Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sýnum kærleika – hann byggir upp

Sýnum kærleika – hann byggir upp

„Kærleikurinn byggir upp.“ – 1. KOR. 8:1.

SÖNGVAR: 109, 121

1. Hvaða mikilvæga mál ræddi Jesús við lærisveina sína síðasta kvöldið sem hann var með þeim?

JESÚS minntist næstum 30 sinnum á kærleika síðasta kvöldið sem hann var með lærisveinum sínum. Hann lagði sérstaka áherslu á að lærisveinar sínir ættu að ,elska hver annan‘. (Jóh. 15:12, 17) Kærleikur þeirra hver til annars átti að vera svo áberandi að hann myndi einkenna þá sem trúa fylgjendur hans. (Jóh. 13:34, 35) Þessi kærleikur er ekki bara tilfinningasemi. Jesús átti við mjög göfugan eiginleika – fórnfúsan kærleika. Hann sagði: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður.“ – Jóh. 15:13, 14.

2. (a) Hvað einkennir þjóna Guðs? (b) Við hvaða spurningum fáum við svör í þessari grein?

2 Einlægur, fórnfús kærleikur og órjúfanleg eining einkennir þjóna Jehóva nú á dögum. (1. Jóh. 3:10, 11) Við megum vera þakklát fyrir að þjónar Jehóva líkja eftir kærleika Krists óháð tungumáli, þjóðerni, kynþætti eða bakgrunni. En við getum spurt okkur: Hvers vegna er kærleikurinn sérstaklega mikilvægur á okkar dögum? Hvernig byggja Jehóva og Jesús okkur upp í kærleika? Og hvernig getum við hvert og eitt sýnt kristinn kærleika sem „byggir upp“? – 1. Kor. 8:1.

HVERS VEGNA ER KÆRLEIKUR SÉRSTAKLEGA MIKILVÆGUR NÚNA?

3. Hvernig hafa þessar ,örðugu tíðir‘ áhrif á fólk?

3 „Mæða og hégómi“ einkenna þær ,örðugu tíðir‘ sem við lifum á og því þjást margir tilfinningalega. (Sálm. 90:10; 2. Tím. 3:1-5) Fjöldi fólks er við það að gefast upp. Talið er að fleiri en 800.000 manns stytti sér aldur á ári hverju – að meðaltali einn á hverjum 40 sekúndum. Og því miður hafa nokkrir vottar Jehóva bugast undan álaginu og svipt sig lífi.

4. Hvaða biblíupersónur sögðust langa til að deyja?

4 Sumum trúföstum þjónum Jehóva á biblíutímanum fannst aðstæður sínar svo yfirþyrmandi að þá langaði til að deyja. Job var sárkvalinn þegar hann sagði: „Ég er uppgefinn, ég vil ekki lifa lengur.“ (Job. 7:16; 14:13) Jónas var svo vonsvikinn þegar hann sá árangurinn af verkefni sínu að hann sagði: „En nú, Drottinn. Taktu líf mitt því að mér er betra að deyja en lifa.“ (Jónas 4:3) Og eitt sinn fannst spámanninum Elía aðstæður sínar gera sér svo erfitt fyrir að hann bað um að fá að deyja. Hann sagði: „Mál er nú, Drottinn, að þú takir líf mitt.“ (1. Kon. 19:4) En Jehóva mat þessa trúföstu þjóna sína mikils og vildi að þeir lifðu. Í stað þess að dæma þá fyrir líðan þeirra hjálpaði hann þeim að sigrast á lönguninni til að deyja og byggði þá upp í kærleika til að þeir gætu haldið áfram að þjóna honum trúfastir.

5. Af hverju þurfa trúsystkini okkar sérstaklega á kærleika okkar að halda núna?

5 Mörg trúsystkini okkar glíma við erfiðar aðstæður og þurfa á kærleika okkar að halda þó að þau séu ekki við það að gefast upp. Sum þeirra þurfa að þola ofsóknir og háð. Það er talað illa um önnur trúsystkini okkar á vinnustað eða þau stöðugt gagnrýnd. Enn önnur eru uppgefin eftir mikla yfirvinnu eða tímapressu vinnunni. Og sum þurfa að glíma við erfiðar aðstæður heima fyrir, ef til vill vegna þess að þau eru gagnrýnd af maka sem er ekki í trúnni. Þessar aðstæður og fleiri gera það að verkum að margir í söfnuðinum eru úrvinda – líkamlega og tilfinningalega. Hver getur hjálpað niðurdregnum að halda út?

KÆRLEIKUR JEHÓVA BYGGIR OKKUR UPP

6. Hvernig byggir Jehóva þjóna sína upp í kærleika?

6 Jehóva byggir þjóna sína upp með því að fullvissa þá um að kærleikur hans bregðist aldrei. Það hefur eflaust verið mjög hvetjandi fyrir trúfasta Ísraelsmenn að heyra þessi orð Jehóva: „Þú ert dýrmætur í augum mínum, mikils metinn og ég elska þig ... Óttast þú ekki því að ég er með þér.“ (Jes. 43:4, 5) Sem þjónn Jehóva geturðu verið viss um að hann elski þig heitt. * Orð Guðs gefur okkur þetta loforð: „Hin frelsandi hetja. Hann mun fagna og gleðjast yfir þér.“ – Sef. 3:16, 17.

7. Á hvaða hátt er Jehóva líkur kærleiksríkri móður? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

7 Jehóva lofar að styrkja og hugga þjóna sína í hvaða erfiðleikum sem er. „Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni og þeim hossað á hnjánum. Eins og móðir huggar barn sitt, eins mun ég hugga yður.“ (Jes. 66:12, 13) Þetta er falleg líking – ástrík móðir er með barn sitt á mjöðminni eða hossar því á hnjánum. Jehóva lýsir hér á hjartnæman hátt hlýju sinni og áköfum kærleika til trúfastra þjóna sinna. Efastu aldrei um að þú sért Jehóva mjög dýrmætur. – Jer. 31:3.

8, 9. Hvernig getur kærleikur Jesú styrkt okkur?

8 Við höfum aðra fullvissu fyrir því að Jehóva elski okkur: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ (Jóh. 3:16) Jesús sýndi einnig kærleika sinn til okkar þegar hann gaf líf sitt fyrir okkur. Kærleikur hans veitir okkur mikinn styrk. Orð Guðs lofar að ,þjáningar eða þrengingar‘ geti ekki einu sinni ,gert okkur viðskila við kærleika Krists‘. – Rómv. 8:35, 38, 39.

9 Þegar við glímum við erfiðleika sem gera okkur úrvinda – líkamlega, tilfinningalega eða andlega – getur kærleikur Krists knúið okkur áfram og gefið okkur styrk til að halda út. (Lestu 2. Korintubréf 5:14, 15.) Kærleikur Jesú getur styrkt okkur og hvatt til að gefast ekki upp, jafnvel þegar við verðum að þola erfiðleika eins og hamfarir, ofsóknir, vonbrigði eða óbærilegan kvíða.

BRÆÐUR OG SYSTUR ÞURFA Á KÆRLEIKA OKKAR AÐ HALDA

Að kynna sér fordæmi Jesú getur verið okkur hvatning til að hughreysta aðra. (Sjá 10. og 11. grein.)

10, 11. Hverjir bera ábyrgð á að byggja upp niðurdregna í söfnuðinum? Skýrðu svarið.

10 Jehóva notar meðal annars söfnuðinn til að byggja okkur upp í kærleika. Við getum hvert og eitt endurgoldið kærleika Jehóva með því að elska trúsystkini okkar og byggja þau upp, ekki aðeins í trúnni heldur einnig tilfinningalega. (1. Jóh. 4:19-21) Páll postuli hvatti kristna menn: „Hvetjið því og uppbyggið hvert annað, eins og þið og gerið.“ (1. Þess. 5:11) Allir í söfnuðinum – ekki bara öldungarnir – geta líkt eftir Jehóva og Jesú með því að hughreysta trúsystkin sín og byggja þau upp. – Lestu Rómverjabréfið 15:1, 2.

11 Sumir í söfnuðinum, sem eiga við andleg veikindi að stríða, gætu þurft að fá læknisaðstoð og lyf. (Lúk. 5:31) Öldungar og aðrir í söfnuðinum gera sér grein fyrir að þeir eru ekki læknar. En þeir gegna samt mikilvægu hlutverki – að ,hughreysta ístöðulitla, taka að sér óstyrka og vera þolinmóðir við alla‘. (1. Þess. 5:14) Við þurfum öll að sýna samúð og vera þolinmóð þegar við hughreystum niðurdregna til að byggja þá upp. Leggur þú þig fram um að hughreysta og uppörva aðra? Þegar þú veist hvernig þú átt að bera þig að geturðu náð betri árangri.

12. Nefndu dæmi um systur sem söfnuðurinn byggði upp í kærleika.

12 Hvernig getum við byggt upp í kærleika þá sem berjast við sárar tilfinningar? „Ég er stundum með sjálfsvígshugsanir,“ segir systir ein í Evrópu. „En ég er með góðan stuðningshóp. Söfnuðurinn, sem ég tilheyri, hefur bjargað lífi mínu. Trúsystkini mín eru alltaf mjög uppörvandi og elskuleg. Þó að aðeins fáir viti að ég glími við þunglyndi er söfnuðurinn alltaf til staðar fyrir mig. Ein hjón eru eins og andlegir foreldrar mínir. Þau hugsa vel um mig og eru til staðar fyrir mig bókstaflega allan sólarhringinn.“ Auðvitað geta ekki allir aðstoðað á sama hátt. En það getur skipt þá sem þjást tilfinningalega miklu máli að við veitum þeim einlægan stuðning. *

HVERNIG GETUM VIÐ BYGGT AÐRA UPP Í KÆRLEIKA?

13. Hvað er nauðsynlegt til að byggja aðra upp?

13 Vertu góður hlustandi. (Jak. 1:19) Að hlusta með samúð er merki um kærleika. Til að geta sett þig í spor þess sem líður illa geturðu spurt hann spurninga af nærgætni. Þannig geturðu sýnt samúð og byggt trúsystkini þitt upp. Láttu í ljós einlæga umhyggju og kærleika með svipbrigðum þínum. Ef trúsystkini þitt finnur þörf á að útskýra málin í minnstu smáatriðum skaltu vera þolinmóður og hlusta án þess að grípa fram í. Þegar þú hlustar með þolinmæði er líklegra að þú skiljir tilfinningar bróður þíns eða systur. Það getur hjálpað þeim sem þjáist að treysta þér og vera opnari fyrir því að hlusta þegar þú reynir að byggja hann upp. Þegar aðrir finna að þér er annt um þá getur það verið þeim mikil huggun.

14. Hvers vegna viljum við forðast að vera gagnrýnin?

14 Forðastu að vera gagnrýninn. Ef sá sem er niðurdreginn finnst við gagnrýnin getur það aukið á angist hans. Það getur líka gert að engu einlæga viðleitni okkar til að byggja hann upp í kærleika. „Vanhugsuð orð eru sem sverðalög en tunga hins vitra græðir.“ (Orðskv. 12:18) Auðvitað stingum við niðurdregna ekki viljandi með meiðandi orðum. En þó að einhver stingi mann óviljandi getur það verið mjög sárt. Til að byggja aðra upp í kærleika með því að hughreysta þá þurfum við að sýna þeim samúð og setja okkur í þeirra spor að því marki sem hægt er. – Matt. 7:12.

15. Hvaða verðmæta hjálpargagn höfum við til að byggja aðra upp í kærleika?

15 Notaðu orð Guðs til að hughreysta aðra. (Lestu Rómverjabréfið 15:4, 5.) Biblían hefur að geyma mikinn sjóð af huggandi og hughreystandi orðum. „Guð, sem veitir þolgæðið og hugrekkið,“ gaf okkur hana. Auk huggandi biblíuversa eigum við fjöldann allan af biblíunámsritum. Við getum notað Efnislykil að ritum Votta Jehóva til að finna uppbyggjandi efni byggt á Biblíunni. Þar getum við fundið biblíuvers og rit til að nota þegar við huggum og hughreystum trúsystkini okkar.

16. Hvaða eiginleika þurfum við að sýna þegar við hvetjum niðurdregna í söfnuðinum?

16 Vertu mildur og hlýr. Jehóva sjálfur er „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar“ og hann sýnir þjónum sínum „hjartans miskunn“. (Lestu 2. Korintubréf 1:3-6; Lúk. 1:78; Rómv. 15:13) Páll sýndi okkur gott fordæmi. Hann sagði: „Ég var mildur á meðal ykkar, eins og móðir sem hlúir að börnum sínum. Ég bar slíkt kærleiksþel til ykkar að glaður hefði ég ekki einungis gefið ykkur fagnaðarerindi Guðs heldur og mitt eigið líf, svo ástfólgin voruð þið orðin mér.“ (1. Þess. 2:7, 8) Þegar við líkjum eftir mildi og hlýju Jehóva getur huggunin, sem við veitum, verið svar við bæn niðurdregins bróður eða systur.

17. Hvers vegna eigum við auðveldara með að byggja trúsystkini okkar upp í kærleika ef við erum raunsæ?

17 Ekki ætlast til fullkomleika af trúsystkinum þínum. Vertu raunsær. Að vænta þess að trúsystkini okkar geri aldrei mistök er óraunhæft og veldur vonbrigðum. (Préd. 7:21, 22) Mundu að Jehóva er raunsær í því sem hann krefst af þjónum sínum. Ef við líkjum eftir fordæmi hans gerum við ekki ráð fyrir að aðrir séu fullkomnir. (Ef. 4:2, 32) Í stað þess að gefa í skyn að trúsystkini þín geri ekki nóg skaltu leggja þig fram um að hrósa þeim fyrir það sem þau gera. Það er hvetjandi. Við getum byggt aðra upp í kærleika með því að hrósa þeim í einlægni og þannig hjálpað þeim að koma auga á „hrósunarefni“ hjá sjálfum sér í þjónustunni við Jehóva. Það er mikið betra en að bera þau saman við aðra. – Gal. 6:4.

18. Hvað hvetur okkur til að byggja aðra upp í kærleika?

18 Allir þjónar Jehóva eru dýrmætir í augum hans og í augum Jesú sem gaf líf sitt til lausnargjalds. (Gal. 2:20) Okkur þykir innilega vænt um bræður okkar og systur. Og við viljum annast þau af hlýju og kærleika. Við „keppum þess vegna eftir því sem til friðar heyrir og eflir samfélagið“. (Rómv. 14:19) Við hlökkum öll til þess að lifa í paradís þar sem við höfum enga ástæðu til að vera niðurdregin. Þar verða engir sjúkdómar, styrjaldir, dauði vegna erfðasyndar, ofsóknir, fjölskylduerjur eða vonbrigði. Í lok þúsundáraríkisins verða mennirnir orðnir fullkomnir. Þeir sem standast lokaprófið verða þá ættleiddir sem jarðnesk börn Jehóva Guðs og fá „frelsið í dýrðinni með börnum Guðs“. (Rómv. 8:21) Við skulum öll sýna kærleika sem byggir upp og hjálpa hvert öðru að lifa af inn í nýjan heim Guðs.

^ gr. 6 Sjá 24. kafla bókarinnar Nálægðu þig Jehóva.

^ gr. 12 Finna má góðar ráðleggingar um það hvernig hægt er að takast á við sjálfsvígshugsanir og sárar tilfinningar í eftirfarandi greinum í Vaknið!: Er til einhvers að lifa? Þrjár ástæður til að halda áfram“ (maí-júní 2014), „Það er þess virði að lifa“ (janúar-mars 2002) og „When You Feel Like Giving Up on Life“ (janúar 2012 á ensku).