Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 38

Styrkjum böndin við andlegu fjölskylduna okkar

Styrkjum böndin við andlegu fjölskylduna okkar

„Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar.“ – JÓH. 20:17.

SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust

YFIRLIT *

1. Hvernig geta trúfastir menn litið á Jehóva?

JESÚS, „frumburður alls sem er skapað“, og fjöldi engla eru hluti af fjölskyldu tilbiðjenda Jehóva. (Kól. 1:15; Sálm. 103:20) Þegar Jesús var á jörðinni hjálpaði hann fólki að skilja að það getur litið á Jehóva sem föður sinn. Hann talaði eitt sinn við lærisveina sína um Jehóva sem ,föður sinn og föður þeirra‘. (Jóh. 20:17) Og þegar við vígjum Jehóva líf okkar og skírumst sameinumst við ástríkri fjölskyldu bræðra og systra. – Mark. 10:29, 30.

2. Hvað skoðum við í þessari grein?

2 Sumum finnst erfitt að sjá Jehóva fyrir sér sem kærleiksríkan föður. Aðrir vita kannski ekki hvernig þeir eiga að sýna bræðrum og systrum kærleika. Í þessari grein skoðum við hvernig Jesús hjálpar okkur að sjá Jehóva sem kærleiksríkan föður sem við getum verið náin. Við skoðum líka hvernig við getum líkt eftir Jehóva í samskiptum okkar við bræður og systur.

JEHÓVA VILL AÐ VIÐ NÁLGUMST SIG

3. Hvernig hjálpar fyrirmyndarbænin okkur að nálgast Jehóva?

3 Jehóva er kærleiksríkur faðir. Jesús vill að við sjáum Jehóva eins og hann sér hann – foreldri sem sýnir hlýju og kærleika og er auðvelt að nálgast, en ekki einhvern sem skipar okkur bara fyrir verkum. Við sjáum þetta vel af því hvað Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja um. Hann hóf fyrirmyndarbænina með orðunum: „Faðir okkar.“ (Matt. 6:9) Jesús hefði getað kennt okkur að ávarpa Jehóva sem ,hinn almáttuga‘, ,skaparann ‘ eða ,konung eilífðarinnar‘ en það eru allt viðeigandi titlar sem er að finna í Biblíunni. (1. Mós. 49:25; Jes. 45:18; 1. Tím. 1:17) En Jesús sagði okkur að ávarpa Jehóva sem föður.

4. Hvernig vitum við að Jehóva vill eiga náið samband við okkur?

4 Finnst þér erfitt að sjá Jehóva fyrir þér sem kærleiksríkan föður? Sumum okkar finnst það. Okkur gæti fundist erfitt að sjá fyrir okkur kærleiksríkan föður ef við höfum alist upp við kærleiksleysi. En við getum huggað okkur við það að Jehóva veit nákvæmlega hvernig okkur líður. Hann vill hafa náið samband við okkur. Hann hvetur okkur í orði sínu: „Nálgist Guð og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jak. 4:8) Jehóva elskar okkur og hann býður okkur að vera besti faðir sem við getum átt.

5. Hvernig getur Jesús hjálpað okkur að nálgast Jehóva samkvæmt Lúkasi 10:22?

5 Jesús getur hjálpað okkur að nálgast Jehóva. Hann þekkir Jehóva svo vel og endurspeglar eiginleika hans svo fullkomlega að hann sagði: „Sá sem hefur séð mig hefur líka séð föðurinn.“ (Jóh. 14:9) Eins og eldri bróðir kennir Jesús okkur að virða og hlýða föður okkar. Hann sýnir okkur hvernig við getum forðast að misþóknast honum og hvernig við getum haft velþóknun hans. En lífsstefna Jesú á jörðinni leiðir sérstaklega í ljós hversu kærleiksríkur og góður Jehóva er. (Lestu Lúkas 10:22.) Skoðum nokkur dæmi.

Sem kærleiksríkur faðir sendi Jehóva engil til að styrkja son sinn. (Sjá 6. grein.) *

6. Nefndu dæmi sem sýna að Jehóva hlustaði á bænir Jesú.

6 Jehóva hlustar á börnin sín. Hugleiðum hvernig Jehóva hlustaði á frumgetinn son sinn. Jehóva heyrði hann bera fram margar bænir þegar hann var á jörðinni. (Lúk. 5:16) Hann heyrði Jesú biðja þegar hann þurfti að taka mikilvægar ákvarðanir, eins og þegar hann valdi 12 postula sína. (Lúk. 6:12, 13) Jehóva hlustaði líka á bænir Jesú þegar hann var undir miklu álagi. Stuttu áður en Jesús var svikinn bað hann innilega til föður síns varðandi prófraunina sem hann stóð andspænis. Jehóva hlustaði ekki aðeins á bæn Jesú heldur sendi líka engil til að styrkja ástkæran son sinn. – Lúk. 22:41–44.

7. Hvað finnst þér um að Jehóva skuli hlusta á bænir þjóna sinna?

7 Jehóva hlustar líka á bænir þjóna sinna nú á dögum og svarar þeim á réttum tíma og á besta mögulega hátt. (Sálm. 116:1, 2) Systir á Indlandi hefur reynslu af því. Hún hafði glímt við alvarleg tilfinningaleg vandamál og bað þess vegna innilega til Jehóva. Hún skrifar: „Maíþátturinn í Sjónvarpi Votta Jehóva 2019 fjallaði um glímuna við áhyggjur og kvíða. Það var einmitt það sem ég þurfti. Þetta var svar við bænum mínum.“

8. Hvernig sýndi Jehóva að hann elskaði Jesú?

8 Jehóva elskar okkur og annast rétt eins og hann elskaði og annaðist Jesú meðan hann sinnti erfiðu verki á jörðinni. (Jóh. 5:20) Hann annaðist allar andlegar, tilfinningalegar og líkamlegar þarfir hans. Og Jehóva lét son sinn vita að hann elskaði hann og væri ánægður með hann. (Matt. 3:16, 17) Jesús vissi að kærleiksríkur himneskur faðir hans myndi alltaf vera með honum og hjálpa honum. Þess vegna fannst Jesú hann aldrei vera einn. – Jóh. 8:16.

9. Hvernig sjáum við að Jehóva elskar okkur?

9 Við höfum öll upplifað kærleika Jehóva á margvíslegan hátt rétt eins og Jesús. Hugleiðum hvernig Jehóva hefur dregið okkur til sín og gefið okkur kærleiksríkt og sameinað bræðrafélag sem veitir okkur gleði og hjálp þegar við glímum við erfiðleika. (Jóh. 6:44) Jehóva gefur okkur líka allt sem við þurfum til að halda trú okkar sterkri. Og hann hjálpar okkur jafnvel að sjá daglega fyrir efnislegum þörfum okkar. (Matt. 6:31, 32) Kærleikur okkar til Jehóva vex þegar við hugleiðum hvernig hann hefur sýnt okkur kærleika.

KOMUM FRAM VIÐ TRÚSYSTKINI OKKAR Á SAMA HÁTT OG JEHÓVA GERIR

10. Hvað getum við lært af því hvernig Jehóva kemur fram við bræður og systur?

10 Jehóva elskar bræður okkar og systur. En okkur finnst ekki alltaf auðvelt að elska þau og sýna það í verki. Stundum er það erfitt vegna þess að við ólumst upp við ólíkar aðstæður eða menningu. Og við gerum öll mistök sem geta pirrað aðra og valdið þeim vonbrigðum. En við getum samt öll lagt okkar af mörkum til að kærleikur ríki meðal trúsystkina. Hvernig? Með því að líkja eftir föður okkar í að sýna bræðrum okkar og systrum kærleika. (Ef. 5:1, 2; 1. Jóh. 4:19) Skoðum hvað við getum lært af Jehóva.

11. Hvernig endurspeglaði Jesús innilega samúð Jehóva?

11 Jehóva sýnir ,innilega samúð‘. (Lúk. 1:78) Sá sem er samúðarfullur finnur til með þeim sem þjást, hann leitar leiða til að hjálpa og hugga. Jesús endurspeglaði kærleiksríka umhyggju Jehóva fyrir fólki með því hvernig hann kom fram við það. (Jóh. 5:19) Einu sinni þegar Jesús sá mannfjölda „kenndi hann í brjósti um fólkið því að það var hrjáð og hrakið eins og sauðir án hirðis“. (Matt. 9:36) Samúð Jesú var meira en hlý tilfinning. Hann læknaði veika og bauð þeim hvíld sem ,strituðu og báru þungar byrðar‘. – Matt. 11:28–30; 14:14.

Líktu eftir Jehóva og sýndu bræðrum þínum og systrum samúð og örlæti. (Sjá 12.–14. grein.) *

12. Hvernig getum við sýnt bræðrum okkar og systrum samúð?

12 Við þurfum að hugleiða hvaða erfiðleika bræður okkar og systur ganga í gegnum áður en við getum sýnt þeim samúð og umhyggju. Systir gæti til dæmis átt við erfið heilsuvandamál að stríða. Hún kvartar kannski aldrei en hún kynni líklega að meta að fá hjálp. Hvernig gengur henni að sinna þörfum fjölskyldu sinnar? Gæti hún þegið smá hjálp við að útbúa mat eða þrífa heimilið? Bróðir hefur ef til vill misst vinnuna. Myndi lítil peningagjöf, kannski ónafngreind, hjálpa honum þangað til hann finnur aðra vinnu?

13, 14. Hvernig getum við líkt eftir örlæti Jehóva?

13 Jehóva er örlátur. (Matt. 5:45) Við ættum ekki að bíða þangað til bræður okkar og systur biðja um hjálp áður en við sýnum samúð. Við getum átt frumkvæðið rétt eins og Jehóva. Hann lætur sólina rísa daglega án þess að við þurfum að biðja um það. Og allir njóta gagns af sólinni, ekki aðeins þeir sem eru þakklátir. Ertu ekki sammála því að með því að sjá fyrir þörfum okkar er Jehóva að sýna að hann elskar okkur? Við elskum Jehóva innilega fyrir að vera svona góður og örlátur.

14 Mörg trúsystkini okkar líkja eftir himneskum föður okkar og eiga frumkvæði að því að sýna örlæti. Ofurfellibylurinn Haiyan olli gríðarlegri eyðileggingu á Filippseyjum árið 2013. Margir bræður og systur misstu heimili sín og eigur. En andleg fjölskylda þeirra alls staðar í heiminum brást skjótt við til að hjálpa þeim. Margir gáfu fjárframlög eða tóku þátt í byggingarvinnu. Fyrir vikið var gert við næstum 750 heimili eða þau endurbyggð á innan við ári. Í COVID-19 heimsfaraldrinum hafa vottarnir lagt mikið á sig til að styðja bræður og systur. Þegar við bregðumst fljótt við til að styðja andlega fjölskyldu okkar sýnum við að við elskum hana.

15, 16. Hvað segir í Lúkasi 6:36 að við ættum að gera til að líkja eftir himneskum föður okkar?

15 Jehóva er miskunnsamur og fús að fyrirgefa. (Lestu Lúkas 6:36.) Hann fyrirgefur okkur á hverjum degi. (Sálm. 103:10–14) Fylgjendur Jesú voru ófullkomnir en hann sýndi þeim miskunn og var fús að fyrirgefa þeim. Hann var jafnvel fús til að fórna lífi sínu til að við fengjum syndir okkar fyrirgefnar. (1. Jóh. 2:1, 2) Laðast þú ekki að Jehóva og Jesú vegna þess hve miskunnsamir þeir eru og fúsir að fyrirgefa?

16 Við styrkjum kærleiksböndin í andlegri fjölskyldu okkar þegar við ,fyrirgefum hvert öðru fúslega‘. (Ef. 4:32) Það getur auðvitað stundum verið erfitt að fyrirgefa öðrum, svo að við verðum að leggja okkur fram um það. Systur einni fannst varðturnsgreinin „Fyrirgefið hvert öðru fúslega“ hjálpa sér að gera þetta *. Hún skrifaði: „Það hafði jákvæð áhrif á viðhorf mitt að skoða þessa grein. Greinin útskýrir að fúsleiki til að fyrirgefa öðrum merkir ekki að samþykkja ranga hegðun eða gera lítið úr skaðanum sem hún veldur. Að fyrirgefa felur hins vegar í sér að sleppa taki á gremjunni og varðveita innri frið.“ Þegar við fyrirgefum bræðrum okkar og systrum fúslega sýnum við að við elskum þau og líkjum eftir Jehóva föður okkar.

VERUM ÞAKKLÁT AÐ TILHEYRA FJÖLSKYLDU JEHÓVA

Ungir og gamlir hafa sýnt öðrum í söfnuðinum kærleiksríkan áhuga. (Sjá 17. grein.) *

17. Hvernig getum við heiðrað himneskan föður okkar samkvæmt Matteusi 5:16?

17 Það er mjög dýrmætt að vera hluti af kærleiksríkri og alþjóðlegri fjölskyldu. Við viljum að eins margir og mögulegt er tilbiðji Jehóva með okkur. Þess vegna gætum við þess að gera ekkert sem myndi varpa neikvæðu ljósi á himneskan föður okkar eða þjóna hans. Við reynum að koma fram á þann hátt að það laði fólk að fagnaðarboðskapnum. – Lestu Matteus 5:16.

18. Hvað getur hjálpað okkur að boða trúna óttalaust?

18 Stundum gætu sumir gagnrýnt okkur eða jafnvel ofsótt vegna þess að við hlýðum himneskum föður okkar. Hvað ef við finnum fyrir ótta við að tala við aðra um trú okkar? Þá getum við reitt okkur á hjálp Jehóva og sonar hans. Jesús fullvissaði lærisveina sína um að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því hvað þeir ættu að segja eða hvernig. Hvers vegna ekki? „Ykkur verður gefið það jafnóðum,“ sagði Jesús. „Það eruð ekki bara þið sem talið heldur er það andi föður ykkar sem hjálpar ykkur að tala.“ – Matt. 10:19, 20.

19. Nefndu dæmi um einstakling sem tjáði trú sína af hugrekki.

19 Tökum Robert sem dæmi. Þegar hann var nýbyrjaður að rannsaka Biblíuna og hafði takmarkaða biblíuþekkingu þurfti hann að mæta fyrir herrétt í Suður-Afríku. Hann útskýrði hugrakkur fyrir réttinum að hann vildi vera hlutlaus vegna kærleika síns til systkina sinna í trúnni og að sér þætti vænt um að tilheyra andlegu fjölskyldunni sinni. Þá spurði dómari óvænt: „Hver eru systkini þín?“ Robert átti ekki von á þessari spurningu. En þá kom dagstextinn fyrir þann dag upp í huga hans. Hann var úr Matteusi 12:50: „Hver sem gerir vilja föður míns sem er á himnum, sá er bróðir minn og systir og móðir.“ Þótt Robert væri nýbyrjaður að kynna sér Biblíuna hjálpaði andi Jehóva honum að svara spurningunni og mörgum öðrum óvæntum spurningum. Jehóva hlýtur að hafa verið stoltur af Robert! Jehóva er líka stoltur af okkur þegar við reiðum okkur á hann og verjum trú okkar við erfiðar aðstæður.

20. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera? (Jóhannes 17:11, 15)

20 Við erum innilega þakklát fyrir þá blessun að vera hluti af kærleiksríkri fjölskyldu. Við eigum besta föður í heimi og marga bræður og systur sem elska okkur. Við megum aldrei taka það sem sjálfsagðan hlut. Satan og illir fylgjendur hans reyna að fá okkur til að efast um að himneskur faðir okkar elski okkur og þeir leitast við að grafa undan einingu okkar. Jesús bað hins vegar föður okkar að gæta okkar til að einingin í fjölskyldunni myndi varðveitast. (Lestu Jóhannes 17:11, 15.) Jehóva hefur brugðist við þessari bæn. Megum við, líkt og Jesús, aldrei efast um kærleika og stuðning himnesks föður okkar. Verum staðráðin í að styrkja böndin við andlegu fjölskylduna okkar.

SÖNGUR 99 Milljónir bræðra

^ gr. 5 Við erum innilega þakklát fyrir að vera hluti af ástríkri fjölskyldu ásamt bræðrum okkar og systrum. Við viljum öll styrkja kærleikann á meðal okkar. Hvernig förum við að því? Með því að líkja eftir því hvernig ástríkur faðir okkar sýnir okkur kærleika og með því að fylgja fordæmi Jesú og bræðra okkar og systra.

^ gr. 57 MYND: Jehóva sendi engil til að styrkja Jesú í Getsemanegarðinum.

^ gr. 59 MYND: Meðan COVID-19 heimsfaraldurinn hefur gengið yfir hafa margir unnið við að útbúa og dreifa mat.

^ gr. 61 MYND: Móðir aðstoðar dóttur sína við að senda bréf til að hvetja bróður í fangelsi.