Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 43

Jehóva leiðir söfnuð sinn

Jehóva leiðir söfnuð sinn

„Ekki með valdi né krafti heldur fyrir anda minn, segir Drottinn allsherjar.“ – SAK. 4:6.

SÖNGUR 40 Hver á þinn hug og hönd?

YFIRLIT *

1. Hvað verða skírðir þjónar Guðs að halda áfram að gera?

ERT þú skírður? Þá hefurðu tjáð trú þína á Jehóva opinberlega og sýnt að þú viljir þjóna honum með söfnuði hans. * Þú þarft auðvitað að halda áfram að styrkja trú þína á Jehóva. Og þú verður að halda áfram að styrkja sannfæringu þína um að Jehóva noti söfnuð sinn nú á dögum.

2, 3. Á hvaða hátt leiðir Jehóva söfnuð sinn nú á dögum? Nefndu dæmi.

2 Jehóva leiðir söfnuð sinn nú á dögum á þann hátt sem endurspeglar persónuleika hans, fyrirætlun og siðferðisreglur. Skoðum þrennt í fari Jehóva sem sýnir sig í söfnuði hans.

3 Í fyrsta lagi: „Guð mismunar ekki fólki.“ (Post. 10:34) Kærleikur fékk Jehóva til að gefa son sinn sem „lausnargjald fyrir alla“. (1. Tím. 2:6; Jóh. 3:16) Jehóva notar þjóna sína til að boða fagnaðarboðskapinn öllum sem vilja hlusta. Þannig hjálpar hann sem flestum að njóta góðs af lausnargjaldinu. Í öðru lagi: Jehóva er Guð skipulags og friðar. (1. Kor. 14:33, 40) Við megum því gera ráð fyrir að tilbiðjendur hans séu skipulagður og friðsamur hópur. Í þriðja lagi: Jehóva er hinn mikli kennari. (Jes. 30:20, 21) Þess vegna leggur söfnuður hans áherslu á að fræða aðra um orð hans, Biblíuna, bæði á samkomum og í boðuninni. Hvernig var þetta þrennt í fari Jehóva áberandi í söfnuðinum á fyrstu öld? Hvernig sýnir það sig í söfnuðinum núna? Og hvernig getur heilagur andi stutt þig í að þjóna með söfnuði Jehóva?

GUÐ MISMUNAR EKKI FÓLKI

4. Hvað sagði Jesús fylgjendum sínum að gera og hvaða hjálp myndu þeir fá eins og fram kemur í Postulasögunni 1:8?

4 Á fyrstu öld. Boðskapurinn sem Jesús boðaði veitti mannkyninu von. (Lúk. 4:43) Hann sagði fylgjendum sínum að halda áfram verkinu sem hann hóf, að flytja boðskapinn „til endimarka jarðar“. (Lestu Postulasöguna 1:8.) Þeir gátu að sjálfsögðu ekki gert það í eigin krafti. Þeir þurftu heilagan anda til þess, það er að segja ,hjálparann‘ sem Jesús lofaði þeim. – Jóh. 14:26; Sak. 4:6.

5, 6. Hvernig hjálpaði heilagur andi fylgjendum Jesú?

5 Fylgjendur Jesú hlutu heilagan anda á hvítasunnu árið 33. Með hjálp andans byrjuðu þeir strax að boða trúna og á stuttum tíma tóku þúsundir manna við fagnaðarboðskapnum. (Post. 2:41; 4:4) Lærsveinarnir urðu ekki hræddir og hættu að boða trúna þegar þeir mættu andstöðu heldur báðu þeir Guð að hjálpa sér. Þeir báðu: „Veittu þjónum þínum kjark til að halda áfram að tala orð þitt óttalaust.“ Þá fylltust þeir heilögum anda og „töluðu orð Guðs óttalaust“. – Post. 4:18–20, 29, 31.

6 Lærisveinar Jesú þurftu að glíma við fleira. Það voru til dæmis ekki til mörg eintök af Ritningunni. Þeir höfðu engin námsgögn eins og við höfum. Og lærisveinarnir þurftu að boða fólki trúna á mörgum tungumálum. Þrátt fyrir allt þetta gerðu þessir kappsömu lærisveinar það sem virtist ómögulegt. Á fáeinum áratugum höfðu þeir boðað fagnaðarboðskapinn „meðal allra manna“. – Kól. 1:6, 23.

7. Hvernig vissu þjónar Jehóva fyrir meira en 100 árum hvers Jehóva ætlaðist til af þeim og hvað gerðu þeir?

7 Nú á dögum. Jehóva heldur áfram að leiða þjóna sína og styrkja þá. Við fáum leiðsögnina að mestu leyti úr innblásnu orði Guðs. Í Biblíunni lesum við um hvernig Jesús boðaði trúna og sagði fylgjendum sínum að halda áfram verkinu sem hann hóf. (Matt. 28:19, 20) Strax í júlí 1881 sagði í þessu blaði: „Við vorum ekki kallaðir, eða smurðir, til að hljóta heiður og safna auði heldur til að við gætum notað allt sem við eigum til að boða fagnaðarboðskapinn.“ Í bæklingnum To Whom the Work Is Entrusted, sem gefinn var út árið 1919, segir: „Verkefnið virðist tröllaukið en það er verk Drottins og við gerum það í krafti hans.“ Líkt og kristnir menn á fyrstu öld voru þessir bræður hugrakkir og hörkuduglegir vegna þess að þeir treystu að heilagur andi myndi hjálpa þeim að boða alls konar fólki trúna. Við treystum á sama hátt á hjálp heilags anda.

Söfnuður Jehóva hefur alltaf notað bestu verkfærin til að dreifa fagnaðarboðskapnum. (Sjá 8. og 9. grein.)

8, 9. Hvaða leiðir hefur söfnuður Jehóva notað til að dreifa fagnaðarboðskapnum?

8 Söfnuður Jehóva hefur notað bestu verkfærin til að dreifa fagnaðarboðskapnum. Þessi verkfæri hafa meðal annars verið prentuð rit, „Sköpunarsagan í myndum“, grammófónar, hátalarabílar, útsendingar í útvarpi og á síðari tímum tölvutækni. Söfnuður Guðs stendur einnig fyrir mesta þýðingastarfi sem gert hefur verið. Hvers vegna? Til að alls konar fólk geti heyrt fagnaðarboðskapinn á sínu eigin tungumáli. Jehóva mismunar ekki fólki. Hann sagði fyrir að fagnaðarboðskapurinn yrði boðaður „hverri þjóð, ættflokki, tungu og kynþætti“. (Opinb. 14:6, 7) Hann vill að boðskapurinn um Guðsríki nái til allra.

9 En hvað um þá sem erfitt er að ná til, til dæmis þá sem búa í húsnæði með öryggisvörslu? Til að ná betur til þeirra fékk Jehóva söfnuð sinn til að byrja að nota ýmsar leiðir til að boða trúna meðal almennings. Stjórnandi ráð gaf til dæmis leyfi árið 2001 til að nota ritatrillur og annað slíkt í Frakklandi. Síðar var það gert á fleiri stöðum. Viðbrögðin voru góð. Árið 2011 hófst nýtt verkefni í Bandaríkjunum á einum fjölmennasta stað í New York-borg. Á fyrsta árinu var 102.129 bókum og 68.911 blöðum dreift. Og 4.701 bað um biblíunámskeið. Það er greinilegt að heilagur andi studdi þetta verkefni. Stjórnandi ráð samþykkti því að sýna mætti rit okkar víðs vegar um heiminn með því að nota ritatrillur eða svipaðan búnað.

10. Hvernig getum við bætt okkur í boðuninni?

10 Það sem þú getur gert. Nýttu þér vel þjálfunina sem Jehóva gefur okkur á samkomum. Boðaðu trúna reglulega með starfshópnum þínum. Þar geturðu fengið aðstoð á þeim sviðum sem þú þarft og hvatningu af góðu fordæmi annarra. Haltu áfram að boða trúna þrátt fyrir erfiðleika. Eins og lykilvers greinarinnar minnir okkur á gerum við vilja Guðs ekki í eigin krafti heldur með hjálp heilags anda. (Sak. 4:6) Við erum að vinna verk sem Guð hefur falið okkur.

JEHÓVA ER GUÐ SKIPULAGS OG FRIÐAR

11. Hvernig vann hið stjórnandi ráð á fyrstu öld saman í einingu til að viðhalda skipulagi á meðal þjóna Guðs?

11 Á fyrstu öld. Hið stjórnandi ráð í Jerúsalem vann saman í einingu til að viðhalda skipulagi og friði á meðal þjóna Guðs. (Post. 2:42) Þegar menn greindi til dæmis á um umskurð í kringum árið 49 kom hið stjórnandi ráð saman og ræddi málið undir leiðsögn heilags anda. Ef söfnuðurinn hefði verið tvískiptur áfram vegna þessa máls hefði það truflað boðunina. Postularnir og öldungarnir létu erfðavenjur Gyðinga eða þá sem héldu þeim á lofti ekki hafa áhrif á sig þó að þeir væru sjálfir Gyðingar. Þeir leituðu öllu heldur leiðsagnar í orði Guðs og báðu um heilagan anda hans. (Post. 15:1, 2, 5–20, 28) Hver var niðurstaðan? Jehóva blessaði ákvörðun þeirra, friður og eining hélt áfram að ríkja í söfnuðinum og boðunin hélt áfram. – Post. 15:30, 31; 16:4, 5.

12. Hvað sýnir að skipulag og friður ríkir í söfnuði Jehóva nú á dögum?

12 Nú á dögum. Söfnuður Jehóva hefur unnið að því að viðhalda skipulagi og friði á meðal þjóna hans. Í Zion’s Watch Tower and Herald of Christ’s Presence frá 15. nóvember 1895 var birt grein sem heitir „Sómasamlega og á skipulegan hátt“, en hún byggðist á 1. Korintubréfi 14:40. Í greininni segir: „Postularnir skrifuðu frumkristna söfnuðinum margt varðandi skipulag ... Það er mikilvægt að halda áfram að fara vel eftir því sem ,áður var skrifað til að við gætum lært af því‘.“ (Rómv. 15:4) Rétt eins og á fyrstu öld vinnur söfnuður Jehóva nú á dögum hörðum höndum að því að viðhalda skipulagi og friði. Tökum dæmi: Ef þú værir viðstaddur Varðturnsnám í öðrum söfnuði – jafnvel í öðru landi – myndirðu vita fyrir fram hvernig námið færi fram og hvaða grein yrði farið yfir. Þú myndir strax kunna vel við þig. Aðeins andi Guðs getur staðið að baki slíkri einingu. – Sef. 3:9.

13. Hvers ættum við að spyrja okkur með Jakobsbréfið 3:17 í huga?

13 Það sem þú getur gert. Jehóva hvetur okkur til að „varðveita einingu andans í bandi friðarins“. (Ef. 4:1–3) Spyrðu þig þess vegna: Stuðla ég að einingu og friði í söfnuðinum? Hlýði ég þeim sem fara með forystuna? Geta aðrir reitt sig á mig, sérstaklega ef ég gegni ábyrgðarstörfum í söfnuðinum? Er ég stundvís, hjálpsamur og fús til að þjóna öðrum? (Lestu Jakobsbréfið 3:17.) Ef þú sérð að þú þarft að bæta þig skaltu biðja um heilagan anda. Því betur sem þú leyfir honum að móta persónuleika þinn og hafa áhrif á það sem þú gerir því vænna þykir bræðrum og systrum um þig og því betur kunna þau að meta þig.

JEHÓVA KENNIR OKKUR OG GEFUR OKKUR ÞAÐ SEM VIÐ ÞURFUM

14. Hvernig kenndi Jehóva þjónum sínum á fyrstu öld samkvæmt Kólossubréfinu 1:9, 10?

14 Á fyrstu öld. Jehóva hefur mikla ánægju af að kenna þjónum sínum. (Sálm. 32:8) Hann vill að þeir þekki hann, elski hann og lifi að eilífu sem elskuð börn hans. Ekkert af því væri hægt án kennslunnar sem hann gefur okkur. (Jóh. 17:3) Jehóva notaði frumkristna söfnuðinn til að kenna þjónum sínum. (Lestu Kólossubréfið 1:9, 10.) Heilagur andi – „hjálparinn“ sem Jesús lofaði – gegndi lykilhlutverki í því. (Jóh. 14:16) Hann hjálpaði lærisveinunum að skilja orð Guðs og minnti þá á allt það sem Jesús sagði og gerði, en það var seinna skrifað í guðspjöllin. Þessi þekking styrkti trú kristinna manna á fyrstu öld og jók kærleika þeirra til Guðs, til sonar hans og hver til annars.

15. Hvernig hefur þú séð Jehóva uppfylla loforð sitt í Jesaja 2:2, 3?

15 Nú á dögum. Jehóva sagði fyrir að „á hinum síðustu dögum“ (Biblían 1981) myndi fólk af öllum þjóðum safnast saman á táknrænu fjalli hans til að fá kennslu um vegu hans. (Lestu Jesaja 2:2, 3.) Við sjáum þennan spádóm rætast núna. Sönn tilbeiðsla hefur verið hafin langt yfir hvers kyns falstrú. Þvílík andleg veisla sem Jehóva býður til! (Jes. 25:6) Fyrir milligöngu ,hins trúa og skynsama þjóns‘ gefur hann okkur ekki bara meira en nóg af upplýsingum heldur eru þær líka í fjölbreytilegu formi. Við getum til dæmis lesið greinar, hlustað á ræður og horft á teiknimyndir og myndbönd. (Matt. 24:45) Okkur líður eins og Elíhú vini Jobs sem sagði réttilega: „Hver getur kennt eins og [Guð]?“ – Job. 36:22.

Láttu sannleikann festa rætur í hjarta þínu og heimfærðu hann upp á líf þitt. (Sjá 16. grein.) *

16. Hvernig geturðu tekið framförum í trúnni?

16 Það sem þú getur gert. Andi Guðs hjálpar þér að nota það sem þú lest og hugleiðir í orði Guðs. Biddu eins og sálmaritarinn: „Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ (Sálm. 86:11) Haltu því áfram að nærast á andlegu fæðunni sem Jehóva gefur okkur í orði sínu og söfnuðinum. Markmið þitt er auðvitað ekki aðeins að afla þér þekkingar. Þú vilt láta sannleikann festa rætur í hjarta þínu og heimfæra hann upp á líf þitt. Andi Jehóva getur hjálpað þér að gera það. Þú vilt líka hvetja bræður þína og systur. (Hebr. 10:24, 25) Þú vilt gera það vegna þess að þau eru andleg fjölskylda þín. Biddu um anda Guðs til að hjálpa þér að gefa einlæg svör á samkomum og að gera þitt allra besta þegar þú ert með verkefni. Þannig sýnirðu Jehóva og syni hans að þú elskar dýrmæta sauði þeirra. – Jóh. 21:15–17.

17. Hvernig geturðu sýnt að þú styðjir söfnuð Jehóva trúfastlega?

17 Bráðlega verður söfnuðurinn sem andi Guðs leiðir sá eini sem eftir er á jörðinni. Starfaðu því af kappi með söfnuði Jehóva. Endurspeglaðu kærleika Guðs, sem mismunar ekki fólki, með því að boða öllum sem þú hittir fagnaðarboðskapinn. Líktu eftir áhuga hans á skipulagi og friði með því að stuðla að einingu í söfnuðinum. Og hlustaðu á hinn mikla kennara með því að nýta þér til fulls andlega veisluborðið sem hann býður til. Þá finnurðu ekki til ótta þegar heimur Satans líður undir lok. Þú stendur öllu heldur hugrakkur meðal þeirra sem þjóna Jehóva trúfastlega í söfnuði hans.

SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust

^ gr. 5 Ertu sannfærður um að Jehóva leiði söfnuð sinn nú á dögum? Í þessari grein skoðum við hvernig Jehóva leiddi söfnuð sinn á fyrstu öld og hvernig hann heldur áfram að leiða þjóna sína nú á dögum.

^ gr. 1 ORÐASKÝRING: Í alheimssöfnuði Jehóva er bæði jarðneskur hluti og himneskur. Þegar talað er um söfnuð í þessari grein er átt við jarðneska hlutann.

^ gr. 52 MYND: Brautryðjandasystir horfir á myndbönd og fylgist með öðrum sem þjóna í löndum þar sem þörfin er meiri og það hvetur hana til að fylgja fordæmi þeirra. Hún nær að lokum markmiði sínu að þjóna á slíku svæði.