Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Orð Guðs vors varir að eilífu“

„Orð Guðs vors varir að eilífu“

„Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“ – JES. 40:8.

SÖNGVAR: 95, 97

1, 2. (a) Hvernig væri lífið ef Biblían væri ekki til? (b) Hvað er nauðsynlegt til að við höfum fullt gagn af Biblíunni?

GETURÐU ímyndað þér hvernig lífið væri ef Biblían væri ekki til? Þú hefðir engar áreiðanlegar leiðbeiningar um hið daglega líf. Þú hefðir ekki fullnægjandi svör við spurningum þínum um Guð, lífið og framtíðina. Og þú vissir ekki af samskiptum Guðs við mannkynið á liðnum tíma.

2 Sem betur fer erum við ekki svona illa á vegi stödd. Jehóva hefur látið okkur í té orð sitt, Biblíuna. Hann hefur líka lofað að boðskapur hennar vari að eilífu. Pétur postuli vitnaði í Jesaja 40:8. Þó að Biblían eins og við þekkjum hana sé ekki beinlínis nefnd í versinu eiga þessi innblásnu orð við um boðskap hennar í heild sinni. (Lestu 1. Pétursbréf 1:24, 25.) Við höfum auðvitað mest gagn af Biblíunni ef hún er til á máli sem við skiljum vel. Þeir sem elska orð Guðs hafa lengi vitað það. Í aldanna rás hafa einlægir menn lagt sig í líma við að þýða Biblíuna og dreifa henni þó að það hafi ekki alltaf verið auðvelt. Þeir báru í brjósti sömu löngun og Jehóva Guð sem vill „að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. – 1. Tím. 2:3, 4.

3. Um hvað er rætt í þessari grein? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Í þessari grein lítum við á dæmi sem sýna hvernig orð Guðs hefur varðveist þrátt fyrir (1) breytingar á tungumálum, (2) breytingar á vettvangi stjórnmála sem hafa haft áhrif á almenn samskiptamál fólks og (3) andstöðu gegn því að Biblían væri þýdd. Hvers vegna er gott fyrir okkur að kanna þessi mál? Við fáum enn meiri mætur á orði Guðs. Það styrkir líka kærleiksböndin við höfund Biblíunnar sem lét hana í té okkur til gagns. – Míka 4:2; Rómv. 15:4.

TUNGUMÁL BREYTAST

4. (a) Hvernig breytast tungumál með tímanum? (b) Hvað sýnir að Guð mismunar ekki fólki eftir tungumáli, og hvaða tilfinningu vekur það með þér?

4 Tungumál breytast með tímanum. Orð og orðasambönd eiga það til að fá algerlega nýja merkingu. Þú þekkir kannski dæmi um breytingar sem hafa orðið á máli sem þú kannt. Hið sama er að segja um hebresku og grísku, málin tvö sem Biblían er að mestu leyti skrifuð á. Nútímahebreska og -gríska eru harla ólík því sem var á þeim tíma þegar Biblían var skrifuð. Nálega allir sem vilja skilja orð Guðs þurfa því að lesa þýðingu, jafnvel þeir sem tala nútímamálin hebresku og grísku. Sumir halda að það sé best að læra fornhebresku og forngrísku til að geta lesið Biblíuna á frummálunum. En það kemur líklega ekki að eins miklu gagni og ætla mætti. * Sem betur fer hefur Biblían verið þýdd í heild eða að hluta á næstum 3.000 tungumál. Jehóva vill greinilega að fólk af „sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð“ geti nýtt sér orð hans. (Lestu Opinberunarbókina 14:6.) Finnst þér það ekki draga þig nær Guði sem er bæði kærleiksríkur og óhlutdrægur? – Post. 10:34.

5. Lýstu áhrifum King James-biblíunnar.

5 Þau tungumál, sem Biblían hefur verið þýdd á, hafa líka breyst með tímanum. Þó að ákveðin biblíuþýðing hafi verið auðskilin á sínum tíma má búast við að hún skiljist ekki eins vel þegar fram líða stundir. Tökum King James-biblíuna sem dæmi en hún kom fyrst út á ensku árið 1611. Hún varð með tímanum ein vinsælasta biblían í hinum enskumælandi heimi og hafði umtalsverð áhrif á enska tungu. Eftirtekt vekur að King James-biblían gerði nafni Guðs ekki hátt undir höfði. Nafnið „Jehóva“ (Jehovah) stóð þar í fáeinum versum en annars staðar stóð „DROTTINN“ (LORD) með upphafsstöfum þar sem nafn Guðs stóð í hebresku handritunum. Í síðari útgáfum hennar stóð líka „DROTTINN“ (LORD) með upphafsstöfum sums staðar í Nýja testamentinu sem svo er nefnt. Í þeim skilningi viðurkenndi King James-biblían að nafn Guðs ætti heima í Nýja testamentinu.

6. Hvers vegna megum við vera þakklát fyrir Nýheimsþýðinguna?

6 Öldum síðar var orðfæri King James-biblíunnar þó orðið úrelt að stórum hluta. Hið sama má segja um gamlar þýðingar Biblíunnar á önnur tungumál. En það er ánægjulegt að Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar skuli hafa verið þýdd í heild eða að hluta á meira en 150 tungumál. Stór hluti jarðarbúa hefur því aðgang að henni á móðurmáli sínu. Hún er á skýru nútímamáli þannig að orð Guðs nær greiðlega til hjartans. (Sálm. 119:97) Í henni endurheimtir nafn Guðs sinn réttmæta sess í textanum.

ALMENN SAMSKIPTAMÁL

7, 8. (a) Hvers vegna voru margir Gyðingar hættir að skilja hebresku ritningarnar á þriðju öld f.Kr.? (b) Hvað er Sjötíumannaþýðingin?

7 Saga mannkyns ber með sér að breytingar á vettvangi stjórnmála hafa stundum haft áhrif á það hvaða tungumál var notað sem almennt samskiptamál fólks. Hvernig hefur Guð séð til þess að fólk skildi orð hans þrátt fyrir breytingar af þessu tagi? Við finnum svar við því með því að skoða dæmi úr fortíðinni. Gyðingum var upphaflega ,trúað fyrir orðum Guðs‘ og þeir skrifuðu fyrstu 39 bækur Biblíunnar. (Rómv. 3:1, 2) Á þriðju öld f.Kr. var hins vegar svo komið að fjöldi Gyðinga skildi ekki lengur hebresku. Það kom til af því að Alexander mikli hafði lagt undir sig lönd og þjóðir og réð yfir víðáttumiklu heimsveldi. (Dan. 8:5-7, 20, 21) Samhliða því varð gríska almennt samskiptamál margra af þegnum hans, þeirra á meðal Gyðinga sem bjuggu víða um lönd. En þegar Gyðingar tóku að tala gríska tungu varð erfiðara fyrir flesta þeirra að skilja hebresku ritningarnar. Hvað var til ráða?

8 Fyrstu fimm bækur Biblíunnar voru þýddar úr hebresku á grísku um miðbik þriðju aldar f.Kr. Búið var að þýða allar hebresku ritningarnar á annarri öld f.Kr. Þessi þýðing hebresku biblíubókanna var síðar nefnd Sjötíumannaþýðingin. Hún er fyrsta þýðing hebresku ritninganna í heild sinni sem vitað er um.

9. (a) Hvaða áhrif höfðu Sjötíumannaþýðingin og aðrar þýðingar fyrr á öldum á þá sem lásu orð Guðs? (b) Hvaða kaflar eða bækur hebresku ritninganna eru í uppáhaldi hjá þér?

9 Sjötíumannaþýðingin auðveldaði grískumælandi Gyðingum og fleirum til muna að lesa hebresku ritningarnar. Hugsaðu þér hve hrífandi það hefur verið fyrir þá að heyra eða lesa orð Guðs á móðurmáli sínu. Þegar fram liðu stundir var Biblían þýdd í heild eða að hluta á önnur útbreidd tungumál, svo sem sýrlensku, gotnesku og latínu. Margir áttu eflaust sína uppáhaldskafla meðal hinna helgu rita, rétt eins og við, þegar þeir gátu lesið þau á máli sem þeir skildu. (Lestu Sálm 119:162-165.) Orð Guðs hefur sannarlega varðveist þrátt fyrir að almenn samskiptamál hafi breyst.

ANDSTAÐA GEGN ÞÝÐINGU BIBLÍUNNAR

10. Hvers vegna hafði almenningur nánast engan aðgang að Biblíunni á dögum Johns Wycliffes?

10 Valdamiklir aðilar hafa stundum reynt að hindra að almenningur hafi aðgang að Biblíunni. En einlægir menn hafa boðið þeim birginn. Sem dæmi má nefna guðfræðinginn John Wycliffe en hann var uppi á 14. öld. Hann var eindregið þeirrar skoðunar að allir ættu að fá að njóta góðs af orði Guðs. Á hans dögum hafði almenningur á Englandi nánast engan aðgang að Biblíunni. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að fáir höfðu efni á að eignast hana, enda var hún handskrifuð og afar dýr í framleiðslu. Flestir voru auk þess ólæsir. Margir heyrðu trúlega lesið upp úr Biblíunni í kirkju. Það er þó ólíklegt að þeir hafi skilið það sem lesið var. Ástæðan er sú að hin opinbera kirkjubiblía (Vúlgata) var á latínu. Á miðöldum var latína hins vegar útdautt tungumál meðal almennings. Hvernig var þá hægt að ljúka upp fjársóðum Biblíunnar fyrir fólki? – Orðskv. 2:1-5.

John Wycliffe og fleiri vildu að allir hefðu aðgang að orði Guðs. Berðu sömu löngun í brjósti? (Sjá 11. grein.)

11. Hvaða áhrif hafði Wycliffe-biblían?

11 Árið 1382 leit dagsins ljós ensk þýðing sem var síðar kölluð Wycliffe-biblían. Fylgjendur Wycliffes tóku fljótt ástfóstri við henni. Þeim var mikið í mun að miðla almúgafólki af orði Guðs svo að það snerti huga þess og hjarta. Farandprédikarar, sem voru nefndir Lollardar, fóru fótgangandi milli þorpa um allt England, lásu gjarnan upp úr Wycliffe-biblíunni fyrir fólk og skildu eftir handskrifuð afrit. Starf þeirra olli straumhvörfum og vakti að nýju áhuga fólks á orði Guðs.

12. Hvernig brugðust kirkjunnar menn við Wycliffe og hreyfingu hans?

12 Hvernig brugðust kirkjunnar menn við? Þeir hötuðu Wycliffe, biblíuþýðingu hans og fylgjendur. Ráðamenn í trúmálum ofsóttu Lollardana. Þeir leituðu uppi og eyðilögðu eins mörg eintök Wycliffe-biblíunnar og þeir gátu. Wycliffe var lýstur trúvillingur eftir að hann var dáinn. Það var auðvitað ekki hægt að refsa dánum manni en kirkjunnar menn létu grafa upp bein hans, brenna þau og henda öskunni í ána Swift. En áhugi fólks á að lesa orð Guðs og skilja það var slíkur að kirkjan megnaði ekki að koma í veg fyrir að það breiddist út. Á næstu öldum tóku menn víða um Evrópu til við að þýða Biblíuna og dreifa henni til góðs fyrir almenning. Hið sama gerðist í öðrum heimshlutum.

HANN ,KENNIR ÞÉR ÞAÐ SEM GAGNLEGT ER‘

13. Hvað erum við sannfærð um og hvernig styrkir það trú okkar?

13 Við skulum ekki hugsa sem svo að Guð hafi beinlínis blásið mönnum í brjóst að þýða Sjötíumannaþýðinguna, Wycliffe-biblíuna, King James-biblíuna eða aðrar þýðingar. Eitt er þó ljóst þegar litið er yfir sögu þessara þýðinga og margra annarra sem komið hafa út: Orð Jehóva hefur varðveist alveg eins og hann lofaði. Styrkir það ekki þá trú þína að Jehóva standi við öll önnur loforð sín? – Jós. 23:14.

14. Hvers vegna fær orð Guðs okkur til að elska hann enn heitar?

14 Það bæði styrkir trú okkar og fær okkur til að elska Jehóva enn heitar að skoða hvernig Biblían hefur varðveist í aldanna rás. * Hvers vegna gaf hann okkur eiginlega orð sitt? Hvers vegna sá hann til þess að það varðveittist? Vegna þess að hann elskar okkur og vill kenna okkur það sem gagnlegt er. (Lestu Jesaja 48:17, 18.) Það er auðvitað við hæfi að við elskum Jehóva fyrst hann elskar okkur og að við hlýðum boðum hans. – 1. Jóh. 4:19; 5:3.

15. Hvað er til umræðu í næstu grein?

15 Við metum orð Guðs mikils og viljum að sjálfsögðu hafa sem mest gagn af því. Hvernig getum við fengið sem mest út úr því að lesa Biblíuna? Hvernig getum við beint athygli að Biblíunni þegar við boðum fagnaðarerindið? Hvað geta þeir sem kenna á samkomum og mótum gert til að Biblían sé þungamiðjan í kennslunni? Við leitum svara við þessum spurningum í næstu grein.

^ gr. 4 Sjá greinina „Er nauðsynlegt að læra hebresku og grísku?“ í Varðturninum 1. janúar 2010.

^ gr. 14 Sjá rammann „ Sjáðu með eigin augum“.