Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 42

Hvernig getum við hjálpað biblíunemendum til skírnar? – síðari hluti

Hvernig getum við hjálpað biblíunemendum til skírnar? – síðari hluti

„Gættu stöðugt að sjálfum þér og kennslunni.“ – 1. TÍM. 4:16.

SÖNGUR 77 Ljós í myrkum heimi

YFIRLIT *

1. Hvernig vitum við að boðunin er björgunarstarf?

ÞAÐ er björgunarstarf að gera fólk að lærisveinum. Hvernig vitum við það? Þegar Jesús gaf fyrirmælin sem er að finna í Matteusi 28:19, 20 sagði hann: ,Farið og gerið fólk að lærisveinum, skírið það.‘ Hversu mikilvægt er að láta skírast? Það er nauðsynlegt til að hljóta björgun. Sá sem vill skírast verður að trúa því að björgun sé aðeins möguleg af því að Jesús fórnaði lífi sínu og var reistur upp. Þess vegna sagði Pétur postuli við trúsystkini sín: ,Skírnin bjargar ykkur núna vegna upprisu Jesú Krists.‘ (1. Pét. 3:21) Þegar nýr lærisveinn skírist á hann því von um að lifa að eilífu.

2. Hvers konar kennarar ættum við að vera samkvæmt 2. Tímóteusarbréfi 4:1, 2?

2 Til að gera fólk að lærisveinum þurfum við að þroska kennsluhæfileika okkar. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 4:1, 2.) Hvers vegna? Vegna þess að Jesús fyrirskipaði okkur að ,fara og gera fólk að lærisveinum og kenna því‘. Páll postuli sagði að við þyrftum að ,halda ótrauð áfram‘ í þessu starfi ,því að þá myndum við bjarga bæði sjálfum okkur og þeim sem hlusta á okkur‘. Páll hafði því góða ástæðu til að segja: „Gættu stöðugt að ... kennslunni.“ (1. Tím. 4:16) Við verðum að vanda kennslu okkar til að geta gert fólk að lærisveinum.

3. Hvað skoðum við í þessari grein varðandi biblíunámskeið?

3 Um heim allan er að staðaldri verið að kenna milljónum manna sannleika Biblíunnar. En eins og fjallað var um í greininni á undan viljum við vita hvernig við getum hjálpað fleirum þeirra að verða skírðir lærisveinar Jesú Krists. Í þessari grein skoðum við fleira sem hver og einn kennari þarf að gera til að hjálpa nemanda sínum að taka framförum og skírast.

NOTAÐU BIBLÍUNA VIÐ KENNSLUNA

Biddu reyndan kennara að hjálpa þér að nota Biblíuna á áhrifaríkari hátt. (Sjá 4.–6. grein.) *

4. Hvers vegna verður kennari að sýna sjálfstjórn þegar hann stýrir biblíunámi? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

4 Við höfum yndi af því að kenna orð Guðs. Við gætum því freistast til að tala of mikið um það sem er okkur kært. En hvort sem það er verið að stýra Varðturnsnámi, safnaðarbiblíunámi eða biblíunámskeiði ætti sá sem stýrir því ekki að tala of mikið. Kennari vill nota Biblíuna á áhrifaríkan hátt við kennsluna. Hann þarf því að sýna sjálfstjórn og varast að útskýra allt sem hann veit um ákveðið biblíuvers eða efni. * (Jóh. 16:12) Berðu saman hversu mikla biblíuþekkingu þú hafðir þegar þú lést skírast og þá þekkingu sem þú hefur núna. Þú þekktir að öllum líkindum aðeins grundvallarkenningar Biblíunnar þegar þú skírðist. (Hebr. 6:1) Þú hefur öðlast þekkinguna sem þú hefur núna á mörgum árum. Forðastu því að kenna nemanda allt á einu bretti.

5. (a) Hvað viljum við að nemandi okkar skilji í tengslum við biblíunám sitt, samanber 1. Þessaloníkubréf 2:13? (b) Hvernig getum við hvatt nemanda til að tjá sig um það sem hann lærir?

5 Við viljum að nemandi okkar skilji að það sem hann er að læra kemur frá Biblíunni. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:13.) Hvernig hjálpum við honum til þess? Hvettu nemandann til að tala um það sem hann lærir. Í stað þess að útskýra alltaf biblíuvers fyrir nemandanum skaltu biðja hann að útskýra sum þeirra fyrir þér. Hjálpaðu honum að sjá hvernig orð Guðs snertir hann sjálfan. Spyrðu leiðandi spurninga og viðhorfsspurninga til að fá hann til að tjá sig, segja hvað hann hugsar og hvað honum finnst um biblíuversin sem hann les. (Lúk. 10:25–28) Þú gætir spurt hann: Hvernig hjálpar þetta vers þér að koma auga á einn af eiginleikum Jehóva? Hvernig geturðu nýtt þér það sem kemur fram í versinu? Hvað finnst þér um það sem segir hérna? (Orðskv. 20:5) Það skiptir ekki mestu máli hversu mikið nemandinn veit heldur hversu þakklátur hann er fyrir það sem hann veit og hversu vel hann fer eftir því.

6. Hvers vegna gæti verið gott að taka reyndan kennara með í biblíunámskeið?

6 Tekurðu einhvern tíma boðbera sem er reyndur kennari með þér í biblíunámskeið? Ef svo er geturðu beðið hann að fylgjast með hvernig þú stýrir námskeiðinu og hvernig þér gangi að nota Biblíuna við kennsluna. Þú þarft að vera auðmjúkur ef þú vilt bæta kennsluhæfni þína. (Samanber Postulasöguna 18:24–26.) Eftir á skaltu spyrja reynda boðberann hvort hann haldi að nemandinn skilji það sem hann er að læra. Þú gætir líka beðið sama boðbera að stýra námskeiðinu fyrir þig ef þú ert fjarverandi í eina eða fleiri vikur. Þá er regla á námskeiðinu og það hjálpar nemandanum að skilja mikilvægi námsins. Þú skalt aldrei hugsa sem svo að þetta sé „þitt“ námskeið og að enginn annar geti stýrt því. Þegar allt kemur til alls viltu nemanda þínum allt það besta þannig að hann geti haldið áfram að læra sannleikann.

KENNDU MEÐ SANNFÆRINGU OG AF ÁKAFA

Segðu nemandanum frá reynslu annarra sem hafa gert breytingar í lífi sínu og gæti hjálpað honum að heimfæra það sem hann er að læra upp á líf sitt. (Sjá 7.–9. grein.) *

7. Hvað getur hjálpað nemanda að hafa yndi af því sem hann er að læra?

7 Nemandi þarf að finna að þú sért sannfærður og að þú brennir fyrir því sem Biblían kennir. (1. Þess. 1:5) Þá er líklegra að honum finnist það áhugavert sem hann er að læra. Þú gætir kannski sagt honum frá því hvernig Biblían hefur hjálpað þér. Þá áttar hann sig á því að Biblían hefur að geyma hagnýt ráð sem geta líka komið honum að gagni.

8. Hvað fleira gætirðu gert til að hjálpa nemandanum og hvers vegna?

8 Meðan á biblíunámskeiðinu stendur skaltu segja nemandanum frá raunsönnum dæmum af bræðrum og systrum sem hafa átt við svipuð vandamál að glíma og hann og yfirstigið þau. Þú gætir tekið einhvern með úr söfnuðinum sem nemandinn gæti lært af. Þú gætir líka fundið uppörvandi frásögur á jw.org í greinaröðinni „Biblían breytir lífi fólks“. * Slíkar frásögur og myndbönd geta hjálpað nemandanum að sjá hversu skynsamlegt það er að fara eftir meginreglum Biblíunnar.

9. Hvernig geturðu hvatt nemanda til að segja vinum og ættingjum frá því sem hann er að læra?

9 Ef nemandinn er giftur eða í sambúð er þá makinn einnig að kynna sér Biblíuna? Ef ekki skaltu bjóða honum að vera með. Hvettu nemandann til að segja vinum og ættingjum frá því sem hann er að læra. (Jóh. 1:40–45) Hvernig? Þú gætir einfaldlega spurt: „Hvernig myndir þú útskýra þetta fyrir ættingja þínum?“ eða „Hvaða vers myndir þú nota til að rökstyðja þetta fyrir vini þínum?“ Þannig þjálfarðu nemandann til að verða sjálfur kennari. Þegar hann síðan er orðinn hæfur getur hann byrjað að boða trúna sem óskírður boðberi. Þú gætir spurt hann hvort hann þekki einhvern sem hefði áhuga á að kynna sér Biblíuna. Ef svo er gæti hann ef til vill gert ráðstafanir svo að þú getir sýnt viðkomanda myndbandið Hvernig fer biblíunámskeið fram? *

HVETTU NEMANDANN TIL AÐ EIGNAST VINI Í SÖFNUÐINUM

Hvettu nemandann til að eignast vini í söfnuðinum. (Sjá 10. og 11. grein.) *

10. Hvernig getur kennari líkt eftir fordæmi Páls, samanber 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8?

10 Kennarar verða að láta sér annt um nemendur sína. Innan skamms gætu þeir orðið bræður eða systur í söfnuðinum. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.) Það er ekki auðvelt fyrir þá að segja skilið við vini sína í heiminum og gera þær breytingar sem þarf til að þjóna Jehóva. Við verðum að hjálpa þeim að eignast sanna vini í söfnuðinum. Vertu vinur nemanda þíns með því að verja tíma með honum, ekki aðeins meðan á biblíunámskeiðinu stendur heldur líka við önnur tækifæri. Þú sýnir að þér er innilega annt um hann með því að hringja, senda skilaboð eða fara í stutta heimsókn til hans inn á milli.

11. Hvað viljum við að nemendur okkar eignist í söfnuðinum og hvers vegna?

11 Sagt hefur verið að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Við gætum sagt að það þurfi heilan söfnuð til að gera nemanda að lærisveini. Þess vegna kynna færir biblíukennarar nemendur sína fyrir öðrum í söfnuðinum sem geta haft góð áhrif á þá. Nemendurnir geta þá notið félagsskapar við þjóna Jehóva sem geta veitt þeim stuðning og hjálpað þeim að byggja upp sterka trú. Við viljum að hverjum og einum nemanda finnist hann tilheyra söfnuðinum og okkar andlegu fjölskyldu. Við viljum að hann laðist að hlýju og kærleiksríku bræðralagi okkar. Þá á hann auðveldara með að hætta að eiga náin samskipti við þá sem hvetja hann ekki til að elska Jehóva. (Orðskv. 13:20) Ef fyrrverandi vinir hafna honum veit hann að hann getur eignast sanna vini í söfnuði Jehóva. – Mark. 10:29, 30; 1. Pét. 4:4.

LEGGÐU ÁHERSLU Á VÍGSLU OG SKÍRN

Einlægur biblíunemandi getur smám saman náð því markmiði að skírast. (Sjá 12. og 13. grein.)

12. Hvers vegna ættum við að tala við nemanda okkar um vígslu og skírn?

12 Vertu ófeiminn við að tala um vígslu og skírn. Markmiðið með biblíunámskeiði er jú að hjálpa fólki að verða skírðir lærisveinar Jesú. Þegar nemandinn hefur kynnt sér Biblíuna í nokkra mánuði og sérstaklega eftir að hann er byrjaður að sækja samkomur ætti hann að vera farinn að skilja að við viljum hjálpa honum að verða vottur Jehóva.

13. Hvað þarf nemandi að gera til að ná því markmiði að skírast?

13 Það er ýmislegt sem einlægur biblíunemandi getur gert til að ná því markmiði að skírast. Fyrst kynnist hann Jehóva og fer að trúa á hann og elska hann. (Jóh. 3:16; 17:3) Síðan fer hann að mynda vináttusamband við Jehóva og bræður og systur í söfnuðinum. (Hebr. 10:24, 25; Jak. 4:8) Með tímanum iðrast nemandinn innilega þess ranga sem hann hefur gert og snýr við blaðinu. (Post. 3:19) Hann fer líka að segja öðrum frá því sem hann trúir. (2. Kor. 4:13) Síðan vígir hann Jehóva líf sitt og lætur það opinberlega í ljós með því að láta skírast. (1. Pét. 3:21; 4:2) Það er gleðidagur fyrir alla! Þegar nemandinn tekur þau skref sem þarf til að geta skírst skaltu hrósa honum af einlægni og hvetja hann til að halda áfram að taka framförum.

LEGGÐU MAT Á FRAMFARIR NEMANDANS MEÐ REGLULEGU MILLIBILI

14. Hvernig getur kennari lagt mat á framfarir nemanda?

14 Við þurfum að sýna þolinmæði þegar við hjálpum nemanda að verða hæfur til að geta látið skírast. En við verðum líka að komast að því hvort hann langi til að þjóna Jehóva Guði. Sýnir nemandinn að hann sé að reyna að hlýða fyrirmælum Jesú? Eða finnst honum bara áhugavert að kynna sér Biblíuna?

15. Hvernig getur kennari áttað sig á því hvort nemandi sé orðinn hæfur til að láta skírast?

15 Leggðu mat á framfarir nemandans með reglulegu millibili. Tjáir hann til dæmis þær tilfinningar sem hann ber til Jehóva? Biður hann til Jehóva? (Sálm. 116:1, 2) Hefur hann ánægju af að lesa í Biblíunni? (Sálm. 119:97) Sækir hann safnaðarsamkomur að staðaldri? (Sálm. 22:23) Hefur hann gert breytingar á lífi sínu sem sýna að hann fer eftir því sem hann lærir? (Sálm. 119:112) Segir hann ættingjum og vinum frá því sem hann er að læra? (Sálm. 9:2) Og það sem mestu máli skiptir, vill hann verða vottur Jehóva? (Sálm. 40:9) Ef nemandinn tekur ekki framförum á neinum þessara sviða skaltu reyna af nærgætni að komast að því hvers vegna og ræða síðan málið við hann vingjarnlega en hreinskilnislega. *

16. Hvað gæti gefið til kynna að við ættum að hætta biblíunámskeiði?

16 Veltu því fyrir þér inn á milli hvort það sé raunhæft að halda biblíunámskeiði áfram. Spyrðu þig: Mætir nemandinn óundirbúinn í námið? Skortir hann áhuga á að sækja samkomur? Hefur hann enn þá slæma ávana? Tilheyrir hann enn þá falstrúarbrögðum? Ef svarið er já væri það að halda námskeiðinu áfram eins og að reyna að kenna einhverjum að synda sem vill ekki blotna. Hvers vegna að halda námskeiðinu áfram ef nemandinn kann ekki að meta það sem hann lærir og vill ekki gera breytingar?

17. Hvað þurfa allir biblíukennarar að gera samkvæmt 1. Tímóteusarbréfi 4:16?

17 Við tökum ábyrgð okkar alvarlega að gera fólk að lærisveinum og viljum hjálpa nemendum okkar að taka framförum og láta skírast. Þess vegna notum við Biblíuna við kennsluna og kennum með sannfæringu og af ákafa. Við hvetjum nemandann til að eignast vini í söfnuðinum. Og við leggjum áherslu á vígslu og skírn og leggjum mat á framfarir nemandans með reglulegu millibili. (Sjá rammann „ Það sem kennarar þurfa að gera til að hjálpa nemendum til skírnar“.) Við erum ánægð að geta tekið þátt í þessu björgunarstarfi. Verum staðráðin í að gera okkar besta til að hjálpa biblíunemendum okkar til skírnar.

SÖNGUR 79 Kennum þeim að vera staðfastir

^ gr. 5 Þegar við höldum biblíunámskeið fáum við að hjálpa fólki að tileinka sér nýja eða ólíka hugsun, skoðun eða breytni í samræmi við vilja Jehóva. Þessi grein hjálpar okkur enn frekar að bæta kennsluhæfni okkar.

^ gr. 4 Sjá greinina „Gildrur til að forðast þegar við höldum biblíunámskeið“ í vinnubókinni Líf okkar og boðun í september 2016.

^ gr. 8 Farðu inn á UM OKKUR > FRÁSÖGUR.

^ gr. 9 Notaðu appið JW Library® og farðu inn á HLJÓÐ OG MYND > SAMKOMUR OG BOÐUN > HJÁLPARGÖGN VIÐ BOÐUNINA.

^ gr. 77 MYND: Eftir biblíunámskeið ráðleggur reynd systir þeirri sem stýrði náminu að tala ekki of mikið í biblíunámskeiðinu.

^ gr. 79 MYND: Kona í biblíunámskeiði lærir að vera betri eiginkona. Seinna segir hún eiginmanni sínum hvað hún hefur lært.

^ gr. 81 MYND: Hún og eiginmaður hennar njóta félagsskapar vina sem hún hefur kynnst í ríkissalnum.