Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 41

Þú getur fundið sanna hamingju

Þú getur fundið sanna hamingju

„Sá er hamingjusamur sem ber lotningu fyrir Jehóva, sá sem gengur á vegum hans.“ – SÁLM. 128:1.

SÖNGUR 110 Gleði Jehóva

YFIRLIT a

1. Hver er andleg þörf okkar og hvernig tengist hún hamingjunni?

 SÖNN hamingja er ekki einfaldlega gleðitilfinning sem kemur og fer. Hún getur varað alla ævi. Jesús sagði í fjallræðunni: „Þeir sem skynja andlega þörf sína eru hamingjusamir.“ (Matt. 5:3) Jesús vissi að mönnum var ásköpuð sterk þörf til að þekkja og tilbiðja skapara sinn, Jehóva Guð. Og þar sem Jehóva er „hinn hamingjusami Guð“ geta þeir sem tilbiðja hann einnig verið hamingjusamir. – 1. Tím. 1:11.

„Þeir sem hafa verið ofsóttir fyrir að gera rétt eru hamingjusamir.“ – Matt. 5:10. (Sjá 2. og 3. grein.) d

2, 3. (a) Hverjir geta líka verið hamingjusamir að sögn Jesú? (b) Hvað ræðum við í þessari námsgrein og af hverju?

2 Þurfum við að búa við kjöraðstæður til að vera hamingjusöm? Nei. Í fjallræðunni sagði Jesús nokkuð sem gæti komið á óvart. „Þeir sem syrgja“ – annað hvort vegna þess að þeir eru niðurbrotnir vegna synda sinna eða vegna þess að þeir búa við erfiðar aðstæður – geta verið hamingjusamir. Jesús sagði það sama um þá „sem hafa verið ofsóttir fyrir að gera rétt“ og þá sem eru smánaðir vegna þess að þeir eru fylgjendur Krists. (Matt. 5:4, 10, 11) Hvernig er hægt að vera hamingjusamur við slíkar kringumstæður?

3 Jesús var ekki að kenna að við þyrftum að hafa fullkomnar aðstæður til að geta verið hamingjusöm heldur að hamingjan hlytist af því að fullnægja andlegri þörf okkar og nálgast Guð. (Jak. 4:8) Hvernig getum við gert það? Í þessari námsgrein skoðum við þrennt sem leiðir til sannrar hamingju.

NÆRUMST Á ANDLEGRI FÆÐU

4. Hvað þurfum við að gera til að vera hamingjusöm? (Sálmur 1:1–3)

4 Í fyrsta lagi: Við þurfum að nærast á andlegri fæðu til að vera hamingjusöm. Bæði menn og dýr þurfa bókstaflega fæðu til að lifa. En aðeins menn geta meðtekið andlega fæðu. Og þeir þurfa á henni að halda. Það er ástæðan fyrir því að Jesús sagði: „Maðurinn lifir ekki aðeins á brauði heldur á hverju orði sem kemur af munni Jehóva.“ (Matt. 4:4) Við ættum ekki að láta dag líða án þess að neyta andlegrar fæðu frá dýrmætu orði Guðs, Biblíunni. Sálmaskáldið sagði: ,Sá maður er hamingjusamur sem hefur yndi af lögum Jehóva og les þau dag og nótt.‘ – Lestu Sálm 1:1–3.

5, 6. (a) Hvað lærum við í Biblíunni? (b) Hvernig getur biblíulestur hjálpað okkur?

5 Jehóva elskar okkur og hefur þess vegna sagt okkur í Biblíunni hvað við þurfum að gera til að lifa hamingjuríku lífi. Í henni lærum við hver tilgangur lífsins er. Við lærum hvernig við getum nálgast Jehóva og fengið fyrirgefningu synda okkar. Og við kynnumst loforði hans um dásamlega framtíð. (Jer. 29:11) Þessi sannindi fylla hjörtu okkar gleði.

6 Við vitum líka að Biblían inniheldur fjölmargar gagnlegar leiðbeiningar fyrir daglegt líf. Við erum hamingjusöm þegar við fylgjum þeim. Þegar þú ert niðurdreginn vegna erfiðleika lífsins skaltu lesa meira í orði Jehóva og hugleiða efni þess. Jesús sagði: ,Þeir sem heyra orð Guðs og fara eftir því eru hamingjusamir.‘ – Lúk. 11:28.

7. Hvernig geturðu haft sem mest gagn af því að lesa í orði Guðs?

7 Þegar þú lest í orði Guðs skaltu taka þér tíma til að njóta þess. Tökum dæmi: Segjum að einhver eldi uppáhaldsréttinn þinn. Þú gleypir hann í þig án þess að njóta hvers munnbita, annaðhvort af því að þú ert að flýta þér eða ert annars hugar. Þegar þú ert búinn áttarðu þig á því hve mikið þú flýttir þér og óskar þess að þú hefðir tekið þér meiri tíma og notið matarins. Hefur þú einhvern tíma lesið Biblíuna í svo miklum flýti að þú greipst ekki boðskap hennar? Taktu þér tíma til að njóta þess að lesa orð Guðs. Sjáðu fyrir þér umhverfið, ímyndaðu þér raddir fólks og hugsaðu um það sem þú hefur lesið. Þú eykur hamingju þína ef þú lest þannig.

8. Hvernig sinnir ,trúi og skynsami þjónninn‘ hlutverki sínu? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

8 Jesús útnefndi ,trúan og skynsaman þjón‘ til að sjá okkur fyrir mat á réttum tíma og það er vel séð um okkur. b (Matt. 24:45) Innblásið orð Guðs er meginuppistaðan í því efni sem trúi þjónninn útbýr fyrir okkur. (1. Þess. 2:13) Þessi andlega fæða hjálpar okkur því að kynnast huga Jehóva eins og hann birtist í Biblíunni. Þess vegna lesum við tímaritin Varðturninn og Vaknið! og greinar sem birtast á jw.org. Við undirbúum okkur fyrir samkomuna í miðri viku og helgarsamkomuna. Og við horfum á mánaðarþáttinn í Sjónvarpi Votta Jehóva ef okkur stendur það til boða. Að neyta nægilegs magns andlegrar fæðu auðveldar okkur að gera annað sem stuðlar að sannri hamingju.

LIFUM EFTIR MÆLIKVARÐA JEHÓVA

9. Hvað annað stuðlar að sannri hamingju?

9 Í öðru lagi: Við þurfum að lifa eftir mælikvarða Jehóva til að vera hamingjusöm. Sálmaskáldið skrifaði: „Sá er hamingjusamur sem ber lotningu fyrir Jehóva, sá sem gengur á vegum hans.“ (Sálm. 128:1) Að óttast Jehóva merkir að við virðum hann svo mikils að við forðumst að gera nokkuð sem honum mislíkar. (Orðskv. 16:6) Við höldum áfram að gera okkar besta til að fylgja mælikvarða Jehóva um rétt og rangt eins og hann kemur fram í Biblíunni. (2. Kor. 7:1) Við erum hamingjusöm ef við gerum það sem Jehóva elskar og höfnum því sem hann hatar. – Sálm. 37:27; 97:10; Rómv. 12:9.

10. Hvaða ábyrgð höfum við samkvæmt Rómverjabréfinu 12:2?

10 Lestu Rómverjabréfið 12:2. Þótt einhver viti að Jehóva hefur vald til að ákveða hvað sé rétt og rangt þarf hann að ákveða að fylgja mælikvarða Guðs sjálfur. Maður gæti til dæmis vitað að stjórnvöld hafa rétt til að setja reglur um hraðatakmörk á vegum en vill kannski ekki fylgja þeim. Þá keyrir hann trúlega hraðar en hann ætti að gera. Við sýnum með breytni okkar að við trúum því einlæglega að besti lífsmátinn sé að fylgja mælikvarða Jehóva. (Orðskv. 12:28) Davíð fannst það því að hann sagði um Jehóva: „Þú kynntir fyrir mér veg lífsins. Það fyllir mig gleði að vera nærri þér, við hægri hönd þína verð ég hamingjusamur að eilífu.“ – Sálm. 16:11.

11, 12. (a) Hverju þurfum við að vara okkur á ef við erum niðurdregin eða glímum við erfiðleika? (b) Hvernig getur það sem kemur fram í Filippíbréfinu 4:8 hjálpað okkur að velja afþreyingu?

11 Þegar við erum niðurdregin eða glímum við erfiðleika gætum við farið að leita að flóttaleið. Það er skiljanlegt en við þurfum að vara okkur á því sem Jehóva hatar. – Ef. 5:10–12, 15–17.

12 Í bréfi Páls postula til Filippímanna hvetur hann þá til að halda áfram að hugleiða það sem er „rétt … hreint … elskuvert … [og] dyggð“. (Lestu Filippíbréfið 4:8.) Þótt Páll hafi ekki sérstaklega verið að skrifa um afþreyingu ætti það sem hann segir að hafa áhrif á hvers konar afþreyingu við veljum. Prófaðu þetta: Þegar orðið „allt“ kemur fyrir í versinu skaltu setja í staðinn orðið „tónlist“, „bíómyndir“, „skáldsögur“ eða „tölvuleikir“. Þetta getur hjálpað þér að átta þig á því hvort það sem þú velur sé ásættanlegt í augum Guðs eða ekki. Við viljum fylgja háleitum mælikvarða Jehóva. (Sálm. 119:1–3) Þá getum við með góðri samvisku beint athyglinni að enn einu sem stuðlar að sannri hamingju. – Post. 23:1.

SETJUM TILBEIÐSLUNA Á JEHÓVA Í FYRSTA SÆTI

13. Hvað fleira stuðlar að sannri hamingju? (Jóhannes 4:23, 24)

13 Í þriðja lagi: Vertu viss um að tilbeiðslan á Jehóva sé í fyrsta sæti í lífi þínu. Jehóva er skapari okkar og verðskuldar tilbeiðslu okkar. (Opinb. 4:11; 14:6, 7) Að tilbiðja Jehóva eins og hann vill – „í anda og sannleika“ – ætti því að vera það mikilvægasta í lífi okkar. (Lestu Jóhannes 4:23, 24.) Við viljum að heilagur andi Guðs leiðbeini okkur í tilbeiðslunni svo að hún sé í samræmi við þau sannindi sem er að finna í orði hans. Tilbeiðslan þarf að koma í fyrsta sæti í lífi okkar, jafnvel í löndum þar sem hömlur eru á starfi okkar eða það bannað. Yfir 100 bræðra okkar og systra sitja nú í fangelsi einfaldlega vegna þess að þau eru vottar Jehóva. c Þau gera samt með gleði allt sem í þeirra valdi stendur til að biðja, rannsaka Biblíuna og segja öðrum frá Guði og ríki hans. Þegar við verðum fyrir smán eða ofsóknum getum við verið glöð, vitandi að Jehóva er með okkur og mun umbuna okkur. – Jak. 1:12; 1. Pét. 4:14.

FORDÆMI ÚR NÚTÍMANUM

14. Hverju varð ungur bróðir í Tadsíkistan fyrir og hvers vegna?

14 Dæmin sanna að þetta þrennt sem við höfum skoðað leiðir til sannrar hamingju, óháð aðstæðum okkar. Skoðum hvað henti hinn 19 ára gamla Dzhovídon Bobodzhonov frá Tadsíkistan en hann neitaði að gegna herþjónustu. Hann var numinn á brott frá heimili sínu þann 4. október 2019, sat í varðhaldi svo mánuðum skipti og komið var fram við hann eins og glæpamann. Þessi óréttláta meðferð vakti alþjóðlega athygli. Það kom fram að hann hafði verið barinn og beittur þrýstingi til að sverja hollustueið og klæðast hermannabúningi. Hann var síðan sakfelldur og sendur í vinnubúðir og var þar þangað til forseti landsins náðaði hann og skipaði að hann yrði látinn laus. Dzhovídon varðveitti ráðvendni sína og hamingju í gegnum alla þessa prófraun. Hvernig? Með því að vera alltaf meðvitaður um andlega þörf sína.

Dzhovídon neytti andlegrar fæðu, lifði eftir mælikvarða Guðs og setti tilbeiðsluna á Jehóva í fyrsta sæti í lífi sínu. (Sjá 15.–17. grein.)

15. Hvernig gat Dzhovídon neytt andlegrar fæðu meðan hann var í fangelsi?

15 Á meðan Dzhovídon var í fangelsi neytti hann andlegrar fæðu, jafnvel þótt hann hefði enga biblíu eða biblíutengd rit. Hvernig fór hann að því? Bræður og systur á svæðinu færðu honum mat og skrifuðu dagstextann á innkaupapokana. Þannig gat hann lesið Biblíuna og hugleitt efni hennar á hverjum degi. Eftir að hann var leystur úr fangelsi hafði hann þetta ráð handa þeim sem hafa ekki enn staðið andspænis miklum prófraunum: „Það er brýnt að nota til fulls frelsið sem maður hefur til að auka við þekkinguna á Jehóva með því að lesa í Biblíunni og ritum okkar.“

16. Hvað hafði Dzhovídon hugann við?

16 Bróðir okkar lifði eftir mælikvarða Jehóva. Hann hafði hugann við Jehóva og það sem er mikilvægt í augum hans frekar en að dvelja við rangar langanir og leiðast út í ranga hegðun. Dzhovídon dáðist að fegurðinni í sköpunarverki Guðs. Hann vaknaði á hverjum morgni við fuglasöng. Á kvöldin horfði hann á tunglið og stjörnurnar. Hann sagði: „Þessar gjafir frá Jehóva veittu mér gleði og uppörvun.“ Ef við erum þakklát fyrir andlegar og efnislegar gjafir Jehóva fyllir það hjarta okkar gleði og sú gleði styrkir okkur til að halda út.

17. Hvernig á það sem segir í 1. Pétursbréfi 1:6, 7 við þá sem upplifa svipaðar aðstæður og Dzhovídon?

17 Dzhovídon setti líka tilbeiðsluna á Jehóva í fyrsta sæti. Hann skildi mikilvægi þess að vera trúfastur hinum sanna Guði. Jesús sagði: „Þú skalt tilbiðja Jehóva Guð þinn og honum einum skaltu veita heilaga þjónustu.“ (Lúk. 4:8) Herforingjar og hermenn vildu að Dzhovídon afneitaði trú sinni. En hann bað Jehóva ákaft dag og nótt um hjálp til að gefast ekki upp og hvika ekki frá trú sinni. Dzhovídon lét ekki undan þrátt fyrir óréttláta meðferð. Fyrir vikið getur hann glaðst yfir því að hafa nokkuð sem hann hafði ekki áður en hann var tekinn af heimili sínu með valdi, barinn og fangelsaður – reynda trú. – Lestu 1. Pétursbréf 1:6, 7.

18. Hvernig getum við viðhaldið hamingju okkar?

18 Jehóva veit hvers við þörfnumst til að vera hamingjusöm. Ef þú fylgir leiðbeiningunum í þessari námsgrein geturðu verið hamingjusamur þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Þá getur þú líka sagt: „Sú þjóð sem á Jehóva að Guði er hamingjusöm.“ – Sálm. 144:15.

SÖNGUR 89 Hlustið, hlýðið og hljótið blessun

a Margir eiga erfitt með að finna sanna hamingju vegna þess að þeir leita hennar á röngum stöðum með því að skemmta sér, safna auði eða sækjast eftir frama eða völdum. En þegar Jesús var á jörðinni sagði hann hvernig ætti að finna hana. Í þessari námsgrein skoðum við þrennt sem getur hjálpað okkur að finna sanna hamingju.

b Sjá greinina „Færðu ,mat á réttum tíma‘?“ í Varðturninum 15. ágúst 2014.

c Sjá „Imprisoned for Their Faith“ á jw.org til að fá frekari upplýsingar.

d MYND: Sviðsett mynd þar sem trúsystkini sýna bróður stuðning þegar hann er handtekinn og leiddur fyrir rétt.