Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Foreldrar, hjálpið börnunum að byggja upp trú

Foreldrar, hjálpið börnunum að byggja upp trú

„Yngismenn og yngismeyjar ... Þau lofi nafn Drottins.“ – SÁLM. 148:12, 13.

SÖNGVAR: 88, 115

1, 2. (a) Hvaða krefjandi verkefni þurfa foreldrar að takast á við og hvernig geta þeir gert því góð skil? (b) Hvaða fjögur atriði skoðum við í þessari grein?

„VIÐ trúum á Jehóva en það þýðir ekki endilega að börnin okkar eigi eftir að gera það,“ segja hjón í Frakklandi. Þau bæta við: „Maður erfir ekki trú. Börnin þurfa að byggja hana upp smátt og smátt.“ Ástralskur bróðir skrifaði: „Að hjálpa börnunum að byggja upp trú er sennilega erfiðasta verkefnið sem við þurfum að takast á við. Maður þarf að nota öll úrræði sem standa til boða. Stundum finnst okkur við hafa svarað spurningu barnsins á fullnægjandi hátt en seinna spyr það aftur sömu spurningar. Svörin, sem svala forvitni barnsins í dag, duga kannski ekki á morgun. Sum mál þarf að ræða aftur og aftur.“

2 Þið sem eruð foreldrar, finnst ykkur þið stundum óhæf til að gegna þeirri ábyrgð að kenna börnunum og hjálpa þeim að byggja upp varanlega trú? Reyndar getur ekkert okkar gegnt þessari ábyrgð hjálparlaust. (Jer. 10:23) En okkur getur tekist vel til þegar við leitum leiðsagnar Guðs. Skoðum fernt sem er gott að hafa í huga þegar þið hjálpið börnunum að byggja upp trú: (1) Kynnist þeim vel. (2) Látið kennsluna koma frá hjartanu. (3) Notið góðar líkingar og dæmi. (4) Verið þolinmóð og bænrækin.

ÞEKKIÐ BÖRNIN YKKAR VEL

3. Hvernig geta foreldrar líkt eftir Jesú þegar þeir kenna börnunum?

3 Jesús var ófeiminn að spyrja fylgjendur sína hverju þeir trúðu. (Matt. 16:13-15) Farðu að dæmi hans. Þegar vel stendur á er gott að hvetja börnin til að tjá tilfinningar sínar. Hafa þau einhverjar efasemdir eða er eitthvað sem vefst fyrir þeim? Fimmtán ára bróðir í Ástralíu skrifaði: „Pabbi ræðir oft við mig um trú mína og hjálpar mér að rökstyðja hana. Hann spyr: Hvað segir Biblían? Trúirðu því sem hún segir? Hvers vegna trúirðu því? Hann vill að ég svari með eigin orðum í stað þess að endurtaka bara það sem hann eða mamma segja. Eftir því sem ég varð eldri þurfti ég að gefa ítarlegri svör.“

4. Hvers vegna er mikilvægt að taka spurningar barns alvarlega? Nefndu dæmi.

4 Reynið að bregðast ekki harkalega við ef barnið ykkar efast um eitthvað sem Biblían kennir, og farið ekki í vörn. Verið þolinmóð og hjálpið því að finna svör við spurningum sínum. „Takið spurningar barnsins alvarlega,“ segir faðir nokkur. „Vísið þeim ekki á bug eins og þær skipti engu máli og forðist ekki ákveðin umræðuefni bara af því að ykkur finnst óþægilegt að ræða þau.“ Það er gott að barnið ykkar spyrji einlægra spurninga því að það er merki um að það vilji skilja málið betur. Jesús var ekki nema 12 ára þegar hann spurði veigamikilla spurninga. (Lestu Lúkas 2:46.) Fimmtán ára unglingur í Danmörku segir: „Þegar ég sagðist ekki vera viss um að okkar trú væri sú rétta tóku pabbi og mamma því með ró, þó að þau hafi ábyggilega haft áhyggjur af mér. Þau svöruðu öllum spurningum mínum með hjálp Biblíunnar.“

5. Hvernig geta foreldrar sýnt að þeir taki það ekki sem sjálfsagðan hlut að barnið þeirra trúi á Jehóva?

5 Kynnist börnunum ykkar vel – hugsunum þeirra, tilfinningum og áhyggjum. Dragið aldrei þá ályktun að þau trúi á Jehóva bara af því að þau sækja samkomur og taka þátt í boðuninni með ykkur. Ræðið andleg mál á hverjum degi þegar þið eruð saman. Biðjið með börnunum og fyrir þeim. Reynið að átta ykkur á hvort eitthvað gerir þeim erfitt að vera Jehóva trú og hjálpið þeim að takast á við það.

LÁTIÐ KENNSLUNA KOMA FRÁ HJARTANU

6. Hvers vegna verða foreldrar betri kennarar með því að vera sjálfir duglegir biblíunemendur?

6 Jesús náði til hjartna fólks þegar hann kenndi því vegna þess að hann elskaði Jehóva, orð hans og fólkið sjálft. (Lúk. 24:32; Jóh. 7:46) Sams konar kærleikur hjálpar foreldrum að ná til hjartna barna sinna. (Lestu 5. Mósebók 6:5-8; Lúkas 6:45.) Foreldrar, verið því duglegir biblíunemendur og lesið vandlega rit safnaðarins. Sýnið áhuga á sköpunarverkinu og kynnið ykkur vel greinar um það í ritunum okkar. (Matt. 6:26, 28) Þannig aukið þið þekkingu ykkar, lærið betur að meta Jehóva og verk hans og verðið betur í stakk búin til að kenna börnunum. – Lúk. 6:40.

7, 8. Hvaða áhrif hefur það þegar hjarta foreldris er fullt af biblíusannindum? Nefndu dæmi.

7 Þegar hjarta þitt er fullt af biblíusannindum langar þig til að ræða þau við fjölskylduna. Gerðu það hvenær sem þið eruð saman, ekki aðeins í tilbeiðslustund fjölskyldunnar eða þegar þið búið ykkur undir samkomur. Slíkar samræður ættu ekki að vera þvingaðar heldur afslappaðar og eðlilegar – hluti af hversdagslegum samræðum ykkar. Hjón í Bandaríkjunum tala við börnin sín um Jehóva þegar þau sjá eitthvað fallegt í náttúrunni eða borða góðan mat. „Við minnum börnin á kærleikann og fyrirhyggjuna sem sést í öllu sem Jehóva sér okkur fyrir,“ segja þau. Hjón í Suður-Afríku tala við dætur sínar tvær um sköpun þegar þau vinna saman í garðinum. Þau benda til dæmis á hve stórkostlegt það er að fræin skuli spíra og verða síðan að plöntum. „Við reynum að vekja með dætrum okkar virðingu fyrir lífinu og stórbrotinni hönnun þess,“ segja þau.

8 Faðir í Ástralíu fór á safn með syni sínum sem þá var tíu ára gamall. Hann ákvað að nýta tækifærið til að hjálpa honum að styrkja trú sína á Jehóva og sköpun. „Við skoðuðum forn sjávardýr sem kallast ammonítar og þríbrotar,“ segir faðirinn. „Okkur fannst stórmerkilegt að þessi útdauðu dýr voru falleg, flókin og fullmynduð – engu síður en þau sem til eru núna. Ef lífið þróaðist úr einföldu lífsformi í flóknara, hvers vegna voru þá þessar fornu lífverur svona flóknar? Þetta hafði svo mikil áhrif á mig að ég varð að segja stráknum mínum það.“

NOTIÐ ÁHRIFARÍK DÆMI

9. Hvers vegna er áhrifaríkt að nota dæmi og hvernig sýndi móðir nokkur fram á það?

9 Jesús notaði oft dæmisögur sem örva hugann, höfða til hjartans og eru góð minnishjálp. (Matt. 13:34, 35) Börn hafa gjarnan fjörugt ímyndunarafl. Þið foreldrar skuluð því leggja ykkur fram um að nota líkingar og dæmi þegar þið kennið. Móðir í Japan gerði það. Þegar synir hennar tveir voru átta og tíu ára fræddi hún þá um loftið sem við öndum að okkur og þá umhyggju sem Jehóva sýndi þegar hann skapaði það. Hún gaf strákunum mjólk, sykur og kaffi og bað þá síðan hvorn fyrir sig að gera kaffibolla fyrir hana. „Þeir vönduðu sig mjög mikið,“ sagði hún. „Þegar ég spurði þá hvers vegna þeir gerðu það sögðust þeir vilja gera kaffið alveg eins og ég vildi hafa það. Ég útskýrði að Guð hefði blandað saman lofttegundunum í andrúmsloftinu af svipaðri natni þannig að það yrði einmitt rétta blandan fyrir okkur.“ Þetta dæmi hentaði þeirra aldri vel og hafði líklega miklu meiri áhrif en bóklegur lærdómur hefði haft. Þeir áttu eflaust seint eftir að gleyma þessu dæmi.

Þið getið notað hversdagslega hluti til að byggja upp trú á Guð og sköpun. (Sjá 10. grein.)

10, 11. (a) Hvaða dæmi getið þið notað til að hjálpa barninu ykkar að byggja upp trú á Guð? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvaða dæmi hefur þér fundist gagnlegt að nota?

10 Þú gætir jafnvel notað uppskrift til að hjálpa barninu þínu að byggja upp trú á Guð. Hvernig þá? Eftir að hafa bakað köku eða smákökur geturðu útskýrt hvaða hlutverki uppskriftin gegnir. Réttu síðan barninu epli eða annan ávöxt og spyrðu: „Vissir þú að þetta epli byrjaði með ,uppskrift‘?“ Skerðu síðan eplið í tvennt og láttu barnið hafa fræ. Þú gætir útskýrt að uppskriftin hafi verið „skrifuð“ í fræið en á miklu flóknara tungumáli en málið í uppskriftabókinni. Þú gætir spurt: „Fyrst einhver hefur skrifað kökuuppskriftina, hver skrifaði þá uppskriftina að eplinu sem er margfalt flóknari?“ Fyrir eldri börnum gætirðu útskýrt að uppskriftin að eplinu – og reyndar öllu eplatrénu – sé hluti af kóðanum í erfðaefninu. Þið gætuð líka skoðað saman nokkrar af myndunum á blaðsíðu 10 til 20 í bæklingnum The Origin of Life – Five Questions Worth Asking.

11 Margir foreldrar hafa gaman af að ræða við börnin sín um greinar í greinaröðinni „Býr hönnun að baki?“ í Vaknið! Ef börnin eru mjög ung geta foreldrarnir fengið hugmyndir úr greinunum sem þeir útskýra fyrir þeim á einfaldan hátt. Hjón í Danmörku líktu til dæmis flugvélum við fugla. „Flugvélar líta út eins og fuglar,“ sögðu þau. „En geta flugvélar verpt eggjum og eignast litlar flugvélar? Þurfa fuglar á sérstökum flugbrautum að halda? Hvort finnst þér fallegra, hljóðið í flugvélum eða fuglasöngur? Hvor er þá gáfaðri, sá sem býr til flugvélar eða sá sem skapaði fuglana?“ Þegar þið ræðið við barnið á þennan hátt og spyrjið góðra spurninga getið þið kennt því að rökhugsa og hjálpað því að byggja upp trú á Guð. – Orðskv. 2:10-12.

12. Hvernig geta dæmi hjálpað börnum að byggja upp trú á Biblíuna?

12 Áhrifarík dæmi geta líka styrkt trú barnsins á að það sem stendur í Biblíunni sé rétt og nákvæmt. Þið gætuð til dæmis skoðað Jobsbók 26:7. (Lestu.) Hvernig geturðu sýnt fram á að þetta biblíuvers hafi verið skrifað undir innblæstri? Þú gætir bent á staðreyndir. En hvernig væri að virkja þess í stað ímyndunarafl barnsins? Minnstu á þá staðreynd að Job lifði langt fyrir tíma sjónauka og geimferða. Barnið gæti fengið það verkefni að sýna fram á hve erfitt sumum hafi fundist að trúa því að stór hlutur eins og jörðin geti svifið í lausu lofti. Barnið gæti notað bolta eða stein til að sýna að allir hlutir þurfi að hvíla á einhverju. Dæmi sem þetta getur sýnt barninu fram á að Jehóva lét skrá staðreyndir í Biblíuna löngu áður en mennirnir gátu sannað þær. – Neh. 9:6.

LÝSIÐ MEÐ DÆMUM HVERNIG MEGINREGLUR BIBLÍUNNAR ERU OKKUR TIL GÓÐS

13, 14. Hvernig geta foreldrar sýnt börnunum fram á að það sé til góðs að fylgja meginreglum Biblíunnar?

13 Annað sem er mikilvægt er að sýna barninu fram á að það sé til góðs að fylgja meginreglum Biblíunnar. (Lestu Sálm 1:1-3.) Það má gera á ýmsa vegu. Þið gætuð til dæmis sagt barninu að ímynda sér að það eigi að búa á afskekktri eyju og þurfi að velja sér nokkra til að búa þar með sér. Spyrjið síðan: „Hvaða eiginleika þurfa allir að hafa til að hópurinn geti lifað í sátt og samlyndi?“ Síðan gætuð þið lesið Galatabréfið 5:19-23 til að sjá hvers konar fólk Jehóva vill hafa í nýja heiminum.

14 Með þessum hætti getið þið kennt barninu tvennt sem skiptir miklu máli. Í fyrsta lagi að meginreglur Guðs stuðla að sönnum friði og einingu. Í öðru lagi að Jehóva er með kennslu sinni að búa okkur undir lífið í nýja heiminum. (Jes. 54:13; Jóh. 17:3) Til að leggja enn meiri áherslu á þetta getið þið lesið frásögur í ritunum okkar, til dæmis í greinaröðinni „Biblían breytir lífi fólks“, sem finna má í Varðturninum. Eða ef einhver í söfnuðinum ykkar hefur gert miklar breytingar á lífi sínu til að þóknast Jehóva getið þið beðið hann að segja ykkur sína sögu. Þannig verða meginreglur Biblíunnar lifandi fyrir ykkur. – Hebr. 4:12.

15. Hvert ætti að vera aðalmarkmiðið þegar þið kennið börnunum?

15 Kjarni málsins er þessi: Hjakkið ekki í sama farinu þegar þið kennið börnunum. Reynið að nota hugmyndaflugið. Örvið huga þeirra í samræmi við aldur. Gerið kennsluna spennandi og trústyrkjandi. Faðir nokkur segir: „Gefist aldrei upp á að finna nýjar leiðir til að kenna eitthvað sem þið hafið rætt áður.“

VERIÐ TRÚFÖST, ÞOLINMÓÐ OG BÆNRÆKIN

16. Hvers vegna er mikilvægt að vera þolinmóður þegar maður kennir börnum? Nefndu dæmi.

16 Það er nauðsynlegt að hafa anda Guðs til að byggja upp sterka trú. (Gal. 5:22, 23) Trúin þarf tíma til að vaxa, rétt eins og ávöxtur. Þið þurfið því að vera þolinmóð og þrautseig þegar þið kennið börnunum. „Við hjónin gáfum börnunum einfaldlega mikla athygli,“ segir tveggja barna faðir í Japan. „Frá því að þau voru mjög ung hafði ég 15 mínútna biblíunámsstund með þeim á hverjum degi, nema á samkomudögum. Fimmtán mínútur var ekki of mikið, hvorki fyrir okkur né þau.“ Farandhirðir skrifaði: „Þegar ég var unglingur hafði ég margar spurningar og efasemdir sem ég viðraði aldrei við neinn. Með tímanum fékk ég svar við mörgum þeirra á samkomum, í fjölskyldunáminu eða í sjálfsnáminu. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar haldi bara áfram að kenna.“

Orð Guðs þarf fyrst að ná til hjartna ykkar til að þið getið verið góðir kennarar. (Sjá 17. grein.)

17. Hvers vegna er mikilvægt að foreldrar setji gott fordæmi og hvernig hafa hjón nokkur verið dætrum sínum góð fyrirmynd?

17 Það skiptir auðvitað miklu máli að börnin sjái að þið hafið sterka trú. Börnin fylgjast með því sem þið gerið og það hefur áreiðanlega góð áhrif á þau. Haldið því áfram að byggja upp ykkar eigin trú. Látið börnin sjá hve raunverulegur Jehóva er ykkur. Þegar eitthvað íþyngir hjónum nokkrum á Bermúdaeyjum biðja þau með dætrum sínum um leiðsögn Jehóva og hvetja þær til að biðja sjálfar. „Við segjum líka við eldri dóttur okkar: ,Treystu algerlega á Jehóva, haltu þér upptekinni í þjónustunni við hann og hafðu ekki of miklar áhyggjur.‘ Þegar hún sér árangurinn veit hún að Jehóva hjálpar okkur. Þetta hefur skipt sköpum fyrir trú hennar á Guð og Biblíuna.“

18. Hverju verða foreldrar að gera sér grein fyrir?

18 Þegar allt kemur til alls þurfa börnin auðvitað að byggja upp sína eigin trú. Sem foreldrar getið þið gróðursett og vökvað en það er aðeins Guð sem gefur vöxtinn. (1. Kor. 3:6) Biðjið því um anda hans og gerið ykkar ýtrasta til að kenna börnunum sem eru ykkur svo dýrmæt. Þannig gefið þið Jehóva ríkulega ástæðu til að blessa ykkur. – Ef. 6:4.