Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vara þarf fólk við að „stormur“ Guðs er í aðsigi.

Dómar Guðs – gefur hann alltaf næga viðvörun?

Dómar Guðs – gefur hann alltaf næga viðvörun?

VEÐURFRÆÐINGUR fylgist með veðrinu á ratsjá. Hann sér að mannskæður stormur stefnir á fjölmennt svæði. Þar sem honum er umhugað um öryggi fólks gerir hann allt sem hann getur til að vara það við áður en það verður um seinan.

Jehóva varar mannkynið sömuleiðis við „stormi“ sem er ógurlegri en nokkur annar stormur sem fólk hefur heyrt um í veðurfréttum. Hvernig varar hann fólk við? Og hvernig getum við verið viss um að hann gefi fólki nægan tíma til að bregðast við? Til að fá svar við því skulum við skoða nokkrar viðvaranir Jehóva til forna.

GUÐ GAF VIÐVARANIR Í TÍMA

Á biblíutímanum varaði Jehóva við ýmsum „stormum“, það er að segja dómum gegn þeim sem brutu lög hans vísvitandi. (Orðskv. 10:25; Jer. 30:23) Hann varaði alltaf fólk við með góðum fyrirvara og lét það vita hvernig það gat gert breytingar í samræmi við vilja hans. (2. Kon. 17:12–15; Neh. 9:29, 30) Hann vildi að fólk fyndi sig knúið til að gera nauðsynlegar breytingar. Hann notaði þess vegna trúfasta þjóna sína á jörð til að boða dómsboðskap hans og hjálpa fólki að skilja hversu áríðandi það væri að gera breytingar. – Amos 3:7.

Nói var einn þessara réttlátra þjóna Guðs. Hann var hugrakkur og í mörg ár varaði hann siðlaust og ofbeldisfullt fólk við yfirvofandi heimsflóði. (1. Mós. 6:9–13, 17) Hann sagði líka fólki hvað það þyrfti að gera til að komast lífs af. Nói var svo ötull að hann var síðar kallaður ,boðberi réttlætisins‘. – 2. Pét. 2:5.

Þrátt fyrir allt sem Nói lagði á sig hunsaði fólk boðskapinn sem Guð hafði gefið honum. Það sýndi að fólkið var algerlega trúlaust. Þar af leiðandi dó það þegar ,flóðið kom og hreif það allt burt‘. (Matt. 24:39; Hebr. 11:7) Það gat ekki sakað Guð um að vara sig ekki við.

Við önnur tækifæri varaði Jehóva einstaklinga við stuttu áður en „stormur“ dóms hans skall á. En hann sá til þess að þeir sem myndu annars hljóta dóminn fengju nægan tíma til að bregðast við. Hann gaf til dæmis viðvörun í tíma þegar plágurnar tíu herjuðu á Egyptaland til forna. Jehóva sendi Móse og Aron til að vara faraó og þjóna hans við sjöundi plágunni, hrikalegu hagléli. Gaf Guð þeim nægan tíma til að leita skjóls og umflýja haglhríðina fyrst hún átti að koma næsta dag? Í Biblíunni segir: „Sérhver af þjónum faraós, sem óttaðist orð Drottins, bjargaði þrælum sínum og búfé undir þak en þeir sem ekki gáfu gaum að orðum Drottins skildu þræla sína og búfé eftir úti.“ (2. Mós. 9:18–21) Það er augljóst að Jehóva gaf út viðvörun tímanlega svo að þeir sem brugðust skjótt við gátu umflúið verstu afleiðingar plágunnar.

Faraó og þjónar hans voru einnig varaðir við tíundu plágunni. Þeir hunsuðu hins vegar viðvörunina. (2. Mós. 4:22, 23) Þar af leiðandi dóu frumgetnir synir þeirra. En sorglegt! (2. Mós. 11:4–10; 12:29) Hefðu þeir getað tekið til sín viðvörunina í tíma? Já! Móse varaði Ísraelsmenn fljótt við tíundu plágunni og gaf þeim leiðbeiningar um hvernig þeir gátu bjargað fjölskyldum sínum. (2. Mós. 12:21–28) Hversu margir gáfu viðvöruninni gaum? Sumir áætla að þrjár milljónir manna hafi komist hjá dómi Guðs og yfirgefið Egyptaland. Meðal þeirra voru fjöldi Ísraelsmanna og fjölmennur hópur fólks frá öðrum löndum, þar á meðal Egyptar. – 2. Mós. 12:38.

Eins og þessi dæmi sýna gekk Jehóva alltaf úr skugga um að fólk hafði nægan tíma til að taka til sín viðvaranir hans. (5. Mós. 32:4) Hvers vegna gerði hann það? Pétur postuli sagði um Jehóva: „Hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pét. 3:9) Guði var annt um fólk. Hann vildi að það iðraðist og gerði nauðsynlegar breytingar áður en dómi hans var fullnægt. – Jes. 48:17, 18; Rómv. 2:4.

BRUGÐIST VIÐ VIÐVÖRUN GUÐS NÚ Á DÖGUM

Það verða allir að hlýða þeirri brýnu viðvörun sem verið er að kunngera um heim allan. Þegar Jesús var á jörðinni varaði hann við því að þetta heimskerfi yrði að engu í ,þrengingunni miklu‘. (Matt. 24:21) Hann setti fram spádóm sem lýsti því hvað fylgjendur hans gátu búist við að sjá og upplifa eftir því sem þrengingin mikla nálgaðist. Jesús lýsti þannig þýðingarmiklum heimsatburðum sem við sjáum nú eiga sér stað. – Matt. 24:3–12; Lúk. 21:10–13.

Samhliða þessum spádómi hvetur Jehóva alla til að lúta kærleiksríkri stjórn hans. Hann vill að hlýðið fólk njóti betra lífs núna og blessunar í framtíðinni í réttlátum nýjum heimi hans. (2. Pét. 3:13) Jehóva vill hjálpa fólki að treysta loforðum hans. Hann hefur því gefið lífsnauðsynlegan boðskap – „fagnaðarerindið um ríkið“ sem Jesús sagði fyrir að yrði ,prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fengju að heyra það‘. (Matt. 24:14) Guð hefur búið svo um hnútana að sannir tilbiðjendur sínir kunngeri boðskap hans í um 240 löndum. Jehóva vill að sem flestir taki til sín viðvörun hans og umflýi yfirvofandi „storm“, réttlátan dóm hans. – Sef. 1:14, 15; 2:2, 3.

Mikilvæga spurningin er þess vegna ekki hvort Jehóva gefi fólki nægan tíma til að bregðast við viðvörunum hans. Hann gerir það augljóslega alltaf. Aðalspurningin er þá þessi: Mun fólk taka til sín viðvörun Guðs meðan enn er tími til? Megum við sem boðberar Guðs halda áfram að hjálpa eins mörgum og hægt er til að lifa af endalok þessa heimskerfis.