Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 43

Viskan kallar hátt

Viskan kallar hátt

„Viskan kallar hátt á strætinu. Hún lætur í sér heyra á torgunum.“ – ORÐSKV. 1:20.

SÖNGUR 88 Vísaðu mér veg þinn

YFIRLIT a

1. Hvernig bregðast margir við kalli viskunnar nú á dögum? (Orðskviðirnir 1:20, 21)

 VÍÐA um lönd hefur verið algeng sjón að sjá glaða boðbera Guðsríkis á fjölförnum stöðum bjóða vegfarendum rit. Hefur þú einhvern tíma tekið þátt í þessu starfi? Þá hefurðu kannski séð fyrir þér myndina sem Biblían dregur upp í Orðskviðunum af viskunni kallandi á almannafæri á fólk að hlusta á ráð sín. (Lestu Orðskviðina 1:20, 21 og neðanmáls.) Í Biblíunni og ritum okkar er að finna sanna visku – viskuna frá Jehóva. Þessi fræðsla er einmitt það sem fólk þarf á að halda til að stíga fyrsta skrefið á veginum til lífsins. Við erum ánægð þegar einhver þiggur rit hjá okkur. En það eru ekki allir sem gera það. Sumir vilja ekki hlusta á það sem Biblían segir. Aðrir hlæja að okkur. Þeim finnst Biblían vera úrelt. Og enn aðrir gagnrýna það sem Biblían kennir um siðferði. Þeir halda því fram að þeir sem fylgja mælikvarða hennar séu dómharðir og strangir. Samt býður Jehóva í kærleika sínum öllum að tileinka sér sanna visku. Hvernig gerir hann það?

2. Hvernig er sönn viska gerð aðgengileg nú á dögum en hvað kjósa flestir að gera?

2 Jehóva lætur viskuna meðal annars heyrast í gegnum Biblíuna. Biblían er aðgengileg næstum öllum jarðarbúum. Hvað með biblíutengdu ritin okkar? Það er vegna blessunar Jehóva að þau koma út á meira en 1.000 tungumálum. Þeir sem hlusta á viskuna, það er að segja lesa og fara eftir því sem þeir læra, hafa gagn af henni. Fæstir vilja samt hlusta á rödd viskunnar. Flestir kjósa að treysta á sjálfa sig eða hlusta á annað fólk þegar þeir þurfa að taka ákvarðanir. Þeir líta jafnvel niður á okkur vegna þess að við förum eftir því sem Biblían segir. Í þessari grein er rætt um hvers vegna fólk bregst svona við. En skoðum fyrst hvernig við getum aflað okkur visku frá Jehóva.

AÐ ÞEKKJA JEHÓVA VEITIR VISKU

3. Hvað felur sönn viska í sér?

3 Viska er meðal annars hæfnin til að nota þekkingu til að taka góðar ákvarðanir. En sönn viska felur meira í sér. Biblían segir: „Djúp virðing fyrir Jehóva er upphaf viskunnar og að þekkja Hinn háheilaga veitir skilning.“ (Orðskv. 9:10) Þegar við þurfum að taka mikilvæga ákvörðun ættum við því að byggja hana á því hvernig Jehóva – ,Hinn háheilagi‘ – hugsar. Við gerum það með því að rannsaka Biblíuna og biblíutengd rit. Þá sýnum við sanna visku. – Orðskv. 2:5–7.

4. Hvers vegna er Jehóva sá eini sem getur veitt okkur sanna visku?

4 Jehóva er sá eini sem getur veitt okkur sanna visku. (Rómv. 16:27) Hvers vegna er hann uppspretta viskunnar? Í fyrsta lagi er hann skaparinn og hefur ótakmarkaða þekkingu og skilning á því sem hann hefur skapað. (Sálm. 104:24) Í öðru lagi endurspeglar allt sem Jehóva gerir visku. (Rómv. 11:33) Og í þriðja lagi eru ráð Jehóva þeim alltaf til gagns sem fara eftir þeim. (Orðskv. 2:10–12) Ef við viljum tileinka okkur sanna visku verðum við að skilja þessi grundvallarsannindi og láta viskuna vísa okkur veginn þegar við tökum ákvarðanir og framkvæmum þær.

5. Hvað hefur það í för með sér þegar fólk viðurkennir ekki að Jehóva sé uppspretta viskunnar?

5 Margir sem við hittum í boðuninni viðurkenna að náttúran beri vitni um stórkostlega hönnun. En samt trúa þeir ekki að til sé skapari og gefa þróun heiðurinn. Aðrir sem við hittum trúa á Guð en líta á meginreglur Biblíunnar sem úreltar og velja að fara sínar eigin leiðir. Hver er árangurinn? Er heimurinn betri þegar fólk treystir á eigin visku frekar en visku Guðs? Er fólk hamingjusamt og bjartsýnt á framtíðina? Svarið blasir við þegar við lítum í kringum okkur: „Engin viska, engin skynsemi og engin ráð eru til gegn Jehóva.“ (Orðskv. 21:30) Þetta er góð hvatning til að biðja Jehóva að gefa okkur sanna visku. Því miður gera það fæstir. Hvers vegna?

HVERS VEGNA HAFNAR FÓLK SANNRI VISKU?

6. Hverjir loka eyrunum fyrir kalli viskunnar samkvæmt Orðskviðunum 1:22–25?

6 Margir loka eyrunum fyrir viskunni þegar hún „kallar hátt á strætinu“. Samkvæmt Biblíunni er þrenns konar fólk sem hafnar viskunni: „fáfróðir“, þeir sem ,hæðast að öðrum‘ og „heimskingjar“. (Lestu Orðskviðina 1:22–25.) Skoðum betur hvað veldur því að sumir hafna visku Guðs og hugleiðum líka hvernig við getum forðast að líkja eftir þeim.

7. Hvers vegna velja sumir að vera fráfróðir?

7 Hinir ,fáfróðu‘ eru þeir sem eru einfaldir, áhrifagjarnir og auðvelt er að blekkja. (Orðskv. 14:15) Við hittum marga þeirra í boðuninni. Hugsum okkur bara allar þær milljónir manna sem trúar- eða stjórnmálaleiðtogar blekkja. Sumum er brugðið þegar þeir uppgötva að þeir hafa verið blekktir af slíkum leiðtogum. En þeir sem talað er um í Orðskviðunum 1:22 velja að vera fáfróðir vegna þess að þeim finnst það ágætt. (Jer. 5:31) Þeim finnst gott að fara eftir eigin höfði og þá langar ekki að kynnast því sem Biblían segir eða fylgja meginreglum hennar. Margir hugsa eins og trúuð kona í Quebec í Kanada sem sagði við vott sem bankaði upp á hjá henni: „Ef presturinn okkar hefur blekkt okkur ber hann ábyrgðina en ekki við.“ Við viljum alls ekki vera eins og þeir sem velja að vera fáfróðir. – Orðskv. 1:32; 27:12.

8. Hvað hjálpar okkur að öðlast visku?

8 Það er af góðri ástæðu að við erum hvött í Biblíunni til að vera ekki fráfróð heldur læra að ,hugsa eins og þroskað fólk‘. (1. Kor. 14:20) Við öðlumst visku með því að heimfæra meginreglur Biblíunnar á líf okkar. Ef við gerum það finnum við hvernig þær hjálpa okkur að forðast vandamál og við getum tekið viturlegar ákvarðanir. Það er góð hugmynd að fylgjast með hvernig okkur gengur að tileinka okkur meginreglur Biblíunnar. Ef við höfum rannsakað Biblíuna og mætt á samkomur um tíma gætum við spurt okkur hvers vegna við höfum ekki stigið það skref að vígja Jehóva líf okkar og skírast. Ef við höfum látið skírast, tökum við þá framförum í boðuninni og kennslunni? Endurspegla ákvarðanir okkar að við látum meginreglur Biblíunnar leiðbeina okkur? Sýnum við kristilega eiginleika í samskiptum við aðra? Ef við sjáum að við getum gert betur á þessum sviðum skulum við hlusta á áminningar Jehóva sem „gera hinn óreynda vitran“. – Sálm. 19:7.

9. Hvernig sýna þeir sem „hæðast að öðrum“ að þeir hafna viskunni?

9 Þeir sem „hæðast að öðrum“ er annar hópur sem hafnar viskunni frá Guði. Við hittum þá stundum í boðuninni. Þeir hafa ánægju af að hæðast að öðrum. (Sálm. 123:4) Í Biblíunni segir að margir yrðu þannig á síðustu dögum. (2. Pét. 3:3, 4) Líkt og tengdasynir Lots til forna hafna sumir nú á dögum viðvörunum Jehóva. (1. Mós. 19:14) Margir gera gys að þeim sem fara eftir meginreglum Biblíunnar. Þeir gera það vegna þess að þeir láta stjórnast af „óguðlegum girndum sínum“. (Júd. 7, 17, 18) Lýsing Biblíunnar á þeim sem hæðast að öðrum passar vel við fráhvarfsmenn og aðra sem hafa hafnað Jehóva.

10. Hvernig forðumst við að líkjast þeim sem hæðast að öðrum samkvæmt Sálmi 1:1?

10 Hvernig getum við komið í veg fyrir að verða eins og þeir sem hæðast að öðrum? Ein leið til þess er að forðast félagsskap við þá sem hafa neikvætt hugarfar. (Lestu Sálm 1:1.) Það þýðir að við hvorki lesum né hlustum á neitt sem kemur frá fráhvarfsmönnum. Við áttum okkur á því að ef við vörum okkur ekki gætum við auðveldlega tileinkað okkur neikvætt hugarfar og farið að efast um Jehóva og leiðsögnina sem við fáum í söfnuði hans. Til að forðast slíkt getum við spurt okkur: Bregst ég yfirleitt neikvætt við nýjum leiðbeiningum eða útskýringum? Hef ég tilhneigingu til að finna að þeim sem fara með forystuna? Jehóva er ánægður með okkur ef við bregðumst skjótt við og leiðréttum slíkar tilhneigingar. – Orðskv. 3:34, 35.

11. Hvernig líta „heimskingjar“ á siðferðismælikvarða Jehóva?

11 „Heimskingjar“ eru þriðji hópurinn sem hafnar viskunni. Þeir eru heimskir vegna þess að þeir vilja ekki fylgja siðferðismælikvarða Guðs. Þeir gera eins og þeim sjálfum sýnist. (Orðskv. 12:15) Þeir hafna Jehóva, uppsprettu viskunnar. (Sálm. 53:1) Þegar við hittum þá í boðuninni gagnrýna þeir okkur oft harkalega fyrir að virða mælikvarða Biblíunnar. En þeir hafa ekkert betra fram að færa. Biblían segir: „Sönn viska er utan seilingar heimskingjans, hann hefur ekkert að segja í borgarhliðinu.“ (Orðskv. 24:7) Heimskinginn hefur ekkert skynsamlegt fram að færa. Það er engin furða að Jehóva skuli hvetja okkur: „Haltu þig fjarri heimskum manni.“ – Orðskv. 14:7.

12. Hvað hjálpar okkur að hegða okkur ekki eins og heimskingjarnir?

12 Við þroskum með okkur kærleika til leiðbeininga Guðs, þar á meðal til siðferðismælikvarða hans, ólíkt þeim sem fyrirlíta þær. Við getum lært enn betur að meta leiðbeiningarnar með því að hugleiða hvað hlýðni hefur í för með sér og hvað óhlýðni hefur í för með sér. Taktu eftir hvers konar vandamál fólk kallar yfir sig þegar það hafnar leiðbeiningum Jehóva. Veltu því síðan fyrir þér hversu miklu betra líf þitt er vegna þess að þú hlýðir Guði. – Sálm. 32:8, 10.

13. Neyðir Jehóva okkur til að fara eftir viturlegum ráðum sínum?

13 Viska Jehóva stendur öllum til boða en hann neyðir engan til að þiggja hana. Hann lýsir hins vegar afleiðingum þess að hlusta ekki á viskuna. (Orðskv. 1:29–32) Þeir sem vilja ekki hlýða Jehóva „súpa seyðið af gerðum sínum“. Lífsstefna þeirra færir þeim á endanum ekkert annað en þjáningar, erfiðleika og að lokum tortímingu. Hins vegar fá þeir sem hlusta á viturleg ráð Jehóva og fara eftir þeim þetta loforð: „Sá sem hlustar á mig mun búa við öryggi og engin ógæfa skelfir hann.“ – Orðskv. 1:33.

SÖNN VISKA KEMUR OKKUR AÐ GAGNI

Það styrkir samband okkar við Jehóva að taka þátt í samkomunum. (Sjá 15. grein.)

14, 15. Hvað lærum við af Orðskviðunum 4:23?

14 Það er okkur alltaf til góðs að fylgja leiðbeiningum Jehóva. Eins og áður hefur verið rætt er Jehóva örlátur á viturleg ráð. Orðskviðirnir eru til dæmis fullir af sígildum ráðum sem bæta líf okkar ef við förum eftir þeim. Skoðum fjögur dæmi um slík ráð.

15 Verndaðu táknræna hjartað. Biblían segir: „Verndaðu hjartað meira en allt annað því að þar eru uppsprettur lífsins.“ (Orðskv. 4:23) Hvernig verndar maður hjartað? Með því að borða hollan mat, fá næga hreyfingu og forðast slæma ávana. Það er svipað með táknræna hjartað. Við lesum daglega í orði Guðs. Við undirbúum okkur fyrir samkomur, mætum á þær og tökum þátt. Við erum virk í boðuninni og leggjum hart að okkur. Við forðumst slæmar venjur og komum ekki nálægt nokkru sem spillir huga okkar, eins og siðlausri afþreyingu og vondum félagsskap.

Við erum ánægð með það sem við höfum ef við sjáum peninga í réttu ljósi. (Sjá 16. grein.)

16. Hvers vegna eru ráðin í Orðskviðunum 23:4, 5 mjög gagnleg nú á dögum?

16 Vertu ánægður með það sem þú hefur. Biblían gefur eftirfarandi ráð: „Slíttu þér ekki út til að verða ríkur … Þegar þú lítur til auðsins er hann horfinn því að hann fær vængi eins og örn og flýgur til himins.“ (Orðskv. 23:4, 5) Efnislegur auður hverfur auðveldlega. En margir, bæði ríkir og fátækir, eru uppteknir af að eignast peninga. Þeir hegða sér því oft þannig að það skaðar mannorð þeirra, samskipti þeirra við aðra og jafnvel heilsuna. (Orðskv. 28:20; 1. Tím. 6:9, 10) Viskan hjálpar okkur hins vegar að sjá peninga í réttu ljósi. Hún verndar okkur gegn ágirnd og stuðlar að sátt og hamingju. – Préd. 7:12.

Við komumst hjá því að særa aðra með orðum okkar ef við hugsum áður en við tölum. (Sjá 17. grein.)

17. Hvernig getur það sem segir um ,tungu hinna vitru‘ í Orðskviðunum 12:18 átt við um okkur?

17 Hugsaðu áður en þú talar. Við getum skaðað aðra mjög mikið með því sem við segjum ef við vörum okkur ekki. Í Biblíunni segir: „Hugsunarlaus orð eru eins og sverðstungur en tunga hinna vitru græðir.“ (Orðskv. 12:18) Við stuðlum að góðum samskiptum þegar við forðumst að slúðra um galla annarra. (Orðskv. 20:19) Ef við viljum að orð okkar uppörvi fólk en særi það ekki ættum við að lesa reglulega í orði Guðs og hugleiða það. (Lúk. 6:45) Þegar við gerum það verða orð okkar eins og „lind viskunnar“ sem hressir aðra. – Orðskv. 18:4.

Við tökum framförum þegar við fylgjum leiðbeiningum safnaðarins varðandi boðunina. (Sjá 18. grein.)

18. Hvernig hjálpar það okkur að ná árangri í boðuninni að fara eftir því sem segir í Orðskviðunum 24:6?

18 Fylgdu leiðbeiningum. Biblían gefur þetta viturlega ráð: „Þiggðu viturlega leiðsögn þegar þú ferð í stríð og ef ráðgjafarnir eru margir fer allt vel.“ (Orðskv. 24:6, neðanmáls) Hvers vegna er gagnlegt að fylgja þessu ráði í boðuninni og kennslunni? Við reynum að fara eftir tillögunum sem við fáum fyrir boðunina í stað þess að gera eins og okkur sjálfum finnst best. Við fáum góðar leiðbeiningar og þjálfun á samkomum þegar reyndir boðberar flytja ræður og fara með kynningar. Auk þess sér söfnuður Jehóva okkur fyrir góðum verkfærum – ritum og myndböndum – sem hjálpa fólki að skilja Biblíuna. Leggðu þig fram um að nota þessi verkfæri á áhrifaríkan hátt.

19. Hvað finnst þér um viskuna sem Jehóva veitir? (Orðskviðirnir 3:13–18)

19 Lestu Orðskviðina 3:13–18. Við erum mjög þakklát fyrir þessi góðu ráð í orði Guðs. Hvar værum við án þeirra? Í þessari grein höfum við skoðað dæmi um hagnýta visku sem er að finna í Orðskviðunum. Biblían er að sjálfsögðu full af góðum ráðum frá Jehóva. Verum staðráðin í að fylgja alltaf ráðum Jehóva. Hvernig sem fólk í heiminum lítur á visku Guðs erum við sannfærð um að ,þeir sem halda fast í hana séu hamingjusamir‘.

SÖNGUR 36 Varðveitum hjartað

a Viskan sem Jehóva gefur er langtum betri en viskan sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Í þessari námsgrein skoðum við áhugavert myndmál í Orðskviðunum þar sem viskan er sögð kalla hátt á torgunum. Við ræðum hvernig við getum öðlast sanna visku, hvers vegna sumir loka eyrunum fyrir viskunni og hvaða gagn við höfum af því að hlusta á það sem hún segir.