Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eldri bræður – Jehóva metur hollustu ykkar mikils

Eldri bræður – Jehóva metur hollustu ykkar mikils

ÖLDUNGAR um allan heim láta sér annt um verkefnin sem þeir sinna innan safnaðar Jehóva. Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir þá. En fyrir ekki svo löngu var gerð ákveðin skipulagsbreyting. Eldri öldungar voru beðnir að fela yngri öldungum hluta af ábyrgðarstörfum sínum. Hvernig þá?

Samkvæmt nýja skipulaginu geta bræður ekki verið farandhirðar eða kennarar við skóla safnaðarins eftir að þeir eru orðnir sjötugir. Og þegar öldungar verða áttræðir fela þeir yngri öldungum ýmis önnur verkefni, eins og að starfa sem ritari deildarnefndar eða umsjónarmaður öldungaráðs safnaðarins. Hvernig hafa þessir kæru eldri bræður brugðist við breytingunum? Þeir hafa sýnt Jehóva og söfnuði hans hollustu.

„Ég var algerlega sammála þessari ákvörðun,“ segir Ken en hann starfaði sem ritari deildarnefndar í næstum 49 ár. „Sama morgun og ég frétti af breytingunni hafði ég reyndar rætt við Jehóva í bæn að þörf væri á yngri bróður til að taka við ritarastarfinu.“ Margir trúfastir bræður um allan heim brugðust við á sama hátt og Ken. Að vísu urðu sumir fyrir dálitlum vonbrigðum í fyrstu af því að þeir nutu þess að þjóna trúsystkinum sínum.

„Ég var dálítið dapur,“ segir Esperandio en hann var umsjónarmaður öldungaráðsins í heimasöfnuði sínum. Hann viðurkennir þó: „Ég þurfti meiri tíma til að hugsa um heilsuna sem fór hrakandi.“ Eins og við er að búast heldur Esperandio áfram að þjóna Jehóva trúfastlega og er mikils metinn í söfnuði sínum.

Hvað um þá sem störfuðu lengi sem farandumsjónarmenn en sinna núna öðrum verkefnum? Allan, sem var farandumsjónarmaður í 38 ár, viðurkennir: „Ég var miður mín þegar ég frétti af breytingunni.“ En hann vissi samt að það væri gott að þjálfa yngri bræður til að sinna verkefninu og hann þjónar Jehóva enn af trúfesti.

Russell starfaði sem kennari við skóla safnaðarins og farandumsjónarmaður í 40 ár. Hann segir að þau hjónin hafi verið vonsvikin í fyrstu. „Við kunnum virkilega að meta verkefni okkar og fannst við hafa heilsu til að halda áfram.“ Russell og kona hans nýta þjálfun sína og reynslu í heimasöfnuði sínum, boðberum þar til mikillar gleði.

Þó að þú hafir ekki sjálfur upplifað þessar tilfinningar getur frásaga í 2. Samúelsbók hjálpað þér að skilja þá sem upplifa þær.

HÓGVÆR OG RAUNSÆR MAÐUR

Rifjaðu upp söguna af því þegar Absalon, sonur Davíðs konungs, gerði uppreisn. Davíð flúði frá Jerúsalem til Mahanaím, austan Jórdanar. Þar þurftu Davíð og menn hans á ýmsum nauðsynjum að halda. Manstu hvað gerðist þá?

Þrír menn í nágrenninu komu með dýnur, matvæli og áhöld sem Davíð og menn hans vantaði. Barsillaí var einn þessara örlátu manna. (2. Sam. 17:27-29) Þegar uppreisn Absalons var stöðvuð gat Davíð snúið aftur til Jerúsalem og Barsillaí fylgdi honum að Jórdan. Davíð hvatti hann til að koma með sér til Jerúsalem og bauðst til að sjá fyrir honum, jafnvel þótt Barsillaí væri „stórauðugur maður“ og þyrfti ekki á því að halda. (2. Sam. 19:32-34) Davíð kunni líklega að meta eiginleika Barsillaí og þau ráð sem hann gæti veitt. Það hefði vissulega verið mikill heiður að búa og starfa við konungshirðina.

Barsillaí var raunsær og hógvær og benti á að hann væri orðinn áttræður. Hann bætti við: „Get ég þá enn greint á milli góðs og ills?“ (2. Sam. 19:36) Hvað átti hann við með því? Barsillaí hefur eflaust öðlast visku á langri ævi sinni. Og hann gat enn gefið góð ráð, rétt eins og ,gömlu mennirnir‘ sem síðar gáfu Rehabeam konungi góð ráð. (1. Kon. 12:6, 7; Sálm. 92:13-15; Orðskv. 16:31) Þegar Barsillaí talaði um að geta greint á milli góðs og ills gæti hann því hafa átt við líkamlegar takmarkanir sökum aldurs. Hann viðurkenndi að aldurinn hefði nú þegar haft áhrif á bragðskyn hans og heyrn. (Préd. 12:4, 5) Barsillaí hvatti því Davíð til að taka yngri mann, Kímham, með sér til Jerúsalem en Kímham var sennilega sonur Barsillaí. – 2. Sam. 19:37-41.

UNDIRBÚNINGUR FYRIR FRAMTÍÐINA

Skipulagsbreytingin tengd eldri bræðrum, sem nefnd var í byrjun greinar, ber merki um svipað viðhorf og Barsillaí hafði. Það þurfti auðvitað að hugsa um fleira en aðstæður og getu eins manns, ólíkt því sem var á dögum Barsillaí. Nauðsynlegt var að hugsa raunsætt um hvað væri best fyrir trúfasta öldunga um heim allan.

Þessir hógværu eldri bræður sáu vel að söfnuður Jehóva myndi halda áfram að styrkjast og dafna ef yngri bræður gætu tekið að sér ábyrgðarstörfin sem þeir eldri höfðu lengi sinnt. Í flestum tilvikum þjálfuðu eldri bræðurnir þá yngri eins og Barsillaí hefur eflaust þjálfað son sinn og Páll postuli þjálfaði Tímóteus. (1. Kor. 4:17; Fil. 2:20-22) Þessir yngri bræður hafa reynst gjafir frá Jehóva, en þeir geta veitt aðstoð „líkama Krists til uppbyggingar“. – Ef. 4:8-12; samanber 4. Mósebók 11:16, 17, 29.

NÝIR MÖGULEIKAR Í ÞJÓNUSTUNNI

Margir í söfnuðinum, sem hafa fengið öðrum í hendur ábyrgðarstörf sín, geta nýtt sér önnur og ný tækifæri í þjónustu Jehóva.

Marco var farandumsjónarmaður í 19 ár. Hann segir: „Þessar nýju aðstæður gera mér kleift að reyna að ná til vantrúaðra eiginmanna systra í heimasöfnuði mínum.“

„Við höfum sett okkur það markmið að hjálpa óvirkum og halda fleiri biblíunámskeið,“ segir Geraldo sem var 28 ár í farandstarfi. Hann segir að þau hjónin haldi nú þegar 15 biblíunámskeið og að nokkuð margir óvirkir séu farnir að sækja samkomur.

Allan, sem áður er getið, segir: „Núna höfum við tækifæri til að taka fullan þátt í boðuninni. Við njótum þess að boða trúna meðal almennings og á viðskiptasvæðum og einnig að vitna fyrir nágrönnum okkar, en tveir þeirra hafa komið á samkomu.“

Ef þú ert hæfur og trúfastur bróðir og hefur fengið nýtt verkefni í söfnuðinum geturðu gefið af þér á annan einstakan hátt. Þú getur stutt starf Jehóva með því að miðla yngri bræðrum í söfnuðinum af dýrmætri reynslu þinni. „Jehóva er að þjálfa og nota góða og hæfileikaríka unga bræður,“ segir Russell sem áður er getið. „Þeir veita kröftuga kennslu og gæta hjarðarinnar. Það gagnast öllum í söfnuðinum.“ – Sjá rammann „ Hjálpið ungum bræðrum að nýta hæfileika sína til fulls“.

JEHÓVA METUR HOLLUSTU ÞÍNA MIKILS

Vertu jákvæður ef þú hefur nýlega fengið önnur verkefni í þjónustu Jehóva. Margir hafa nú þegar notið góðs af þjónustu þinni og þú getur haldið áfram að gefa af þér. Þú ert mikils metinn og verður það áfram.

En það sem meira er, þú hefur snert hjarta Jehóva og hann gleymir því ekki. „Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum er þið þjónuðuð hinum heilögu sem þið þjónið enn.“ (Hebr. 6:10) Þetta innblásna vers fullvissar okkur öll um að loforð Guðs takmarkist ekki við það sem við höfum gert áður. Þú ert of dýrmætur í augum Jehóva til að hann gleymi því sem þú hefur gert og gerir enn til að þóknast honum.

Hvað ef þú ert ekki sjálfur í þeirri stöðu sem við höfum rætt um? Þetta mál getur samt snert þig. Á hvaða hátt?

Ef þú umgengst trúfastan eldri bróður sem hefur fengið ný verkefni í þjónustunni geturðu notið góðs af visku hans og áralangri reynslu. Leitaðu ráða hjá honum. Biddu hann um tillögur. Og taktu eftir hvernig hann notar reynslu sína trúfastur í þjónustu sinni.

Hvort sem þú ert eldri boðberi með ný verkefni eða yngri bróðir eða systir sem getur notið góðs af reynslu annarra skaltu hafa eftirfarandi í huga: Jehóva metur mikils hollustu þeirra sem hafa þjónað honum lengi og gera enn.