Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Veistu hvað tímanum líður?

Veistu hvað tímanum líður?

HVAÐ gerirðu þegar þú vilt vita hvað klukkan er? Líklega líturðu á úrið þitt eða á aðra klukku. Hverju myndirðu svara ef vinur þinn spyrði þig hvað klukkan er? Hægt er að segja til um tímann á ýmsa vegu. Hvernig?

Segjum að liðin sé ein og hálf klukkustund frá hádegi. Þá segirðu kannski að klukkan sé hálf tvö. Ef venja er þar sem þú býrð að miða við 24 klukkustundir þegar maður les á klukku segirðu kannski að hún sé 13:30. Og sums staðar er eðlilegt að segja 1:30.

Þar sem þú lest í Biblíunni veltirðu kannski fyrir þér hvernig fólk hafi talað um tímann þegar Biblían var skrifuð. Það var gert á fleiri en einn veg. Sá hluti Biblíunnar, sem var skrifaður á hebresku, talar um ,morgun‘, ,miðdegi‘, og ,kvöld‘. (1. Mós. 8:11; 19:27; 43:16; 1. Kon. 18:26) Stundum er samt notuð nákvæmari tímasetning.

Á biblíutímanum voru vökumenn algengir. Þeirra var mest þörf að nóttu til. Mörgum öldum áður en Jesús fæddist skiptu Ísraelsmenn nóttinni í þrjú tímabil sem voru kölluð næturvökur. (Sálm. 63:7) Í Dómarabókinni 7:19 er talað um ,miðvarðartíðina‘ (Biblían 1981). Á dögum Jesú höfðu Gyðingar tekið upp það fyrirkomulag Grikkja og Rómverja að skipta nóttinni niður í fjórar vökur.

Í guðspjöllunum er nokkrum sinnum vísað í þessar vökur. Til dæmis er sagt að það hafi verið „um fjórðu næturvöku“ sem Jesús gekk á vatni að bátnum þar sem lærisveinar hans voru. (Matt. 14:25, NW) Og í dæmisögu sagði Jesús: „Sælir eru þeir þjónar sem húsbóndinn finnur vakandi er hann kemur ... komi hann um aðra eða þriðju næturvöku og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá.“ – Lúk. 12:37, 38, neðanmáls.

Jesús vísaði í allar fjórar næturvökurnar þegar hann sagði við lærisveina sína: „Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun.“ (Mark. 13:35) Fyrsta vakan, „að kveldi“, stóð frá sólsetri til um það bil níu að kvöldi. Önnur vakan, miðnæturvakan, stóð frá um níu að kvöldi og fram að miðnætti. Þriðja vakan, sem er kölluð „í óttu“ eða „þegar haninn galar“ (NW, neðanmáls), stóð frá miðnætti til um það bil þrjú að nóttu. Það kann að hafa verið einmitt á þessari vöku sem haninn galaði nóttina sem Jesús var handtekinn. (Mark. 14:72) Fjórða næturvakan, ,í dögun‘, stóð frá um það bil þrjú að nóttu og fram að sólarupprás.

Þó svo að klukkur eins og við notum núna hafi ekki verið til á biblíutímanum notuðu menn ákveðnar aðferðir til að geta sagt til um tíma dags og nætur.