Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þið unga fólk, styrkið trú ykkar

Þið unga fólk, styrkið trú ykkar

„Trúin er ... sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ – HEBR. 11:1.

SÖNGVAR: 41, 69

1, 2. Hvaða þrýstingi verður ungt fólk oft fyrir og hvað getur það gert til að standa gegn honum?

„ÉG HÉLT að þú værir of klár til að trúa á Guð.“ Þetta fékk ung systir í Bretlandi að heyra frá skólasystur sinni. Bróðir í Þýskalandi skrifaði: „Kennararnir mínir líta á sköpunarsögu Biblíunnar sem goðsögn og finnst sjálfgefið að nemendurnir trúi á þróunarkenninguna.“ Ung systir í Frakklandi segir: „Kennarar í skólanum mínum undra sig á því að enn skuli vera til nemendur sem trúa á Biblíuna.“

2 Ertu ungur þjónn Jehóva eða ertu að læra um hann? Finnurðu þá fyrir þrýstingi til að trúa vinsælum kenningum eins og þróunarkenningunni frekar en að trúa á skapara? Ef svo er geturðu gert ýmislegt til að styrkja trú þína og halda henni sterkri. Þú getur til dæmis notað rökhugsunina sem Guð gaf þér. Það „mun vernda þig“ gegn veraldlegri heimspeki sem getur annars brotið niður trú þína. – Lestu Orðskviðina 2:10-12.

3. Um hvað er rætt í þessari grein?

3 Sönn trú byggist á nákvæmri þekkingu á Guði. (1. Tím. 2:4) Þegar þú lest í orði Guðs og biblíutengdum ritum ættirðu því ekki bara að renna lauslega yfir efnið. Veltu fyrir þér því sem þú lest þannig að þú ,skiljir það‘. (Matt. 13:23) Skoðum nú hvernig það getur hjálpað þér að styrkja trúna á að til sé skapari og að Biblían sé orð hans – en ekki skortir sannfærandi rök fyrir því. – Hebr. 11:1.

HVERNIG GETURÐU STYRKT TRÚNA?

4. Hvers vegna snýst afstaða fólks til Guðs og til uppruna lífsins alltaf um einhvers konar trú, og hvað þurfum við að gera?

4 Hafa einhverjir sagt við þig að þeir trúi þróunarkenningunni vegna þess að hún byggist á vísindum en að það sé bara trú að halda því fram að Guð sé til? Margir eru á þeirri skoðun. En það er gott að hafa eftirfarandi í huga: Sama hverju fólk trúir um Guð eða um þróun lífsins snýst málið um einhvers konar trú. Hvers vegna? Ekkert okkar hefur séð Guð eða séð hann skapa. (Jóh. 1:18) Og enginn maður – hvort sem hann er vísindamaður eða ekki – hefur séð eina tegund lífvera þróast af annarri. Enginn hefur til dæmis séð spendýr þróast af skriðdýri. (Job. 38:1, 4) Við þurfum því öll að skoða rökin og nota skynsemina til að komast að rökréttri niðurstöðu. Páll postuli skrifaði um sköpunarverkið: „Ósýnilega veru [Guðs], eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins. Því eru mennirnir án afsökunar.“ – Rómv. 1:20.

Notfærðu þér hjálpargögnin sem eru til á þínu tungumáli þegar þú ræðir við aðra um trú þína. (Sjá 5. grein.)

5. Hvaða hjálp hafa þjónar Guðs fengið til að geta skynjað það sem er ekki sýnilegt?

5 Að „skynja“ þýðir að átta sig á einhverju sem er ekki beint sýnilegt eða augljóst við fyrstu sýn. (Hebr. 11:3) Skynugt fólk notar því ekki bara augun og eyrun heldur líka rökhugsun. Söfnuður Jehóva hefur veitt okkur mörg hjálpargögn byggð á traustum rannsóknum. Þau geta gert okkur kleift að ,sjá‘ skapara okkar með augum trúarinnar. (Hebr. 11:27) Við höfum meðal annars fengið myndbandið The Wonders of Creation Reveal God’s Glory, bæklingana Var lífið skapað? og The Origin of Life – Five Questions Worth Asking, og bókina Er til skapari sem er annt um okkur? Við fáum líka góða hjálp í tímaritunum okkar til að skynja það sem er ekki sýnilegt. Í Vaknið! hafa oft verið tekin viðtöl við vísindamenn og aðra sem útskýra hvers vegna þeir fóru að trúa á Guð. Í greinaröðinni „Býr hönnun að baki?“ er bent á dæmi um snilldarlega hönnun sem við sjáum í náttúrunni. Vísindamenn reyna oft að nýta þessar stórkostlegu hönnunarlausnir og líkja eftir þeim.

6. Hvaða gagn getum við haft af hjálpargögnunum sem eru í boði og hvaða gagn hefur þú haft af þeim?

6 Nítján ára bróðir í Bandaríkjunum sagði um bæklingana tvo sem nefndir voru í greininni á undan: „Þeir hafa verið ómetanlegir. Ég hef örugglega lesið þá tíu sinnum.“ Systir í Frakklandi skrifaði: „Ég dáist að greinunum ,Býr hönnun að baki?‘ Þær sýna að færustu verkfræðingar geta líkt eftir flókinni hönnun náttúrunnar en lausnir þeirra jafnast aldrei á við það sem finnst í náttúrunni.“ Foreldrar 15 ára stúlku í Suður-Afríku sögðu: „Yfirleitt er viðtalsgreinin það fyrsta sem dóttir okkar les í Vaknið!“ Hvað um þig? Nýtirðu þér þessi hjálpargögn til fulls? Þau geta styrkt trú þína þannig að hún verði eins og rótfast tré. Slík trú hjálpar þér að standa gegn öllu sem líkja má við falskenningavinda. – Jer. 17:5-8.

TRÚ ÞÍN Á BIBLÍUNA

7. Hvers vegna vill Guð að þú beitir skynsemi og rökhugsun?

7 Er rangt að spyrja einlægra spurninga um Biblíuna? Alls ekki. Jehóva vill að þú beitir skynseminni til að fullvissa sjálfan þig um sannleikann. Hann vill ekki að þú trúir bara af því að aðrir gera það. Beittu því rökhugsuninni til að afla þér nákvæmrar þekkingar. Þessi þekking getur orðið traustur grundvöllur að sterkri trú. (Lestu Rómverjabréfið 12:1, 2; 1. Tímóteusarbréf 2:4.) Ein leið til að afla þér slíkrar þekkingar er að gera það sem þú vilt skoða betur að námsverkefni.

8, 9. (a) Hvað gæti maður tekið fyrir í sjálfsnámi sínu? (b) Hvaða gagn hafa sumir haft af því að hugleiða efni sem þeir hafa lesið?

8 Sumir hafa valið sér að námsverkefni að rannsaka biblíuspádóma eða hvernig sagnfræði, fornleifafræði og vísindi staðfesta nákvæmni Biblíunnar. Heillandi spádóm, sem mætti skoða, er að finna í 1. Mósebók 3:15. Þar er aðalboðskapur Biblíunnar kynntur til sögunnar, sá að ríki Guðs á eftir að helga nafn hans og sanna að hann er réttmætur drottinn alheims. Í þessu eina versi er sýnt fram á með myndmáli hvernig Jehóva ætlar að binda enda á allar þær þjáningar sem menn hafa upplifað frá því í Eden. Hvernig geturðu rannsakað 1. Mósebók 3:15? Þú gætir búið til tímalínu. Við hana gætirðu skrifað ritningarstaði sem sýna hvernig Guð hefur smám saman varpað ljósi á persónurnar og atburðina í þessu versi og sanna að spádómurinn rætist. Þegar þú sérð hvernig ritningarstaðirnir mynda samstæða heild gerirðu þér eflaust grein fyrir að spámenn Biblíunnar og ritarar hennar hafi verið „knúðir af heilögum anda“. – 2. Pét. 1:21.

9 Bróðir í Þýskalandi skrifaði: „Ríki Guðs er eins og rauður þráður í gegnum alla Biblíuna, og það þó að um 40 menn hafi skrifað hana. Margir þeirra voru uppi á mismunandi tíma og þekktust ekki.“ Áströlsk systir var snortin þegar hún las námsgrein í Varðturninum 15. desember 2013 sem fjallar um páskahátíð Gyðinga og þýðingu hennar. Þessi sérstaka hátíð er nátengd 1. Mósebók 3:15 og komu Messíasar. Hún skrifaði: „Greinin opnaði augu mín fyrir því hve dásamlegur Jehóva er. Mér fannst mjög merkilegt að hann skyldi hafa upphugsað þessa ráðstöfun fyrir Ísraelsmenn og látið hana uppfyllast á Jesú. Ég þurfti að staldra við og hugleiða hve stórkostleg þessi spádómlega páskamáltíð var.“ Hvers vegna leið systurinni þannig? Hún hugleiddi vandlega það sem hún las og skildi það. Það styrkti trú hennar og samband hennar við Jehóva. – Matt. 13:23.

10. Hvernig styrkir heiðarleiki biblíuritaranna trú okkar á Biblíuna?

10 Það er líka trústyrkjandi að hugleiða hve hugrakkir og heiðarlegir ritarar Biblíunnar voru. Margir sagnaritarar til forna upphófu leiðtoga sína og dásömuðu ríki sín. Spámenn Jehóva sögðu hins vegar alltaf sannleikann. Þeir sögðu frá því slæma sem landar þeirra og jafnvel konungar þeirra gerðu. (2. Kron. 16:9, 10; 24:18-22) Þeir sögðu líka hreinskilnislega frá eigin mistökum og afglöpum annarra þjóna Guðs. (2. Sam. 12:1-14; Mark. 14:50) „Slíkur heiðarleiki er sjaldgæfur,“ sagði ungur bróðir í Bretlandi. „Það styrkir traust okkar á að Biblían sé í raun og veru frá Jehóva.“

11. Hvernig getur ungt fólk áttað sig betur á hve mikils virði meginreglur Biblíunnar eru?

11 Meginreglur Biblíunnar hafa sannfært marga um að hún sé innblásin af Guði. (Lestu Sálm 19:8-12.) Ung systir í Japan skrifaði: „Við fjölskyldan fundum sanna hamingju þegar við fórum að fylgja því sem Biblían kennir. Við fundum fyrir friði, einingu og kærleika.“ Meginreglur Biblíunnar vernda okkur gegn falsguðadýrkun og hjátrú sem heldur mörgum í heljargreipum. (Sálm. 115:3-8) Hafa kenningar manna um að Guð sé ekki til haft áhrif á fólk? Kenningar eins og þróunarkenningin gera náttúruna að eins konar guði og eigna henni mátt sem Jehóva einn býr yfir. Þeir sem segja að Guð sé ekki til halda því fram að framtíðin sé að öllu leyti undir sjálfum okkur komin, en í því er enga von um betri framtíð að finna. – Sálm. 146:3, 4.

ÞEGAR ÞÚ RÆÐIR VIÐ AÐRA UM TRÚNA

12, 13. Nefndu góða leið til að ræða við skólafélaga, kennara og aðra um sköpun eða Biblíuna.

12 Hvernig geturðu rætt við aðra um sköpun og Biblíuna með árangursríkum hætti? Ályktaðu ekki strax að þú vitir hverju viðmælandinn trúir. Sumir segjast trúa þróunarkenningunni en hugsa samt að Guð sé til. Þeir trúa því að Guð hafi notað þróun til að skapa mismunandi tegundir lífs. Sumir segjast trúa þróunarkenningunni vegna þess að þeir hugsa að hún væri ekki kennd í skólum ef hún væri ekki staðreynd. Og aðrir hætta að trúa á Guð af því að trúarbrögðin hafa valdið þeim vonbrigðum. Það er því yfirleitt gott að byrja á að spyrja spurninga þegar maður ræðir við einhvern um uppruna lífsins. Áttaðu þig á hverju hann trúir. Ef þú ert sanngjarn og fús til að hlusta verður hann líklega fúsari til að hlusta á þig. – Tít. 3:2.

13 Ef einhver virðist vera að ráðast á trú þína á sköpun gætirðu fært athyglina yfir á skoðanir hans. Þú gætir beðið hann vingjarnlega um að útskýra hvernig lífið hefði getað orðið til án skapara. Til að fyrsta lífveran gæti haldið velli þurfti hún að geta fjölgað sér, það er að segja afritað sjálfa sig. Efnafræðiprófessor segir að til þess hefði hún meðal annars þurft að hafa (1) frumuhimnu sem verndar hana, (2) hæfileika til að afla sér orku og vinna úr henni, (3) upplýsingar í erfðavísum og (4) hæfileika til að afrita þessar upplýsingar. Hann bætir við: „Það er stórmerkilegt að sjá hve flóknar jafnvel þessar einföldustu lífverur eru.“

14. Hvað geturðu gert ef þér finnst þú ekki vera í stakk búinn til að ræða um þróun eða sköpun?

14 Ef þér finnst þú ekki vera í stakk búinn til að ræða um þróun eða sköpun geturðu prófað að nota þau einföldu rök sem Páll notaði. Hann skrifaði: „Sérhvert hús hefur einhver gert en Guð er sá sem allt hefur gert.“ (Hebr. 3:4) Slík rök eru mjög sannfærandi. Á bak við flókna hönnun stendur vitiborinn hönnuður. Þú getur líka notað viðeigandi rit. Systir ein notaði bæklingana tvo sem rætt var um fyrr í greininni. Hún gaf þá ungum manni sem sagðist ekki trúa á tilvist Guðs heldur þróunarkenninguna. Um viku síðar sagði ungi maðurinn: „Núna trúi ég á Guð.“ Í framhaldinu þáði hann biblíunámskeið og er nú orðinn bróðir okkar.

15, 16. Hvað ættum við að gera áður en við færum rök fyrir því að Biblían sé frá Guði, og hvert ætti markmiðið að vera?

15 Þú getur notað sömu aðferð þegar þú ræðir við einhvern sem efast um áreiðanleika Biblíunnar. Áttaðu þig á hverju hann trúir og hvaða málefni gætu vakið áhuga hans. (Orðskv. 18:13) Ef hann hefur áhuga á vísindum gæti verið gott að nota vers sem sýna fram á hve nákvæm Biblían er í vísindalegum málum. Öðrum gæti fundist athyglisvert að sjá dæmi sem sýna að spádómar Biblíunnar eru áreiðanlegir og að hún er sagnfræðilega nákvæm. Þú gætir líka bent á hvernig meginreglur Biblíunnar eru okkur til góðs, til dæmis þær sem koma fram í fjallræðunni.

16 Hafðu í huga að markmiðið er að vinna hjörtu fólks en ekki rökræðurnar. Hlustaðu því vel á viðmælanda þinn. Spyrðu einlægra spurninga og sýndu hógværð og virðingu, sérstaklega þegar þú talar við eldra fólk. Viðmælandinn verður þá líklegri til að virða skoðanir þínar. Hann tekur líka eftir að þú hefur hugsað vandlega um það sem þú trúir, ólíkt mörgu ungu fólki. Það er auðvitað gott að hafa í huga að þú þarft ekki að svara þeim sem taka engum rökum eða vilja bara gera grín að trúarskoðunum þínum. – Orðskv. 26:4.

LÁTTU SANNLEIKANN NÁ TIL HJARTANS

17, 18. (a) Hvað getur hjálpað þér að láta sannleikann ná til hjartans? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?

17 Það þarf meira til en grundvallarþekkingu á Biblíunni til að hafa sterka trú. Kafaðu því djúpt í orði Guðs eins og þú værir að leita að földum fjársjóðum. (Orðskv. 2:3-6) Notfærðu þér hjálpargögn sem eru til á þínu tungumáli eins og VEFBÓKASAFN Varðturnsins og Efnislykilinn að ritum Votta Jehóva. Settu þér líka það markmið að lesa alla Biblíuna. Þú gætir reynt að gera það á einu ári. Fátt getur styrkt trú okkar jafn mikið og að lesa í orði Guðs. Farandhirðir sagði þegar hann hugsaði til unglingsáranna: „Eitt sem sannfærði mig um að Biblían væri orð Guðs var að lesa hana spjaldanna á milli. Ég gat loksins skilið biblíusögurnar sem ég hafði lært allt frá því að ég var lítill. Þetta breytti öllu hvað varðar samband mitt við Jehóva.“

18 Foreldrar, þið gegnið mjög stóru hlutverki í því að fræða börnin ykkar um Jehóva. Hvernig getið þið hjálpað þeim að byggja upp sterka trú? Um það er rætt í næstu grein.