Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 44

Munu börnin ykkar þjóna Guði þegar þau eru orðin fullorðin?

Munu börnin ykkar þjóna Guði þegar þau eru orðin fullorðin?

„Jesús þroskaðist jafnt og þétt að viti og vexti og bæði Guð og menn fengu sífellt meiri mætur á honum.“ – LÚK. 2:52.

SÖNGUR 134 Ykkur er trúað fyrir börnunum

YFIRLIT *

1. Hver er besta ákvörðunin sem nokkur getur tekið?

OFT hafa ákvarðanir foreldra áhrif á börnin um langan tíma. Ef þeir taka slæmar ákvarðanir getur það skapað vandamál fyrir börnin. En ef þeir taka viturlegar ákvarðanir stuðla þeir að því að börnin eigi mestan möguleika á hamingjusömu lífi. Börn verða þó líka sjálf að taka góðar ákvarðanir. Besta ákvörðun sem nokkur getur tekið er að þjóna ástríkum föður okkar, Jehóva. – Sálm. 73:28.

2. Hvaða góðu ákvarðanir tóku Jesús og foreldrar hans?

2 Foreldrar Jesú vildu hjálpa börnunum sínum að þjóna Jehóva og ákvarðanir þeirra sýndu að það var meginmarkmið þeirra sjálfra í lífinu. (Lúk. 2:40, 41, 52) Jesús tók líka góðar ákvarðanir sem hjálpuðu honum að gera vilja Jehóva. (Matt. 4:1–10) Jesús varð vingjarnlegur, tryggur og hugrakkur maður – þess konar sonur sem myndi fylla alla guðrækna foreldra stolti og gleði.

3. Hvaða spurningum verður svarað í þessari grein?

3 Í þessari grein skoðum við eftirfarandi spurningar: Hvaða góðu ákvarðanir tók Jehóva varðandi Jesú? Hvað geta foreldrar í söfnuðinum lært af því sem Jósef og María ákváðu að gera? Og hvað getur ungt fólk í söfnuðinum lært af ákvörðunum Jesú?

LÆRIÐ AF JEHÓVA

4. Hvaða mikilvægu ákvörðun tók Jehóva varðandi son sinn?

4 Jehóva valdi framúrskarandi foreldra fyrir Jesú. (Matt. 1:18–23; Lúk. 1:26–38) Einlæg orð Maríu sem er að finna í Biblíunni sýna hversu innilega hún elskaði Jehóva og orð hans. (Lúk. 1:46–55) Og viðbrögð Jósefs við leiðsögn Jehóva sýna að hann elskaði hann og vildi gleðja hann. – Matt. 1:24.

5, 6. Við hverju hlífði Jehóva ekki Jesú?

5 Það er eftirtektarvert að Jehóva valdi ekki ríka foreldra til að ala Jesú upp. Fórnin sem Jósef og María færðu eftir fæðingu hans gefur til kynna að þau voru fátæk. (Lúk. 2:24) Jósef vann sem smiður, hugsanlega á litlu verkstæði nálægt heimili sínu í Nasaret. Þau hljóta að hafa lifað einföldu lífi, sérstaklega þegar fjölskyldan stækkaði og börnin urðu að minnsta kosti sjö. – Matt. 13:55, 56.

6 Jehóva verndaði Jesú fyrir vissum hættum en hann hlífði honum samt ekki við öllum erfiðleikum. (Matt. 2:13–15) Sumir ættingjar Jesú trúðu ekki á hann. Ímyndaðu þér vonbrigðin að sumir í fjölskyldunni viðurkenndu hann í fyrstu ekki sem Messías. (Mark. 3:21; Jóh. 7:5) Og Jesús þurfti að öllum líkindum að horfa upp á það að missa Jósef fósturföður sinn. Það hefur ef til vill haft í för með sér að hann, elsti sonurinn, þurfti að sjá um fjölskyldureksturinn. (Mark. 6:3) Þegar Jesús ólst upp lærði hann að bera ábyrgð á fjölskyldunni. Hann hefur líklega þurft að leggja hart að sér til að sjá henni farborða. Hann vissi því hvernig það er að vera líkamlega þreyttur í lok dags.

Foreldrar, búið börnin ykkar undir vandamál lífsins með því að hjálpa þeim að leita ráða í orði Guðs. (Sjá 7. grein.) *

7. (a) Hvaða spurninga varðandi barnauppeldi væri gagnlegt fyrir foreldra að spyrja sig? (b) Hvernig getur það sem kemur fram í Orðskviðunum 2:1–6 hjálpað foreldrum í uppeldinu?

7 Ef þið eruð hjón og langar til að eignast börn skuluð þið spyrja ykkur: Erum við auðmjúkt, andlega sinnað fólk sem Jehóva myndi velja til að annast dýrmætt nýfætt barn? (Sálm. 127:3, 4) Ef þú ert foreldri skaltu spyrja þig: Kenni ég börnunum mínum gildi þess að vera vinnusamur? (Préd. 3:12, 13) Geri ég mitt besta til að vernda börnin mín fyrir líkamlegum og siðferðilegum hættum í heimi Satans? (Orðskv. 22:3) Þú getur ekki verndað börnin þín fyrir öllum þeim erfiðleikum sem verða á vegi þeirra. Það er ekki vinnandi vegur. En þú getur á kærleiksríkan hátt haldið áfram að búa þau undir að takast á við vandamál lífsins með því að hjálpa þeim að leita ráða í orði Guðs. (Lestu Orðskviðina 2:1–6.) Ef ættingi hættir að þjóna Jehóva skaltu nota Biblíuna til að hjálpa börnunum þínum að skilja hvers vegna það er svo mikilvægt að sýna Jehóva trúfesti. (Sálm. 31:24) Ef þið missið ástvin skaltu sýna börnunum hvernig þið getið notað orð Guðs til að takast á við sorg og öðlast innri frið. – 2. Kor. 1:3, 4; 2. Tím. 3:16.

LÆRIÐ AF JÓSEF OG MARÍU

8. Hvað þurftu Jósef og María að gera, samanber 5. Mósebók 6:6, 7?

8 Foreldrar Jesú ólu hann upp og hjálpuðu honum hafa velþóknun Jehóva. Þau fylgdu leiðbeiningum Jehóva til foreldra. (Lestu 5. Mósebók 6:6, 7.) Jósef og María elskuðu Jehóva innilega og markmið þeirra var að innprenta börnum sínum að gera slíkt hið sama.

9. Hvað gerðu Jósef of María sem var mjög mikilvægt?

9 Jósef og María tilbáðu Jehóva að staðaldri ásamt börnum sínum. Þau sóttu vafalaust vikulegar samkomur í samkunduhúsinu í Nasaret og hina árlegu páskahátíð í Jerúsalem. (Lúkas 2:41; 4:16) Þau hafa kannski notað þessar ferðir til Jerúsalem til að kenna Jesú og systkinum hans sögu Ísraelsþjóðarinnar og heimsækja staði sem er minnst á í Biblíunni. Eftir því sem börnin urðu fleiri hefur það án efa verið erfitt fyrir Jósef og Maríu að hafa góða reglu á tilbeiðslunni. En það veitti þeim blessun. Þau gátu haldið sig nálægt Jehóva vegna þess að þau höfðu tilbeiðsluna á honum í fyrsta sæti.

10. Hvað geta foreldrar í söfnuðinum lært af Jósef og Maríu?

10 Hvað geta guðhræddir foreldrar lært af Jósef og Maríu? Mikilvægast er að þið kennið börnunum ykkar í orði og verki að þið elskið Jehóva. Mesta gjöfin sem þið getið gefið þeim er að hjálpa þeim að elska Jehóva. Það er mikilvægt að þið kennið þeim að biðja reglulega og hafa góða reglu á sjálfsnámi, samkomum og boðuninni. (1. Tím. 6:6) Þið þurfið auðvitað að sjá börnunum fyrir efnislegum nauðsynjum. (1. Tím. 5:8) En munið að það er náið samband við Jehóva en ekki efnislegar eigur sem hjálpar þeim að lifa af endalok þessa gamla heims og komast inn í nýjan heim Guðs. * – Esek. 7:19; 1. Tím. 4:8.

Það er ánægjulegt að sjá foreldra í söfnuðinum taka góðar ákvarðanir til að hjálpa börnunum sínum að nálægja sig Jehóva! (Sjá 11. grein.) *

11. (a) Hvernig hjálpa ráðin í 1. Tímóteusarbréfi 6:17–19 foreldrum að taka góðar ákvarðanir í uppeldinu? (b) Hvaða markmið gæti fjölskyldan þín skoðað og hvaða blessun gætuð þið hlotið? (Sjá rammann „ Hvaða markmið hafið þið?“)

11 Það er ánægjulegt að sjá svo marga foreldra í söfnuðinum taka góðar ákvarðanir til að hjálpa börnunum sínum að nálægja sig Jehóva. Fjölskyldur tilbiðja Jehóva stöðuglega saman og sækja samkomur og mót. Og þær taka þátt í að boða trúna. Sumar fjölskyldur hafa jafnvel getað boðað trúna á svæðum þar sem er sjaldan starfað. Aðrar heimsækja Betelheimili eða styðja byggingarverkefni á vegum safnaðarins. Þessar fjölskyldur þurfa að færa fjárhagslegar fórnir og það getur verið erfitt á köflum. En Jehóva umbunar þeim ríkulega. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:17–19.) Börn sem alast upp í slíkum fjölskyldum halda oft áfram góðum venjum og sjá ekki eftir neinu. – Orðskv. 10:22.

LÆRIÐ AF JESÚ

12. Hvað þurfti Jesús sjálfur að gera þegar hann varð eldri?

12 Himneskur faðir Jesú tekur alltaf viturlegar ákvarðanir og María og Jósef tóku líka góðar ákvarðanir. En þegar Jesús varð eldri þurfti hann að taka eigin ákvarðanir. (Gal. 6:5) Hann hafði frjálsan vilja eins og við. Hann hefði getað tekið ákvarðanir eftir eigin höfði. Þess í stað kaus hann að eiga gott samband við Jehóva. (Jóh. 8:29) Hvernig getur fordæmi hans hjálpað ungu fólki nú til dags?

Þið unga fólk, hafnið aldrei leiðsögn foreldra ykkar. (Sjá 13. grein.) *

13. Hvaða mikilvægu ákvörðun tók Jesús þegar hann var enn ungur?

13 Þegar Jesús var ungur drengur valdi hann að hlýða foreldrum sínum. Hann óhlýðnaðist þeim aldrei eða þóttist vita betur heldur „var þeim hlýðinn áfram“. (Lúk. 2:51) Jesús tók án efa alvarlega þá ábyrgð sem fylgdi því að vera elsti sonurinn. Hann hefur því lagt hart að sér til að læra smíði af Jósef svo að hann gæti hjálpað til við að sjá fyrir fjölskyldunni.

14. Hvernig vitum við að Jesús var duglegur að rannsaka orð Guðs?

14 Foreldrar Jesú sögðu honum líklega að hann hefði fæðst fyrir kraftaverk og hvað sendiboðar Guðs hefðu sagt um hann. (Lúk. 2:8–19, 25–38) En hann lét það ekki nægja heldur rannsakaði Ritningarnar sjálfur. Hvernig vitum við að Jesús var duglegur að rannsaka orð Guðs? Vegna þess að þegar hann var enn ungur voru kennararnir í Jerúsalem „forviða á skilningi hans og svörum“. (Lúk. 2:46, 47) Og þegar Jesús var aðeins 12 ára hafði hann þegar sannað fyrir sjálfum sér að Jehóva væri faðir sinn. – Lúk. 2:42, 43, 49.

15. Hvernig sýndi Jesús að hann kaus að gera vilja Jehóva?

15 Þegar Jesús skildi hvað Jehóva ætlaðist til af honum kaus hann að gera vilja hans. (Jóh. 6:38) Jesús vissi að margir myndu hata sig og það hlýtur að hafa verið honum alvarlegt umhugsunarefni. Hann kaus samt að hlýða Jehóva. Þegar Jesús skírðist árið 29 var honum mikilvægast að gera það sem Jehóva krafðist af honum. (Hebr. 10:5–7) Jafnvel þegar hann var að deyja á kvalastaur var hann staðráðinn í að gera vilja föður síns. – Jóh. 19:30.

16. Hvað er eitt af því sem börn geta lært af Jesú?

16 Hlýddu foreldrum þínum. Foreldrar þínir eru ekki fullkomnir frekar en Jósef og María. En Jehóva hefur samt falið þeim að vernda þig, kenna þér og leiðbeina. Ef þú hlustar á ráð þeirra og virðir yfirvald þeirra ,mun þér ganga vel‘. – Ef. 6:1–4.

17. Hvaða ákvörðun þarf ungt fólk að taka samkvæmt Jósúabók 24:15?

17 Ákveddu hverjum þú ætlar að þjóna. Þú þarft að sanna fyrir sjálfum þér hver Jehóva er, hver vilji hans er og hvernig þú getur gert vilja hans. (Rómv. 12:2) Þá ertu fær um að taka mikilvægustu ákvörðun lífs þíns, að þjóna Jehóva. (Lestu Jósúabók 24:15; Préd. 12:1) Ef þú hefur góða reglu á biblíulestri og sjálfsnámi mun kærleikur þinn til Jehóva eflast og trú þín styrkjast.

18. Hvaða ákvörðun þarf ungt fólk að taka og hvaða blessun hefur það í för með sér?

18 Veldu að setja vilja Jehóva framar öllu öðru í lífinu. Heimur Satans staðhæfir að þú verðir hamingjusamur ef þú notar hæfileika þína í eigin þágu. En sannleikurinn er sá að þeir sem einblína á efnisleg gæði ,valda sjálfum sér miklum þjáningum‘. (1. Tím. 6:9, 10) Ef þú á hinn bóginn velur að setja vilja Jehóva í fyrsta sæti verður líf þitt innihaldsríkt og ,þér farnast vel‘. – Jós. 1:8.

HVAÐ VELUR ÞÚ AÐ GERA?

19. Hvað þurfa foreldrar að muna?

19 Foreldrar, gerið ykkar besta til að hjálpa börnunum ykkar að þjóna Jehóva. Reiðið ykkur á hann og hann mun hjálpa ykkur að taka viturlegar ákvarðanir. (Orðskv. 3:5, 6) Munið að það sem þið gerið hefur meiri áhrif á börnin en það sem þið segið. Takið því ákvarðanir sem hjálpa börnunum að hljóta velþóknun Jehóva.

20. Hvaða blessun hlýtur ungt fólk ef það velur að þjóna Jehóva?

20 Þið unga fólk, foreldrar ykkar geta hjálpað ykkur að taka viturlegar ákvarðanir. En þið þurfið sjálf að taka þær til að gleðja kærleiksríkan Guð okkar. Líkið því eftir Jesú og veljið að þjóna himneskum föður okkar. Þá mun líf ykkar vera innihaldsríkt og spennandi. (1. Tím. 4:16) Og í framtíðinni munuð þið eiga besta líf sem hugsast getur!

SÖNGUR 133 Tilbiðjum Jehóva á æskuárunum

^ gr. 5 Foreldrar í söfnuðinum vilja að börnin sín verði hamingjusamir þjónar Jehóva. Hvað geta foreldrar gert til að hjálpa börnunum sínum að ná því markmiði? Hvað þarf ungt fólk í söfnuðinum að gera til að njóta sannrar velgengni í lífinu? Þessum spurningum er svarað í greininni.

^ gr. 65 MYND: María hlýtur að hafa kennt Jesú að elska Jehóva þegar hann var ungur. Mæður nú á dögum geta sömuleiðis kennt börnum sínum að elska Jehóva.

^ gr. 67 MYND: Jósef hlýtur að hafa þótt mikilvægt að fara í samkunduhúsið ásamt fjölskyldunni sinni. Feðrum nú á dögum ætti að finnast mikilvægt að sækja safnaðarsamkomur ásamt fjölskyldunni.

^ gr. 69 MYND: esús lærði nytsamlega iðn af Jósef föður sínum. Ungt fólk nú á dögum getur lært ýmislegt af feðrum sínum.