Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 37

Lútum Jehóva fúslega – hvers vegna og hvernig?

Lútum Jehóva fúslega – hvers vegna og hvernig?

„Skyldum við ... ekki miklu fremur lúta aga himnesks föður okkar?“ – HEBR. 12:9.

SÖNGUR 9 Jehóva er konungur

YFIRLIT *

1. Hvers vegna ættum við að vera Jehóva undirgefin?

VIÐ ættum að vera Jehóva undirgefin * vegna þess að hann er skapari okkar. Hann hefur því rétt á að setja okkur reglur. (Opinb. 4:11) Og við höfum aðra góða ástæðu til að hlýða honum – stjórnarfar hans er það besta sem hugsast getur. Í aldanna rás hafa margir menn farið með vald yfir öðrum. En þegar við berum stjórnarfar Jehóva saman við stjórnarfar þeirra sjáum við að Jehóva er vitrari, kærleiksríkari, miskunnsamari og umhyggjusamari stjórnandi en þeir allir. – 2. Mós. 34:6; Rómv. 16:27; 1. Jóh. 4:8.

2. Hvaða ástæður höfum við til að lúta Jehóva, samanber Hebreabréfið 12:9–11?

2 Jehóva vill að við hlýðum honum fyrst og fremst vegna þess að við elskum hann og lítum á hann sem kærleiksríkan föður okkar en ekki vegna þess að við óttumst hann. Páll segir í bréfi sínu til Hebrea að við ættum að vera fús til að „lúta aga himnesks föður okkar“ vegna þess að þjálfun hans er „okkur til gagns“. – Lestu Hebreabréfið 12:9–11.

3. (a) Hvernig sýnum við Jehóva undirgefni? (b) Hvaða spurningum fáum við svör við?

3 Við sýnum Jehóva undirgefni með því að hlýða honum alltaf eins vel og við getum og með því að berjast gegn þeirri löngun að ákveða sjálf hvað sé rétt og hvað sé rangt. (Orðskv. 3:5) Við eigum auðveldara með að vera Jehóva undirgefin þegar við kynnumst góðum eiginleikum hans vegna þess að þeir endurspeglast í öllu sem hann gerir. (Sálm. 145:9) Við elskum Jehóva meira eftir því sem við kynnumst honum betur. Og þegar við elskum Jehóva þurfum við ekki langan lista yfir hvað við eigum að gera og hvað ekki. Við reynum að stilla huga okkar og tilfinningar eftir því sem er gott og forðast það sem er slæmt. (Sálm. 97:10) En hvers vegna finnst okkur stundum erfitt að hlýða Jehóva? Og hvað geta öldungar, feður og mæður lært af fordæmi Nehemía landstjóra, Davíðs konungs og Maríu móður Jesú? Þessum spurningum er svarað í greininni.

HVERS VEGNA GETUR REYNST ERFITT AÐ LÚTA JEHÓVA?

4, 5. Hvers vegna getur reynst erfitt að vera Jehóva undirgefinn, eins og sjá má af Rómverjabréfinu 7:21–23?

4 Ein ástæða þess að okkur getur fundist erfitt að vera Jehóva undirgefin er að við fengum öll syndina í arf og erum ófullkomin. Við höfum því öll tilhneigingu til að óhlýðnast. Þegar Adam og Eva gerðu uppreisn gegn Guði með því að borða af ávextinum settu þau sér sinn eigin mælikvarða á rétt og rangt. (1. Mós. 3:22) Nú á dögum kjósa flestir enn að hunsa Jehóva og ákveða sjálfir hvað sé rétt og hvað rangt.

5 Jafnvel þeir sem þekkja og elska Jehóva geta átt erfitt með að hlýða honum í einu og öllu. Páll postuli þekkti það af eigin reynslu. (Lestu Rómverjabréfið 7:21–23.) Við viljum gera það sem er rétt í augum Jehóva, rétt eins og Páll. En við verðum stöðugt að berjast gegn löngun okkar til að gera það sem er rangt.

6, 7. Hvaða önnur ástæða er fyrir því að það getur verið erfitt að lúta Jehóva? Nefndu dæmi.

6 Önnur ástæða fyrir að það getur verið erfitt að lúta Jehóva er að menningin þar sem við ólumst upp hefur áhrif á okkur. Margar hugmyndir manna stangast á við vilja Jehóva. Við verðum því stöðugt að leggja okkur fram um að hugsa ekki eins. Skoðum eitt dæmi.

7 Á sumum stöðum er algengt að þrýst sé á ungt fólk að helga líf sitt því að afla sér mikilla tekna. Systir að nafni Mary * fann fyrir slíkum þrýstingi. Áður en hún kynntist Jehóva sótti hún einn af virtustu skólunum í landi sínu. Fjölskylda Mary þrýsti á hana að finna sér vel launað og mikils metið starf. Hún vildi það líka. En eftir að hún kynntist Jehóva og fór að elska hann breyttust markmið hennar. En það er ekki alltaf auðvelt fyrir hana. Hún segir: „Stundum rekst ég á heillandi tilboð um atvinnu sem myndi gera mér kleift að afla mér mikilla tekna en trufla andlegu dagskrána. Mér finnst enn þá erfitt að hafna tilboðunum vegna þess úr hvernig umhverfi ég kem. Ég þarf að sárbæna Jehóva að hjálpa mér að standast þá freistingu að þiggja atvinnu sem gæti komið upp á milli mín og þjónustunnar við hann.“ – Matt. 6:24.

8. Hvað skoðum við núna?

8 Það er okkur sjálfum til góðs að vera Jehóva undirgefin. Öldungar, feður og mæður fara með ákveðið vald og hafa því aðra ástæðu til að fylgja leiðsögn Guðs. Þau hjálpa öðrum með því. Skoðum núna nokkur dæmi frá Biblíunni sem kenna okkur að beita valdi á þann hátt sem þóknast Jehóva.

HVAÐ GETA ÖLDUNGAR LÆRT AF NEHEMÍA?

Öldungar taka þátt í vinnu við ríkissalinn rétt eins og Nehemía tók þátt í endurreisn Jerúsalem. (Sjá 9.–11. grein.) *

9. Hvað þurfti Nehemía að takast á við?

9 Jehóva hefur falið öldungum það mikilvæga verkefni að gæta þjóna sinna. (1. Pét. 5:2) Öldungar geta lært margt af því hvernig Nehemía kom fram við þjóna Jehóva. Nehemía var landstjóri í Júda og hafði því töluvert vald. (Neh. 1:11; 2:7, 8; 5:14) Hugsaðu þér hvað hann þurfti að takast á við. Hann komst að því að fólkið hafði saurgað musterið og veitti Levítum ekki fjárhagslegan stuðning eins og lögmálið fyrirskipaði. Gyðingarnir brutu hvíldardagsboðið og sumir höfðu kvænst útlendum konum. Nehemía landstjóri þurfti að taka á málunum. – Neh. 13:4–30.

10. Hvernig brást Nehemía við þeim vanda sem hann stóð frammi fyrir?

10 Nehemía misbeitti ekki valdi sínu með því að þröngva sínum eigin skoðunum upp á þjóna Guðs. Hann leitaði öllu heldur leiðsagnar Jehóva í innilegri bæn og fræddi fólkið um lögmál Jehóva. (Neh. 1:4–10; 13:1–3) Nehemía sýndi einnig auðmýkt með því að vinna með landsmönnum og hjálpaði jafnvel til við að endurreisa múra Jerúsalem. – Neh. 4:9.

11. Hvernig ættu öldungar að koma fram við þá sem eru í söfnuðinum samkvæmt 1. Þessaloníkubréfi 2:7, 8?

11 Öldungar þurfa kannski ekki að takast á við sams konar vanda og Nehemía en þeir geta samt sem áður líkt eftir honum á margan hátt. Þeir leggja til dæmist mikið á sig til að hjálpa bræðrum og systrum. Og þeir láta ekki vald sitt stíga sér til höfuðs. Þeir koma öllu heldur mildilega fram við söfnuðinn. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.) Kærleikur þeirra og auðmýkt hefur áhrif á hvernig þeir tala við aðra. Reyndur öldungur að nafni Andrew segir: „Ég hef tekið eftir að bræður og systur bregðast yfirleitt vel við þegar öldungur sýnir einlæga góðvild og hlýju. Þessir eiginleikar eru söfnuðinum hvatning til að vinna vel með öldungunum.“ Annar gamalreyndur öldungur að nafni Tony segir: „Ég reyni alltaf að fara eftir leiðbeiningunum í Filippíbréfinu 2:3 og legg mig fram um að meta aðra meira en sjálfan mig. Það forðar mér frá því að neyða aðra til að hlýða mér.“

12. Hvers vegna er mikilvægt að öldungar sýni auðmýkt?

12 Öldungar þurfa að sýna auðmýkt rétt eins og Jehóva. Jehóva „horfir djúpt“ til að reisa „lítilmagnann úr duftinu“ þó að hann sé Drottinn alheims. (Sálm. 18:36; 113:6, 7) Í Biblíunni kemur einnig fram að Jehóva hafi andstyggð á þeim sem eru stoltir og hrokafullir. – Orðskv. 16:5.

13. Hvers vegna þurfa öldungar að hafa „taumhald á tungu sinni“?

13 Öldungur sem er Jehóva undirgefinn þarf að hafa „taumhald á tungu sinni“. Ef hann gerir það ekki gæti hann svarað hranalega ef einhver sýnir honum óvirðingu. (Jak. 1:26; Gal. 5:14, 15) Andrew, sem minnst var á áður, segir: „Stundum þegar mér hefur fundist bróðir eða systir sýna mér óvirðingu hefur mig langað til að bregðast hranalega við. En ég hef hugleitt fordæmi trúfastra manna í Biblíunni og það hefur hjálpað mér að skilja mikilvægi þess að sýna auðmýkt og mildi.“ Öldungar sýna að þeir lúta Jehóva með því að vera kærleiksríkir og ljúfir þegar þeir tala við bræður og systur í söfnuðinum og það á einnig við þegar þeir tala við aðra öldunga. – Kól. 4:6.

HVAÐ GETA FEÐUR LÆRT AF DAVÍÐ KONUNGI?

14. Hvaða hlutverk hefur Jehóva falið feðrum og hvers ætlast hann til af þeim?

14 Jehóva hefur falið feðrum að vera höfuð fjölskyldunnar og hann ætlast til að þeir kenni börnum sínum og agi þau. (1. Kor. 11:3; Ef. 6:4) En vald feðra er takmarkað – þeir eru ábyrgir gagnvart Jehóva, honum sem stofnaði fjölskylduna. (Ef. 3:14, 15) Feður sýna Jehóva undirgefni með því að beita valdi sínu á þann hátt sem þóknast honum. Þeir geta lært margt af sögu Davíðs konungs.

Bæn kristins föður ætti að bera merki um auðmýkt. (Sjá 15. og 16. grein.) *

15. Hvers vegna er gott fyrir feður að hugleiða fordæmi Davíðs konungs?

15 Jehóva fól Davíð ekki aðeins að vera höfuð fjölskyldu sinnar heldur Ísraelsþjóðarinnar allrar. Davíð hafði mikið vald sem konungur. Stundum misbeitti hann valdi sínu og gerði alvarleg mistök. (2. Sam. 11:14, 15) En hann sýndi Jehóva undirgefni með því að taka við aga. Hann úthellti hjarta sínu í bæn til Jehóva. Og hann gerði sitt besta til að hlýða leiðsögn hans. (Sálm. 51:3–6) Auk þess sýndi hann mikla auðmýkt og fór eftir góðum ráðum – ekki aðeins frá körlum heldur einnig konum. (1. Sam. 19:11, 12; 25:32, 33) Davíð lærði af mistökum sínum og lét þjónustuna við Jehóva vera í fyrsta sæti.

16. Hvað geta feður lært af Davíð?

16 Hvað getið þið feður lært af Davíð konungi? Misbeitið ekki valdinu sem Jehóva hefur gefið ykkur. Viðurkennið mistök ykkar og þiggið biblíuleg ráð frá öðrum. Fjölskyldan mun virða ykkur fyrir að sýna auðmýkt. Þegar þú biður til Jehóva með fjölskyldu þinni skaltu úthella hjarta þínu fyrir honum – þannig heyrir fjölskyldan að þú reiðir þig algerlega á Jehóva. Umfram allt skaltu láta líf þitt snúast um þjónustuna við Jehóva. (5. Mós. 6:6–9) Gott fordæmi er eitt það verðmætasta sem þú getur gefið fjölskyldunni.

HVAÐ GETA MÆÐUR LÆRT AF MARÍU?

17. Hvaða hlutverk hefur Jehóva falið mæðrum?

17 Jehóva hefur falið mæðrum mikilvægt hlutverk innan fjölskyldunnar og gefið þeim visst vald yfir börnunum. (Orðskv. 6:20) Og mæður geta haft djúpstæð og varanleg áhrif á börn sín. (Orðskv. 22:6) Skoðum hvað mæður geta lært af Maríu móður Jesú.

18, 19. Hvað geta mæður lært af fordæmi Maríu?

18 María þekkti ritningarnar vel. Hún bar djúpa virðingu fyrir Jehóva og hafði myndað sterkt og náið vináttusamband við hann. Hún var fús til að lúta leiðsögn Jehóva þó að líf hennar gerbreyttist við það. – Lúk. 1:35–38, 46–55.

Ef móðir er þreytt eða að missa þolinmæðina getur hún þurft að leggja sérstaklega mikið á sig til að tjá fjölskyldunni ást sína. (Sjá 19. grein.) *

19 Mæður, þið getið líkt eftir Maríu á margan hátt. Hvernig? Í fyrsta lagi með því að viðhalda vináttusambandi ykkar við Jehóva með einkabænum og sjálfsnámi. Í öðru lagi með því að vera fúsar til að gera breytingar í lífinu til að þóknast Jehóva. Tökum dæmi: Ef foreldrar þínir misstu oft stjórn á skapinu og töluðu hranalega við ykkur börnin gætirðu hafa alist upp við þá hugsun að það væri eðlilegt að koma svona fram við börnin sín. Þér gæti fundist erfitt að halda rónni og vera þolinmóð við börnin þó að þú sért búin að kynnast meginreglum Jehóva – sérstaklega ef þau óhlýðnast þegar þú ert þreytt. (Ef. 4:31) Þá er mikilvægt að þú reiðir þig á Jehóva í bæn. Móðir að nafni Lydia segir: „Stundum hef ég þurft að biðja ákaft til Jehóva til að tala ekki í reiði þegar sonur minn óhlýðnast. Ég hef meira að segja stoppað mig af í miðri setningu og beðið Jehóva í hljóði að hjálpa mér. Bænin hjálpar mér að halda rónni.“ – Sálm. 37:5.

20. Hvaða vanda standa sumar mæður frammi fyrir og hvernig geta þær sigrast á honum?

20 Sumar mæður standa frammi fyrir öðru vandamáli – þeim finnst erfitt að tjá börnunum ást sína. (Tít. 2:3, 4) Margar þeirra ólust upp á heimili þar sem foreldrarnir áttu ekki hlýlegt samband við börnin. Þú þarft ekki að gera sömu mistök og foreldrar þínir þó að þú hafir alist upp við slíkar aðstæður. Móðir sem vill lúta vilja Jehóva þarf kannski að læra að tjá börnunum ást sína. Það getur verið erfitt fyrir hana að breyta hugsunarhætti sínum, tilfinningum og breytni. En það er hægt og það er henni sjálfri og allri fjölskyldunni til góðs.

HÖLDUM ÁFRAM AÐ LÚTA JEHÓVA

21, 22. Hvernig njótum við góðs af því að vera Jehóva undirgefin samkvæmt Jesaja 65:13, 14?

21 Davíð konungur vissi að það væri gagnlegt að vera Jehóva undirgefinn. Hann sagði: „Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun. Þjónn þinn varðveitir þau af kostgæfni, að halda þau veitir ríkuleg laun.“ (Sálm. 19:9, 12) Nú á dögum sjáum við greinilegan mun á þeim sem lúta Jehóva og þeim sem hafna kærleiksríkri leiðsögn hans. Þeir sem lúta Jehóva „hrópa af glöðu hjarta“. – Lestu Jesaja 65:13, 14.

22 Þegar öldungar, feður og mæður lúta Jehóva fúslega verður líf þeirra betra, fjölskyldur þeirra verða ánægðari og allur söfnuðurinn sameinaðri. Og það sem mikilvægara er, þau gleðja hjarta Jehóva. (Orðskv. 27:11) Er hægt að hugsa sér nokkuð betra?

SÖNGUR 123 Verum hlýðin skipan Guðs

^ gr. 5 Í þessari grein er rætt um hvers vegna við ættum að lúta Jehóva. Einnig er rætt um hvað öldungar, feður og mæður – sem fara öll með ákveðið vald – geta lært af Nehemía landstjóra, Davíð konungi og Maríu móður Jesú.

^ gr. 1 ORÐASKÝRINGAR: Það að vera undirgefinn og að lúta einhverjum hefur neikvæða merkingu fyrir þá sem eru neyddir til að hlýða. En þjónar Guðs kjósa að hlýða honum og finnst því ekki neikvætt að vera undirgefnir.

^ gr. 7 Sumum nöfnum í þessari grein er breytt.

^ gr. 62 MYND: Öldungur vinnur með syni sínum við viðhald ríkissalar rétt eins og Nehemía tók þátt í að endurreisa múra Jerúsalem.

^ gr. 64 MYND: Faðir fer með einlæga bæn með fjölskyldu sinni.

^ gr. 66 MYND: Strákur er búinn að eyða löngum tíma í að spila tölvuleiki og er ekki búinn að sinna heimavinnunni eða húsverkunum. Mamma hans kemur þreytt heim úr vinnunni og agar hann án þess að missa stjórn á skapinu eða tala hranalega.