NÁMSGREIN 39
Er nafnið þitt í „bók lífsins“?
„Frammi fyrir honum var skrifuð bók til að minna á alla sem óttast Drottin.“ – MAL. 3:16.
SÖNGUR 61 Áfram, vottar Guðs
YFIRLIT a
1. Hvaða bók hefur Jehóva verið að skrifa samkvæmt Malakí 3:16 og hvað hefur hún að geyma?
UM ÞÚSUNDIR ára hefur Jehóva verið að skrifa sérstaka bók. Í þessari bók er að finna lista með nöfnum og fyrsta nafnið á honum er nafn Abels, sem var fyrsti trúfasti votturinn. b (Lúk. 11:50, 51) Í gegnum aldirnar hefur Jehóva bætt við nöfnum í bókina og nú hefur hún að geyma milljónir nafna. Í Biblíunni er þessi bók kölluð „bók til að minna á“, c „bók lífsins“ og „bókrolla lífsins“. Í þessari námsgrein tölum við um hana sem „bók lífsins“. – Lestu Malakí 3:16; Opinb. 3:5; 17:8.
2. Hvaða nöfn eru skrifuð í bók lífsins og hvernig getum við fengið nöfn okkar skrifuð þar?
2 Þessi bók hefur að geyma nöfn allra sem tilbiðja Jehóva með djúpri virðingu og elska nafn hans. Þeim býðst að lifa að eilífu. Við getum fengið nöfn okkar skrifuð í þessa bók ef við ræktum náið samband við Jehóva sem byggist á lausnarfórn sonar hans, Jesú Krists. (Jóh. 3:16, 36) Við þráum öll að fá nöfn okkar skrifuð í bókina, hvort sem við eigum von um að lifa á himni eða jörð.
3, 4. (a) Er öruggt að við hljótum eilíft líf ef nöfn okkar standa í bók lífsins núna? Skýrðu svarið. (b) Hvað skoðum við í þessari námsgrein og þeirri næstu?
3 Merkir þetta að allir sem hafa nöfn sín í bókinni fái örugglega eilíft líf? Svarið er að finna í því sem Jehóva sagði við Móse og stendur í 2. Mósebók 32:33. Jehóva sagði: „Ég afmái úr bók minni hvern þann sem hefur syndgað gegn mér.“ Það er því mögulegt að nöfn sem standa í bókinni verði afmáð, eða tekin burt. Það er rétt eins og Jehóva skrifi nöfnin fyrst með blýanti. (Opinb. 3:5, neðanmáls) Við þurfum að sjá til þess að nöfn okkar standi í bókinni þangað til þau verða skrifuð varanlega með bleki, ef svo má að orði komast.
4 Þetta gæti vakið spurningar. Hvað segir Biblían til dæmis um þá sem hafa nöfn sín í bók lífsins og þá sem hafa nöfn sín ekki skrifuð þar? Hvenær munu þeir sem hafa nöfn sín í bókinni fá eilíft líf? Hvað með þá sem fengu ekki tækifæri til að kynnast Jehóva meðan þeir lifðu? Er möguleiki að nöfn þeirra standi í bókinni? Þessum spurningum verður svarað í þessari námsgrein og þeirri næstu.
HVAÐA NÖFN ERU Í BÓKINNI?
5, 6. (a) Hvaða nöfn eru meðal þeirra sem eru skrifuð í bók lífsins samkvæmt Filippíbréfinu 4:3? (b) Hvenær fá þeir nöfn sín skrifuð varanlega í bók lífsins?
5 Hvaða nöfn eru skrifuð í þessa táknrænu bók? Til að svara því skoðum við fimm mismunandi hópa fólks. Sumir í þessum hópum eru með nöfn sín skrifuð í bók lífsins en aðrir ekki.
6 Í fyrsta hópnum eru þeir sem hafa verið valdir til að ríkja með Jesú á himnum. Eru nöfn þeirra skrifuð í bók lífsins? Já. Samkvæmt því sem Páll postuli skrifaði samstarfsmönnum sínum í Filippí eru nöfn hinna smurðu, sem hefur verið boðið að stjórna með Jesú, núna í bók lífsins. (Lestu Filippíbréfið 4:3.) En til þess að nöfn þeirra standi áfram í þessari táknrænu bók verða þeir að halda áfram að vera trúfastir. Þeir fá nöfn sín skrifuð varanlega í bókina þegar þeir fá endanlegt innsigli, hvort sem það er áður en þeir deyja eða áður en þrengingin mikla brýst út. – Opinb. 7:3.
7. Hvað segir Opinberunarbókin 7:16, 17 um það hvenær hinn mikli múgur annarra sauða fær nöfn sín skrifuð varanlega í bók lífsins?
7 Í öðrum hópnum er mikill múgur annarra sauða. Eru nöfn þeirra skrifuð í bók lífsins? Já. Verða nöfn þeirra enn þá í bókinni eftir að þeir hafa lifað af Harmagedón? Já. (Opinb. 7:14) Jesús sagði að þetta sauðumlíka fólk ,hlyti eilíft líf‘. (Matt. 25:46) En þeir sem lifa í gegnum Harmagedón fá ekki samstundis eilíft líf. Nöfn þeirra standa áfram í bók lífsins með blýanti ef svo má segja. Í þúsundáraríkinu mun Jesús „gæta þeirra og leiða að uppsprettum lífsvatnsins“. Þeir sem fylgja leiðsögn Krists og eru að lokum dæmdir trúfastir Jehóva munu fá nöfn sín varanlega skrifuð í bók lífsins. – Lestu Opinberunarbókina 7:16, 17.
8. Nöfn hverra eru ekki skrifuð í bók lífsins og hvað verður um þá?
8 Í þriðja hópnum verða geiturnar sem verður eytt í Harmagedón. Nöfn þeirra eru ekki skrifuð í bók lífsins. Jesús segir að ,þeirra bíði eilífur dauði‘. (Matt. 25:46) Páll segir undir innblæstri að þeir verði „dæmdir til eilífrar eyðingar“. (2. Þess. 1:9; 2. Pét. 2:9) Það sama má segja um þá sem hafa í tímans rás syndgað gegn heilögum anda að yfirlögðu ráði. Þeirra bíður líka eilíf eyðing. Þeir fá greinilega ekki upprisu. (Matt. 12:32; Mark. 3:28, 29; Hebr. 6:4–6) Skoðum nú betur tvo hópa fólks sem fá upprisu á jörðinni.
ÞEIR SEM FÁ UPPRISU
9. Hvaða tveir hópar fólks fá upprisu á jörð samkvæmt Postulasögunni 24:15 og hver er munurinn á þeim?
9 Í Biblíunni er talað um tvo hópa fólks – „réttláta og rangláta“ – sem verða reistir upp til lífs og hafa möguleika á að lifa á jörðinni að eilífu. (Lestu Postulasöguna 24:15.) Hinir réttlátu eru þeir sem þjónuðu Jehóva trúfastir meðan þeir lifðu. Hinir ranglátu gerðu það ekki. Í flestum tilfellum var breytni þeirra reyndar langt frá því að vera réttlát. Fólk í báðum þessum hópum fær upprisu. Getum við þar með sagt að nöfn þess standi í bók lífsins? Til að fá svar við því skulum við skoða hvorn hópinn fyrir sig.
10. Hvers vegna fá hinir réttlátu upprisu og hvaða verkefni fá sumir þeirra? (Sjá einnig „Spurningar frá lesendum“ í þessu blaði varðandi upprisu á jörð.)
10 Hinir réttlátu eru í fjórða hópnum. Áður en þeir dóu voru nöfn þeirra skráð í bók lífsins. Voru nöfn þeirra fjarlægð úr bókinni þegar þeir dóu? Nei, vegna þess að þeir eru enn þá lifandi í minni Jehóva. Jehóva er „ekki Guð dauðra heldur þeirra sem lifa því að þeir eru allir lifandi í augum hans“. (Lúk. 20:38) Þetta merkir að þegar hinir réttlátu verða reistir upp til lífs á jörð standa nöfn þeirra í bók lífsins, í fyrstu eins og skrifuð með blýanti. (Lúk. 14:14) Sumir þeirra sem fá upprisu munu án efa fá þá ábyrgð að þjóna ,sem höfðingjar um alla jörð‘. – Sálm. 45:16.
11. Hvað munu hinir ranglátu þurfa að læra áður en þeir geta fengið nöfn sín skrifuð í bók lífsins?
11 Hinir ranglátu er fimmti og síðasti hópurinn sem við skoðum. Þeir lifðu kannski ekki í samræmi við réttlátar kröfur Jehóva áður en þeir dóu vegna þess að þeir þekktu þær ekki. Fyrir vikið voru nöfn þeirra ekki skrifuð í bók lífsins. En með því að reisa þá aftur til lífs gefur Guð þeim tækifæri til að fá nöfn sín skrifuð í bókina. Þessir ranglátu einstaklingar munu þurfa á mikilli hjálp að halda. Áður en þeir dóu stunduðu sumir þeirra hræðilegt líferni. Þess vegna þarf að kenna þeim að lifa í samræmi við réttlátar meginreglur Jehóva. Undir stjórn Guðsríkis verður því gert mesta fræðsluátak í allri mannkynssögunni.
12. (a) Hverjir munu kenna hinum ranglátu? (b) Hvað verður um þá sem neita að fara eftir því sem þeir hafa lært?
12 Hverjir munu kenna hinum ranglátu? Múgurinn mikli og réttlátir sem fá upprisu. Hinir ranglátu þurfa að eignast samband við Jehóva og vígja líf sitt honum til að fá nöfn sín skrifuð í bók lífsins. Jesús Kristur og meðstjórnendur hans munu fylgjast grannt með framför þeirra. (Opinb. 20:4) Öllum sem bregðast illa við og hafna þessari hjálp verður eytt jafnvel þótt þeir séu orðnir hundrað ára. (Jes. 65:20) Jehóva og Jesús geta lesið hjörtu og þeir sjá til þess að enginn valdi skaða í nýja heiminum. – Jes. 11:9; 60:18; 65:25; Jóh. 2:25.
UPPRISA TIL LÍFS OG UPPRISA TIL DÓMS
13, 14. (a) Hvernig skildum við áður það sem Jesús segir í Jóhannesi 5:29? (b) Hvað hlýtur það sem Jesús segir að merkja?
13 Jesús talaði líka um þá sem fengju upprisu til lífs á jörð. Hann sagði til dæmis: „Sú stund kemur að allir sem eru í minningargröfunum heyra rödd hans og rísa upp. Þeir sem gerðu hið góða rísa upp til lífs en þeir sem ástunduðu hið illa rísa upp til dóms.“ (Jóh. 5:28, 29) Hvað átti Jesús við?
14 Áður skildum við það sem Jesús sagði þannig að það ætti við það góða sem hinir upprisnu gera eftir upprisuna, sumir myndu fá upprisu og gera gott en aðrir gera illt. En tökum eftir því að Jesús segir ekki að þeir sem eru nýkomnir úr minningargröfunum muni gera gott eða muni gera illt. Hann notar þátíð. Hann talar um þá sem „gerðu hið góða“ og þá sem „ástunduðu hið illa“. Það gefur til kynna að þessi verk eigi við verk fyrir dauða þeirra. Þetta er rökrétt því að enginn fær að ástunda það sem er illt í nýja heiminum. Hinir illu hljóta að hafa ástundað hið illa áður en þeir dóu. En hvað á Jesús þá við þegar hann talar um upprisu „til lífs“ og upprisu „til dóms“?
15. Hverjir munu rísa upp til lífs og hvers vegna?
15 Hinir réttlátu sem gerðu gott áður en þeir dóu munu fá upprisu „til lífs“ vegna þess að nöfn þeirra eru þegar skrifuð í bók lífsins. Þetta þýðir að upprisa þeirra sem „gerðu hið góða“ og er lýst í Jóhannesi 5:29 er sú sama og upprisa hinna ,réttlátu‘ sem er minnst á í Postulasögunni 24:15. Í Rómverjabréfinu 6:7 segir: „Sá sem er dáinn er sýknaður af synd sinni.“ Það þýðir að syndir hans eru afmáðar. En réttlát verk hinna réttlátu eru það ekki. Jehóva gleymir ekki trúfastri breytni þeirra. (Hebr. 6:10) Hinir réttlátu sem fá upprisu þurfa að sjálfsögðu að halda áfram að vera trúfastir til að nöfn þeirra standi áfram í bók lífsins.
16. Hvað felur upprisa til dóms í sér?
16 Hvað með þá sem ástunduðu hið illa áður en þeir dóu? Þótt búið sé að afskrifa syndir þeirra við dauðann þjónuðu þeir ekki Jehóva trúfastlega fyrir dauða sinn. Nöfn þeirra standa ekki í bók lífsins. Upprisa þeirra sem „ástunduðu hið illa“ er því sú sama og upprisa hinna ranglátu sem talað er um í Postulasögunni 24:15. Upprisa þeirra verður upprisa „til dóms“. d Hinir ranglátu verða dæmdir í þeim skilningi að lagt verður á þá mat. (Lúk. 22:30) Það mun taka tíma að ákveða hvort þeir eru verðir þess að fá nöfn sín skrifuð í bók lífsins. Þeir fá það ef þeir hafna fyrri ranglátri lífsstefnu og vígja Jehóva líf sitt.
17, 18. Hvað þurfa allir sem verða reistir upp til lífs á jörð að gera og hvaða verk er talað um í Opinberunarbókinni 20:12, 13?
17 Hvort sem hinir upprisnu eru réttlátir eða ranglátir verða þeir að hlýða þeim lögum sem verður að finna í nýju bókrollunum og verða opnaðar á meðan 1.000 ára tímabilið stendur yfir. Jóhannes postuli lýsir því sem hann sá í sýn: „Og ég sá hina dánu, jafnt háa sem lága, standa frammi fyrir hásætinu og bókrollur voru opnaðar. En önnur bókrolla var opnuð, bók lífsins. Hinir dánu voru dæmdir eftir því sem stóð í bókrollunum, samkvæmt verkum sínum.“ (Opinb. 20:12, 13)
18 Samkvæmt hvaða verkum verða þeir dæmdir sem fá upprisu? Eru það verk sem þeir ástunduðu áður en þeir dóu? Nei. Við munum að þeir voru sýknaðir af þeim verkum. Þau verk sem hér um ræðir geta því ekki verið þau sem þeir gerðu áður en þeir dóu. Hér hlýtur að vera átt við verk þeirra eftir að þeir hafa hlotið menntun í nýja heiminum. Jafnvel trúfastir menn eins og Nói, Samúel, Davíð og Daníel munu þurfa að læra um Jesú Krist og trúa á lausnarfórn hans. Og ranglátir hljóta að þurfa að læra langtum meira en þeir.
19. Hvað verður um þá sem hafna þessu stórkostlega tækifæri?
19 Hvað verður um þá sem hafna þessu stórkostlega tækifæri? Opinberunarbókin 20:15 segir: „Öllum sem voru ekki skráðir í bók lífsins var … kastað í eldhafið.“ Þeim verður algerlega eytt. Það er gríðarlega mikilvægt að við fullvissum okkur um að nöfn okkar séu skrifuð í bók lífsins og verði þar áfram.
20. Hvaða spennandi starf fer fram í þúsundáraríkinu? (Sjá forsíðumynd.)
20 Þúsundáraríkið verður stórkostlegur tími! Þá fer fram mesta fræðsluátak sem nokkru sinni hefur verið framkvæmt á jörð. En það verður líka sá tími þegar bæði réttlátir og ranglátir verða að sýna að þeir séu fúsir til að hlýða Jehóva. (Jes. 26:9; Post. 17:31) Hvernig verður þetta fræðsluátak í framkvæmd? Næsta námsgrein hjálpar okkur að skilja og meta þessa stórkostlegu ráðstöfun.
SÖNGUR 147 Loforð um eilíft líf
a Í þessari námsgrein verður fjallað um leiðréttan skilning á því sem Jesús segir í Jóhannesi 5:28, 29 um upprisu „til lífs“ og upprisu „til dóms“. Við skoðum hvað upprisan felur í sér í báðum tilfellum og hverja það snertir.
b Byrjað var að skrifa í bókina við „grundvöllun heims“ það er að segja frá þeim tíma þegar mannkynið hafði tækifæri til að hafa gagn af lausnarfórn Jesú Krists. (Matt. 25:34; Opinb. 17:8) Hinn réttláti Abel hefur því verið sá fyrsti sem fékk nafn sitt skrifað í bók lífsins.
c Í þessari námsgrein eru tilvitnanir í Malakí úr Biblíunni 2010.
d Áður var orðið „dómur“ útskýrt sem neikvæður dómur eða sakfelling. Orðið getur haft þá merkingu. En í þessu samhengi virðist Jesús nota orðið „dómur“ í almennari skilningi, í þeirri merkingu að fylgjast með og meta einhvern, eða eins og grísk biblíuorðabók talar um, „að rannsaka breytni einhvers“.