu meðal þjóna Jehóva á þessum tíma en hann hafði verið hnepptur í fangelsi í Atlanta í Georgíu fyrir rangar sakir ásamt sjö öðrum. Bræðurnir þurftu að ákveða hvort ætti að kjósa aftur stjórnarmennina sem sátu í fangelsi eða velja aðra í staðinn.
Þar sem bróðir Rutherford sat í fangelsinu hafði hann áhyggjur af framtíð safnaðarins. Hann vissi að sumir töldu best að velja einhvern annan til að fara með forystuna. Með það í huga hafði hann skrifað bréf til bræðranna og lagt til að Evander J. Coward yrði valinn forseti félagsins. Hann lýsti honum sem rólyndum, háttvísum og helguðum Drottni. En margir bræður hölluðust að því að fresta kosningunni um hálft ár. Verjendur bræðranna sem voru í fangelsi voru á sama máli. Það var
tilfinningahiti í mönnum þegar málin voru rædd.En þá gerðist nokkuð sem Richard H. Barber sagði síðar að hefði lægt öldurnar. Einn bræðranna tók til máls og sagði: „Ég er ekki lögfræðingur en ég veit ýmislegt um trúfesti og það er hún sem Guð krefst. Ég veit ekki um neina betri leið til að sýna Guði trúfesti en að halda kosninguna og kjósa bróður Rutherford aftur sem forseta.“ – Sálm. 18:26.
Einn samfanga bróður Rutherfords, Alexander H. Macmillan, sagði síðar frá því að Rutherford hefði bankað á klefavegginn og sagt: „Stingdu hendinni út.“ Síðan rétti hann honum símskeyti. Á því sá Macmillan stutt skilaboð og hann skildi strax hvað þau merktu. Á skeytinu stóð: „RUTHERFORD WISE VAN BARBER ANDERSON BULLY OG SPILL FORSETI FYRSTI ÞRÍR STJÓRNARMENN KVEÐJA TIL ALLRA.“ Þetta þýddi að búið væri að kjósa aftur í stjórn og að Joseph Rutherford og William Van Amburgh væru enn í stjórninni. Bróðir Rutherford yrði því áfram forseti félagsins.
SLEPPT ÚR HALDI
Á meðan bræðurnir átta voru í haldi söfnuðu trúfastir biblíunemendur undirskriftum til að biðja um að þeir yrðu látnir lausir. Þessir hugrökku bræður og systur söfnuðu yfir 700.000 undirskriftum. Miðvikudaginn 26. mars 1919 var bróður Rutherford og hinum bræðrunum sem fóru með forystu sleppt úr haldi – áður en undirskriftalistinn var sendur stjórnvöldum.
Bróðir Rutherford sagði í ræðu sem hann flutti fyrir þá sem tóku á móti honum: „Ég er fullviss um að þessi reynsla sem við höfum öll þurft að ganga í gegnum sé aðeins til að búa okkur undir enn erfiðari tíma ... Barátta ykkar var ekki til að leysa bræður ykkar úr fangelsi. Það var aðeins aukaatriði ... Barátta ykkar var til þess að bera vitni um sannleikann og þeir sem tóku þátt í henni hafa hlotið ríkulega blessun.“
Það sem gerðist í tengslum við réttarhöldin yfir bræðrum okkar gefur til kynna hvernig Jehóva kann að hafa stýrt málum. Fjórtánda maí 1919 kvað áfrýjunardómstóll upp þennan úrskurð: „Sakborningarnir í þessu máli fengu ekki ... óhlutdræg réttarhöld eins og þeir áttu rétt á og þess vegna er dómurinn ógiltur.“ Bræðurnir höfðu verið sakaðir um alvarlega glæpi og það hefði fylgt þeim á sakaskrá ef þeir hefðu aðeins fengið sakaruppgjöf eða dómurinn hefði einungis verið mildaður. Engar frekari ákærur voru lagðar fram. Þar af leiðandi hélt Rutherford dómari lögfræðiréttindum sínum og gat varið þjóna Jehóva fyrir hæstarétti Bandaríkjanna, en
hann gerði það oft eftir að hann var látinn laus.STAÐRÁÐNIR Í AÐ PRÉDIKA
„Við ætluðum ekki að sitja aðgerðarlausir og bíða eftir að Drottinn tæki okkur til himna,“ sagði bróðir Macmillan. „Við gerðum okkur ljóst að við þyrftum að gera eitthvað til að komast að því hver vilji Drottins væri.“
En bræðurnir á aðalstöðvunum gátu ekki haldið áfram að sinna sömu störfum og þeir höfðu sinnt í mörg ár. Hvers vegna? Vegna þess að allar prentplöturnar sem höfðu verið notaðar til að prenta ritin voru eyðilagðar á meðan þeir sátu inni. Það var niðurdrepandi og sumir bræður veltu fyrir sér hvort boðuninni væri lokið.
Var enn einhver áhugi á boðskapnum um ríkið sem biblíunemendurnir boðuðu? Til að komast að því ákvað bróðir Rutherford að flytja fyrirlestur fyrir almenning. Bróðir Macmillan sagði: „Ef enginn kæmi á fyrirlesturinn vissum við að boðun okkar væri lokið.“
Sunnudaginn 4. maí 1919 hélt bróðir Rutherford því fyrirlestur í Los Angeles í Kaliforníu, þó að hann væri alvarlega veikur. Fyrirlesturinn hét „Von fyrir nauðstatt mannkyn“. Um 3.500 mættu og nokkur hundruð manns komust ekki að. Daginn eftir mættu um 1.500 til viðbótar. Nú vissu bræðurnir að fólk hafði áhuga.
Það sem bræðurnir gerðu næst setur enn fordæmið fyrir boðun votta Jehóva.
TILBÚNIR FYRIR AUKNINGU
Í Varðturninum 1. ágúst 1919 var tilkynnt að almennt mót yrði haldið í Cedar Point í Ohio í byrjun september það ár. „Öllum fannst nauðsynlegt að fara,“ sagði Clarence B. Beaty, ungur biblíunemandi frá
Missouri. Fleiri en 6.000 bræður og systur voru viðstödd – miklu fleiri en við var búist. Og mótið var enn áhugaverðara fyrir það að fleiri en 200 létu skírast. Skírnin fór fram í Erievatni sem er þar nálægt.Þann 5. september 1919, á fimmta degi mótsins, tilkynnti bróðir Rutherford útgáfu nýs tímarits, The Golden Age. * Það var í fyrirlestrinum „Ávarp til samstarfsmanna“. Blaðið myndi „skýra frá mikilvægum fréttum og benda á skýringu Biblíunnar á því hvers vegna atburðirnir ættu sér stað“.
Allir biblíunemendurnir voru hvattir til að boða trúna djarflega og nota þetta nýja rit. Í bréfi var útskýrt hvernig ætti skipuleggja boðunina. Þar sagði: „Hver og einn vígður [skírður] þjónn ætti að hafa í huga hve mikill heiður það er að þjóna og grípa tækifærið til að eiga sem mestan þátt í að vitna fyrir heiminum.“ Viðbrögðin voru einstök. Í desembermánuði höfðu kappsamir boðberar fundið fleiri en 50.000 áskrifendur að nýja blaðinu.
Í lok ársins 1919 var búið að endurskipuleggja söfnuð Jehóva og þjónar hans störfuðu af miklum krafti. Þar að auki höfðu nokkrir mikilvægir spádómar um síðustu daga uppfyllst. Búið var að prófa og hreinsa þjóna Guðs eins og sagt var fyrir í Malakí 3:1–4. Þjónar Jehóva höfðu verið leystir úr táknrænni ánauð ,Babýlonar hinnar miklu‘ og Jesús hafði útnefnt ,trúa og hyggna þjóninn‘. * (Opinb. 18:2, 4; Matt. 24:45) Núna voru biblíunemendurnir tilbúnir til að sinna því verki sem Jehóva ætlaði þeim.
^ gr. 22 The Golden Age fékk nafnið Consolation árið 1937 og Awake! (Vaknið!) árið 1946.