Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 39

„Sjá: Mikill múgur“

„Sjá: Mikill múgur“

„Sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið ... stóð frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu.“ – OPINB. 7:9.

SÖNGUR 60 Það bjargar þeim

YFIRLIT *

1. Hverjar voru aðstæður Jóhannesar postula undir lok fyrstu aldar?

UNDIR lok fyrstu aldar bjó Jóhannes postuli við erfiðar aðstæður. Hann var aldraður, fangi á eyjunni Patmos og líklega eini postulinn eftir á lífi. (Opinb. 1:9) Hann vissi að fráhvarfsmenn kenndu falskenningar í söfnuðunum og ollu sundrung. Það leit kannski út fyrir að engir sannkristnir menn yrðu eftir. – Júd. 4; Opinb. 2:15, 20; 3:1, 17.

Jóhannes postuli sá ,mikinn múg‘ klæddan hvítum skikkjum og með pálmagreinar í höndunum. (Sjá 2. grein.)

2. Hvaða spennandi spádómlegu sýn fékk Jóhannes eins og fram kemur í Opinberunarbókinni 7:9–14? (Sjá mynd á forsíðu.)

2 Við þessar erfiðu aðstæður fær Jóhannes spennandi spádómlega sýn. Í sýninni eru englar beðnir um að halda aftur á eyðingarvindum þrengingarinnar miklu þangað til hópur af þjónum Guðs hefur fengið lokainnsiglið. (Opinb. 7:1–3) Hópurinn samanstendur af 144.000 sem eiga eftir að ríkja með Jesú á himni. (Lúk. 12:32; Opinb. 7:4) Síðan nefnir Jóhannes annan hóp sem er svo stór að hann hrópar upp yfir sig: „Sjá!“ Það sem hann sá hefur líklega komið honum á óvart. Hann sá ,mikinn múg, sem enginn gat tölu á komið, af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum, standa frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu‘. (Lestu Opinberunarbókina 7:9–14.) Ímyndaðu þér hversu glaður Jóhannes hefur verið að sjá fjöldann allan af fólki tilbiðja Guð á réttan hátt í framtíðinni.

3. (a) Hvers vegna er sýn Jóhannesar trústyrkjandi? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Sýnin hefur án efa styrkt trú Jóhannesar. Og hún getur styrkt trú okkar enn meir þar sem við lifum á þeim tíma sem sýnin rætist. Milljónir manna hafa tekið upp sanna tilbeiðslu á Jehóva og eiga þá von að lifa af þrenginguna miklu og búa að eilífu á jörðinni. Í greininni fáum við að vita hvernig Jehóva opinberaði fólki sínu fyrir rúmlega 80 árum hver múgurinn mikli væri. Við skoðum tvennt varðandi þennan hóp: (1) hversu stór hann er og (2) hversu fjölþjóðlegur hann er. Það ætti að styrkja trú allra sem vonast eftir að tilheyra þeim hópi.

HVAR MUN MÚGURINN MIKLI BÚA?

4. Hvaða biblíusannindi skilur kristni heimurinn ekki en hvað var Biblíunemendunum ljóst?

4 Kristni heimurinn kennir almennt ekki þau biblíusannindi að hlýðið fólk eigi eftir að lifa að eilífu á jörð. (2. Kor. 4:3, 4) Flest trúfélög kristna heimsins kenna að allt gott fólk fari til himna þegar það deyr. Öðru máli gegndi hins vegar um lítinn hóp biblíunemenda sem byrjaði að gefa út Varðturninn árið 1879. Þeir skildu að Guð ætlar að endurreisa paradís á jörð og að milljónir hlýðinna manna eigi eftir að búa hér á jörð – ekki á himni. Það leið aftur á móti nokkur tími áður en þeim varð fyllilega ljóst hvaða hlýðna fólk væri um að ræða. – Matt. 6:10.

5. Hverju trúðu Biblíunemendurnir varðandi hinar 144.000?

5 En Biblíunemendurnir skildu líka af Biblíunni að sumir yrðu ,leystir frá jörðunni‘ til að ríkja með Jesú á himni. (Opinb. 14:3) Í þeim hópi yrðu 144.000 kappsamir og vígðir kristnir menn og konur sem þjónuðu Guði trúfastlega meðan þau voru á jörðinni. En hvað um múginn mikla?

6. Hverju trúðu Biblíunemendurnir varðandi múginn mikla?

6 Í sýninni sá Jóhannes hópinn ,standa frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu‘. (Opinb. 7:9) Af þessu drógu Biblíunemendurnir þá ályktun að múgurinn mikli myndi búa á himni líkt og hinar 144.000. Ef bæði hinar 144.000 og múgurinn mikli myndi búa á himni, hver yrði þá munurinn á hópunum? Biblíunemendurnir héldu að múgurinn mikli hlyti að samanstanda af kristnum mönnum og konum sem hefðu ekki sýnt algera hlýðni meðan þau voru á jörðinni. Þótt sum þeirra hefðu fylgt siðferðisreglum Biblíunnar tilheyrðu þau ef til vill enn kirkjum kristna heimsins. Biblíunemendurnir ályktuðu að þau væru kappsöm að nokkru leyti en ekki í nægilega miklum mæli til að ríkja með Jesú. Þar sem kærleikur þeirra til Guðs væri ekki nógu sterkur yrði múgurinn mikli hæfur til að vera á himni frammi fyrir hásætinu en ekki til að sitja í hásætum.

7. Hverjir myndu búa á jörðinni í þúsundáraríkinu að sögn Biblíunemendanna og hvað héldu þeir um trúfasta þjóna Guðs til forna?

7 En hverjir fengju þá að búa á jörðinni? Biblíunemendurnir trúðu að hinar 144.000 færu til himna ásamt múginum mikla og að milljónir annarra fengju síðan að búa á jörðinni og njóta blessunar undir þúsund ára stjórn Krists. Þeir álitu að þessar milljónir myndu ekki þjóna Jehóva áður en stjórn Krists hæfist heldur læra um hann meðan á þúsundáraríkinu stæði. Fólk sem hlýddi meginreglum Jehóva hlyti eilíft líf á jörð en þeim sem gerðu uppreisn yrði tortímt. Biblíunemendurnir héldu líka að sumir sem yrðu ,höfðingjar‘ á þeim tíma myndu fara til himna í lok þúsundáraríkisins. Meðal þeirra yrðu hinir upprisnu „fornu heiðursmenn“, það er að segja trúfastir þjónar Guðs sem dóu á undan Kristi. – Sálm. 45:17.

8. Hvaða þrjá hópa virtist fyrirætlun Guðs ná yfir?

8 Biblíunemendurnir töldu því að um þrjá hópa væri að ræða: (1) hinar 144.000 sem myndu ríkja með Jesú á himni, (2) mikinn múg af þjónum Guðs sem voru ekki eins kappsamir en myndu standa frammi fyrir hásætinu á himni og frammi fyrir lambinu, og (3) milljónir manna sem myndu læra um Jehóva meðan á þúsundáraríki Krists stæði. * En á tilsettum tíma lét Jehóva ljós sannleikans skína skærar og þeir skildu málið betur. – Orðskv. 4:18.

LJÓS SANNLEIKANS SKÍN SKÆRAR

Margir sem höfðu jarðneska von létu skírast á mótinu 1935. (Sjá 9. grein.)

9. (a) Hvernig getur múgurinn mikli staðið „frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu“ þótt hann sé á jörðinni? (b) Hvers vegna er þessi skilningur á Opinberunarbókinni 7:9 rökréttur?

9 Árið 1935 fengu Vottar Jehóva fullan skilning á því hver múgurinn mikli í sýn Jóhannesar væri. Þeir gerðu sér ljóst að múgurinn mikli þyrfti ekki að vera bókstaflega á himni til að geta staðið „frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu“. Hann stendur þar í táknrænum skilningi. Þótt hann sé staðsettur á jörðinni getur hann staðið „frammi fyrir hásætinu“ með því að viðurkenna vald Jehóva og hlýða honum. (Jes. 66:1) Múgurinn stendur „frammi fyrir lambinu“ með því að iðka trú á lausnarfórn Jesú. Á svipaðan hátt segir í Matteusi 25:31, 32 að „allar þjóðir“ – þar á meðal vont fólk –,safnist frammi fyrir‘ dýrðarhásæti Jesú. Allar þessar þjóðir eru augljóslega á jörðinni en ekki á himni. Það er rökrétt. Og það útskýrir hvers vegna Biblían segir ekki að múgurinn mikli fari til himna. Aðeins einn hópur hefur fengið loforð um eilíft líf á himni – hinar 144.000 sem munu „ríkja sem konungar yfir jörðinni“ með Jesú. – Opinb. 5:10, NW.

10. Hvers vegna þarf múgurinn mikli að kynnast Jehóva áður en þúsundáraríkið hefst?

10 Frá árinu 1935 hafa Vottar Jehóva því skilið að múgurinn mikli í sýn Jóhannesar er hópur trúfastra þjóna Guðs sem á þá von að lifa að eilífu á jörðinni. Til að lifa af þrenginguna miklu þarf múgurinn mikli að kynnast Jehóva og tilbiðja hann áður en þúsundáraríkið hefst. Menn þurfa að hafa sterka trú og sýna hana í verki til að „umflýja allt þetta sem koma á“ áður en þúsund ára stjórn Krists hefst. – Lúk. 21:34–36.

11. Hvers vegna héldu sumir biblíunemendur ef til vill að sumir færu til himna eftir þúsundáraríkið?

11 Hvað um þá skoðun að sumt trúfast fólk á jörðinni yrði reist til lífs á himnum eftir þúsundáraríkið? Sá möguleiki var nefndur í Varðturninum 15. febrúar 1913. Rökfærslan var á þessa leið: „Hvers vegna ættu trúfastir þjónar Guðs fyrir daga Krists bara að búa á jörðinni en þjónar Guðs sem voru ekki eins trúfastir búa á himni?“ Þessi hugmynd stafaði kannski af því að Biblíunemendurnir gerðu ranglega ráð fyrir að (1) múgurinn mikli færi til himna og (2) að í honum væru ekki algerlega trúfastir þjónar Guðs.

12, 13. Hvað vita bæði hinir andasmurðu og múgurinn mikli um umbunina sem þeir fá?

12 En eins og við höfum séð hafa Vottar Jehóva skilið frá árinu 1935 að þeir sem lifa af Harmagedón mynda múginn mikla í sýn Jóhannesar. Þeir munu ,koma úr þrengingunni miklu‘ hér á jörðinni og ,hrópa hárri röddu: Hjálpræðið kemur frá Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.‘ (Opinb. 7:10, 14) Biblían sýnir enn fremur fram á að þeir sem verða reistir upp til lífs á himnum öðlist betri von en trúfastir þjónar Guðs til forna. (Hebr. 11:40) Trúsystkini okkar fóru þar af leiðandi að bjóða fólki af kappi að þjóna Jehóva og eignast von um að lifa að eilífu á jörð.

13 Þeir sem mynda múginn mikla eru mjög ánægðir með von sína. Þeir gera sér grein fyrir að Jehóva ræður því hvar trúfastir þjónar hans búa, hvort heldur á himni eða jörð. Bæði hinir andasmurðu og múgurinn mikli vita að umbun þeirra er háð einstakri góðvild Jehóva sem birtist í lausnarfórn Jesú Krists. – Rómv. 3:24.

MIKILL MÚGUR

14. Af hverju veltu margir fyrir sér eftir árið 1935 hvernig spádómurinn um mikinn múg myndi rætast?

14 Þótt skilningur þjóna Jehóva hafi orðið gleggri árið 1935 veltu margir því fyrir sér hvernig þeir sem höfðu jarðneska von gætu orðið að miklum múgi. Ronald Parkin var 12 ára þegar það var orðið skýrt hverjir mynduðu múginn mikla. „Á þeim tíma,“ segir hann, „voru um 56.000 boðberar um heim allan og margir þeirra, sennilega flestir, voru andasmurðir. Múgurinn mikli virtist því ekki sérlega stór.“

15. Hvernig hefur gengið að safna saman múginum mikla?

15 Á áratugunum sem fylgdu í kjölfarið voru trúboðar sendir til margra landa og vottum Jehóva fjölgaði stöðugt. Árið 1968 var farið að bjóða upp á biblíunámskeið með hjálp bókarinnar Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. Einfaldar skýringar hennar á biblíusannindum laðaði auðmjúkt fólk að Jehóva í meiri mæli en nokkru sinni fyrr. Á innan við fjórum árum lét rúmlega hálf milljón manna skírast. Milljónir manna til viðbótar skírðust eftir að vald kaþólsku kirkjunnar fór minnkandi í Mið- og Suður-Ameríku og öðrum löndum og hömlum á starfi okkar var aflétt í Austur-Evrópu og sums staðar í Afríku. (Jes. 60:22) Á undanförnum árum hefur söfnuður Jehóva framleitt mörg góð hjálpargögn sem nota má til að hjálpa fólki að skilja Biblíuna. Ljóst er að miklum múgi – sem er nú rúmlega átta milljónir – hefur verið safnað saman.

FJÖLÞJÓÐLEGUR MIKILL MÚGUR

16. Hverjir mynda múginn mikla?

16 Jóhannes nefnir að múgurinn mikli í sýninni kæmi „af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum“. Sakaría spámaður hafði áður sett fram svipaðan spádóm. Hann skrifaði: „Á þeim dögum munu tíu menn af öllum þjóðtungum grípa í kyrtilfald eins Gyðings og segja: ,Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.‘“ – Sak. 8:23.

17. Hvað er gert til að hjálpa fólki af öllum þjóðum og tungum?

17 Vottar Jehóva gera sér grein fyrir að boða þurfi fagnaðarboðskapinn á mörgum tungumálum til að geta safnað saman fólki af öllum þjóðum. Við höfum þýtt biblíutengt efni í rúmlega 130 ár en nú stöndum við fyrir mesta þýðingarátaki sögunnar – að þýða efni á mörg hundruð tungumál. Jehóva er augljóslega að vinna kraftaverk með því að safna saman fólki af öllum þjóðum í mikinn múg. Þar sem andleg fæða er fáanleg á sífellt fleiri tungumálum getur þessi fjölþjóðlegi hópur tilbeðið Jehóva í sameiningu. Og vottar Jehóva eru þekktir fyrir að boða trúna af kappi og bróðurkærleikann sín á milli. Er það ekki trústyrkjandi? – Matt. 24:14; Jóh. 13:35.

HVAÐA ÞÝÐINGU HEFUR SÝNIN FYRIR OKKUR?

18. (a) Hvers vegna kemur það okkur ekki á óvart að Jehóva skyldi láta spádóminn um múginn mikla rætast, samanber Jesaja 46:10, 11? (b) Hvers vegna finnst þeim sem hafa jarðneska von ekki að gengið sé fram hjá sér?

18 Spádómurinn um mikinn múg er spennandi! Það kemur okkur ekki á óvart að Jehóva skyldi láta spádóminn rætast með svo stórfenglegum hætti. (Lestu Jesaja 46:10, 11.) Þeir sem tilheyra múginum mikla eru þakklátir fyrir vonina sem Jehóva hefur gefið þeim. Þeim finnst ekki gengið fram hjá sér þótt þeir hafi ekki verið smurðir heilögum anda til að þjóna með Jesú á himni. Í Biblíunni má lesa um marga trúfasta menn og konur sem létu heilagan anda leiða sig en tilheyrðu samt ekki hinum 144.000. Jóhannes skírari er dæmi um það. (Matt. 11:11) Davíð er annað dæmi. (Post. 2:34) Þeir verða reistir upp ásamt fjölda annarra til að lifa í paradís á jörð. Bæði þeir og þeir sem mynda múginn mikla fá tækifæri til að sanna hollustu sína við Jehóva og styðja drottinvald hans.

19. Hvernig má sjá af uppfyllingu sýnar Jóhannesar að naumur tími er eftir?

19 Aldrei áður í mannkynssögunni hefur Guð safnað saman milljónum manna af öllum þjóðum. Hvort sem von okkar er að lifa á himni eða jörð þurfum við að hjálpa eins mörgum og hægt er að ganga til liðs við mikinn múg ,annarra sauða‘. (Jóh. 10:16) Bráðlega, í þrengingunni miklu sem spáð var fyrir um, eyðir Jehóva ríkisstjórnum og trúarbrögðum sem hafa valdið mannkyninu miklum þjáningum. Hvílíkur heiður sem múgurinn mikli á í vændum – að þjóna Jehóva á jörðinni um alla eilífð! – Opinb. 7:14.

SÖNGUR 139 Sjáðu sjálfan þig í nýja heiminum

^ gr. 5 Í þessari grein ræðum við spádómlega sýn Jóhannesar af því þegar ,miklum múg‘ er safnað saman. Hún á eflaust eftir að styrkja trú allra sem tilheyra þeim hópi.