Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Temdu þér sjálfstjórn

Temdu þér sjálfstjórn

„Ávöxtur andans er ... sjálfsagi.“ – GAL. 5:22, 23.

SÖNGVAR: 121, 36

1, 2. (a) Hvað getur gerst ef maður sýnir ekki næga sjálfstjórn? (b) Hvers vegna er mikilvægt að ræða um sjálfstjórn nú á dögum?

SJÁLFSTJÓRN er eiginleiki Jehóva að skapi og hann sýnir hann í fullkomnum mæli. (Gal. 5:22, 23) Mennirnir eru hins vegar ófullkomnir og þurfa að hafa fyrir því að sýna sjálfstjórn. Mörg þeirra vandamála, sem fólk glímir við nú á dögum, stafa reyndar af því að það sýnir ekki næga sjálfstjórn. Það getur leitt til þess að það slái hlutum á frest og standi sig illa í skóla eða vinnu. Léleg sjálfstjórn getur líka leitt til ofdrykkju, ofbeldis, skilnaðar eða fíknar, eða til þess að maður úthúði öðrum, taki á sig óþarfar skuldir eða lendi í fangelsi. Það getur valdið tilfinningalegu áfalli, kynsjúkdómum og ótímabærri þungun og þá eru aðeins fáein dæmi nefnd. – Sálm. 34:12-15.

2 Já, fólk, sem hefur ekki næga sjálfstjórn, veldur sjálfu sér og öðrum erfiðleikum og það er vandamál sem fer sívaxandi. Á fimmta áratugnum var gerð rannsókn á sjálfsaga en nýlegar kannanir leiða í ljós að fólk sýni þennan eiginleika í miklu minni mæli núna en það gerði þá. Þetta kemur biblíunemendum ekki á óvart þar sem Biblían spáði því að eitt af einkennum ,síðustu daga‘ væri að menn yrðu „taumlausir“. – 2. Tím. 3:1-3.

3. Hvers vegna ættu þjónar Guðs að vilja temja sér sjálfstjórn?

3 Hvers vegna ætti það að skipta okkur máli að temja okkur sjálfstjórn? Skoðum tvær mikilvægar ástæður. Í fyrsta lagi hefur það sýnt sig að fólk, sem tekst að hafa stjórn á sjálfu sér, á yfirleitt við færri vandamál að glíma en aðrir. Það er í betra jafnvægi tilfinningalega en hvatvíst fólk, á auðveldara með að eignast góða vini, reiðist sjaldnar og verður síður áhyggjufullt og þunglynt. Í öðru lagi þurfum við að geta staðist freistingar og haft stjórn á óviðeigandi hvötum þar sem það er algert grundvallaratriði til að geta haft velþóknun Guðs. Mistök Adams og Evu eru skýrt dæmi um það. (1. Mós. 3:6) Við getum líka séð það af öðrum sem hafa þurft að taka afleiðingum þess að hafa ekki sýnt þennan mikilvæga eiginleika.

4. Hvað er uppörvandi að vita fyrir þá sem eiga erfitt með að sýna sjálfstjórn?

4 Enginn ófullkominn maður getur sýnt fullkomna sjálfstjórn. Jehóva veit hve erfitt það getur verið fyrir þjóna hans að hafa stjórn á syndugum tilhneigingum sínum og hann vill hjálpa þeim. (1. Kon. 8:46-50) Hann er kærleiksríkur vinur og uppörvar hlýlega einlægt fólk sem vill þjóna honum en á erfitt með að sýna sjálfstjórn á einhverju sviði lífsins. Við skulum nú skoða fullkomið fordæmi Jehóva. Síðan verður rætt um góðar fyrirmyndir og slæmar sem sagt er frá í Biblíunni. Við lítum líka á góð ráð sem geta hjálpað okkur að temja okkur sjálfstjórn.

JEHÓVA ER BESTA FYRIRMYNDIN

5, 6. Hvernig er Jehóva okkur fyrirmynd í að sýna sjálfstjórn?

5 Jehóva sýnir fullkomna sjálfstjórn þar sem hann gerir allt á fullkominn hátt. (5. Mós. 32:4) Við erum hins vegar ófullkomin. Til að geta skilið þennan eiginleika þurfum við samt að skoða fordæmi Jehóva þannig að við getum líkt betur eftir honum. Hvenær hefur Jehóva sýnt sjálfstjórn með einstökum hætti?

6 Hugsum um hvernig viðbrögð Jehóva við svívirðilegri uppreisn Satans bera vitni um sjálfstjórn. Hann þurfti að taka á uppreisninni. Ásökun Satans hefur eflaust vakið gremju, reiði og fyrirlitningu hjá trúföstum andaverum Guðs á himni. Þér líður kannski eins þegar þú hugsar um allar þær þjáningar sem Satan hefur valdið. Jehóva brást þó ekki fljótfærnislega við. Hann var yfirvegaður og viðbrögð hans voru viðeigandi. Hann hefur verið seinn til reiði og tekið á uppreisn Satans af réttlæti. (2. Mós. 34:6; Job. 2:2-6) Hvers vegna? Jehóva hefur beðið með að fullnægja dómi af því að hann vill ekki að neinn glatist heldur að „allir komist til iðrunar“. – 2. Pét. 3:9.

7. Hvað getum við lært af fordæmi Jehóva?

7 Fordæmi Jehóva hvað sjálfstjórn varðar kennir okkur að við þurfum að hugsa áður en við tölum eða gerum eitthvað. Við ættum ekki að flýta okkur um of. Þegar þú þarft að taka á mikilvægu máli skaltu gefa þér þann tíma sem þú þarft til að bregðast skynsamlega við. Biddu Jehóva um visku til að segja eða gera hið rétta. (Sálm. 141:3) Í hita leiksins getur verið auðvelt að láta tilfinningarnar ráða ferðinni. Margir hafa séð eftir því sem þeir hafa sagt eða gert í fljótfærni. – Orðskv. 14:29; 15:28; 19:2.

GÓÐAR OG SLÆMAR FYRIRMYNDIR MEÐAL ÞJÓNA GUÐS

8. (a) Hvar getum við fundið dæmi um fólk sem sýndi eiginleika Guði að skapi? (b) Hvernig gat Jósef brugðist við eins og hann gerði þegar eiginkona Pótífars reyndi að tæla hann? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

8 Hvaða dæmi í Biblíunni sýna fram á gildi þess að hafa stjórn á viðbrögðum sínum? Þér dettur eflaust í hug ýmsir karlar og konur í Biblíunni sem héldu aftur af sér þegar þau urðu fyrir prófraunum. Einn þeirra er Jósef, sonur Jakobs. Hann hélt aftur af sér þegar hann þjónaði í húsi Pótífars, lífvarðarforingja faraós. Eiginkona Pótífars varð hrifin af Jósef sem var „vel vaxinn og fríður sýnum“ og hún reyndi að draga hann á tálar. Hvernig gat Jósef staðist ítrekaðar tilraunir hennar? Hann hefur án efa tekið sér tíma til að hugsa um hverjar afleiðingarnar yrðu ef hann slakaði á verðinum. Þegar aðstæðurnar síðan reyndu verulega á flýði hann frá henni. Hann hugsaði með sér: „Hvers vegna skyldi ég ... aðhafast svo illt og syndga á móti Guði?“ – 1. Mós. 39:6, 9; lestu Orðskviðina 1:10.

9. Hvernig geturðu búið þig undir að standast freistingar?

9 Hvað lærum við af fordæmi Jósefs? Við gætum þurft að flýja þegar reynt er að freista okkar til að brjóta lög Guðs með einhverjum hætti. Sumir þeirra sem nú eru vottar hafa áður átt í glímu við ofát, ofdrykkju, reykingar, fíkniefnaneyslu, kynferðislegt siðleysi og annað þessu líkt. Stundum fá þeir ef til vill löngun til að fara aftur í gamla farið, jafnvel eftir að þeir hafa látið skírast. Ef það freistar þín einhvern tíma að brjóta gegn lögum Guðs skaltu styrkja varnir þínar. Taktu þér tíma til að hugsa um þær ömurlegu afleiðingar sem það gæti haft á samband þitt við Jehóva að halda ekki aftur af syndugum tilhneigingum. Reyndu að sjá fyrir þér aðstæður þar sem freistingar eru líklegar til að koma upp og ákveddu hvernig þú ætlar að forðast þær. (Sálm. 26:4, 5; Orðskv. 22:3) Ef þú lendir í slíkum prófraunum skaltu biðja Jehóva að gefa þér þá visku og sjálfstjórn sem þú þarft til að standast þær.

10, 11. (a) Hvaða veruleika standa margir unglingar frammi fyrir í skólanum? (b) Hvað getur hjálpað unglingum í söfnuðinum að standast hópþrýsting og taka ekki þátt í siðlausri hegðun?

10 Margt ungt fólk í söfnuðinum lendir í svipaðri prófraun og Jósef. Tökum Kim sem dæmi. Flestir bekkjarfélaga hennar voru kynferðislega virkir og eftir dæmigerða helgi gortuðu þeir sig og sögðu frá nýjustu kynlífsafrekum sínum. Kim hafði engar slíkar sögur að segja. Hún viðurkennir að henni hafi stundum fundist hún „yfirgefin og einmana“ vegna þess að hún skar sig úr, og að jafnaldrarnir hafi fundist hún vera vitlaus að fara ekki á stefnumót. En Kim var nógu skynsöm til að átta sig á að freistingin til að hafa kynmök er mikil meðal margra unglinga. (2. Tím. 2:22) Skólafélagar spurðu hana oft hvort hún væri enn hrein mey. Þannig fékk hún tækifæri til að útskýra hvers vegna hún stundaði ekki kynlíf. Við erum stolt af unglingum í söfnuðinum sem eru ákveðnir í að standast hópþrýsting og eiga engan þátt í kynferðislegu siðleysi. Og Jehóva er líka stoltur af þeim.

11 Okkur til viðvörunar segir Biblían frá fólki sem hafði ekki næga stjórn á kynferðislegum löngunum sínum. Hún bendir líka á þær sorglegu afleiðingar sem slíkt taumleysi getur haft í för með sér. Þeir sem eru í svipuðum aðstæðum og Kim ættu að hugleiða frásöguna af unga óskynsama manninum í 7. kafla Orðskviðanna. Hugsum líka um það sem Amnon gerði og hræðilegar afleiðingar þess. (2. Sam. 13:1, 2, 10-15, 28-32) Foreldrar gætu hjálpað börnum sínum að temja sér sjálfstjórn og afla sér visku varðandi samskipti við hitt kynið með því að ræða þau mál í tilbeiðslustund fjölskyldunnar og nota þá versin sem nefnd eru hér að ofan.

12. (a) Hvernig hélt Jósef aftur af tilfinningunum þegar hann talaði við bræður sína? (b) Við hvaða aðstæður þurfum við að halda aftur af tilfinningum okkar?

12 Jósef sýndi líka sjálfstjórn við annað tækifæri. Þegar bræður hans komu til hans í Egyptalandi til að kaupa vistir leyndi hann því hver hann væri þar sem hann vildi sjá hvað byggi í hjörtum þeirra. Tilfinningarnar báru hann nánast ofurliði en þá fór hann afsíðis til að þeir sæju hann ekki gráta. (1. Mós. 43:30, 31; 45:1) Ef trúsystkini eða einhver í fjölskyldunni sýnir dómgreindarleysi getur það að halda aftur af okkur líkt og Jósef hjálpað okkur að bregðast ekki við af fljótfærni. (Orðskv. 16:32; 17:27) Sum okkar eiga ættingja sem hefur verið vikið úr söfnuðinum. Við gætum þurft að hafa stjórn á tilfinningunum til að hafa ekki samband við þá að óþörfu. Það getur reynt á að sýna sjálfstjórn við slíkar aðstæður en það er auðveldara ef við skiljum að þannig líkjum við eftir Jehóva og fylgjum leiðbeiningum hans.

13. Hvað getum við lært af frásögunum af Davíð konungi?

13 Það er líka athyglisvert að lesa frásögn Biblíunnar af Davíð konungi. Þó að hann hafi haft mikið vald beitti hann því ekki í reiði þegar Sál og Símeí ögruðu honum. (1. Sam. 26:9-11; 2. Sam. 16:5-10) Það þýðir ekki að Davíð hafi alltaf haft stjórn á sér. Við sjáum það meðal annars af synd hans með Batsebu og fyrstu viðbrögðum hans við græðgi Nabals. (1. Sam. 25:10-13; 2. Sam. 11:2-4) Engu að síður getum við lært mikið af frásögunum af Davíð. Í fyrsta lagi þurfa umsjónarmenn meðal þjóna Guðs sérstaklega að gæta þess að sýna sjálfstjórn svo að þeir misnoti ekki vald sitt. Í öðru lagi má enginn verða öruggur um of og hugsa að hann geti staðist allar freistingar. – 1. Kor. 10:12.

HVAÐ GETURÐU GERT?

14. Hvað kom fyrir bróður einn, og hvers vegna skipta viðbrögð okkar máli við svipaðar aðstæður?

14 Hvað geturðu gert til að temja þér sjálfstjórn? Skoðum hvað kom fyrir Luigi. Maður keyrði aftan á bílinn hans og þrátt fyrir að vera í órétti hreytti hann úr sér fúkyrðum og reyndi að koma af stað illindum. Luigi bað Jehóva að hjálpa sér að halda ró sinni og reyndi líka að róa manninn – en án árangurs. Hann skrifaði niður tryggingarupplýsingar mannsins og fór meðan maðurinn var enn öskrandi. Viku síðar fór Luigi í endurheimsókn til konu sem hann hafði hitt og uppgötvaði þá að eiginmaður hennar var ökumaður hins bílsins. Maðurinn skammaðist sín og baðst afsökunar á hegðun sinni. Hann bauðst til að hafa samband við tryggingafélag Luigis til að hraða ferlinu. Hann tók síðan þátt í samræðunum um Biblíuna og kunni að meta það sem kom fram. Eftir á áttaði Luigi sig á hve miklu máli það skipti að hann hafði haldið ró sinni eftir áreksturinn og hve slæmt það hefði verið ef hann hefði misst stjórn á skapinu. – Lestu 2. Korintubréf 6:3, 4.

Að halda ró sinni eða missa stjórn á skapinu getur haft bein eða óbein áhrif á boðun okkar. (Sjá 14. grein.)

15, 16. Hvernig getur biblíunám hjálpað þér og fjölskyldu þinni að temja ykkur sjálfstjórn?

15 Rækilegt biblíunám getur hjálpað þjónum Guðs að temja sér sjálfstjórn. Mundu að Guð sagði við Jósúa: „Þessi lögbók skal ekki víkja úr munni þínum. Þú skalt hugleiða efni hennar dag og nótt svo að þú getir gætt þess að fylgja nákvæmlega því sem þar er skráð, til þess að ná settu marki og þér farnist vel.“ (Jós. 1:8) En hvernig getur biblíunám hjálpað þér að þroska með þér sjálfstjórn?

16 Eins og við höfum séð hefur Biblían að geyma frásögur sem lýsa vel bæði jákvæðum og neikvæðum afleiðingum vissrar hegðunar. Jehóva lét skrá þessar frásögur í ákveðnum tilgangi. (Rómv. 15:4) Við höfum mikið gagn af að lesa þær vandlega og hugleiða. Reyndu að átta þig á hvað þið fjölskyldan getið lært af þeim. Biddu Jehóva um að hjálpa þér að fara eftir orði hans. Kannski kemstu að raun um að þú þurfir að sýna meiri sjálfstjórn á ákveðnu sviði og þá er mikilvægt að viðurkenna það. Gerðu það að bænarefni og reyndu að sjá hvernig þú getur bætt þig. (Jak. 1:5) Ef þú gerir efnisleit í ritunum okkar finnurðu eflaust efni sem getur hjálpað þér enn frekar.

17. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að temja sér sjálfstjórn?

17 Hvernig geturðu hjálpað börnum þínum að temja sér sjálfstjórn? Foreldrar vita að þessi eiginleiki kemur ekki af sjálfu sér hjá ungu fólki. Þeir þurfa að sýna gott fordæmi eins og reyndar raunin er með alla eiginleika sem börnin þurfa að þroska með sér. (Ef. 6:4) Ef þú tekur eftir að börnin þín eiga erfitt með að hafa stjórn á sér skaltu spyrja þig hvort þú sýnir gott fordæmi. Vanmettu ekki áhrifin af því að þú hafir góða reglu á boðuninni, samkomusókn og tilbeiðslustund fjölskyldunnar. Vertu ekki hræddur við að segja nei við börnin ef þess er þörf. Jehóva setti Adam og Evu mörk – mörk sem hefðu getað minnt þau á að þau áttu að virða yfirvald hans. Þegar foreldrar aga börn sín og setja þeim gott fordæmi getur það sömuleiðis kennt börnunum að sýna sjálfstjórn. Eitt það verðmætasta, sem þú getur hjálpað börnunum að þroska með sér, er löngun til að virða yfirvald Jehóva og meginreglur hans. – Lestu Orðskviðina 1:5, 7, 8.

18. Hvers vegna geturðu treyst því að góður félagsskapur verði þér til blessunar?

18 Gleymdu aldrei hversu mikilvægt það er að velja þér félaga af skynsemi, hvort sem þú ert foreldri eða ekki. Eigðu félagsskap við þá sem hvetja þig til að setja þér góð markmið og til að forðast vandræði. (Orðskv. 13:20) Andlega sinnaðir félagar hafa góð áhrif á þig og eru þér hvatning til að sýna sjálfstjórn eins og þeir gera sjálfir. Og góð hegðun þín hefur eflaust sömu áhrif á vini þína. Til að njóta velþóknunar Guðs dag frá degi og eiga góðar stundir með þeim sem okkur þykir vænt um er nauðsynlegt að sýna sjálfstjórn.