Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 38

Breytum viturlega á friðsömum tímum

Breytum viturlega á friðsömum tímum

„Friður var í landinu og enginn fór með stríð á hendur Asa á þessum árum ... Drottinn hafði veitt honum frið.“ – 2. KRON. 14:5.

SÖNGUR 60 Það bjargar þeim

YFIRLIT *

1. Við hvaða aðstæður gæti verið auðvelt að slá slöku við í þjónustunni við Jehóva?

HVORT heldurðu að sé auðveldara – að þjóna Jehóva þegar þú ert að glíma við mikla erfiðleika eða þegar erfiðleikarnir eru tiltölulega fáir? Við setjum gjarnan traust okkar á Jehóva þegar á reynir. En hvað gerum við þegar allt leikur í lyndi? Gleymum við þá stundum hversu mikilvæg þjónustan við Guð er? Jehóva varaði Ísraelsmenn við þeirri hættu. – 5. Mós. 6:10–12.

Asa konungur gekk einbeittur til verks og útrýmdi falsguðadýrkun. (Sjá 2. grein.) *

2. Hvaða fordæmi setti Asa konungur?

2 Asa konungur er frábært dæmi um mann sem breytti viturlega með því að treysta algerlega á Jehóva. Hann þjónaði Jehóva ekki aðeins á erfiðum tímum heldur líka á friðartímum. Hann ,fylgdi Drottni af heilum hug allt sitt líf‘. (1. Kon. 15:14) Asa sýndi hollustu sína í verki meðal annars með því að útrýma falsguðadýrkun í Júda. Biblían segir: „Hann lét fjarlægja útlend ölturu og fórnarhæðirnar, braut merkisteinana og hjó niður Asérustólpana.“ (2. Kron. 14:2, 4) Hann svipti jafnvel Maöku ömmu sína konungsmóðurtign sinni. Hvers vegna? Vegna þess að hún hvatti fólk til að dýrka skurðgoð. – 1. Kon. 15:11–13.

3. Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Asa gerði fleira en að uppræta falsguðadýrkun. Hann efldi sanna tilbeiðslu og hjálpaði Júdamönnum að snúa aftur til Jehóva. Jehóva blessaði Asa og þjóðina með því að veita þeim frið. * Meðan Asa ríkti sem konungur var ,friður í landinu‘ í tíu ár. (2. Kron. 13:23; 14:3, 5) Í þessari grein skoðum við hvernig Asa nýtti sér þetta friðartímabil. Síðan ræðum við hvernig kristnir menn á fyrstu öld notuðu tímann vel þegar þeir bjuggu við frið, rétt eins og Asa gerði. Að lokum fáum við svar við eftirfarandi spurningu: Hvernig getur þú breytt viturlega meðan friður ríkir ef þú býrð í landi þar sem er trúfrelsi?

HVERNIG NÝTTI ASA TÍMANN ÞEGAR FRIÐUR RÍKTI?

4. Hvernig nýtti Asa tímann þegar friður ríkti samkvæmt 2. Kroníkubók 14:1, 5, 6?

4 Lestu 2. Kroníkubók 14:1, 5, 6Asa sagði þjóðinni að það væri Jehóva sem hafði ,veitt henni frið á alla vegu‘. En hann leit ekki svo á að nú væri tími til að slaka á. Þvert á móti hófst hann handa við að láta reisa borgir, múra, turna og hlið. „Við höfum landið enn á valdi okkar,“ sagði hann við Júdamenn. Hvað átti Asa við? Fólk var frjálst ferða sinna í landinu og gat byggt án þess að mæta andstöðu óvina. Hann hvatti fólkið til að nota tímann vel meðan friður ríkti.

5. Hvers vegna efldi Asa her sinn?

5 Asa notaði líka þetta friðartímabil til að efla her sinn. (2. Kron. 14:7) Þýðir það að hann hafi ekki treyst á Jehóva? Nei, Asa vissi að það var hans ábyrgð sem konungur að búa þjóðina undir erfiðleika sem kynnu að koma upp. Hann vissi að friðurinn í Júda yrði líklega ekki varanlegur, og sú varð raunin.

HVERNIG NÝTTU FRUMKRISTNIR MENN TÍMANN ÞEGAR FRIÐUR RÍKTI?

6. Hvernig nýttu frumkristnir menn tímann þegar friður ríkti?

6 Kristnir menn á fyrstu öld voru oft ofsóttir en þeir bjuggu líka stundum við frið. Hvernig notuðu lærisveinarnir þá tímann? Þessir trúföstu menn og konur létu ekki deigan síga við að boða fagnaðarboðskapinn. Frásagan í Postulasögunni segir að þau hafi „lifað í lotningu fyrir Jehóva“. Þau héldu áfram að boða fagnaðarboðskapinn og þeim „fjölgaði stöðugt“ fyrir vikið. Jehóva blessaði augljóslega kappsemi þeirra í boðuninni á friðartímum. – Post. 9:26–31.

7, 8. Hvað gerðu Páll og aðrir kristnir menn þegar þeir höfðu tækifæri til? Skýrðu svarið.

7 Lærisveinarnir á fyrstu öld notuðu hvert tækifæri til að boða fagnaðarboðskapinn. Þegar Páll postuli gerði sér til dæmis grein fyrir að víðar dyr hefðu opnast honum meðan hann var í Efesus greip hann tækifærið og boðaði trúna og gerði menn að lærisveinum í borginni. – 1. Kor. 16:8, 9.

8 Páll og aðrir kristnir menn gátu líka boðað mörgu fólki trúna árið 49 þegar postularnir og öldungarnir í Jerúsalem höfðu útkljáð deiluna um umskurð. (Post. 15:23–29) Eftir að úrskurðinum hafði verið komið á framfæri við söfnuðina lögðu allir sig kappsamlega fram um að „boða fagnaðarboðskapinn, orð Jehóva“. (Post. 15:30–35) Hver var árangurinn? Biblían segir: „Söfnuðirnir héldu þá áfram að styrkjast í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.“ – Post. 16:4, 5.

NOTUM TÍMANN VEL MEÐAN FRIÐUR RÍKIR

9. Hvernig eru aðstæður í mörgum löndum og hvers getum við spurt okkur?

9 Við höfum frelsi til að boða trúna í mörgum löndum. Ríkir trúfrelsi þar sem þú býrð? Þá skaltu spyrja þig: Hvernig nota ég þetta frelsi? Við lifum á spennandi tímum. Á síðustu dögum hefur söfnuður Jehóva veitt forystu í mesta boðunar- og kennsluátaki sögunnar. (Mark. 13:10) Þjónum Jehóva standa margir möguleikar til boða.

Margir njóta ríkulegrar blessunar þegar þeir boða trúna í öðru landi eða boða þeim trúna sem tala annað tungumál. (Sjá 10.–12. grein.) *

10. Hvað erum við hvött til að gera í 2. Tímóteusarbréfi 4:2?

10 Hvernig geturðu nýtt tímann vel meðan friður ríkir? (Lestu 2. Tímóteusarbréf 4:2.) Veltu fyrir þér hvort þú eða einhver í fjölskyldu þinni geti gert meira í boðuninni, jafnvel gerst brautryðjandi. Nú er ekki rétti tíminn til að sanka að sér eigum og auðæfum. Það sem við eigum fer ekki með okkur í gegnum þrenginguna miklu. – Orðskv. 11:4; Matt. 6:31–33; 1. Jóh. 2:15–17.

11. Hvað hafa sumir gert til að geta boðað sem flestum fagnaðarboðskapinn?

11 Margir boðberar hafa lært nýtt tungumál sem þeir geta notað til að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva. Söfnuður hans auðveldar þeim það með því að gefa út biblíutengt efni á sífellt fleiri tungumálum. Árið 2010 voru rit til dæmis fáanleg á 500 tungumálum. Nú er til efni á rúmlega 1.000 tungumálum!

12. Hvaða gagn hefur fólk af því að heyra boðskapinn um ríkið á móðurmáli sínu? Nefndu dæmi.

12 Hvaða áhrif hefur það á fólk að heyra sannleikann í orði Guðs á móðurmáli sínu? Tökum eftir hvernig systir naut góðs af dagskránni á umdæmismóti í Memphis í Tennessee í Bandaríkjunum. Dagskráin fór fram á kinjarúanda, máli sem er aðallega talað í Rúanda, Kongó (Kinshasa) og Úganda. Systirin talar kinjarúanda, en eftir mótið sagði hún: „Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef getað skilið mótsdagskrána til fulls síðan ég fluttist til Bandaríkjanna fyrir 17 árum.“ Það hafði greinilega mikil áhrif á hana að hlusta á dagskrána á eigin máli. Má vera að einhverjir á starfssvæði þínu yrðu líklegri til að hlusta á þig ef þú talaðir við þá á móðurmáli þeirra? Ef aðstæður þínar leyfa, gætirðu þá lært nýtt tungumál til að hjálpa þessu fólki? Gleðin sem hlytist af því yrði erfiðisins virði.

13. Hvernig nýttu trúsystkini okkar í Rússlandi tímann meðan friður ríkti?

13 Það hafa ekki öll trúsystkini okkar frelsi til að boða trúna fyrir opnum tjöldum. Það á við í sumum löndum þar sem yfirvöld hafa sett hömlur á boðun okkar. Tökum sem dæmi trúsystkini okkar í Rússlandi. Þau sættu ofsóknum áratugum saman en í mars 1991 hlutu þau opinbera viðurkenningu sem trúfélag. Á þeim tíma voru boðberar í Rússlandi um 16.000 talsins. Tuttugu árum síðar voru þeir orðnir fleiri en 160.000! Það er augljóst að trúsystkini okkar breyttu viturlega meðan þau gátu boðað trúna óhindrað. En friðurinn entist ekki. Breyttar aðstæður drógu hins vegar ekki úr ákafa þeirra við að styðja sanna tilbeiðslu. Þau halda áfram að þjóna Jehóva eftir bestu getu.

FRIÐURINN ER EKKI VARANLEGUR

Jehóva gaf Júdamönnum sigur yfir gríðarlega fjölmennum her eftir að Asa hafði beðið innilega til hans. (Sjá 14. og 15. grein.)

14, 15. Hvernig notaði Jehóva mátt sinn til að hjálpa Asa?

14 Á dögum Asa tók friðurinn enda. Gríðarlega fjölmennur her kom frá Eþíópíu. Serak hershöfðingi var sannfærður um að hann og her hans gæti sigrað Júdamenn. En Asa konungur reiddi sig á Jehóva Guð sinn. Hann bað: „Hjálpa þú okkur, Drottinn, Guð okkar, því að við styðjumst við þig. Í þínu nafni höldum við gegn þessum fjölmenna her.“ – 2. Kron. 14:10.

15 Eþíópíski herinn var næstum helmingi fjölmennari en her Asa. En Asa vissi að Jehóva hafði mátt og getu til að koma þjóðinni til bjargar. Jehóva brást honum ekki og eþíópíski herinn beið niðurlægjandi ósigur. – 2. Kron. 14:7–12.

16. Hvernig vitum við að friðurinn er ekki varanlegur?

16 Við vitum ekki nákvæmlega hvað bíður hvers og eins okkar í framtíðinni en við vitum að friðurinn sem þjónar Guðs njóta núna er ekki varanlegur. Munum að Jesús sagði fyrir að á síðustu dögum myndu ,allar þjóðir hata‘ lærisveina hans. (Matt. 24:9) Og Páll postuli sagði: „Allir sem vilja lifa guðrækilegu lífi sem lærisveinar Krists Jesú verða ofsóttir.“ (2. Tím. 3:12) Satan er „ofsareiður“ og við myndum blekkja sjálf okkur ef við héldum að við gætum einhvern veginn sloppið við reiði hans. – Opinb. 12:12.

17. Hvernig gæti reynt á trúfesti okkar?

17 Bráðlega mun reyna á trúfesti okkar allra. „Þá verður svo mikil þrenging að annað eins hefur ekki gerst frá upphafi heims allt til þessa.“ (Matt. 24:21) Vera má að ættingjar okkar snúist gegn okkur og að starfsemi safnaðarins verði bönnuð. (Matt. 10:35, 36) Munum við, hvert og eitt okkar, líkja eftir Asa og treysta að Jehóva hjálpi okkur og verndi?

18. Hvað hjálpar okkur að vera undir það búin að friðurinn taki enda, samanber Hebreabréfið 10:38, 39?

18 Jehóva býr okkur nú undir það sem er fram undan. Fyrir atbeina ,hins trúa og skynsama þjóns‘ gefur hann okkur næringarríkan andlegan „mat á réttum tíma“ sem hjálpar okkur að vera sterk í trúnni. (Matt. 24:45) En við verðum að leggja okkar af mörkum til að byggja upp óhaggandi trú á Jehóva. – Lestu Hebreabréfið 10:38, 39.

19, 20. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur og hvers vegna með hliðsjón af 1. Kroníkubók 28:9?

19 Við verðum að „leita Drottins“ rétt eins og Asa gerði. (2. Kron. 14:3; 15:1, 2) Við hefjum leitina með því að kynnast Jehóva og láta skírast. Við notum hvert tækifæri til að styrkja kærleika okkar til hans. Til að kanna hvernig okkur gengur í þessum efnum gætum við spurt okkur: Sæki ég safnaðarsamkomur að staðaldri? Á samkomum styrkjum við samband okkar við Jehóva og fáum hvatningu frá bræðrum okkar og systrum. (Matt. 11:28) Við gætum líka spurt okkur: Hef ég góða reglu á sjálfsnámi mínu? Tökum við fjölskyldan frá tíma í hverri viku fyrir biblíunámsstund fjölskyldunnar? Ef ég bý einn, tek ég þá samt frá tíma fyrir biblíunám eins og fjölskyldur gera? Og geri ég mitt besta til að taka þátt í að boða trúna og gera fólk að lærisveinum?

20 Hvers vegna ættum við að spyrja okkur þessara spurninga? Biblían segir að Jehóva rannsaki hugsanir okkar og hjörtu. Það ættum við líka að gera. (Lestu 1. Kroníkubók 28:9.) Ef við verðum vör við að við þurfum að breyta markmiðum okkar, viðhorfi eða hugsunarhætti ættum við að biðja Jehóva að hjálpa okkur að gera þessar breytingar. Nú er tíminn til að búa okkur undir að trú okkar verði reynd. Láttu ekkert koma í veg fyrir að þú notir tímann viturlega meðan enn er friður.

SÖNGUR 62 Nýi söngurinn

^ gr. 5 Hefur þú frelsi til að þjóna Jehóva í landinu þar sem þú býrð? Hvernig notarðu þá frelsið? Í þessari grein sjáum við hvernig við getum líkt eftir Asa Júdakonungi og kristnum mönnum á fyrstu öld. Þeir nýttu tímann vel meðan friður ríkti.

^ gr. 3 ORÐASKÝRING: Hugtakið friður felur meira í sér en að ekki sé háð stríð. Hebreska orðið felur líka í sér hugmyndina um góða heilsu, öryggi og velferð.

^ gr. 57 MYND: Asa konungur svipti ömmu sína stöðu sinni vegna þess að hún ýtti undir falsguðadýrkun. Þeir sem studdu hann fylgdu fordæmi hans og tóku þátt í að afmá skurðgoð.

^ gr. 59 MYND: Kappsöm hjón einfalda líf sitt til að geta þjónað þar sem þörf er á fleiri boðberum.