Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 35

Jehóva metur auðmjúka þjóna sína mikils

Jehóva metur auðmjúka þjóna sína mikils

,Drottinn lítur til hins lága.‘ – SÁLM. 138:6.

SÖNGUR 48 Göngum með Jehóva dag hvern

YFIRLIT *

1. Hvað finnst Jehóva um þá sem eru auðmjúkir? Skýrðu svarið.

JEHÓVA elskar þá sem eru auðmjúkir. Aðeins þeir sem sýna ósvikna auðmýkt geta átt hlýlegt og náið samband við hann. Á hinn bóginn þekkir hann hinn drambláta aðeins „í fjarska“. (Sálm. 138:6) Við viljum öll þóknast Jehóva og finna fyrir hlýju hans og kærleika. Við höfum því ærna ástæðu til að þroska með okkur auðmýkt.

2. Hvað er rætt í þessari grein?

2 Í þessari grein fáum við svör við þrem spurningum: (1) Hvað er auðmýkt? (2) Hvers vegna ættum við að temja okkur auðmýkt? (3) Hvaða aðstæður geta reynt á auðmýkt okkar? Eins og við munum sjá gleðjum við hjarta Jehóva þegar við þroskum með okkur auðmýkt, og það er líka sjálfum okkur til góðs. – Orðskv. 27:11; Jes. 48:17.

HVAÐ ER AUÐMÝKT?

3. Hvað er auðmýkt?

3 Sá sem er auðmjúkur er lítillátur og laus við stolt og hroka. Samkvæmt Biblíunni gerir auðmjúkur maður sér grein fyrir stöðu sinni gagnvart Jehóva Guði og náunganum. Sá sem er auðmjúkur viðurkennir að allir eru betri en hann á einn eða annan hátt. – Fil. 2:3, 4.

4, 5. Hvers vegna er auðmýkt ekki alltaf augljós?

4 Sumir virðast vera auðmjúkir þó að þeir séu það ekki í raun. Þeir láta kannski lítið fyrir sér fara. Eða kannski eru þeir kurteisir og tillitssamir vegna menningar sinnar eða uppeldis. En innst inni gætu þeir verið mjög stoltir. Fyrr eða síðar kemur í ljós hvaða mann þeir hafa að geyma. – Lúk. 6:45.

5 Aðrir virðast sjálfsöruggir og opinskáir en það þarf ekki endilega að merkja að þeir séu stoltir. (Jóh. 1:46, 47) Þeir sem eru ófeimnir að eðlisfari verða samt að gæta þess að treysta ekki á eigin getu. Hvort sem við erum hlédræg eða ekki verðum við öll að leggja okkur fram um að vera auðmjúk.

Páll postuli var auðmjúkur og fannst hann ekki yfir aðra hafinn. (Sjá 6. grein.) *

6. Hvað getum við lært af Páli postula, samanber 1. Korintubréf 15:10?

6 Tökum Pál postula sem dæmi. Jehóva fól honum mikla ábyrgð og notaði hann til að mynda söfnuði í hverri borg á fætur annarri. Hann áorkaði ef til vill meiru í þjónustu Guðs en nokkur annar postuli Jesú Krists. En Páli fannst hann ekki yfir aðra hafinn. Hann sagði auðmjúkur: „Ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli með því að ég ofsótti söfnuð Guðs.“ (1. Kor. 15:9) Síðan viðurkenndi hann réttilega að staða sín í þjónustu Jehóva væri einstakri góðvild Jehóva að þakka en ekki eigin getu og verkum. (Lestu 1. Korintubréf 15:10.) Páll setur okkur gott fordæmi um auðmýkt í bréfi sínu til Korintumanna, sérstaklega í ljósi þess að sumir í söfnuðinum þóttust vera yfir hann hafnir. – 2. Kor. 10:10.

Karl F. Klein, auðmjúkur bróðir sem sat í hinu stjórnandi ráði. (Sjá 7. grein.)

7. Hvernig hafa sumir bræður í ábyrgðarstöðu á okkar tímum sýnt auðmýkt? Nefndu dæmi.

7 Mörgum vottum Jehóva hefur fundist uppörvandi að lesa ævisögu bróður Karls F. Kleins, en hann var í stjórnandi ráði. Í ævisögu sinni sagði bróðir Klein auðmjúkur frá ýmsum veikleikum og erfiðleikum sem hann þurfti að glíma við um ævina. Árið 1922 fór hann til dæmis í fyrsta sinn hús úr húsi. Honum fannst það svo erfitt að hann fór ekki aftur í um tvö ár. Síðar, þegar hann var á Betel, ól hann með sér gremju eftir að hafa fengið tiltal. Hann fékk líka taugaáfall en náði að lokum bata. Engu að síður fékk hann mörg spennandi og mikilvæg þjónustuverkefni. Það hefur krafist mikillar auðmýktar af svona þekktum bróður að viðurkenna fúslega veikleika sína. Mörg trúsystkini okkar eiga góðar minningar af bróður Klein og einlægri ævisögu hans. *

HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ TEMJA OKKUR AUÐMÝKT?

8. Hvernig leiðir 1. Pétursbréf 5:6 í ljós að auðmýkt gleður Jehóva?

8 Mikilvægasta ástæðan fyrir því að temja sér auðmýkt er að það gleður Jehóva. Pétur postuli tók það skýrt fram. (Lestu 1. Pétursbréf 5:6.) Í bókinni Komið og fylgið mér segir um orð Péturs: „Drambsemi er eins og eitur og getur haft stórskaðleg áhrif. Hún getur gert hæfileikaríkasta mann ónothæfan í þjónustu Guðs. Auðmýkt getur á hinn bóginn gert hinn lítilmótlegasta afar nytsaman í þjónustu Jehóva ... [Jehóva] er ... ánægja að umbuna þér fyrir auðmýkt þína.“ * Getum við hugsað okkur nokkuð betra en að gleðja hjarta Jehóva? – Orðskv. 23:15.

9. Hvers vegna er auðmýkt aðlaðandi?

9 Auk þess að gleðja Jehóva er það okkur til góðs á marga vegu að temja okkur auðmýkt. Auðmýkt laðar aðra að okkur. Við skiljum það vel þegar við setjum okkur í spor annarra. (Matt. 7:12) Fæstum finnst gaman að umgangast þá sem krefjast alltaf að fá sínu framgengt og neita að hlusta á tillögur annarra. Hins vegar finnst okkur endurnærandi að umgangast trúsystkini okkar þegar þau sýna samkennd, bróðurást, umhyggju og auðmýkt. (1. Pét. 3:8) Fyrst við löðumst að slíku fólki er líklegt að það laðist að okkur – svo framarlega sem við erum auðmjúk.

10. Hvernig auðveldar auðmýkt okkur lífið?

10 Auðmýkt auðveldar okkur líka lífið. Við gætum séð eða upplifað eitthvað sem virðist ekki rétt eða sanngjarnt. Hinn vitri Salómon konungur sagði: „Ég sá þræla sitja hesta og höfðingja fótgangandi eins og þræla.“ (Préd. 10:7) Þeir sem hafa mikla hæfileika fá ekki alltaf viðurkenningu. Og þeir sem hafa litla hæfileika fá stundum mikinn heiður. En Salómon sagði að það væri betra að horfast í augu við veruleikann en að velta sér upp úr mótlæti. (Préd. 6:9, Biblían 1981) Ef við erum auðmjúk eigum við auðveldara með að sætta okkur við lífið eins og það er – ekki eins og okkur finnst það eigi að vera.

HVAÐA AÐSTÆÐUR GETA REYNT Á AUÐMÝKT OKKAR?

Hvernig getur reynt á auðmýkt okkar í aðstæðum sem þessum? (Sjá 11. og 12. grein.) *

11. Hvernig ættum við að bregðast við þegar við fáum leiðréttingu?

11 Við fáum ótal tækifæri á hverjum degi til að sýna auðmýkt. Skoðum nokkrar aðstæður. Þegar við erum leiðrétt. Það er gott að muna að þegar einhver gefur sér tíma til að leiðrétta okkur höfum við líklega farið lengra út af sporinu en við áttum okkur á. Fyrstu viðbrögð okkar gætu verið að hafna leiðréttingunni. Við gætum gagnrýnt þann sem leiðrétti okkur eða hvernig hann gerði það. En ef við erum auðmjúk reynum við að bregðast rétt við.

12. Hvers vegna ættum við að vera þakklát þegar við erum leiðrétt, samanber Orðskviðina 27:5, 6? Lýstu með dæmi.

12 Sá sem er auðmjúkur kann að meta leiðréttingu. Lýsum þessu með dæmi. Þú ert á samkomu og hefur spjallað við nokkur trúsystkini. Síðan tekur einn bróðir þig afsíðis og bendir þér á að þú hafir eitthvað á milli tannanna. Þú ferð líklega hjá þér. En værirðu ekki líka þakklátur fyrir að hann skyldi láta þig vita? Þú hefðir eflaust viljað að einhver hefði sagt þér það fyrr. Sömuleiðis ættum við að vera auðmjúk og þakklát ef trúsystkini okkar tekur í sig kjark til að leiðrétta okkur þegar við þurfum á því að halda. Við lítum á þetta trúsystkini sem vin okkar, ekki óvin. – Lestu Orðskviðina 27:5, 6; Gal. 4:16.

Hvers vegna er nauðsynlegt að vera auðmjúkur þegar aðrir fá verkefni í söfnuðinum? (Sjá 13. og 14. grein.) *

13. Hvernig getum við sýnt auðmýkt þegar aðrir fá verkefni í söfnuðinum?

13 Þegar aðrir fá verkefni í söfnuðinum. „Þegar aðrir fá verkefni velti ég stundum fyrir mér hvers vegna ég var ekki valinn,“ viðurkennir öldungur sem heitir Jason. Líður þér stundum þannig? Það er ekki rangt að ,sækjast eftir‘ meiri ábyrgð í söfnuðinum. (1. Tím. 3:1) En við verðum að gæta að því hvernig við hugsum. Ef við sofnum á verðinum gætum við leyft stolti að festa rætur í hjarta okkar. Bróðir gæti til dæmis farið að hugsa sem svo að hann sé sá hæfasti fyrir ákveðið verkefni. Og systir gæti hugsað: „Maðurinn minn er miklu hæfari en hinn bróðirinn.“ Ef við sýnum ósvikna auðmýkt forðumst við allt slíkt stolt.

14. Hvað getum við lært af viðbrögðum Móse þegar aðrir fengu ábyrgðarverkefni?

14 Við getum dregið lærdóm af viðbrögðum Móse þegar aðrir fengu ábyrgðarverkefni. Móse var þakklátur fyrir að fá að veita Ísraelsþjóðinni forystu. Hvernig brást hann við þegar Jehóva leyfði öðrum að vinna við hlið hans? Hann var ekki afbrýðisamur. (4. Mós. 11:24–29) Hann var auðmjúkur og leyfði öðrum að dæma þjóðina með sér. (2. Mós. 18:13–24) Þannig var hægt að sinna betur þörfum þjóðarinnar sem honum var falið að dæma. Af þessu má sjá að Móse tók ekki verkefni sitt fram yfir velferð annarra. Hann er okkur frábær fyrirmynd. Munum að ef við viljum koma að gagni í þjónustu Jehóva verður auðmýkt okkar að vera meiri en þeir hæfileikar sem við búum yfir. Þótt Jehóva ,sé hár lítur hann til hins lága‘, það er að segja hins auðmjúka. – Sálm. 138:6.

15. Hvernig hafa aðstæður margra bræðra og systra breyst?

15 Þegar aðstæður okkar breytast. Undanfarin ár hafa margir með áratugareynslu þurft að segja skilið við verkefni sín. Árið 2014 voru til dæmis umdæmishirðar og konur þeirra beðin að taka að sér annars konar þjónustu í fullu starfi. Sama ár var tilkynnt að farandhirðar þyrftu að láta af störfum þegar þeir næðu sjötugsaldri og að bræður áttræðir og eldri myndu ekki lengur vera umsjónarmenn öldungaráðs. Síðastliðin ár hafa auk þess margir Betelítar verið beðnir að hætta á Betel og gerast brautryðjendur. Aðrir hafa þurft að hætta í sérstakri þjónustu í fullu starfi vegna heilsu, fjölskylduábyrgðar eða annarra persónulegra aðstæðna.

16. Hvernig hafa bræður okkar og systur sýnt auðmýkt við breyttar aðstæður?

16 Það var erfitt fyrir þessa bræður og systur að gera slíkar breytingar. Þeim þótti augljóslega vænt um verkefni sitt sem þau höfðu kannski sinnt í mörg ár. Sumir fóru í gegnum visst sorgarferli í kjölfar breytinganna. En með tímanum tókst þeim að aðlagast nýjum aðstæðum. Hvers vegna? Aðallega vegna þess að þau elskuðu Jehóva. Þau vissu að þau voru helguð Guði – ekki vinnu, titli eða verkefni. (Kól. 3:23) Það gleður þau að þjóna Jehóva auðmjúklega við hvaða verkefni sem er. Þau ,varpa allri áhyggju sinni á hann‘ því að þau vita að hann ber umhyggju fyrir þeim. – 1. Pét. 5:6, 7.

17. Hvers vegna erum við þakklát fyrir að orð Guðs skuli hvetja okkur til að temja okkur auðmýkt?

17 Erum við ekki þakklát fyrir að orð Guðs skuli hvetja okkur til að temja okkur auðmýkt? Það er bæði okkur og öðrum til góðs að þroska með okkur þennan dýrmæta eiginleika. Þá eigum við auðveldara með að takast á við erfiðleika lífsins. Umfram allt verðum við nánari himneskum föður okkar. Það gleður okkur að vita að þótt hann sé „hinn hái og upphafni“ elskar hann auðmjúka þjóna sína og metur þá mikils. – Jes. 57:15.

SÖNGUR 45 Hugsun hjarta míns

^ gr. 5 Auðmýkt er einn mikilvægasti eiginleikinn sem við þurfum að sýna. Hvað er auðmýkt? Hvers vegna ættum við að þroska hana með okkur? Og hvers vegna getur reynt á auðmýktina þegar aðstæður okkar breytast? Þessum mikilvægu spurningum er svarað í greininni.

^ gr. 7 Sjá greinina „Jehovah Has Dealt Rewardingly With Me“ í Varðturninum á ensku 1. október 1984.

^ gr. 53 MYND: Páll postuli sýnir auðmýkt í heimsókn hjá trúsystkinum með því að gefa sér tíma með þeim, þar á meðal börnunum.

^ gr. 57 MYND: Bróðir hlustar á yngri bróður gefa sér ráð byggð á Biblíunni.

^ gr. 59 MYND: Eldri bróðirinn öfundar ekki yngri bróðurinn sem er með verkefni í söfnuðinum.