Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 41

Hvernig getum við hjálpað biblíunemendum til skírnar? – fyrri hluti

Hvernig getum við hjálpað biblíunemendum til skírnar? – fyrri hluti

„Þið eruð bréf Krists sem við höfum skrifað með þjónustu okkar.“ – 2. KOR. 3:3.

SÖNGUR 78 Kennum orð Guðs

YFIRLIT *

Hvað gæti verið ánægjulegra en fyrir heilan söfnuð að sjá nemanda skírast sem trúsystkini eru farin að elska. (Sjá 1. grein.)

1. Hvað segir í 2. Korintubréfi 3:1–3 sem hjálpar okkur að skilja að það er einstök gjöf frá Jehóva að fá að kenna biblíunemanda sem lætur að lokum skírast? (Sjá mynd á forsíðu.)

HVAÐA áhrif hefur það á þig að sjá biblíunemanda af starfssvæði safnaðarins skírast? Þú gleðst örugglega innilega. (Matt. 28:19) Og ef þú ert sá sem kenndir viðkomandi er alveg einstakt fyrir þig að sjá hann skírast. (1. Þess. 2:19, 20) Nýlega skírðir lærisveinar eru „meðmælabréf“, ekki aðeins þeirra sem kenndu þeim heldur líka alls safnaðarins. – Lestu 2. Korintubréf 3:1–3.

2. (a) Hvaða mikilvægu spurningu þurfum við að hugleiða og hvers vegna? (b) Hvað er biblíunámskeið? (Sjá neðanmálsgrein.)

2 Það er mjög ánægjulegt að sjá að síðustu fjögur ár hafa verið haldin að meðaltali 10.000.000 biblíunámskeið * um allan heim í hverjum mánuði. Og á sama tímabili hafa að meðaltali 280.000 manns látið skírast á hverju ári sem vottar Jehóva og lærisveinar Jesú Krists. Hvernig getum við hjálpað fleirum þessara milljóna biblíunemenda til skírnar? Meðan Jehóva sýnir þolinmæði og gefur fólki tíma og tækifæri til að verða lærisveinar Krists viljum við gera allt sem við getum til að hjálpa fólki að verða hæft til að skírast eins fljótt og mögulegt er. Tíminn er að renna út! – 1. Kor. 7:29a; 1. Pét. 4:7.

3. Hvað skoðum við í þessari grein varðandi biblíunámskeið?

3 Til að mæta þeirri mikilvægu þörf að gera fólk að lærisveinum voru deildarskrifstofur beðnar að kanna hvernig hægt væri að hjálpa fleiri biblíunemendum að taka framförum og láta skírast. Í þessari grein og þeirri næstu ræðum við hvað við getum lært af reyndum brautryðjendum, trúboðum og farandhirðum. * (Orðskv. 11:14; 15:22) Þeir benda á það sem biblíukennarar og nemendur geta gert til að námið verði árangursríkara. Í þessari grein skoðum við fimm skref sem hver nemandi þarf að stíga til að taka stöðugum framförum og láta skírast.

HÖLDUM BIBLÍUNÁMSKEIÐIÐ Í HVERRI VIKU

Spyrðu nemandann hvort þið ættuð ekki að setjast niður til að ræða saman um Biblíuna. (Sjá 4.–6. grein.)

4. Hverju verðum við að gera okkur grein fyrir varðandi biblíunámskeið sem við höldum í dyragættinni hjá fólki?

4 Mörg trúsystkini okkar halda biblíunámskeið við dyrnar hjá fólki. Þó að þetta sé góð leið til að vekja áhuga á Biblíunni eru slíkar umræður oft frekar stuttar og óreglulegar. Til að glæða frekari áhuga gæti boðberinn gefið hinum áhugasama símanúmerið sitt eða netfang. Þá væri kannski hægt að vera í sambandi við viðkomanda og deila með honum fróðleik úr Biblíunni. Slíkar umræður gætu varað mánuðum saman án þess að biblíunámskeiðið verði árangursríkt. Mun nemandi taka raunverulegum framförum og vígja Jehóva líf sitt og láta skírast ef þetta er allt og sumt sem hann gerir til að kynna sér Biblíuna? Líklega ekki.

5. Hvað sagði Jesús í Lúkasi 14:27–33 sem við getum nýtt okkur til að hjálpa biblíunemendum okkar?

5 Við eitt tækifæri notaði Jesús dæmi til að sýna fram á hvað það felur í sér að gerast lærisveinn hans. Hann sagði frá manni sem vildi byggja turn og konungi sem vildi halda út í stríð. Jesús sagði að sá sem vildi byggja þyrfti ,fyrst að setjast niður og reikna kostnaðinn‘ til að geta lokið verkinu og að konungurinn þyrfti „að setjast fyrst niður með ráðgjöfum sínum“ til að ganga úr skugga um hvort her hans væri fær um að framkvæma ætlunarverkið. (Lestu Lúkas 14:27–33.) Á sama hátt vissi Jesús að sá sem vill verða lærisveinn hans verður að hugleiða vandlega hvað hann þurfi að gera til að fylgja Jesú. Við þurfum þess vegna að hvetja biblíunemendur okkar til að rannsaka Biblíuna með okkur í hverri viku. Hvernig förum við að?

6. Hvað væri ráð að gera til að hjálpa nemendum að taka framförum?

6 Byrjaðu á því að lengja námsstundirnar við dyrnar. Kannski gætirðu í hvert sinn sem þú kemur bætt við biblíuversi til að ræða um. Ef húsráðandinn hefur ekkert á móti lengri heimsóknum skaltu spyrja hvort þið ættuð ekki að setjast niður einhver staðar til að halda umræðunum áfram. Viðbrögð hans leiða í ljós hversu mikilvægt það er honum að kynna sér Biblíuna. Með tímanum gætirðu jafnvel spurt hvort hann vilji að námskeiðið verði tvisvar í viku til að hann hafi meira gagn af því. En það er ekki nóg að rannsaka Biblíuna einu sinni eða tvisvar í viku.

UNDIRBÚÐU ÞIG FYRIR HVERJA NÁMSSTUND

Undirbúðu þig vel fyrir hverja námsstund og sýndu nemandanum hvernig hann geti undirbúið sig. (Sjá 7.–9. grein.)

7. Hvernig getur kennarinn verið vel undirbúinn fyrir hverja námsstund?

7 Sem kennarinn þarftu að undirbúa þig vel fyrir hverja biblíunámsstund. Þú getur byrjað á því að lesa yfir efnið og fletta upp biblíuversunum. Hafðu aðalatriðin skýrt í huga. Hugsaðu um heiti kaflans, millifyrirsagnirnar, spurningarnar, „lestu“-versin, myndirnar og þau myndbönd sem gætu hjálpað þér að útskýra efnið. Síðan skaltu hafa nemanda þinn í huga og íhuga hvernig þú ætlar að útskýra efnið á einfaldan og skýran hátt til að auðvelda honum að skilja efnið og fara eftir því. – Neh. 8:8; Orðskv. 15:28a.

8. Hvernig sýnir Kólossubréfið 1:9, 10 fram á að það er mikilvægt að biðja fyrir biblíunemendum?

8 Hafðu það sem hluta af undirbúningi þínum að tala um nemanda þinn og þarfir hans við Jehóva í bæn. Biddu Jehóva að hjálpa þér að kenna honum biblíusannindi þannig að þau nái til hjarta hans. (Lestu Kólossubréfið 1:9, 10.) Reyndu að sjá fyrir hvað það er sem nemandinn gæti átt erfitt með að skilja eða viðurkenna. Mundu að markmiðið er að hjálpa honum að taka framförum og láta skírast.

9. Hvernig getur kennarinn hjálpað nemandanum að undirbúa sig fyrir hverja námsstund? Skýrðu svarið.

9 Það er von okkar að með reglulegu biblíunámi verði nemandinn þakklátur fyrir það sem Jehóva og Jesús hafa gert og vilji læra meira. (Matt. 5:3, 6) Til að hafa sem mest gagn af náminu þarf nemandinn að einbeita sér að því sem hann er að læra. Það getur verið gagnlegt að útskýra fyrir honum hversu mikilvægt það er að hann undirbúi sig fyrir hverja námsstund með því að lesa efnið fyrir fram og hugleiða hvernig það eigi við um hann. Hvernig geturðu hjálpað honum til þess? Undirbúðu eina námsstund með nemandanum til að sýna honum hvernig það er gert. * Útskýrðu fyrir honum hvernig hann finnur svör við námsspurningunum og sýndu hvernig það að undirstrika aðeins lykilorðin hjálpar honum að muna svarið. Biddu hann síðan að svara með eigin orðum. Þegar hann gerir það geturðu áttað þig á hversu vel hann hefur skilið efnið. En það er fleira sem þú getur hvatt nemanda þinn til að gera.

KENNDU HONUM AÐ EIGA SAMSKIPTI VIÐ JEHÓVA Á HVERJUM DEGI

Kenndu nemanda þínum að eiga samskipti við Jehóva. (Sjá 10. og 11. grein.)

10. Hvers vegna er mikilvægt að lesa í Biblíunni daglega og hvað er nauðsynlegt að gera til að hafa sem mest gagn af lestrinum?

10 Auk vikulegs biblíunáms er sumt sem nemandinn hefði gagn af að gera sjálfur á hverjum degi. Hann þarf að eiga samskipti við Jehóva. Hvernig? Með því að hlusta á hann og tala við hann. Hann getur hlustað á Guð með því að lesa í Biblíunni daglega. (Jós. 1:8; Sálm. 1:1–3) Sýndu honum hvernig má nota prentanlega „Biblíulestraráætlun“ sem er að finna á jw.org. * Til þess að hann hafi sem mest gagn af lestrinum skaltu hvetja hann til að hugleiða hvað Biblían kenni honum um Jehóva og hvernig hann geti heimfært það upp á eigið líf. – Post. 17:11; Jak. 1:25.

11. Hvernig getur nemandi lært að biðja á viðeigandi hátt til Jehóva og hvers vegna er mikilvægt að hann biðji oft?

11 Hvettu nemanda þinn til að tala við Jehóva í bæn á hverjum degi. Farðu með einlæga bæn í upphafi og lok hverrar námsstundar og nefndu nemanda þinn í bænunum. Þegar hann heyrir bænir þínar lærir hann að biðja í einlægni til Jehóva Guðs í nafni Jesú Krists. (Matt. 6:9; Jóh. 15:16) Hugsaðu þér hvernig daglegur biblíulestur (að hlusta á Jehóva) og bænin (að tala við Jehóva) mun hjálpa nemandanum að nálægja sig Guði enn betur. (Jak. 4:8) Ef hann tileinkar sér þetta mun það færa hann nær því markmiði að vígjast Guði og skírast.

HJÁLPAÐU HONUM AÐ EIGNAST VINÁTTUSAMBAND VIÐ JEHÓVA

12. Hvernig getur kennari hjálpað nemanda að tengjast Jehóva vináttuböndum?

12 Það sem nemandi lærir á biblíunámskeiði ætti ekki aðeins að höfða til huga hans heldur líka hjartans. Hvers vegna? Hjarta okkar – sem nær yfir langanir okkar og tilfinningar – knýr okkur til verka. Kennsla Jesú var rökrétt og fólk kunni að meta hana. En fólk fylgdi honum vegna þess að hann snart einnig hjörtu þess. (Lúk. 24:15, 27, 32) Jehóva þarf að vera raunverulegur í augum nemanda þíns, sá sem nemandinn getur tengst vináttuböndum og litið á sem föður sinn, Guð og vin. (Sálm. 25:4, 5) Beindu athygli nemandans að aðlaðandi eiginleikum Guðs meðan á kennslunni stendur. (2. Mós. 34:5, 6; 1. Pét. 5:6, 7) Sama hvert umræðuefnið er skaltu beina athygli nemandans að því hvers konar persóna Jehóva er. Hjálpaðu honum að vera þakklátur fyrir yndislega eiginleika Jehóva – kærleika hans, góðvild og umhyggju. Jesús sagði að „mesta og æðsta boðorðið“ væri að „elska Jehóva Guð“. (Matt. 22:37, 38) Reyndu að glæða einlægan kærleika nemandans til Jehóva.

13. Hvernig er hægt að hjálpa nemanda að kynnast dásamlegum eiginleikum Jehóva? Nefndu dæmi.

13 Segðu nemanda þínum hvers vegna þú elskir Jehóva af öllu hjarta. Það gæti hjálpað honum að gera sér grein fyrir því að hann þurfi sjálfur að tengjast Jehóva innilegum vináttuböndum. (Sálm. 73:28) Er til dæmis setning í námsefninu eða biblíuversi sem gefur eitthvað til kynna um Jehóva – eins og kærleika hans, visku, réttlæti eða mátt – og er þér mjög kær? Segðu nemanda þínum frá því og láttu hann vita að þetta er ein af mörgum ástæðum fyrir því að þú elskar himneskan föður okkar. En það er fleira sem allir nemendur þurfa að gera til að geta tekið framförum og látið skírast.

HVETTU HANN TIL AÐ KOMA Á SAFNAÐARSAMKOMUR

Hvettu nemanda þinn til að sækja samkomur sem fyrst. (Sjá 14. og 15. grein.)

14. Hvað segir í Hebreabréfinu 10:24, 25 sem getur hjálpað biblíunemanda að taka framförum?

14 Öll viljum við að nemendur okkar láti að lokum skírast. Mikilvæg hjálp til þess er að hvetja þá til að sækja safnaðarsamkomur. Reyndir kennarar segja að nemendur sem mæta strax á samkomur taki framförum hraðar. (Sálm. 111:1) Sumir kennarar segja nemendum sínum að þeir fái helming biblíufræðslunnar á námskeiðinu og hinn helminginn á samkomum. Lestu Hebreabréfið 10:24, 25 með nemandanum og útskýrðu hvers vegna það er gagnlegt fyrir hann að koma á samkomur. Spilaðu fyrir hann myndbandið Hvernig fara samkomur okkar fram? * Hjálpaðu nemanda þínum að líta á samkomurnar sem ómissandi hluta af lífinu.

15. Hvað getum við gert til að hvetja nemanda til að sækja samkomur að staðaldri?

15 Hvað geturðu gert ef nemandi þinn hefur ekki enn mætt á samkomu eða mætir bara öðru hvoru? Segðu honum frá einhverju af brennandi áhuga sem þú hefur lært nýlega á samkomu. Það er meiri hvatning í því en að bjóða nemandanum einfaldlega að koma. Láttu hann fá Varðturninn og vinnubókina Líf okkar og boðun sem verið er að fara yfir á samkomum. Sýndu honum hvað verður á dagskrá á næstu samkomu og spyrðu hvað veki mestan áhuga hans. Það sem hann upplifir á sinni fyrstu samkomu verður gerólíkt því sem hann hefur upplifað á nokkurri annarri trúarsamkomu. (1. Kor. 14:24, 25) Hann hittir fólk sem er góðar fyrirmyndir og mun hjálpa honum að taka framförum til að geta látið skírast.

16. Hvað er nauðsynlegt að gera til að biblíunámskeið leiði til skírnar og hvað verður til umræðu í næstu grein?

16 Hvernig getum við haldið biblíunámskeið sem leiðir til skírnar? Við getum hjálpað hverjum nemanda fyrir sig að taka námið alvarlega með því að hvetja hann til að rannsaka Biblíuna með okkur í hverri viku og undirbúa sig fyrir hverja námsstund. Við viljum líka hvetja nemandann til að eiga samskipti við Jehóva á hverjum degi og tengjast honum vináttuböndum. Við viljum hvetja hann til að mæta á samkomur. (Sjá rammann „ Það sem nemendur þurfa að gera til að geta látið skírast“.) En eins og næsta grein fjallar um er fleira sem biblíukennarar geta gert til að hjálpa nemendum svo að þeir láti með tímanum skírast.

SÖNGUR 76 Hvaða kennd finnur þú?

^ gr. 5 Að kenna merkir að hjálpa einhverjum að tileinka sér nýja eða ólíka hugsun, skoðun eða breytni. Árstextinn 2020, Matteus 28:19, hefur minnt okkur á mikilvægi þess að fræða fólk um Biblíuna og kenna því hvernig það geti orðið skírðir lærisveinar Jesú Krists. Í þessari grein og þeirri næstu skoðum við hvernig við getum tekið framförum í þessu mikilvæga starfi.

^ gr. 2 ORÐASKÝRING: Þú heldur biblíunámskeið þegar þú ræðir á reglulegum grundvelli við einhvern um Biblíuna. Skrá má námskeiðið á starfsskýrsluna ef það hefur verið haldið í tvö skipti og ástæða er til að ætla að það haldi áfram.

^ gr. 3 Í greinunum er einnig að finna tillögur úr greinaröðinni „Árangursrík biblíunámskeið“ sem birtist í Ríkisþjónustunni okkar á tímabilinu júlí 2004 til maí 2005.

^ gr. 9 Horfðu á fjögurra mínútna myndbandið Kennum nemendum okkar að undirbúa sig. Notaðu appið JW Library® og farðu inn á HLJÓÐ OG MYND > SAMKOMUR OG BOÐUN > TÖKUM FRAMFÖRUM Í AÐ BOÐA TRÚNA.

^ gr. 10 Farðu inn á BIBLÍAN OG LÍFIÐ > BIBLÍUNÁMSGÖGN.

^ gr. 14 Notaðu appið JW Library® og farðu inn á HLJÓÐ OG MYND > SAMKOMUR OG BOÐUN > HJÁLPARGÖGN VIÐ BOÐUNINA.