Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 42

Þeir sem eru ráðvandir Jehóva eru hamingjusamir

Þeir sem eru ráðvandir Jehóva eru hamingjusamir

„Þeir sem eru ráðvandir … eru hamingjusamir, þeir sem lifa eftir lögum Jehóva.“ – SÁLM. 119:1, neðanmáls.

SÖNGUR 124 Sýnum tryggð

YFIRLIT a

Sum okkar hugrökku bræðra og systra sem hafa verið eða eru í fangelsi fyrir hollustu sína við drottinvald Jehóva. (Sjá grein 1 og 2.)

1, 2. (a) Hvernig hafa sumar ríkisstjórnir komið fram við þjóna Jehóva en hvernig bregðast þeir við? (b) Hvernig getum við verið hamingjusöm, jafnvel þótt við séum ofsótt? (Lýstu því sem þú sérð á forsíðumyndinni.)

 ÞESSA stundina eru hömlur á starfi okkar eða það bannað í yfir 30 löndum. Í sumum þessara landa hafa yfirvöld sett bræður okkar og systur í fangelsi. Hvað gerðu þau af sér? Ekkert, að mati Jehóva. Þau hafa aðeins lesið og rannsakað Biblíuna, sagt öðrum frá trú sinni og sótt samkomur ásamt trúsystkinum sínum. Þau hafa líka neitað að taka afstöðu í pólitískum málum. Þrátt fyrir harða andstöðu hafa þessir trúföstu þjónar Guðs varðveitt ráðvendni b sína. Þeir hafa sýnt Jehóva órjúfanlega hollustu. Og það veitir þeim gleði.

2 Þú hefur líklega séð myndir af sumum þessara hugrökku votta og tekið eftir brosinu á andlitum þeirra. Þau eru glöð vegna þess að þau vita að Jehóva er ánægður með þau fyrir að vera honum ráðvönd. (1. Kron. 29:17a) Jesús sagði: „Þeir sem hafa verið ofsóttir fyrir að gera rétt eru hamingjusamir … Gleðjist og fagnið ákaflega því að laun ykkar eru mikil.“ – Matt. 5:10–12.

FORDÆMI TIL EFTIRBREYTNI

Pétur og Jóhannes settu þjónum Guðs nú á dögum sem eru leiddir fyrir rétt og verja trú sína gott fordæmi. (Sjá 3. og 4. grein.)

3. Hvernig brugðust postularnir við ofsóknum á fyrstu öld eins og kemur fram í Postulasögunni 4:19, 20 og hvers vegna?

3 Þessi trúsystkini okkar upplifa það sem postularnir þurftu að þola á fyrstu öld þegar þeir voru ofsóttir fyrir að segja frá Jesú. Dómarar Æðstaráðs Gyðinga bönnuðu þeim ítrekað „að tala í nafni Jesú“. (Post. 4:18; 5:27, 28, 40) Hvernig brugðust postularnir við? (Lestu Postulasöguna 4:19, 20.) Þeir vissu að æðri yfirvöld höfðu skipað sér að „boða fólki og útskýra vandlega“ boðskapinn um Jesú. (Post. 10:42) Fulltrúar þeirra, þeir Pétur og Jóhannes, sögðu þess vegna hugrakkir að þeir myndu hlýða Guði frekar en þessum dómurum og lýstu því yfir að þeir myndu ekki hætta að tala um Jesú. Það má segja að þeir hafi spurt stjórnvöld eftirfarandi spurningar: Dirfist þið að segja að fyrirskipanir ykkar séu æðri fyrirskipunum Guðs?

4. Hvaða fordæmi settu postularnir öllum sannkristnum mönnum eins og kemur fram í Postulasögunni 5:27–29 og hvernig getum við líkt eftir þeim?

4 Postularnir sýndu gott fordæmi með því „að hlýða Guði frekar en mönnum“. Sannkristnir menn hafa síðan þá fylgt fordæmi þeirra. (Lestu Postulasöguna 5:27–29.) Eftir að postularnir höfðu verið barðir fyrir að varðveita ráðvendni sína fóru þeir burt frá Æðstaráði Gyðinga, „glaðir yfir því að teljast þess verðir að vera vanvirtir vegna nafns [Jesú]“ og þeir héldu áfram að boða trúna. – Post. 5:40–42.

5. Hvaða spurningum þurfum við að fá svör við?

5 Fordæmi postulanna vekur nokkrar spurningar. Hvernig samræmist til dæmis ákvörðun þeirra að hlýða Guði frekar en mönnum fyrirmælum Biblíunnar um að vera „undirgefnir yfirvöldum“? (Rómv. 13:1) Hvernig getum við „verið hlýðin stjórnvöldum og yfirvöldum“ eins og Páll postuli sagði og á sama tíma varðveitt ráðvendni okkar við Guð sem æðsta yfirvald okkar? – Tít. 3:1.

YFIRVÖLDIN

6. (a) Hver eru yfirvöldin í Rómverjabréfinu 13:1 og hvaða skyldur höfum við gagnvart þeim? (b) Hvað á við um alla valdhafa á jörðinni?

6 Lestu Rómverjabréfið 13:1. Í þessu versi vísar orðið „yfirvöld“ til stjórnvalda sem fara með völd yfir öðrum hér á jörðinni. Þjónar Guðs eru undirgefnir þessum yfirvöldum. Þau viðhalda röð og reglu, sjá til þess að lögum sé fylgt og koma jafnvel stundum þjónum Jehóva til varnar. (Opinb. 12:16) Við ættum því að gefa þeim það sem þau fara fram á, eins og skatt, toll, virðingu og heiður. (Rómv. 13:7) En veraldleg stjórnvöld fara aðeins með völd vegna þess að Jehóva leyfir það. Jesús sýndi skýrt fram á það þegar hann var yfirheyrður af rómverska landstjóranum Pontíusi Pílatusi. Þegar Pílatus vísaði í vald sitt til að þyrma lífi Jesú eða láta taka hann af lífi sagði Jesús: „Þú hefðir ekkert vald yfir mér ef þér hefði ekki verið gefið það að ofan.“ (Jóh. 19:11) Vald allra valdhafa og stjórnmálamanna er takmarkað rétt eins og í tilfelli Pílatusar.

7. Hvenær eigum við ekki að hlýða ráðamönnum og hverju ættu þeir ekki að gleyma?

7 Þjónar Guðs hlýða lögum stjórnvalda þegar þau brjóta ekki í bága við lög Guðs. En við getum ekki hlýtt mönnum ef þeir krefjast einhvers sem Guð bannar eða banna eitthvað sem Guð fer fram á. Þeir gætu til dæmis farið fram á að ungir menn vopnbúist og berjist fyrir þjóðina. c Þeir gætu bannað Biblíuna okkar og biblíutengd rit og skipað okkur að hætta að boða trúna og tilbiðja Jehóva saman. Þegar ráðamenn misnota vald sitt, eins og þegar þeir ofsækja lærisveina Krists, verða þeir að standa Guði reikningsskap. Jehóva fylgist með. – Préd. 5:8.

8. Hver er munurinn á „æðra“ og „æðsta“ þegar kemur að valdi og hvers vegna skiptir það máli?

8 Yfirvöld manna fara með æðra vald en ekki æðsta valdið. Jehóva Guð er sá sem fer með æðsta valdið. Í Biblíunni er hann nokkrum sinnum kallaður ,Hinn æðsti‘. – Dan. 7:18, 22, 25, 27. d

,HINN ÆÐSTI‘

9. Hvað sá spámaðurinn Daníel í sýnum?

9 Daníel spámaður sá sýnir sem sýna greinilega að Jehóva hefur meiri völd en öll önnur yfirvöld. Daníel sá fyrst fjögur risastór dýr sem tákna heimsveldi fyrr og síðar – Babýlon, Medíu-Persíu, Grikkland, Róm og það sem ríkir nú á dögum, ensk-ameríska heimsveldið. (Dan. 7:1–3, 17) Síðan sá Daníel Jehóva Guð sitjandi í hásæti í himneskum hirðsölum. (Dan. 7:9, 10) Það sem spámaðurinn sá því næst ætti að vera valdhöfum á jörðinni nú á dögum til viðvörunar.

10. Hverjum gefur Jehóva vald yfir jörðinni samkvæmt Daníel 7:13, 14, 27 og hvað sýnir það um hann?

10 Lestu Daníel 7:13, 14, 27. Guð tekur allt vald frá ríkisstjórnum manna og gefur það öðrum sem verðskulda það frekar og eru máttugri. Hverjir eru það? Einhver ,áþekkur mannssyni‘, Jesús Kristur, og ,hinir heilögu Hins æðsta‘, hinar 144.000 sem munu ríkja „um aldir alda“. (Dan. 7:18) Jehóva er greinilega ,Hinn æðsti‘ vegna þess að hann einn hefur vald til að framkvæma slíkt.

11. Hvað fleira skrifaði Daníel sem sýnir að Jehóva hefur æðsta vald yfir þjóðunum?

11 Það sem Daníel sá í sýn kemur heim og saman við það sem hann sagði áður. Hann sagði að Guð himnanna ,svipti konunga völdum og kæmi konungum til valda‘. Hann bætti við: „Hinn æðsti er alvaldur yfir ríki mannanna … hann fær ríkið hverjum sem hann vill.“ (Dan. 2:19–21; 4:14) Hefur Jehóva svipt konunga völdum eða komið þeim til valda? Svo sannarlega.

Jehóva tók konungdóm Belsassars frá honum og gaf hann í hendur Medum og Persum. (Sjá 12. grein.)

12. Nefndu dæmi um það hvernig Jehóva hefur svipt konunga völdum áður fyrr. (Sjá mynd.)

12 Jehóva hefur greinilega sýnt að hann fer með æðsta vald yfir yfirvöldunum. Lítum á þrjú dæmi. Faraó Egyptalands hneppti þjóð Jehóva í þrældóm og neitaði ítrekað að leysa hana. En Guð frelsaði þjóðina og drekkti faraó í Rauðahafinu. (2. Mós. 14:26–28; Sálm. 136:15) Belsassar konungur í Babýlon hélt veislu og ,storkaði Drottni himnanna‘ og ,vegsamaði guði úr silfri og gulli‘ í stað Jehóva. (Dan. 5:22, 23) En Guð auðmýkti þennan hrokafulla mann. Þessa sömu nótt var Belsassar drepinn og ríki hans fengið í hendur Medum og Persum. (Dan. 5:28, 30; 6:1) Heródes Agrippa fyrsti, konungur í Palestínu, lét drepa Jakob postula og síðan setja Pétur postula í fangelsi með það fyrir augum að drepa hann líka. En Jehóva kom í veg fyrir að Heródes gæti gert það. „Engill Jehóva sló hann“ og hann dó. – Post. 12:1–5, 21–23.

13. Nefndu dæmi um það hvernig Jehóva sigraði bandalög valdhafa.

13 Jehóva hefur líka sýnt valdhöfum sem hafa gert með sér bandalag að hann fer með æðsta valdið. Hann barðist fyrir Ísraelsmenn og gerði þeim kleift að sigra bandalag 31 konungs í Kanaanslandi og leggja undir sig stóran hluta fyrirheitna landsins. (Jós. 11:4–6, 20; 12:1, 7, 24) Jehóva sigraði líka Benhadad konung og 32 aðra valdhafa Sýrlands sem börðust við Ísrael. – 1. Kon. 20:1, 26–29.

14, 15. (a) Hvað sögðu konungarnir Nebúkadnesar og Daríus um drottinvald Jehóva? (b) Hvað sagði sálmaskáldið um Jehóva og þjóð hans?

14 Jehóva hefur sýnt aftur og aftur að hann er æðstur. Þegar Nebúkadnesar konungur Babýlonar gortaði af ,veldisstyrk sínum til dýrðar hátign sinni‘ í stað þess að viðurkenna auðmjúkur að Jehóva ætti skilið heiðurinn svipti Guð hann vitinu. Þegar hann var aftur orðinn heill lofaði hann „Hinn æðsta“ og viðurkenndi að veldi Jehóva væri „eilíft veldi“. Hann bætti við: „Enginn getur hamlað hendi hans.“ (Dan. 4:27, 30–32) Þegar ráðvendni Daníels við Jehóva hafði verið reynd og Jehóva hafði bjargað honum úr ljónagryfjunni sagði Daríus konungur: ,Menn skulu óttast og virða Guð Daníels. Hann er hinn lifandi Guð og varir að eilífu. Ríki hans hrynur ekki og vald hans mun engan enda taka.‘ – Dan. 6:8–11, 20–23, 27, 28.

15 Sálmaskáldið sagði: „Jehóva hefur ónýtt ráðagerðir þjóðanna, gert áform þeirra að engu.“ Hann bætti við: „Sú þjóð er hamingjusöm sem á Jehóva að Guði, fólkið sem hann kaus að gera að eign sinni.“ (Sálm. 33:10, 12) Við höfum ríka ástæðu til að varðveita ráðvendni okkar við Jehóva.

ÚRSLITAORRUSTAN

Bandalag þjóða mun ekki eiga neitt í himneskar hersveitir Jehóva! (Sjá 16. og 17. grein.)

16. Hvað getum við verið viss um varðandi þrenginguna miklu og hvers vegna? (Sjá mynd.)

16 Við höfum séð hvað Jehóva hefur gert áður fyrr. Hvers megum við vænta í náinni framtíð? Við getum treyst því að Jehóva bjargi trúföstum þjónum sínum í þrengingunni miklu. (Matt. 24:21; Dan. 12:1) Hann gerir það þegar bandalag þjóða, Góg í Magóg, gerir grimmilega allsherjarárás á þá sem þjóna Jehóva trúfastir. Jafnvel þótt allar 193 aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna séu í bandalaginu er það máttlaust gagnvart ,Hinum æðsta‘ og hersveitum hans á himni. Jehóva lofar: ,Ég mun sýna að ég er mikill og heilagur og gera mig kunnan í augsýn margra þjóða. Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.‘ – Esek. 38:14–16, 23; Sálm. 46:10.

17. Hvað verður um konunga jarðarinnar samkvæmt Biblíunni og hvað verður um þá sem varðveita ráðvendni sína við Jehóva?

17 Árás Gógs kemur af stað úrslitaorrustu Jehóva við Harmagedón þegar hann eyðir ,konungum allrar heimsbyggðarinnar‘. (Opinb. 16:14, 16; 19:19–21) Hins vegar ,munu hinir réttlátu einir búa á jörðinni og hinir ráðvöndu verða þar áfram‘. – Orðskv. 2:21.

VIÐ VERÐUM AÐ VARÐVEITA RÁÐVENDNI OKKAR

18. Hvað hafa margir sannkristnir menn verið tilbúnir að gera og hvers vegna? (Daníel 3:28)

18 Í gegnum aldirnar hafa margir sannkristnir menn hætt frelsi sínu og jafnvel lífi vegna þess að þeir elskuðu Jehóva og virtu drottinvald hans. Þeir hafa varðveitt ráðvendni sína eins og Hebrearnir þrír sem var bjargað frá eldsofninum fyrir að víkja ekki frá trúfesti sinni gagnvart hinum æðsta. – Lestu Daníel 3:28.

19. Á hvaða grundvelli dæmir Jehóva fólk sitt og hvað útheimtir það af okkur núna?

19 Sálmaskáldið Davíð skrifaði um mikilvægi þess að varðveita ráðvendni við Guð: „Jehóva fellir dóm yfir þjóðunum. Dæmdu mig, Jehóva, eftir réttlæti mínu og ráðvendni.“ (Sálm. 7:8) Davíð skrifaði líka: „Ráðvendni mín og réttvísi verndi mig.“ (Sálm. 25:21) Besti lífsmátinn er að vera trúföst og varðveita ráðvendni við Jehóva, sama hvað á dynur. Þá getum við tekið undir með sálmaskáldinu sem sagði: „Þeir sem eru ráðvandir … eru hamingjusamir, þeir sem lifa eftir lögum Jehóva.“ – Sálm. 119:1, neðanmáls.

SÖNGUR 122 Verum staðföst og óbifanleg

a Í Biblíunni er þjónum Guðs sagt að hlýða settum yfirvöldum – ríkisstjórnum þessa heims. En sumar ríkisstjórnir standa gegn Jehóva og þjónum hans. Hvernig getum við hlýtt valdhöfum og líka verið ráðvönd Jehóva?

b ORÐASKÝRING: Að varðveita ráðvendni við Jehóva felur í sér að víkja aldrei frá hollustu við hann og drottinvald hans, jafnvel þegar á reynir.

d Í þessari námsgrein eru tilvitnanir í Daníelsbók og Esekíelsbók úr Biblíunni 2010.