Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 42

Hvað lætur Jehóva þig verða?

Hvað lætur Jehóva þig verða?

„Guð ... verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma.“ – FIL. 2:13.

SÖNGUR 104 Heilagur andi er gjöf Guðs

YFIRLIT *

1. Hvað getur Jehóva gert til að koma vilja sínum til leiðar?

JEHÓVA getur orðið hvaðeina sem þarf til að koma vilja sínum til leiðar. Til að nefna aðeins nokkur af mörgum hlutverkum Jehóva hefur hann orðið kennari, huggari og trúboði. (Jes. 48:17; 2. Kor. 7:6; Gal. 3:8) En hann notar samt oft menn til að koma vilja sínum til leiðar. (Matt. 24:14; 28:19, 20; 2. Kor. 1:3, 4) Jehóva getur einnig gefið hverju og einu okkar visku og styrk til að verða hvaðeina sem þarf til að koma vilja sínum til leiðar. Allt þetta felst í merkingu nafns Jehóva eins og margir fræðimenn telja hana vera.

2. (a) Hvers vegna getum við stundum efast um að Jehóva nýti sér þjónustu okkar? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

2 Við viljum öll koma að gagni fyrir Jehóva. En sumir efast kannski um að Jehóva nýti sér þjónustu þeirra. Hvers vegna? Vegna þess að þeim finnst þeir takmörkum háðir vegna aldurs, aðstæðna eða getu. Aðrir gætu aftur á móti verið ánægðir með það sem þeir gera nú þegar og sjá ekki þörf á að taka frekari framförum. Í þessari grein skoðum við hvernig Jehóva getur gert okkur öll fær um að gera það sem þarf til að vilji hans nái fram að ganga. Síðan skoðum við frásögur úr Biblíunni af því hvernig Jehóva gaf þjónum sínum – bæði körlum og konum – viljann og kraftinn til að framkvæma. Að lokum skoðum við hvernig við getum leyft Jehóva að nýta okkur í þjónustu sína.

HVERNIG GERIR JEHÓVA OKKUR HÆF?

3. Hvernig getur Jehóva gefið okkur viljann til að framkvæma miðað við Filippíbréfið 2:13?

3 Lestu Filippíbréfið 2:13. * Jehóva getur gefið okkur vilja til að framkvæma. Hvernig gerir hann það? Kannski komumst við að því að það vantar einhverja hjálp í söfnuðinum eða söfnuðurinn fær bréf frá deildarskrifstofunni sem segir frá þörf fyrir utan svæði safnaðarins. Það gæti fengið okkur til að velta fyrir okkur hvernig við gætum orðið að liði. Eða við höfum verið beðin um að taka að okkur krefjandi verkefni sem við erum ekki viss um að við ráðum við. Eða þá að við hugsum eftir að hafa lesið í Biblíunni: „Hvernig get ég notað þessi vers til að hjálpa öðrum?“ Jehóva neyðir okkur ekki til neins en þegar hann sér að við erum að íhuga hvað við getum gert getur hann gefið okkur viljann til að láta verða af því.

4. Hvernig getur Jehóva gefið okkur kraftinn til að framkvæma?

4 Jehóva getur einnig gefið okkur kraft til að framkvæma. (Jes. 40:29) Hann getur með heilögum anda sínum styrkt þá hæfileika sem við höfum nú þegar. (2. Mós. 35:30–35) Jehóva getur notað söfnuð sinn til að kenna okkur að vinna ákveðin verkefni. Biddu um aðstoð ef þú ert einhvern tíma í vafa um hvernig þú getir sinnt verkefni þínu. Og þú getur alltaf beðið örlátan föður okkar á himnum um ,kraftinn mikla‘. (2. Kor. 4:7; Lúk. 11:13) Í Biblíunni eru margar frásögur um hvernig Jehóva gerði menn og konur hæf með því að gefa þeim viljann og kraftinn til að framkvæma. Þegar við skoðum nokkrar af þessum frásögum skaltu reyna að koma auga á hvernig þú getur komið að notum fyrir Jehóva á svipaðan hátt.

HVAÐ LÉT JEHÓVA MENN VERÐA?

5. Hvað lærum við af því hvernig og hvenær Jehóva notaði Móse til að frelsa þjóna sína?

5 Jehóva gerði Móse að lausnara Ísraelsmanna. En hvenær kom hann Jehóva að gagni sem slíkur? Var það þegar honum fannst hann hæfur eftir að hafa verið „fræddur í allri speki Egypta“? (Post. 7:22–25) Nei, Jehóva notaði Móse ekki fyrr en hann hafði mótað hann í hógværan og mildan mann. (Post. 7:30, 34–36) Jehóva gaf Móse hugrekki til að ganga fyrir valdamesta stjórnanda Egyptalands. (2. Mós. 9:13–19) Hvað lærum við af því hvernig og hvenær Jehóva notaði Móse í sína þjónustu? Þeir sem líkja eftir eiginleikum Jehóva og reiða sig á styrk frá honum geta nýst vel í þjónustu hans. – Fil. 4:13.

6. Hvað lærum við af því hvernig Jehóva notaði Barsillaí til að hjálpa Davíð konungi?

6 Nokkrum öldum síðar notaði Jehóva Barsillaí til að hjálpa Davíð konungi. Davíð og menn hans voru „svangir, þyrstir og uppgefnir“ þegar þeir voru á flótta undan Absalon, syni Davíðs. Barsillaí var orðinn aldraður en hann hætti lífi sínu ásamt öðrum til að hjálpa Davíð og þeim sem voru með honum. Barsillaí hugsaði ekki að hann gæti ekki lengur gert gagn í þjónustu Jehóva vegna þess hve gamall hann var orðinn. Hann var öllu heldur örlátur og notaði það sem hann átti til að hjálpa þjónum Jehóva sem þurftu á því að halda. (2. Sam. 17:27–29) Hvað lærum við af þessu? Hvort sem við erum ung eða gömul getum við komið Jehóva að gagni með því að hjálpa trúsystkinum okkar sem vantar nauðsynjar, heima eða erlendis. (Orðskv. 3:27, 28; 19:17) Ef við getum ekki hjálpað þeim persónulega getum við kannski stutt alþjóðarstarfið fjárhagslega svo að hægt sé að veita neyðaraðstoð þegar og þar sem þarf. – 2. Kor. 8:14, 15; 9:11.

7. Hvaða verkefni fól Jehóva Símeon og hvers vegna er hvetjandi fyrir okkur að vita það?

7 Jehóva lofaði Símeon, sem var trúfastur eldri maður í Jerúsalem, að hann myndi ekki deyja áður en hann sæi Messías. Það hlýtur að hafa verið mjög uppörvandi fyrir Símeon að fá þetta loforð vegna þess að hann hafði beðið eftir Messíasi í mörg ár. Honum var umbunað fyrir trú sína og þolgæði. Einn daginn kom hann inn í helgidóminn „að leiðsögn andans“ og sá ungbarnið Jesú. Jehóva lét hann bera fram spádóm um þetta barn sem átti eftir að verða Kristur. (Lúk. 2:25–35) Þó að Símeon hafi líklega ekki lifað nógu lengi til að fylgjast með þjónustu Jesú hér á jörð var hann þakklátur fyrir það verkefni sem hann fékk. Og hann á eftir að upplifa margt gott í framtíðinni. Í nýja heiminum á þessi trúfasti maður eftir að sjá hvernig stjórn Jesú verður öllum þjóðum á jörðinni til blessunar. (1. Mós. 22:18) Við megum einnig vera þakklát fyrir þau verkefni sem Jehóva felur okkur í þjónustu sinni.

8. Hvernig getum við verið verkfæri í höndum Jehóva eins og Barnabas?

8 Á fyrstu öld bauð örlátur maður að nafni Jósef sig fram í þjónustu við Jehóva. (Post. 4:36, 37) Postularnir kölluðu hann Barnabas, sem þýðir „huggunarsonur“, líklega vegna þess að hann var sérstaklega duglegur að hughreysta aðra. Margir af bræðrunum voru til dæmis hræddir við Sál eftir að hann tók kristna trú vegna þess að hann var þekktur fyrir að ofsækja söfnuðinn. En Barnabas var hjartahlýr og hjálpaði Sál, sem hlýtur að hafa verið mjög þakklátur fyrir góðvild hans. (Post. 9:21, 26–28) Seinna sáu öldungarnir í Jerúsalem þörf á að veita bræðrunum allt til Antíokkíu í Sýrlandi hvatningu. Þeir völdu vel með því að senda Barnabas því að hann „hvatti alla til að halda sér við Drottin með einlægu hjarta“. (Post. 11:22–24) Jehóva getur einnig gert okkur að ,huggunarsonum‘ fyrir bræður okkar og systur. Hann gæti til dæmis notað okkur til að hugga þá sem hafa misst ástvin. Eða kannski kveikir hann hjá okkur löngun til að heimsækja eða hringja í einhvern sem er veikur eða niðurdreginn til að uppörva hann. Ert þú fús til að vera verkfæri í höndum Jehóva eins og Barnabas var? – 1. Þess. 5:14.

9. Hvað lærum við af því hvernig Jehóva hjálpaði bróður að nafni Vasílíj að verða hæfur hirðir í söfnuðinum?

9 Jehóva hjálpaði bróður sem heitir Vasílíj að verða hæfur hirðir í söfnuðinum. Vasílíj var útnefndur öldungur þegar hann var 26 ára og var hræddur um að hann væri ekki hæfur til að veita söfnuðinum andlegan stuðning, sérstaklega þeim sem voru að ganga í gegnum erfiðleika. En hann fékk góða þjálfun frá reyndum öldungum og með því að sækja Ríkisþjónustuskólann. Vasílíj lagði sig fram um að taka framförum. Hann bjó til dæmis til lista yfir smærri markmið og varð smám saman öruggari þegar hann náði þeim. Núna segir hann: „Það sem ég óttaðist áður veitir mér núna mikla gleði. Það veitir mér mikla ánægju þegar Jehóva hjálpar mér að finna réttan ritningarstað til að hugga bróður eða systur í söfnuðinum.“ Bræður, ef þið gefið kost á ykkur eins og Vasílíj getur Jehóva gert ykkur færa um að taka á ykkur aukna ábyrgð í söfnuðinum.

HVAÐ LÉT JEHÓVA KONUR VERÐA?

10. Hvað gerði Abígail og hvað lærðir þú af fordæmi hennar?

10 Sál konungur elti Davíð og menn hans og þeir þörfnuðust hjálpar. Menn Davíðs báðu Nabal, auðugan Ísraelsmann, um dálítinn mat, hvað sem hann hefði við höndina. Þeim fannst þeir geta spurt vegna þess að þeir höfðu verndað hjarðir Nabals í eyðimörkinni. En Nabal var eigingjarn og neitaði að gefa þeim nokkuð. Davíð varð öskureiður og ætlaði að drepa Nabal og alla karlmenn á heimili hans. (1. Sam. 25:3–13, 22) En Abígail, kona Nabals, var bæði skynsöm og falleg. Hún sýndi mikið hugrekki þegar hún féll til fóta Davíð og hvatti hann til að baka sér ekki blóðskuld með því að hefna sín. Hún ráðlagði honum af háttvísi að láta Jehóva um málið. Hógværð og skynsemi Abígail snerti Davíð. Hann dró réttilega þá ályktun að Jehóva hefði sent hana. (1. Sam. 25:23–28, 32–34) Abígail hafði ræktað með sér eiginleika sem komu Jehóva að gagni. Systur í söfnuðinum sem rækta með sér háttvísi og skynsemi geta að sama skapi komið Jehóva að gagni við að byggja upp fjölskyldur sínar og aðra í söfnuðinum. – Orðskv. 24:3; Tít. 2:3–5.

11. Hvað gerðu dætur Sallúms og hverjir líkja eftir þeim nú á dögum?

11 Mörgum öldum seinna voru dætur Sallúms meðal þeirra sem Jehóva notaði til að endurreisa borgarmúra Jerúsalem. (Neh. 2:20; 3:12) Þó að Sallúm væri höfðingi voru dætur hans fúsar til að vinna þetta erfiða og hættulega verk. (Neh. 4:9–12) Það var allt annað en aðalsmennirnir í Tekóa sem „vildu ekki beygja svírann“ og vinna. (Neh. 3:5) Ímyndaðu þér gleði dætra Sallúms að sjá verkið klárast á aðeins 52 dögum! (Neh. 6:15) Nú á dögum eru systur fúsar til að taka þátt í sérstökum verkefnum í þjónustu Jehóva við byggingu og viðhald á húsum sem eru vígð honum. Við þurfum á færni þeirra, eldmóði og trúfesti að halda í þessu starfi.

12. Hvernig getur Jehóva látið okkur koma að gagni eins og Tabíþu?

12 Jehóva vakti hjá Tabíþu löngun til að vera „góðgerðasöm og örlát við snauða“, sérstaklega ekkjur. (Post. 9:36) Margir syrgðu þegar hún lést vegna þess hve örlát og góðviljuð hún var. En þeir voru himinlifandi þegar Pétur postuli reisti hana upp. (Post. 9:39–41) Hvað lærum við af Tabíþu? Við getum öll veitt bræðrum okkar og systrum hagnýta aðstoð, hvort sem við erum ung eða gömul, karlar eða konur. – Hebr. 13:16.

13. Hvernig notaði Jehóva krafta feiminnar systur að nafni Ruth og hvað sagði hún?

13 Feimna systur að nafni Ruth langaði til að verða trúboði. Þegar hún var ung stelpa hljóp hún hús úr húsi og dreifði smáritum. „Ég hafði mjög gaman af þessu starfi,“ sagði hún. En það var erfitt fyrir hana að standa við dyrnar og tala við fólk um Guðsríki. Ruth varð brautryðjandi þegar hún var 18 ára þó að hún væri feimin. Árið 1946 sótti hún Biblíuskólann Gíleað og þjónaði seinna á Hawaii og í Japan. Jehóva notaði krafta hennar ríkulega við boðun fagnaðarerindisins í þessum löndum. Eftir að hafa tekið þátt í boðuninni í næstum 80 ár sagði hún: „Jehóva hefur verið mér mikill styrkur. Hann hefur hjálpað mér að sigrast á feimninni. Ég er sannfærð um að allir sem treysta Jehóva geti komið að gagni í þjónustunni við hann.“

VERTU VERKFÆRI Í HÖNDUM JEHÓVA

14. Hvað þurfum við að gera til að koma Jehóva að gagni, eins og sjá má í Kólossubréfinu 1:29?

14 Jehóva hefur í gegnum tíðina látið þjóna sína gegna ýmsum hlutverkum. Hvað lætur hann þig verða? Það ræðst að miklu leyti af því hversu fús þú ert að leggja þig fram. (Lestu Kólossubréfið 1:29.) Ef þú gefur kost á þér getur Jehóva látið þig verða kappsaman boðbera, góðan kennara, sannan huggara, færan verkamann, skilningsríkan vin eða hvað annað sem hann þarf til að koma vilja sínum til leiðar.

15. Hvað ættu ungir bræður að biðja Jehóva að hjálpa sér að gera samkvæmt 1. Tímóteusarbréfi 4:12, 15?

15 Hvað um ykkur ungu bræður sem eruð að verða fullorðnir? Það er mikil þörf á kraftmiklum bræðrum sem geta tekið að sér aukna ábyrgð sem safnaðarþjónar. Í mörgum söfnuðum eru fleiri öldungar en safnaðarþjónar. Gætu einhverjir ykkar ungu bræðranna ræktað með ykkur löngun til að taka að ykkur aukna ábyrgð í söfnuðinum? Sumir bræður segja: „Ég er ánægður með að þjóna bara sem reglulegur boðberi.“ Ef þú hugsar þannig skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að rækta með þér vilja til að verða hæfur sem safnaðarþjónn og gefa þér kraft til að gera þitt allra besta í þjónustunni við hann. (Préd. 12:1) Við þörfnumst þín! – Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:12, 15.

16. Hvað ættum við að biðja Jehóva um og hvers vegna?

16 Jehóva getur látið þig verða hvað sem þarf til að koma vilja sínum til leiðar. Biddu hann því um vilja til að sinna starfi hans og biddu hann síðan að gefa þér kraft til þess. Notaðu tíma þinn, orku, eigur og hæfileika til að lofa Jehóva núna, hvort sem þú ert ungur eða gamall. (Préd. 9:10) Láttu ótta eða minnimáttarkennd aldrei verða til þess að þú hafnir dýrmætum tækifærum til að leggja þig allan fram í þjónustunni við Jehóva. Það er sannur heiður að fá að taka þátt í að lofa kærleiksríkan föður okkar eins og hann einn á skilið.

SÖNGUR 127 Þannig ber mér að lifa

^ gr. 5 Myndirðu vilja geta gert meira í þjónustunni við Jehóva? Veltirðu fyrir þér hvort þú komir enn að gagni fyrir hann? Eða sérðu kannski ekki þörf á að bjóða þig fram til að þjóna Jehóva á þann hátt sem hann vill? Í þessari grein skoðum við ýmsar leiðir sem Jehóva notar til að gefa okkur bæði vilja og kraft til að verða það sem þarf til að koma vilja sínum til leiðar.

^ gr. 3 Þó að Páll hafi skrifað bréf sitt til kristinna manna á fyrstu öld eiga orð hans við um alla þjóna Jehóva.