Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 40

Hvað er sönn iðrun?

Hvað er sönn iðrun?

,Ég er kominn til að hvetja syndara til að iðrast.‘ – LÚK. 5:32.

SÖNGUR 36 Varðveitum hjartað

YFIRLIT *

1, 2. Hvað var ólíkt með konungunum tveim og hvaða spurningar skoðum við?

SKOÐUM sögu tveggja konunga sem voru uppi til forna. Annar ríkti yfir tíuættkvíslaríkinu Ísrael og hinn yfir tveggjaættkvíslaríkinu Júda. Þeir voru ekki uppi á sama tíma en þeir áttu margt sameiginlegt. Báðir konungarnir gerðu uppreisn gegn Jehóva og höfðu spillandi áhrif á þjóð hans. Báðir voru þeir skurðgoðadýrkendur og morðingjar. En það var munur á þessum tveim mönnum. Annar þeirra hélt áfram að gera illskuverk allt sitt líf en hinn iðraðist og honum var fyrirgefið fyrir það hræðilega sem hann gerði. Hverjir voru þeir?

2 Þetta voru þeir Akab Ísraelskonungur og Manasse Júdakonungur. Þegar við skoðum muninn á þessum tveim mönnum kemur eitthvað mikilvægt í ljós varðandi iðrun. (Post. 17:30; Rómv. 3:23) Hvað er iðrun og hvernig sýnum við hana? Við þurfum að vita það vegna þess að við viljum að Jehóva fyrirgefi okkur syndir okkar. Til að fá svar skoðum við frásögur af þessum tveim konungum og það sem við getum lært af þeim. Síðan skoðum við hvað Jesús kenndi okkur um iðrun.

HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT AF FRÁSÖGUNNI UM AKAB KONUNG?

3. Hvers konar konungur var Akab?

3 Akab var sjöundi konungurinn í tíuættkvíslaríkinu Ísrael. Hann giftist Jesebel, dóttur konungsins í Sídon, en þjóðin í þessu landi í norðri var auðug. Hjónabandið hefur hugsanlega fært Ísrael umtalsvert ríkidæmi. En það spillti enn frekar sambandi þjóðarinnar við Jehóva. Jesebel var Baalsdýrkandi og fékk Akab til að stuðla að viðbjóðslegri trú sem fól meðal annars í sér musterisvændi og jafnvel barnafórnir. Enginn spámaður Jehóva var öruggur meðan Jesebel var drottning. Hún lét drepa marga þeirra. (1. Kon. 18:13) Akab sjálfur ,vann verri óhæfuverk í augum Drottins en nokkur fyrirrennara hans‘. (1. Kon. 16:30) Það sem Akab og Jesebel voru að gera fór ekki fram hjá Jehóva. Hann vissi nákvæmlega hvað var í gangi. En Jehóva sýndi samt miskunn og sendi spámanninn Elía til að vara fólk sitt við og hvetja það til að snúa við áður en það yrði of seint. En Akab og Jesebel neituðu að hlusta.

4. Hvernig sagðist Jehóva ætla að refsa Akab og hvernig brást Akab við?

4 Á endanum var þolinmæði Jehóva á þrotum. Hann sendi Elía til að kveða upp dóm yfir Akab og Jesebel. Öll ættin yrði þurrkuð út. Orð Elía voru mikið áfall fyrir Akab. Öllum að óvörum auðmýkti þessi hrokafulli maður sig. – 1. Kon. 21:19–29.

Akab konungur varpaði spámanni Guðs í fangelsi og sýndi þannig að hann iðraðist ekki í einlægni. (Sjá 5. og 6. grein.) *

5, 6. Hvað gefur til kynna að Akab hafi ekki iðrast einlæglega?

5 Þótt Akab hafi sýnt auðmýkt við þetta tækifæri sýndi hegðun hans síðar að hann hafði ekki iðrast í einlægni. Hann reyndi ekki að fjarlægja Baalsdýrkun úr ríki sínu. Og hann stuðlaði ekki að tilbeiðslu á Jehóva. En það var fleira sem sýndi að Akab hafði ekki iðrast.

6 Síðar bað Akab Jósafat, konung í Júda, um liðstyrk í stríði gegn Sýrlendingum. Jósafat var góður konungur sem treysti á Jehóva. Og hann vildi spyrja spámann Jehóva hvað þeir ættu að gera áður en þeir færu í orrustuna. En Akab hafnaði þeirri hugmynd og sagði: „Enn er einn eftir. Hjá honum getum við leitað úrskurðar Drottins. En ég hata hann því að hann spáir mér aldrei góðu heldur illu einu.“ Þeir ráðfærðu sig samt við Míka spámann. En eins og Akab óttaðist hafði spámaður Guðs slæmar fréttir að færa honum. Í stað þess að iðrast og leita fyrirgefningar Jehóva lét Akab varpa spámanninum í fangelsi. (1. Kon. 22:7–9, 23, 27) Konunginum tókst að fangelsa spámann Jehóva en honum tókst ekki að koma í veg fyrir að spádómurinn rættist. Akab féll í orrustunni. – 1. Kon. 22:34–38.

7. Hvernig lýsti Jehóva Akab eftir dauða hans?

7 Eftir að Akab dó lét Jehóva í ljós hvaða álit hann hafði á honum. Þegar hinn góði konungur Jósafat kom til baka heilu og höldnu sendi Jehóva spámanninn Jehú til að ávíta hann fyrir að hafa gert bandalag við Akab. Spámaður Jehóva sagði: „Ber þér að hjálpa hinum guðlausa og vingast við þá sem hata Drottin?“ (2. Kron. 19:1, 2) Jehóva hefði ekki kallað Akab guðlausan syndara sem hataði hann ef Akab hefði iðrast í einlægni. Það er greinilegt að iðrun hans var ekki ósvikin þótt hann hafi iðrast að einhverju leyti.

8. Hvað getum við lært um iðrun af frásögunni um Akab?

8 Hvað lærum við af frásögunni um Akab? Þegar Elía sagði Akab að fjölskyldu hans yrði refsað sýndi hann auðmýkt. Þetta var góð byrjun en það sem hann gerði síðar sýndi að iðrunin náði ekki til hjartans. Að iðrast felur því meira í sér en að segja að manni þyki það leitt sem maður hefur gert. Skoðum annað dæmi sem hjálpar okkur að skilja hvað sönn iðrun felur í sér.

HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT AF FRÁSÖGUNNI UM MANASSE KONUNG?

9. Hvers konar konungur var Manasse?

9 Um tveim öldum síðar varð Manasse konungur í Júda. Syndir hans voru jafnvel enn alvarlegri en syndir Akabs. Í Biblíunni segir: „Hann gerði margt sem illt var í augum Drottins og vakti reiði hans.“ (2. Kron. 33:1–9) Manasse byggði ölturu fyrir heiðna guði. Og hann kom Asérulíkneski, líklega notað í kynlífsdýrkun, fyrir í heilögu musteri Jehóva! Hann iðkaði galdur, spákukl og seið. Hann úthellti líka ,miklu saklausu blóði‘. Hann drap margt fólk og lét jafnvel sína eigin syni „ganga gegnum eld“ þegar hann færði falsguðum fórnir. – 2. Kon. 21:6, 7, 10, 11, 16.

10. Hvernig agaði Jehóva Manasse og hvernig brást hann við aganum?

10 Rétt eins og Akab neitaði Manasse að hlusta á ráðin sem Jehóva sendi honum fyrir milligöngu spámanna sinna. Að lokum „sendi Drottinn hershöfðingja Assýríukonungs gegn þeim. Þeir náðu Manasse með krókum, lögðu hann í eirhlekki og sendu hann til Babýlonar“. Manasse fór greinilega að hugsa sinn gang þegar hann var fangi í ókunnu landi. „Hann auðmýkti sig mjög frammi fyrir Guði feðra sinna.“ Hann gekk jafnvel lengra. Hann sárbændi Jehóva Guð sinn um miskunn. Og Manasse hélt áfram að biðja til hans. Þessi vondi maður var að breytast. Hann fór að líta á Jehóva sem „Guð sinn“ og bað stöðugt til hans. – 2. Kron. 33:10–13.

Manasse konungur sýndi að hann iðraðist einlæglega með því að berjast gegn falskri tilbeiðslu. (Sjá 11. grein.) *

11. Hvernig sýndi Manasse að hann iðraðist í einlægni samkvæmt 2. Kroníkubók 33:15, 16?

11 Að því kom að Jehóva svaraði bænum Manasse. Hann sá að þessi maður hafði virkilega breyst en það kom fram í bænum hans. Innilegar bænir Manasse snertu Jehóva og hann leyfði honum að verða konungur aftur. Manasse gerði sitt besta til að sýna fram á að hann hafði iðrast í einlægni. Hann gerði það sem Akab gerði ekki. Hann sýndi í verki að hann hafði breyst. (Lestu 2. Kroníkubók 33:15, 16.) Hann barðist gegn falskri tilbeiðslu og stuðlaði að sannri tilbeiðslu. Það kallaði sannarlega á hugrekki og trú því að Manasse hafði haft slæm áhrif á fjölskyldu sína, höfðingja og þjóð í áratugi. En þegar Manasse var orðinn gamall reyndi hann að bæta fyrir sumt af því slæma sem hann hafði gert. Líklega hafði hann góð áhrif á ungan sonarson sinn, Jósía, en hann varð síðar mjög góður konungur. – 2. Kon. 22:1, 2.

12. Hvað kennir frásagan af Manasse okkur um iðrun?

12 Hvað lærum við af frásögunni um Manasse? Hann sýndi auðmýkt. Og ekki nóg með það, hann sárbændi Guð um miskunn og breytti hegðun sinni. Hann lagði sig allan fram við að bæta skaðann sem hann hafði valdið og leitaðist við að tilbiðja Jehóva og hjálpa öðrum að gera það líka. Saga Manasse sýnir að jafnvel þeir sem hafa syndgað mjög alvarlega eiga von. Hún staðfestir að Jehóva Guð er „góður og fús til að fyrirgefa“. (Sálm. 86:5) Jehóva fyrirgefur þeim sem iðrast í einlægni.

13. Nefndu dæmi sem hjálpar okkur að skilja nokkuð mikilvægt um iðrun.

13 Manasse gerði meira en að sjá eftir syndum sínum. Það segir okkur nokkuð mikilvægt um iðrun. Segjum að þú farir út í bakarí til að kaupa köku. En í staðinn fyrir að rétta þér köku, réttir afgreiðslustúlkan þér egg. Værirðu ánægður með það? Auðvitað ekki! Myndi það eitthvað hjálpa ef afgreiðslustúlkan segði að eggið væri mikilvægur hluti af kökunni? Það væri ekkert skárra. Eins væntir Jehóva þess að syndari iðrist einlæglega. Það er gott ef hann sér eftir því ranga sem hann hefur gert. Þetta er mikilvægur þáttur iðrunar en nægir ekki. Hvað fleira þarf að koma til? Við lærum margt af dæmisögu sem Jesús sagði og snerti marga.

HVERNIG KEMUR SÖNN IÐRUN Í LJÓS?

Þegar týndi sonurinn kom til sjálfs sín hélt hann af stað í langa ferð heim. (Sjá 14. og 15. grein.) *

14. Hvernig sýndi týndi sonurinn í dæmisögu Jesú fyrst merki um iðrun?

14 Jesús sagði uppörvandi sögu um þrjóskan son sem er að finna í Lúkasi 15:11–32. Ungur maður gerði uppreisn gegn föður sínum, fór að heiman og „ferðaðist til fjarlægs lands“. Þar lifði hann siðlausu lífi. En þegar lífið varð erfitt fór hann að hugsa sinn gang. Hann áttaði sig á því að líf hans hafði verið langtum betra heima hjá föður hans. Ungi maðurinn „kom til sjálfs sín“, eins og Jesús orðaði það. Hann ákvað að fara aftur heim og biðja föður sinn fyrirgefningar. Það var mikilvægt að sonurinn skyldi átta sig á því að hann hafði tekið margar slæmar ákvarðanir. En var það nóg? Nei. Hann þurfti að gera eitthvað.

15. Hvernig sýndi týndi sonurinn í dæmisögu Jesú að iðrun hans væri ósvikin?

15 Týndi sonurinn sýndi einlæga iðrun vegna þess ranga sem hann hafði gert. Hann ferðaðist langa leið heim. Hann fór til föður síns og sagði: „Ég hef syndgað gegn himninum og gegn þér. Ég á ekki lengur skilið að kallast sonur þinn.“ (Lúk. 15:21) Einlæg játning unga mannsins gaf til kynna að hann vildi endurheimta gott samband við Jehóva. Hann gerði sér líka grein fyrir að það sem hann gerði hafði sært föður hans. Og hann var tilbúinn til að leggja mikið á sig til að sættast við föður sinn og var jafnvel fús til að vera einn af daglaunamönnum hans. (Lúk. 15:19) Þessi dæmisaga er meira en hvetjandi saga. Hún undirstrikar meginreglur sem nýtast safnaðaröldungum þegar þeir reyna að finna út hvort einhver sem hefur syndgað alvarlega sýni sanna iðrun.

16. Hvers vegna getur verið erfitt fyrir öldunga að átta sig á því hvort einstaklingur hafi iðrast í einlægni?

16 Það er ekki auðvelt fyrir öldungana að átta sig á því hvort einhver sem hefur framið alvarlega synd iðrist í einlægni. Hvers vegna? Öldungarnir geta ekki lesið hjörtu svo að þeir verða að reyna að greina merki þess að hann hafi breytt algerlega um sjónarmið gagnvart syndinni. Í sumum tilfellum gæti einhver syndgað svo gróflega að öldungarnir sem tala við hann sannfærast ekki um að hann hafi iðrast í einlægni.

17. (a) Hvaða dæmi sýnir að einstaklingur iðrast ekki endilega í einlægni þótt hann segist sjá eftir því sem hann gerði? (b) Hvers er vænst af þeim sem iðrast einlæglega, eins og kemur fram í 2. Korintubréfi 7:11?

17 Lítum á dæmi. Bróðir heldur fram hjá eiginkonu sinni í mörg ár. Í stað þess að leita sér hjálpar leynir hann siðlausri hegðun sinni fyrir eiginkonu sinni, vinum og öldungunum. Að lokum kemur hið sanna í ljós. Þegar öldungarnir segja honum að þeir hafi sannanir fyrir framhjáhaldinu viðurkennir hann það sem hann hefur gert og virðist jafnvel sjá mjög mikið eftir því. Er það nóg? Í slíku tilfelli þyrftu öldungarnir að sjá meira en eftirsjá. Þetta var ekki augnabliks dómgreindarleysi heldur iðkaði hann synd í mörg ár. Syndarinn játaði ekki sjálfur syndir sínar. Það komst upp um hann. Öldungarnir þyrftu að sjá sannanir fyrir því að hann væri raunverulega búinn að breyta hugarfari, löngunum og hegðun. (Lestu 2. Korintubréf 7:11.) Það gæti tekið hann umtalsverðan tíma að gera nauðsynlegar breytingar. Honum yrði líklega vikið úr kristna söfnuðinum en yrði tekinn inn í hann á ný eftir að hafa sýnt fram á iðrun sína. – 1. Kor. 5:11–13; 6:9, 10.

18. Hvernig getur sá sem hefur verið vikið úr söfnuðinum sýnt einlæga iðrun og með hvaða árangri?

18 Sá sem hefur verið vikið úr söfnuðinum getur sýnt að hann hefur iðrast í einlægni með því að sækja samkomur reglulega og fylgja leiðbeiningum öldunganna um að hafa góða reglu á bæn og sjálfsnámi. Hann gerir líka allt sem hann getur til að forðast aðstæður sem gætu leitt hann út í synd aftur. Ef hann leggur hart að sér að endurheimta sambandið við Jehóva getur hann verið viss um að Jehóva fyrirgefur honum algerlega og að öldungarnir hjálpa honum að koma aftur til safnaðarins. Þegar öldungarnir reyna að komast að því hvort einhver iðrast einlæglega gera þeir sér grein fyrir því að hvert tilfelli er einstakt. Þeir rannsaka því hvert tilfelli vandlega og forðast að vera dómharðir.

19. Hvað felur sönn iðrun í sér? (Esekíel 33:14–16)

19 Eins og við höfum séð felur sönn iðrun meira í sér en að segja að maður sjái eftir því að hafa framið alvarlega synd. Hún felur einnig í sér að leggja sig einlæglega fram um að breyta hugarfari og löngunum og sýna það í verki. Það þýðir meðal annars að hætta rangri hegðun og fara að hlýða Jehóva aftur. (Lestu Esekíel 33:14–16.) Það sem er mikilvægast fyrir þann sem syndgar er að endurheimta gott samband við Jehóva.

HVETJUM SYNDARA TIL AÐ IÐRAST

20, 21. Hvernig getum við hjálpað þeim sem hefur drýgt alvarlega synd?

20 Jesús benti á mikilvægan þátt í þjónustu sinni þegar hann sagði: ,Ég er kominn til að hvetja syndara til að iðrast.‘ (Lúk. 5:32) Það ætti einnig að vera löngun okkar. Segjum að við komumst að því að náinn vinur okkar hefur drýgt alvarlega synd. Hvað ættum við að gera?

21 Það myndi bara skaða vin okkar ef við reyndum að hylma yfir syndinni með honum. Það ber hvort eð er aldrei árangur því að Jehóva fylgist alltaf með. (Orðskv. 5:21, 22; 28:13) Þú getur hjálpað vini þínum með því að minna hann á að öldungarnir vilja hjálpa honum. Ef vinur þinn neitar að tala við öldungana ættir þú að tala við þá. Þannig sýnirðu að þú vilt hjálpa honum. Samband hans við Jehóva er í húfi.

22. Hvað ræðum við í næstu grein?

22 Hvað ef einhver hefur syndgað svo lengi og alvarlega að öldungarnir ákveða að það þurfi að víkja honum úr söfnuðinum? Merkir það að þeir hafi ekki sýnt honum miskunn? Í næstu grein skoðum við betur hvernig Jehóva sýnir miskunn þegar hann agar syndara og hvernig við getum líkt eftir honum.

SÖNGUR 103 Hirðarnir eru gjafir frá Guði

^ gr. 5 Ef við iðrumst einlæglega segjum við ekki bara að okkur þyki leitt að við höfum syndgað. Með því að skoða frásögurnar af Akab konungi, Manasse konungi og týnda syninum í dæmisögu Jesú sjáum við betur hvað sönn iðrun felur í sér. Við skoðum einnig hvað öldungar þurfa að hafa í huga þegar þeir vega og meta hvort bróðir eða systir sem hefur drýgt alvarlega synd iðrast í einlægni.

^ gr. 60 MYND: Akab konungur skipar reiður varðmönnum sínum að varpa Míka í fangelsi.

^ gr. 62 MYND: Manasse konungur segir verkamönnum hvernig þeir eigi að eyðileggja líkneski sem hann setti upp í musterinu.

^ gr. 64 MYND: Úrvinda eftir langt ferðalag er týnda syninum létt þegar hann kemur auga á heimili sitt.