ÆVISAGA
Ég hef notið þess að læra um Jehóva og fræða aðra um hann
ÉG ÓLST upp í Easton í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum og var ákveðinn í að fara í háskóla og komast áfram í lífinu. Ég hafði gaman af því að læra og átti auðvelt með stærðfræði og raungreinar. Árið 1956 veitti mannréttindahreyfing mér 25 dollara í verðlaun fyrir hæstu einkunn meðal þeldökkra nemenda. Síðar breyttust áform mín. Hvað varð til þess?
ÉG LÆRÐI UM JEHÓVA
Snemma á fimmta áratug síðustu aldar fóru foreldrar mínir að rannsaka Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Þau hættu því síðan en móðir mín hélt áfram að fá eintök af tímaritunum Varðturninn og Vaknið! Árið 1950 var haldið alþjóðamót í New York-borg og fjölskyldan mín þáði boð og sótti mótið.
Stuttu síðar fór bróðir Lawrence Jeffries að heimsækja okkur. Hann sýndi mér áhuga og vildi hjálpa mér. Í fyrstu var ég ekki sammála afstöðu votta Jehóva til hlutleysis í stjórnmálum og hernaði. Ég hélt því fram að ef allir í Bandaríkjunum neituðu herþjónustu myndu óvinir þeirra ráðast inn í landið og yfirtaka það. Bróðir Jeffries var þolinmóður og sagði: „Hvað heldurðu að Jehóva Guð myndi gera ef allir í Bandaríkjunum þjónuðu honum og óvinir réðust á þá?“ Það sem hann sagði við þetta og önnur tækifæri hjálpaði mér að átta mig á því að ég hafði rangt fyrir mér. Forvitni mín var vakin.
Ég las eldri eintök af Varðturninum og Vaknið! sem móðir mín hafði sett í geymslu. Með tímanum skildi ég að þetta var sannleikurinn og þáði aðstoð bróður Jeffries við biblíunám. Ég fór líka að sækja samkomur reglulega. Ég elskaði það sem ég var að læra og gerðist boðberi fagnaðarboðskaparins. Markmið mín breyttust þegar ég skildi að ,hinn mikli dagur Drottins væri í nánd‘. (Sef. 1:14, Biblían 2010) Ég hætti við að fara í háskóla og ákvað að hjálpa öðrum að læra sannleika Biblíunnar.
Ég lauk við framhaldskóla 13. júní 1956 og lét skírast þrem dögum síðar á umdæmismóti. Ég hafði ekki hugmynd um alla þá
blessum sem það myndi hafa í för með sér að læra um Jehóva og fræða aðra um hann.AÐ LÆRA OG KENNA SEM BRAUTRYÐJANDI
Sex mánuðum eftir skírnina gerðist ég brautryðjandi. Í Ríkisþjónustunni desember 1956 var greinin „Geturðu þjónað þar sem þörfin er meiri?“ Hún talaði til mín. Ég vildi hjálpa til þar sem fáir boðuðu fagnaðarboðskapinn. – Matt. 24:14.
Ég flutti til Edgefield í Suður-Karólínu. Í söfnuðinum voru aðeins fjórir boðberar. Með mér vorum við fimm. Við héldum samkomur í stofunni heima hjá einum bróðurnum. Ég varði 100 klukkustundum í boðuninni í hverjum mánuði. Ég var önnum kafinn við að taka forystuna í boðuninni og sjá um fræðslu á samkomum. Því meira sem ég gerði í söfnuðinum þeim mun meira lærði ég um Jehóva.
Ég aðstoðaði konu við biblíunám sem rak útfaraþjónustu í Johnston, bæ í nokkurra kílómetra fjarlægð. Hún útvegaði mér hlutastarf sem ég hafði mikla þörf fyrir og veitti okkur afnot af litlu húsi til að nota sem ríkissal.
Bróðir Jolly Jeffries var sonur bróðurins sem aðstoðaði mig við biblíunám. Hann flutti frá Brooklyn í New York og gerðist brautryðjandafélagi minn. Við bjuggum í litlu hjólhýsi sem bróðir lánaði okkur.
Laun voru lág fyrir sunnan. Við fengum tvo til þrjá dollara fyrir dagsvinnu. Eitt sinn hafði ég eytt síðustu smápeningunum mínum til að kaupa mat. Þegar ég gekk út úr búðinni kom maður til mín og spurði: „Vantar þig vinnu? Ég skal borga þér dollara á tímann.“ Ég fékk þriggja daga vinnu hjá honum við að hreinsa til á byggingarsvæði. Jehóva virtist vera að hjálpa mér að vera áfram í Edgefield. Þótt ég hefði lítil fjárráð gat ég samt sótt alþjóðamótið í New York árið 1958.
Á öðrum degi mótsins gerðist nokkuð sérstakt. Ég hitti Ruby Wadlington sem var brautryðjandi í Gallatin í Tennessee. Við vildum bæði verða trúboðar og mættum því á fund á mótinu sem fjallaði um Gíleaðskólann. Seinna fórum við að skrifast á. Þá var mér boðið að koma til Gallatin til að flytja ræðu. Ég notaði tækifærið og bað hennar. Ég flutti í söfnuðinn hennar Ruby og við giftum okkur árið 1959.
AÐ LÆRA OG KENNA Í SÖFNUÐINUM
Þegar ég var 23 ára var ég útnefndur sem safnaðarþjónn (nú kallað umsjónarmaður öldungaráðsins) í Gallatin. Við vorum fyrsti söfnuðurinn sem Charles Thompson heimsótti sem farandhirðir. Hann var mjög reyndur en spurði mig samt hverju ég áliti að bræður og systur þyrftu á að halda og
hvernig aðrir farandhirðar hefðu sinnt þeim. Ég lærði af honum að það er gott að spyrja og fá allar staðreyndir máls áður en maður tekur ákvörðun.Í maí 1964 var mér boðið að sækja eins mánaðar námskeið í Ríkisþjónustuskóla í South Lansing í New York. Bræðurnir sem sáu um námskeiðið höfðu þannig áhrif á mig að ég fékk sterka löngun til að auka þekkingu mína og styrkja sambandið við Jehóva.
AÐ LÆRA OG KENNA Í FARAND- OG UMDÆMISSTARFI
Við Ruby fengum boð um að fara í farandstarfið í janúar 1965. Farandsvæðið sem við fengum náði yfir stórt svæði frá Knoxville í Tennessee og næstum til Richmond í Virginíu. Það náði yfir söfnuði í Norður-Karólínu, Kentucky og Vestur-Virginíu. Ég heimsótti aðeins söfnuði þar sem var þeldökkt fólk vegna þess að aðskilnaðarlög í Suðurríkjunum leyfðu svörtu fólki ekki að vera á samkomum með hvítu fólki. Trúsystkinin voru fátæk og við notuðum það sem við áttum til að gefa öðrum með okkur. Farandhirðir með langa reynslu kenndi mér nokkuð mjög mikilvægt. „Vertu bróðir þeirra. Ekki heimsækja söfnuð og haga þér eins og þú stjórnir öðrum. Þú getur hjálpað þeim ef bræður og systur líta á þig sem bróður.“
Á meðan við heimsóttum einn lítinn söfnuð hóf Ruby að aðstoða unga konu, sem átti eins árs dóttur, við biblíunám. Enginn í söfnuðinum var í aðstöðu til að taka við náminu þannig að Ruby sinnti náminu áfram með því að skrifast á við ungu konuna. Næst þegar við heimsóttum söfnuðinn kom hún á allar samkomur. Tvær systur sem voru sérbrautryðjendur fluttu í söfnuðinn og héldu áfram að aðstoða hana og hún lét fljótlega skírast. Um það bil 30 árum síðar, árið 1995, kom ung systir til Ruby á Betel í Patterson og kynnti sig. Hún var dóttir konunnar sem Ruby hafði aðstoðað við biblíunám. Dóttirin og eiginmaður hennar voru nemendur í 100. bekk Gíleaðskólans.
Annað farandsvæðið sem við fengum var í Mið-Flórída. Við þurftum á bíl að halda og fundum einn á góðu verði. En það var ekki liðin vika þegar vatnsdælan í honum bilaði. Við áttum enga peninga til að láta gera við hana. Ég hringdi í bróður sem ég hélt að gæti hjálpað okkur. Hann lét einn af starfsmönnum sínum gera við bílinn og vildi ekki taka neitt fyrir. Hann sagði bara: „Það er búið að sjá um það.“ Hann gaf okkur meira að segja peninga að gjöf. Þetta er dæmi um það hvernig Jehóva sér um þjóna sína. Það minnti okkur á að vera örlát við aðra.
Þegar við heimsóttum söfnuð dvöldum við á heimili trúsystkina. Þannig eignuðumst við marga góða vini. Eitt sinn skildi ég ókláraða skýrslu um söfnuð eftir í ritvélinni minni. Þegar ég kom aftur um kvöldið komst ég að því að þriggja ára sonur hjónanna sem ég dvaldi hjá hafði „hjálpað“ til við að klára skýrsluna. Ég stríddi honum í mörg ár á þessu.
Árið 1971 fékk ég bréf þar sem ég var beðinn að vera umdæmishirðir í New York-borg. Við fengum áfall! Þegar við fluttum þangað var ég bara 34 ára. Trúsystkinin tóku vel á móti mér, fyrsta þeldökka umdæmishirðinum.
Sem umdæmishirðir naut ég þess að fræða aðra um Jehóva hverja helgi á umdæmismótum. Margir farandhirðanna höfðu meiri reynslu en ég. Einn þeirra hafði flutt skírnarræðuna þegar ég skírðist. Annar bróðir, Theodore Jaracz, sat síðar í stjórnandi ráði. Það voru líka margir reyndir bræður sem störfuðu á Betel í Brooklyn. Ég var svo þakklátur að farandhirðarnir og Betelítarnir skyldu fá mig til að slaka á. Ég fann það á eigin skinni hversu kærleiksríkir hirðar þeir voru og hvernig þeir treystu á orð Guðs og studdu trúfastlega söfnuð Jehóva. Auðmýkt þeirra gerði mér auðveldara
fyrir að sinna verkefni mínu sem umdæmishirðir.AFTUR Í FARANDSTARFI
Árið 1974 útnefndi hið stjórnandi ráð annan hóp farandhirða sem umdæmishirða og ég var sendur aftur í farandstarfið, núna í Suður-Karólínu. Þegar hér var komið sögu þurftu svartir og hvítir ekki lengur að vera aðskildir í söfnuðunum. Bræður og systur voru himinlifandi.
Í lok ársins 1976 fékk ég verkefni í farandsvæði í Georgíu milli Atlanta og Columbus. Ég gleymi ekki þegar ég flutti ræðu við útför fimm þeldökkra systkina sem dóu þegar brennuvargar kveiktu í heimili þeirra með eldsprengju. Móðir þeirra var lögð inn á spítala vegna áverka. Stöðugur straumur votta Jehóva, bæði svartra og hvítra, var á spítalanum að hugga foreldrana. Kærleikur bræðra og systra var einstakur. Slík samúð getur hjálpað þjónum Guðs til að komast í gegnum ótrúlega erfiðleika.
AÐ LÆRA OG KENNA Á BETEL
Árið 1977 var ég beðinn að koma á Betel í Brooklyn í nokkra mánuði til að hjálpa til við verkefni. Þegar það var næstum búið töluðu tveir bræður í stjórnandi ráði við mig og spurðu hvort við Ruby værum tilbúin að starfa áfram á Betel. Við þáðum boðið.
Í 24 ár starfaði ég í þjónustudeildinni en þar er oft verið að svara viðkvæmum og flóknum spurningum. Í gegnum árin hefur hið stjórnandi ráð séð fyrir leiðbeiningum í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Þær eru grunnurinn að því að svara spurningum en líka að þjálfa farandhirða, öldunga og brautryðjendur. Þetta efni hefur hjálpað mörgum að ná þroska í trúnni. Það hefur síðan styrkt söfnuð Jehóva enn frekar.
Á árunum 1995 til 2018 heimsótti ég mismunandi deildarskrifstofur sem fulltrúi aðalstöðvanna. Ég hélt fundi með deildarnefndum, Betelítum og trúboðum til að hvetja fólk og hjálpa því að takast á við áhyggjur sínar. Það hefur líka allaf reynst uppörvun fyrir okkur Ruby. Við heimsóttum til dæmis Rúanda árið 2000. Það hafði mikil áhrif á okkur að heyra um það hvernig trúsystkini og Betelfjölskyldan þar komust lífs af úr þjóðarmorðinu árið 1994. Margir höfðu misst ástvini sína. Þrátt fyrir það sem þau höfðu mátt þola sýndu þessir bræður og systur trú, von og gleði.
Við erum komin á níræðisaldur. Síðustu 20 árin hef ég starfað í deildarnefndinni í Bandaríkjunum. Ég fór aldrei í háskóla en ég hef fengið bestu menntun sem völ er á hjá Jehóva og söfnuði hans. Hún hefur gert mér kleift að kenna öðrum sannleika Biblíunnar sem kemur að gagni um alla eilífð. (2. Kor. 3:5; 2. Tím. 2:2) Ég hef séð hvernig boðskapur Biblíunnar hjálpar fólki að bæta líf sitt og eignast samband við skapara sinn. (Jak. 4:8) Við Ruby höldum áfram að hvetja aðra, hvenær sem færi gefst, til að meta að verðleikum að fá að læra um Jehóva og kenna öðrum sannleika Biblíunnar. Það er mesti heiður sem þjónn Jehóva nýtur!