Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum tillitssöm líkt og Jehóva

Verum tillitssöm líkt og Jehóva

„Sá sem er tillitssamur við lítilmagnann er hamingjusamur.“ – SÁLM. 41:1, NW.

SÖNGVAR: 130, 107

1. Hvernig sýna þjónar Guðs að þeir elska hver annan?

ÞJÓNAR Guðs um heim allan mynda eina stóra fjölskyldu þar sem kærleikur ríkir. (1. Jóh. 4:16, 21) Stundum færa þeir miklar fórnir fyrir trúsystkini sín en yfirleitt birtist kærleikurinn í því smáa sem þeir gera hver fyrir annan. Það geta verið orð eða verk sem bera vott um hugulsemi. Þegar við komum vel fram við aðra og af tillitssemi verðum við „eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans“. – Ef. 5:1.

2. Hvernig endurspeglaði Jesús kærleika föður síns?

2 Jesús líkti fullkomlega eftir föður sínum. „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin,“ sagði hann, „og ég mun veita yður hvíld ... því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur.“ (Matt. 11:28, 29) Þegar við líkjum eftir Kristi og ,erum tillitssöm við lítilmagnann‘ verðum við hamingjusöm og njótum velþóknunar föður okkar á himnum. (Sálm. 41:1, NW) Skoðum nú hvernig við getum sýnt tillitssemi í fjölskyldunni, söfnuðinum og boðuninni.

SÝNUM TILLITSSEMI INNAN FJÖLSKYLDUNNAR

3. Hvernig getur eiginmaður sýnt skilning og tillitssemi? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Eiginmenn ættu að setja gott fordæmi með því að vera tillitssamir við fjölskyldu sína. (Ef. 5:25; 6:4) Þeir eru hvattir til að ,sýna eiginkonum sínum nærgætni‘, það er að segja skilning og tillitssemi. (1. Pét. 3:7) Að sýna skilning helst í hendur við að sýna tillitssemi. Skilningsríkur maður veit til dæmis að eiginkonan er honum alls ekki óæðri þótt hún sé ólík honum að mörgu leyti. (1. Mós. 2:18) Hann tekur tillit til tilfinninga hennar og sýnir henni virðingu. Eiginkona í Kanada segir um mann sinn: „Hann gerir aldrei lítið úr tilfinningum mínum eða segir: ,Þér ætti ekki að líða svona.‘ Hann gefur sér líka tíma til að hlusta þegar ég tala. Þegar ég sé hlutina ekki í réttu ljósi hjálpar hann mér mildilega að leiðrétta hugsunarhátt minn.“

4. Hvernig ætti eiginmaður að taka tillit til eiginkonu sinnar í samskipum við aðrar konur?

4 Umhyggjusamur eiginmaður tekur einnig tillit til eiginkonu sinnar í samskiptum við aðrar konur. Hann daðrar aldrei við þær eða sýnir þeim óviðeigandi áhuga. Hann notar ekki heldur samskiptamiðla eða Netið til þess. (Job. 31:1) Hann er eiginkonu sinni trúr, ekki aðeins af því að hann elskar hana heldur af því að hann elskar Guð og hatar það sem er illt. – Lestu Sálm 19:15; 97:10.

5. Hvernig getur eiginkona sýnt manni sínum tillitssemi?

5 Jesús Kristur er höfuð hvers manns. Þegar eiginmaður líkir eftir honum á eiginkonan auðveldara með að virða hann. (Ef. 5:21-25, 33) Hún sýnir honum virðingu meðal annars með því að vera tillitssöm, til dæmis þegar hann þarf að nota tíma til að sinna safnaðarmálum eða þegar eitthvað liggur þungt á honum. „Stundum sér konan mín að eitthvað er að angra mig,“ segir eiginmaður í Bretlandi. „Þá fer hún eftir ráðunum í Orðskviðunum 20:5 og dregur fram það sem mér liggur á hjarta ef það er eitthvað sem mér er frjálst að ræða. Hún gæti þó þurft að bíða eftir rétta tímanum til þess.“

6. Hvernig getum við öll hvatt börnin til að vera tillitssöm og hvaða gagn hafa þau af því?

6 Foreldrar eru börnum sínum góð fyrirmynd þegar þeir sýna hvor öðrum tillitssemi. Auðvitað er það fyrst og fremst ábyrgð foreldranna að kenna börnunum að vera tillitssöm. Þeir geta til að mynda kennt þeim að hlaupa ekki um í ríkissalnum. Ef fjölskyldan er í veislu gætu foreldrarnir sagt börnunum að hleypa eldra fólkinu á undan í röðinni til að ná sér í mat. Að sjálfsögðu geta allir í söfnuðinum stutt foreldrana. Þegar barn gerir góðverk, eins og að opna dyrnar fyrir okkur, ættum við að hrósa því. Það getur haft góð áhrif á barnið og það kemst að raun um að „sælla er að gefa en þiggja“. – Post. 20:35.

„GEFUM GÆTUR HVERT AÐ ÖÐRU“ Í SÖFNUÐINUM

7. Hvernig sýndi Jesús heyrnarlausum manni tillitssemi og hvað getum við lært af fordæmi hans?

7 Eitt sinn þegar Jesús var í Dekapólisbyggðum færðu menn til hans heyrnarlausan og málhaltan mann. (Mark. 7:31-35) „Jesús leiddi hann afsíðis“ til að lækna hann í stað þess að gera það fyrir allra augum. Hvers vegna? Manninum gæti hafa liðið illa í margmenni vegna fötlunar sinnar. Kannski læknaði Jesús hann í einrúmi af því að hann skynjaði hvernig honum leið. Við getum auðvitað ekki læknað fólk fyrir kraftaverk. En við getum og ættum að taka tillit til þarfa og tilfinninga trúsystkina okkar. Páll postuli skrifaði: „Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka.“ (Hebr. 10:24) Jesús vissi hvernig heyrnarlausa manninum leið og sýndi honum tillitssemi. Hann er okkur frábær fyrirmynd.

8, 9. Hvernig getum við aðstoðað öldruð og veikburða trúsystkini okkar? (Nefndu dæmi.)

8 Gefum gætur að þeim sem eru aldraðir eða veikburða. Aðaleinkenni kristna safnaðarins er kærleikur en ekki það að áorka sem mestu. (Jóh. 13:34, 35) Þessi kærleikur er okkur hvatning til að hjálpa öldruðum og veikburða að sækja samkomur og boða fagnaðarerindið, jafnvel þótt þeir geti ekki gert svo mikið. (Matt. 13:23) Michael er bundinn við hjólastól. Hann er innilega þakklátur fyrir þá hjálp sem hann fær frá fjölskyldunni og trúsystkinum í starfshópnum sínum. „Þau hjálpa mér heilmikið,“ segir hann, „og því get ég sótt flestar samkomur og farið reglulega í boðunina. Mér finnst sérstaklega gaman að boða trúna við ritatrillur.“

9 Á mörgum Betelheimilum búa öldruð og veikburða trúsystkini. Umhyggjusamir umsjónarmenn á Betel gera ráðstafanir svo að þessir trúföstu bræður og systur geti tekið þátt í síma- og bréfastarfi. „Við erum þakklát fyrir að geta skrifað bréf,“ segir Bill sem er 86 ára og skrifar bréf til fólks á afskekktum svæðum. Nancy, sem er að nálgast nírætt, segir: „Þegar ég skrifa bréf finnst mér ég ekki bara vera að fylla umslög. Ég er að boða trúna. Fólk þarf að heyra sannleikann!“ Ethel, sem er fædd árið 1921, segir: „Sársauki er hluti af lífi mínu. Suma daga á ég jafnvel erfitt með að klæða mig.“ Engu að síður hefur hún ánægju af símastarfinu og er með nokkrar góðar endurheimsóknir. Barbara er 85 ára. Hún segir: „Mér finnst mjög erfitt að boða trúna hús úr húsi vegna þess að ég er ekki góð til heilsunnar. En símastarfið gerir mér kleift að tala við fólk. Takk, Jehóva!“ Á innan við ári notaði hópur aldraðra trúsystkina á einu Betelheimili 1.228 klukkustundir í boðuninni, skrifaði 6.265 bréf, hringdi yfir 2.000 símtöl og dreifði 6.315 ritum. Jehóva hefur án efa glaðst mikið að sjá það sem þessi dýrmætu trúsystkini lögðu á sig. – Orðskv. 27:11.

10. Hvernig getum við auðveldað trúsystkinum okkar að hafa sem mest gagn af samkomunum?

10 Sýnum tillitssemi á samkomum. Við viljum að trúsystkini okkar hafi sem mest gagn af samkomunum. Við getum auðveldað þeim það með því að vera tillitssöm. Hvernig? Meðal annars með því að mæta tímanlega svo að við truflum ekki aðra að óþörfu. Auðvitað getur eitthvað ófyrirsjáanlegt komið upp á. En ef við erum vön að koma of seint ættum við að velta fyrir okkur hvernig við getum sýnt meiri tillitssemi. Höfum líka í huga að gestgjafar okkar eru Jehóva og sonur hans. (Matt. 18:20) Þeir verðskulda svo sannarlega virðingu okkar.

11. Hvers vegna þurfa þeir sem hafa verkefni á samkomum að fylgja leiðbeiningunum í 1. Korintubréfi 14:40?

11 Við sýnum trúsystkinum okkar líka tillitssemi með því að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum: „Allt fari sómasamlega fram og með reglu.“ (1. Kor. 14:40) Bræður, sem hafa verkefni á samkomum, fara eftir þessum leiðbeiningum með því að halda sig innan settra tímamarka. Þannig sýna þeir ekki aðeins næsta ræðumanni tillitssemi heldur öllum söfnuðinum. Sum trúsystkini þurfa kannski að ferðast langar vegalengdir til að komast á samkomu. Einhverjir gætu þurft að reiða sig á almenningssamgöngur. Og aðrir eiga kannski maka sem er ekki í trúnni og bíður óþreyjufullur heima.

12. Hvers vegna eiga öldungarnir skilið að við sýnum þeim „sérstaka virðingu og kærleika“? (Sjá rammann „ Verum tillitssöm við þá sem fara með forystuna“.)

12 Öldungar safnaðarins leggja hart að sér og fara kappsamir með forystuna í boðuninni. Við viljum því sýna þeim sérstaka virðingu, en það felur meðal annars í sér að sýna þeim tillitssemi. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:12, 13.) Við metum mikils það sem þeir leggja á sig fyrir okkur. Við skulum fyrir alla muni vera samvinnuþýð og styðja þá þar sem ,þeir vaka yfir sálum okkar og eiga að lúka reikning fyrir þær‘. – Hebr. 13:7, 17.

VERUM TILLITSSÖM ÞEGAR VIÐ BOÐUM TRÚNA

13. Hvernig kom Jesús fram við fólk og hvað lærum við af því?

13 Jesaja sagði fyrir um Jesú: „Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur og dapran hörkveik slekkur hann ekki.“ (Jes. 42:3) Jesús hafði samúð með fólki vegna þess að hann elskaði það. Hann skildi tilfinningar þeirra sem voru eins og brákaður reyr eða hörkveikur á olíulampa sem var við það að slokkna. Þar af leiðandi var hann tillitssamur, kærleiksríkur og þolinmóður. Börn löðuðust jafnvel að honum. (Mark. 10:14) Við búum að sjálfsögðu ekki yfir sömu innsýn og kennsluhæfileikum og Jesús. En við getum og ættum að vera tillitssöm við þá sem við hittum í boðuninni. Það gerum við með því að huga að því hvernig við tölum við þá, hvenær við gerum það og hve lengi.

14. Hvað er mikilvægt að hafa í huga þegar við tölum við fólk?

14 Hvernig ættum við að tala við fólk? Milljónir manna nú til dags eru ,hrjáðar og umkomulausar‘ vegna spilltra og miskunnarlausra trúarleiðtoga, viðskiptamanna og stjórnmálamanna. (Matt. 9:36) Fyrir vikið eru margir tortryggnir og án vonar. Það er því afar mikilvægt að orðaval okkar og raddblær endurspegli góðvild og kærleika í þeirra garð. Það sem laðar marga að boðskapnum er ekki aðeins biblíuþekking okkar og rökfærsla heldur líka það að við sýnum þeim virðingu og einlægan áhuga.

15. Hvernig getum við verið tillitssöm við fólk á svæðinu okkar?

15 Við getum á marga vegu verið tillitssöm við þá sem við hittum í boðuninni. Spurningar eru til dæmis góð kennslutækni en við þurfum að orða þær vel og af virðingu. Brautryðjandi nokkur komst að raun um að á svæðinu þar sem hann bjó voru margir hlédrægir og feimnir og því virkaði ekki vel að spyrja spurninga sem gerðu þá vandræðalega. Það voru meðal annars spurningar sem fólk gat kannski ekki svarað eða svaraði vitlaust. Brautryðjandinn forðaðist til dæmis að spyrja: „Veistu hvað Guð heitir?“ og: „Veistu hvað ríki Guðs er?“ Þess í stað sagði hann eitthvað í líkingu við þetta: „Ég hef komist að raun um að Guð á sér nafn. Mætti ég sýna þér það í Biblíunni?“ Fólk er auðvitað ólíkt og menning sömuleiðis og því er óþarfi að setja reglur um þetta. En við ættum alltaf að vera tillitssöm og sýna fólki virðingu. Til þess þurfum við að kynnast vel fólkinu á svæðinu.

16, 17. Hvernig getur tillitssemi haft áhrif á það (a) hvenær við heimsækjum fólk? (b) hve lengi við tölum við fólk?

16 Hvenær ættum við að heimsækja fólk? Fólk á eðlilega ekki von á okkur þegar við förum hús úr húsi. Það er þess vegna mikilvægt að við heimsækjum það þegar það er líklegra til að vilja spjalla við okkur. (Matt. 7:12) Finnst fólki þar sem þú býrð gott að sofa út um helgar? Þá gætirðu byrjað boðunina á því að nota ritatrillurnar, tala við fólk á förnum vegi eða fara í endurheimsókn til þeirra sem þú veist að eru komnir á fætur.

17 Hversu lengi ættum við að tala við fólk? Margir eru mjög uppteknir og því gæti verið gott að hafa samtalið stutt, að minnsta kosti fyrst um sinn. Betra er að ljúka samræðunum fyrr en að vera of lengi. (1. Kor. 9:20-23) Það er líklegra að fólk vilji að við komum aftur ef það sér að við skiljum aðstæður þess. Við þurfum greinilega að sýna ávöxt andans í boðuninni. Ef við gerum það verðum við „samverkamenn Guðs“. Með hans hjálp gætum við jafnvel fengið að leiða einhvern inn til sannleikans. – 1. Kor. 3:6, 7, 9.

18. Við hvaða blessun megum við búast ef við erum tillitssöm?

18 Gerum því okkar allra besta til að vera tillitssöm í fjölskyldunni, söfnuðinum og boðuninni. Þegar við gerum það hljótum við ríkulega blessun, bæði nú og í framtíðinni. Í Sálmi 41:1, 2 segir: „Sá sem er tillitssamur við lítilmagnann er hamingjusamur. Jehóva bjargar honum á degi neyðarinnar ... Hann verður álitinn hamingjusamur á jörðinni.“ – NW.