Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Byggðu aftur upp sambandið við Jehóva

Byggðu aftur upp sambandið við Jehóva

Á HVERJU ári koma margir dýrmætir sauðir aftur í söfnuð Guðs. Ímyndaðu þér ,fögnuðinn á himni‘ þegar hver og einn þeirra snýr til baka! (Lúk. 15:7, 10) Ef þú hefur verið tekinn inn í söfnuðinn á ný geturðu verið viss um að Jesús, englarnir og Jehóva sjálfur eru himinlifandi yfir því að þú sért aftur hluti af söfnuðinum. En þegar þú byggir aftur upp sambandið við Jehóva geta komið upp vandamál. Hver eru sum þeirra og hvað getur hjálpað þér?

HVAÐA VANDAMÁL GETA KOMIÐ UPP?

Margir glíma við neikvæðar tilfinningar þegar þeir snúa aftur til safnaðarins. Þú skilur ef til vill hvernig Davíð konungi leið. Jafnvel eftir að honum hafði verið fyrirgefin synd hans sagði hann: „Syndir mínar bera mig ofurliði.“ (Sálm. 65:3, NW; 40:13) Sumir finna fyrir sektarkennd í mörg ár eftir að hafa snúið aftur til Jehóva. Isabelle var vikið úr söfnuðinum og tilheyrði honum ekki í meira en 20 ár. * Hún sagði: „Ég átti mjög erfitt með að trúa því að Jehóva gæti fyrirgefið mér.“ Ef þú missir kjarkinn getur samband þitt við Jehóva veikst aftur. (Orðskv. 24:10) Reyndu að láta það ekki gerast.

Aðrir óttast að þeir geti ekki gert allt sem þarf til að eiga náið samband við Jehóva aftur. Eftir að hafa verið tekinn inn í söfnuðinn á ný sagði Antoine: „Mér fannst ég hafa gleymt öllu sem ég hafði lært og gert þegar ég var vottur áður.“ Sumir gætu þess vegna hikað við að taka fullan þátt í þjónustu Jehóva.

Tökum dæmi. Maður á hús sem hefur orðið fyrir miklum skemmdum í fellibyl. Honum geta fallist hendur þegar hann hugsar um allan tímann sem það tekur að endurbyggja það. Á líkan hátt gæti þér fundist það krefjast óhemju mikillar vinnu að byggja aftur upp sambandið við Jehóva ef þú hefur syndgað alvarlega. En þér býðst hjálp.

Jehóva býður okkur: „Komið, vér skulum eigast lög við.“ (Jes. 1:18) Þú hefur þegar lagt hart að þér til að leiðrétta málin. Jehóva elskar þig fyrir það. Hugsaðu þér! Þú hefur gefið Jehóva tækifæri til að gefa Satan kröftugt svar við ásökunum hans. – Orðskv. 27:11.

Með þessu hefurðu þegar nálgast Jehóva og hann lofar að nálgast þig á móti. (Jak. 4:8) Það er gott fyrir aðra að sjá að þú ert kominn aftur í söfnuðinn. En það er fleira sem þú þarft að gera. Þú þarft að styrkja kærleika þinn til föður þíns og vinar, Jehóva. Hvernig gerirðu það?

SETTU ÞÉR SANNGJÖRN MARKMIÐ

Reyndu að setja þér sanngjörn markmið. Grundvöllurinn að sambandi þínu við Jehóva – þekking þín á honum og loforð hans um framtíðina – er líklega enn þá til staðar. En þú þarft að koma á góðri dagskrá aftur, en hún felur meðal annars í sér að boða fagnaðarboðskapinn og sækja samkomur reglulega og hafa samskipti við bræður þína og systur. Skoðaðu eftirfarandi markmið.

Talaðu oft við Jehóva. Faðir þinn skilur að það getur verið erfitt að biðja til hans ef þú ert enn þá með sektarkennd. (Rómv. 8:26) Haltu samt áfram að biðja og segðu Jehóva hversu heitt þú þráir vináttu hans. (Rómv. 12:12) Andrej rifjar upp: „Ég fann fyrir gríðarlegri sektarkennd og skömm. En með hverri bæninni dró úr þessum tilfinningum. Ég fann til meiri friðar.“ Ef þú veist ekki hvernig þú átt að biðja skaltu skoða bænir sem Davíð konungur bað iðrunarfullur og er að finna í Sálmi 51 og 65.

Rannsakaðu Biblíuna reglulega. Það styrkir trú þína og kærleikur þinn til Jehóva vex. (Sálm. 19:8–12) „Ástæðan fyrir því að sambandið við Jehóva veiktist og ég brást honum var upphaflega sú að ég las ekki og rannsakaði Biblíuna að staðaldri,“ segir Felipe. „Ég vildi ekki gera sömu mistökin aftur þannig að ég ákvað að gera sjálfsnám að venju.“ Þú getur gert það líka. Þú getur spurt þroskaðan vin um hjálp ef þig vantar hentugt viðfangsefni fyrir sjálfsnámið.

Byggðu aftur upp sambandið við bræður þína og systur. Sumir sem snúa aftur til safnaðarins óttast að aðrir séu neikvæðir í þeirra garð. Larissa viðurkennir: „Ég skammaðist mín mjög mikið. Mér fannst ég hafa svikið söfnuðinn. Ég átt lengi í vandræðum með þetta.“ Þú getur verið viss um að öldungarnir og önnur þroskuð trúsystkini vilja gjarnan hjálpa þér að byggja upp sambandið við Jehóva. (Sjá rammagreinina „ Hvað geta öldungarnir gert?“) Það gleður þá innilega að þú skulir snúa aftur til safnaðarins og þeir vilja að þér farnist vel. – Orðskv. 17:17.

Hvað getur hjálpað þér að verða nánari söfnuðinum? Taktu fullan þátt í því sem bræður og systur eru að gera, það er að segja að sækja samkomur og taka reglulega þátt í boðuninni. Hvernig hjálpar það? Felix segir: „Söfnuðurinn hlakkaði til að fá mig aftur. Ég fann að ég var dýrmætur. Allir hjálpuðu mér að vera hluti af fjölskyldunni aftur, að finna að mér hafði verið fyrirgefið og að ég gæti litið fram á veginn“. – Sjá rammann „ Hvað geturðu gert?

GEFSTU EKKI UPP!

Satan reynir að láta fleiri „fellibylji“ verða á vegi þínum til að veikja þig og hindra þig í að byggja aftur upp sambandið við Jehóva. (Lúk. 4:13) Vertu tilbúinn núna til að styrkja samband þitt við hann.

Jehóva lofar varðandi sauði sína: „Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða.“ (Esek. 34:16) Jehóva hefur hjálpað óteljandi öðrum að endurheimta sambandið við sig. Þú getur verið viss um að hann vill hjálpa þér líka að byggja upp sífellt sterkara samband.

^ gr. 4 Nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.