Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Láttu ekki hugfallast“

„Láttu ekki hugfallast“

„Láttu ekki hugfallast.“ – SEF. 3:16.

SÖNGVAR: 81, 32

1, 2. (a) Við hvaða erfiðleika eiga margir að glíma og með hvaða afleiðingum? (b) Hverju er okkur lofað í Jesaja 41:10, 13?

SYSTIR nokkur, sem er brautryðjandi og gift safnaðaröldungi, segir: „Þótt ég rækti trúna og sambandið við Jehóva hef ég glímt við þrálátan kvíða árum saman. Hann rænir mig svefni, hefur áhrif á heilsuna og framkomu mína við aðra, og stundum langar mig mest til að gefast upp og skríða ofan í holu.“

2 Geturðu sett þig í spor þessarar systur? Því miður er álagið frá heimi Satans gríðarlegt og það getur valdið kvíða og dregið kraftinn úr fólki. Það getur virkað eins og akkeri sem hindrar að bátur geti siglt leiðar sinnar. (Orðskv. 12:25) Hvað getur valdið því að okkur líður þannig? Ástæðurnar geta verið margar. Kannski áttu við alvarleg veikindi að stríða, hefur misst ástvin, finnst erfitt að sjá fjölskyldunni farborða eða sætir ofsóknum. Tilfinningaálagið, sem fylgir þessu, getur verið ákaflega lýjandi til lengdar. Það getur jafnvel rænt þig gleðinni. En þú mátt treysta að Jehóva er tilbúinn til að rétta þér hjálparhönd. – Lestu Jesaja 41:10, 13.

3, 4. (a) Hvernig er orðið „hönd“ stundum notað í Biblíunni? (b) Hvað getur orðið til þess að okkur fallist hendur?

3 Ýmsir líkamshlutar eru oft notaðir í Biblíunni til að tákna ákveðin einkenni eða athafnir. Höndin er til dæmis nefnd mörg hundruð sinnum. Að styrkja hönd einhvers getur merkt að hvetja, styrkja og efla. (1. Sam. 23:16, neðanmáls; Esra. 1:6) Það getur lýst von og jákvæðri framtíðarsýn.

4 Að fallast hendur er stundum notað í þeirri merkingu að vera niðurdreginn, kjarklítill eða vondaufur. (2. Kron. 15:7; Hebr. 12:12) Það er algengt að fólk gefist upp ef því líður þannig. Hvernig geturðu hert upp hugann ef aðstæður valda miklu álagi eða þér finnst þú úrvinda líkamlega, tilfinningalega eða jafnvel í þjónustunni við Jehóva? Hvað getur gefið þér hvöt og kraft til að halda áfram og vera glaður?

„HÖND DROTTINS ER EIGI SVO STUTT AÐ HANN GETI EKKI HJÁLPAГ

5. (a) Hvað gæti gerst hjá okkur andspænis erfiðleikum en hvað ættum við að minna okkur á? (b) Um hvað ræðum við í framhaldinu?

5 Lestu Sefanía 3:16, 17. Í stað þess að vera óttaslegin og láta hugfallast ættum við að ,varpa áhyggjum okkar á Jehóva‘, föður okkar á himnum sem ber mikla umhyggju fyrir okkur. (1. Pét. 5:7) Við ættum að íhuga það sem Guð sagði Ísraelsmönnum, það er að segja að ,hönd hans væri ekki svo stutt að hann gæti ekki hjálpað‘ dyggum þjónum sínum. (Jes. 59:1) Jehóva bæði langar til og getur styrkt þjóna sína svo að þeir séu færir um að gera vilja hans. Lítum á þrjú dæmi um þjóna hans sem fengu slíka hjálp þegar virtist við ofurefli að etja. Þessi dæmi geta verið þér til hvatningar og uppörvunar.

6, 7. Hvaða lærdóm getum við dregið af sigri Ísraelsmanna yfir Amalekítum?

6 Amalekítar réðust á Ísraelsmenn skömmu eftir að Jehóva frelsaði þá úr þrælkun í Egyptalandi. Jósúa hélt hugrakkur til orrustu ásamt mönnum sínum eins og Móse sagði honum að gera. Móse tók Aron og Húr hins vegar með sér upp á nálæga hæð þar sem þeir sáu yfir vígvöllinn. Voru þremenningarnir hræddir við að taka þátt í bardaganum? Alls ekki.

7 Móse fylgdi ákveðinni áætlun sem var lykillinn að sigri. Hann hélt á staf Guðs og lyfti höndunum til himins. Meðan hann hélt höndunum uppi gekk Ísraelsmönnum betur í bardaganum. En þegar hendur Móse þreyttust og tóku að síga höfðu Amalekítar betur. Aron og Húr tóku til sinna ráða, sóttu „stein og settu undir hann. Móse settist á hann en Aron og Húr studdu hendur hans, hvor sínum megin. Hendur hans héldust því stöðugar allt til sólarlags.“ Þannig sigruðu Ísraelsmenn Amalekíta með hjálp máttugrar handar Guðs. – 2. Mós. 17:8-13.

8. (a) Hvernig brást Asa við þegar Eþíópíumenn ógnuðu Júda? (b) Hvernig getum við líkt eftir Asa þegar hætta steðjar að?

8 Jehóva sýndi sömuleiðis á dögum Asa konungs að hönd hans var ekki of stutt til að hjálpa. Sagt er frá mörgum orrustum í Biblíunni en fjölmennasti her, sem um getur þar, var her Seraks frá Eþíópíu. Hann réð yfir einni milljón reyndra hermanna. Eþíópíski herinn var næstum helmingi fjölmennari en her Asa. Það hefði verið ósköp skiljanlegt ef Asa hefði orðið óttasleginn og honum hefðu hreinlega fallist hendur. En Asa leitaði hjálpar Jehóva þegar í stað. Frá hernaðarlegum bæjardyrum séð var næstum óhugsandi að hann gæti sigrað Eþíópíumenn. Guði er hins vegar „ekkert um megn“. (Matt. 19:26) Hann sýndi mátt sinn og sigraði óvinina frammi fyrir Asa sem „fylgdi ... Drottni af heilum hug allt sitt líf“. – 2. Kron. 14:7-12; 1. Kon. 15:14.

9. (a) Hvernig voru aðstæður í Jerúsalem og hvernig brást Nehemía við? (b) Hvernig svaraði Guð bæn Nehemía?

9 Reyndu að ímynda þér hvernig Nehemía leið þegar hann kom til Jerúsalem. Borgin var nánast varnarlaus og Gyðingar litlir í sér. Andstæðingar af öðrum þjóðum höfðu ógnað þeim svo að þeir hættu að endurreisa borgarmúrana. Féllust Nehemía líka hendur við þessar aðstæður? Nei, hann hafði vanið sig á að treysta Jehóva og leita hjálpar hans í bæn, líkt og Móse, Asa og fleiri trúir þjónar Jehóva. Og það gerði hann líka við þessar aðstæður. Gyðingum fannst ef til vill að það væri við ofurefli að etja en Jehóva svaraði einlægri bæn Nehemía um hjálp. Hann beitti ,miklum mætti sínum og styrkri hendi sinni‘ til að styrkja máttvana hendur Gyðinga. (Lestu Nehemíabók 1:10; 2:17-20; 6:9.) Trúirðu að Jehóva beiti ,miklum mætti sínum og styrkri hendi‘ til að efla þjóna sína nú á dögum?

LÁTTU JEHÓVA STYRKJA HENDUR ÞÍNAR

10, 11. (a) Hvernig reynir Satan að draga úr okkur kjark og kraft? (b) Hvernig styrkir Jehóva okkur og veitir okkur kraft? (c) Hvaða góðu reynslu hefurðu af fræðslunni sem Guð sér okkur fyrir?

10 Það leikur enginn vafi á að Satan lætur ekki deigan síga í baráttu sinni gegn okkur. Hann beitir lygum og hótunum stjórnvalda, trúarleiðtoga og fráhvarfsmanna til að reyna að draga úr okkur kjark og kraft í þjónustu Guðs. Hverju vill hann ná fram? Hann vill hægja á boðun fagnaðarerindisins. En Jehóva er bæði fús til að styrkja okkur með heilögum anda sínum og fær um það. (1. Kron. 29:12) Við þurfum að nýta okkur anda hans til að standast hverja raun sem Satan og illur heimur hans leggur á okkur. (Sálm. 18:40; 1. Kor. 10:13) Og við megum vera þakklát fyrir Biblíuna sem er innblásin af heilögum anda. Hugsaðu þér alla andlegu fæðuna sem við fáum í hverjum mánuði og er sótt í Biblíuna. Meðan Gyðingar voru að endurreisa musterið í Jerúsalem fengu þeir hvatninguna sem er að finna í Sakaría 8:9, 13 (lestu). Þessi orð eiga fullt erindi til okkar líka.

11 Guð styrkir okkur einnig með fræðslu á safnaðarsamkomum, mótum og í skólum sem söfnuðurinn starfrækir. Hún getur hjálpað okkur að hafa rétt hugarfar, setja okkur markmið í þjónustunni og rækja þær mörgu skyldur sem hvíla á kristnum mönnum. (Sálm. 119:32) Gerirðu allt sem þú getur til að sækja styrk í þessa fræðslu?

12. Hvað þurfum við að gera til að halda áfram að þjóna Guði af krafti?

12 Jehóva hjálpaði Ísraelsmönnum að sigra Amalekíta og Eþíópíumenn, og hann gaf Nehemía og félögum hans kraft til að ljúka við að endurreisa múra Jerúsalem. Hann gefur okkur líka styrk til að standast andstöðu og áhugaleysi og berjast gegn kvíða svo að við getum haldið áfram að boða fagnaðarerindið. (1. Pét. 5:10) Við ætlumst ekki til að Jehóva vinni kraftaverk fyrir okkur. Við þurfum sjálf að leggja okkar af mörkum, meðal annars að lesa daglega í Biblíunni, sækja vikulegar samkomur og búa okkur undir þær, næra hugann og hjartað með sjálfsnámi og fjölskyldunámi og biðja Jehóva oft að styrkja okkur. Látum ekki önnur hugðarefni eða áhugamál verða til þess að við vanrækjum þetta. Ef þú áttar þig á að þú slærð slöku við eitthvað af þessu skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér. Þá finnurðu hvernig hann ,verkar í þér bæði að vilja og að framkvæma‘. (Fil. 2:13) En hvað geturðu gert til að styrkja aðra?

RÉTTU ÚR MÁTTVANA HÖNDUM

13, 14. (a) Hvað styrkti bróður nokkurn eftir að hann missti konuna? (b) Hvað getum við gert til að styrkja aðra?

13 Jehóva hefur gefið okkur alþjóðlegt bræðralag umhyggjusamra trúsystkina sem geta verið okkur til hvatningar. Páll postuli skrifaði: „Réttið ... úr máttvana höndum og magnþrota knjám. Látið fætur ykkar feta beinar brautir.“ (Hebr. 12:12, 13) Margir fengu hjálp af þessu tagi á fyrstu öld. Hið sama er uppi á teningnum núna. Bróðir nokkur missti eiginkonuna og mátti þola aðrar erfiðar prófraunir. Hann segir: „Ég komst að raun um að maður velur sér ekki prófraunir, og ekki heldur hvenær þær koma eða hve oft. Bænir og sjálfsnám hafa haldið mér á floti eins og björgunarvesti. Og stuðningur trúsystkina hefur verið mjög hughreystandi fyrir mig. Ég hef áttað mig á hve mikilvægt það er að eignast náið samband við Jehóva áður en erfiðleika ber að garði.“

Allir í söfnuðinum geta verið öðrum til hvatningar og uppörvunar. (Sjá 14. grein.)

14 Aron og Húr studdu bókstaflega hendur Móse meðan orrusta stóð yfir. Við getum verið vakandi fyrir því að styðja aðra með einhverjum hætti. Hverja? Þá sem eru að glíma við ellina, heilsubrest, andstöðu frá fjölskyldunni, einmanakennd eða ástvinamissi. Við getum líka stutt unga fólkið þegar þrýst er á það til að gera eitthvað rangt eða til að „komast áfram“ í þessum heimi, hvort heldur það er fjárhagslega, á sviði menntunar eða í atvinnulífinu. (1. Þess. 3:1-3; 5:11, 14) Sýndu öðrum ósvikinn áhuga í ríkissalnum, boðuninni, við matarborðið og þegar þú spjallar við þá í síma.

15. Hvaða áhrif er hægt að hafa á trúsystkini sín með því að segja eitthvað jákvætt?

15 Eftir að Asa hafði unnið stórsigur hvatti Asarja spámaður hann og þjóðina til dáða og sagði: „Verið hughraustir. Látið ykkur ekki fallast hendur því að ykkur verður umbunað fyrir verk ykkar.“ (2. Kron. 15:7) Þetta varð Asa hvatning til að vinna að ýmsum umbótum í þágu sannrar tilbeiðslu. Þú getur sömuleiðis haft sterk áhrif á aðra með því að vera jákvæður. Þannig hjálparðu þeim að þjóna Jehóva enn betur. (Orðskv. 15:23) Og mundu að þú ert öðrum til hvatningar þegar þú réttir upp höndina og segir eitthvað uppbyggilegt á samkomum.

16. Hvernig geta öldungar styrkt trúsystkini sín í söfnuðinum? Nefndu dæmi um hvernig trúsystkini hafa hjálpað þér.

16 Nehemía og þeir sem voru með honum hófust handa við að reisa borgarmúra Jerúsalem með hjálp Jehóva. Það tók ekki nema 52 daga að ljúka verkinu. (Neh. 2:18; 6:15, 16) En Nehemía hafði ekki bara umsjón með verkinu heldur tók sjálfur þátt í að endurreisa múrana. (Neh. 5:16) Margir safnaðaröldungar hafa getað líkt eftir honum og aðstoðað við byggingarframkvæmdir á vegum safnaðarins og eins með því að taka þátt í ræstingu og viðhaldi ríkissalarins. Þeir styrkja líka máttvana hendur þeirra sem eru kjarklitlir með því að starfa með þeim við boðunina og fara í hirðisheimsóknir. – Lestu Jesaja 35:3, 4.

„LÁTTU EKKI HUGFALLAST“

17, 18. Hverju megum við treysta þegar við erum kvíðin eða undir álagi?

17 Það styrkir eininguna að starfa náið með bræðrum okkar og systrum. Það tengir okkur líka varanlegum vináttuböndum og vonin um blessunina í ríki Guðs verður enn sterkari. Þegar við styrkjum máttvana hendur annarra hjálpum við þeim að glíma við letjandi aðstæður, vera jákvæðir og horfa björtum augum til framtíðar. Og ef við styðjum aðra með þessum hætti eigum við sjálf auðveldara með að halda okkar striki í þjónustu Guðs og finnum sterklega fyrir því að það sem hann ætlar að veita okkur verður að veruleika. Þannig styrkjum við sjálf okkur líka.

18 Það ætti að styrkja trú okkar og traust á Jehóva að sjá hvernig hann studdi og verndaði dygga þjóna sína forðum daga. Láttu því ekki hugfallast andspænis álagi og erfiðleikum. Leitaðu heldur til Jehóva í bæn og leyfðu honum að styrkja þig með máttugri hendi sinni og leiða þig inn í ríki sitt. – Sálm. 73:23, 24.