Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 38

Verum traust og áreiðanleg

Verum traust og áreiðanleg

„Traustur maður heldur trúnað.“ – ORÐSKV. 11:13.

SÖNGUR 101 Störfum saman í einingu

YFIRLIT a

1. Hvernig vitum við hvort við getum treyst annarri manneskju?

 TRAUSTUR maður kappkostar að halda loforð sín og segja satt. (Sálm. 15:4) Aðrir vita að þeir geta reitt sig á hann. Við viljum að bræður okkar og systur líti þannig á okkur. Hvað getum við gert til að ávinna okkur traust þeirra?

2. Hvernig getum við verið traust og áreiðanleg?

2 Við getum ekki skipað öðrum að treysta okkur. Við þurfum að ávinna okkur traust þeirra. Það má líkja trausti við peninga. Maður þarf að hafa mikið fyrir því að eignast þá en þeir eru fljótir að hverfa. Jehóva hefur sannarlega áunnið sér traust okkar. Við þurfum aldrei að óttast að hann bregðist vegna þess að „við getum treyst öllu sem hann gerir“. (Sálm. 33:4) Og hann vill að við líkjum eftir sér. (Ef. 5:1) Skoðum nokkur dæmi um þjóna Jehóva sem líktu eftir föður sínum á himnum og sýndu að þeir voru traustir. Skoðum líka fimm eiginleika sem hjálpa okkur að vera traust.

LÆRUM AF TRAUSTUM ÞJÓNUM JEHÓVA

3, 4. Hvernig sýndi Daníel að honum væri treystandi og hvað ætti það að fá okkur til að hugleiða?

3 Spámaðurinn Daníel setti frábært fordæmi í að vera traustur. Þótt hann hefði verið fluttur í útlegð til Babýlonar ávann hann sér fljótt þann orðstír að honum væri treystandi. Og virðingin fyrir honum jókst enn frekar þegar hann, með hjálp Jehóva, túlkaði drauma Nebúkadnesars konungs Babýlonar. Við eitt tækifæri þurfti Daníel að segja konungi að Jehóva væri óánægður með hann. Ekki beint skilaboð sem konungar vilja fá. Þetta krafðist hugrekkis því að Nebúkadnesar var skapbráður maður. (Dan. 2:12; 4:20–22, 25) Mörgum árum síðar sýndi Daníel aftur að honum var treystandi þegar hann túlkaði af nákvæmni dularfull skilaboð sem birtust á vegg hallarinnar í Babýlon. (Dan. 5:5, 25–29) Seinna komu Daríus konungur Meda og embættismenn hans auga á ,frábæra andagift‘ Daníels. Þeir sáu að Daníel var „trúr í starfi“ og að „engin ávirðing eða vanræksla“ fannst hjá honum. (Dan. 6:4, 5, Biblían 2010) Já, jafnvel heiðnir leiðtogar skildu að þessi tilbiðjandi Jehóva var traustsins verður.

4 Með fordæmi Daníels í huga getum við spurt okkur: „Hvaða orðspor hef ég hjá þeim sem eru fyrir utan söfnuðinn? Geta aðrir treyst mér og er ég þekktur fyrir að vera ábyrgur?“ Hvers vegna er mikilvægt að velta þessu fyrir sér? Vegna þess að við heiðrum Jehóva þegar við erum traust og áreiðanleg.

Nehemía valdi trausta menn til að sjá um mikilvæg mál. (Sjá 5. grein.)

5. Hvers vegna var Hananja þekktur fyrir að vera treystandi?

5 Eftir að Nehemía landstjóri hafði endurreist múra Jerúsalem árið 455 f.Kr. leitaði hann að áreiðanlegum mönnum sem væri hægt að treysta fyrir borginni. Nehemía valdi meðal annars Hananja til að vera ,yfirmaður virkisins‘. Biblían segir að Hananja hafi verið „mjög traustur maður“ sem „óttaðist hinn sanna Guð meira en margir aðrir“. (Neh. 7:2) Kærleikur Hananja til Jehóva og ótti við að vera honum ekki þóknanlegur knúði hann til að taka alvarlega hvert verkefni sem hann fékk. Slíkir eiginleikar geta líka hjálpað okkur að vera áreiðanleg í þjónustu Jehóva.

6. Hvernig reyndist Týkíkus traustur vinur Páls postula?

6 Týkíkus var traustur félagi Páls postula. Þegar Páll var í stofufangelsi reiddi hann sig á hann og lýsti honum sem ,trúum þjóni‘. (Ef. 6:21, 22) Páll treysti honum ekki bara til að fara með bréf til trúsystkina í Efesus og Kólossu heldur líka til að hvetja þau og hugga. Týkíkus minnir á trúfasta áreiðanlega menn sem annast andlegar þarfir okkar nú á dögum. – Kól. 4:7–9.

7. Hvað getum við lært af öldungum og safnaðarþjónum í söfnuðinum varðandi það að vera traustur?

7 Við erum innilega þakklát fyrir trausta öldunga og safnaðarþjóna. Þeir taka ábyrgð sína alvarlega rétt eins og Daníel, Hananja og Týkíkus. Þegar við komum til dæmis á samkomu í miðri viku efumst við ekki um að bræður sinni öllum verkefnum sínum á dagskránni. Öldungarnir kunna að meta það þegar þau sem eru með verkefni undirbúa sig og flytja þau. Og þegar við bjóðum biblíunemanda á samkomu um helgi erum við viss um að einhver mun flytja opinberan fyrirlestur. Við treystum því líka að við getum fengið þau rit sem við þurfum til að boða trúna. Þessir trúföstu bræður annast okkur vel og við erum þakklát fyrir þá. En á hvaða vegu getum við sýnt að við séum traust og áreiðanleg?

VERUM TRAUST OG HÖLDUM TRÚNAÐ

8. Hverju þurfum við að gæta okkar á þegar við sýnum öðrum áhuga? (Orðskviðirnir 11:13)

8 Við elskum bræður okkar og systur og höfum áhuga á velferð þeirra. En við þurfum að gæta okkar og virða einkalíf þeirra. Sumt fólk í kristna söfnuðinum á fyrstu öld ,slúðraði, blandaði sér í málefni annarra og talaði um það sem það átti ekki að tala um‘. (1. Tím. 5:13) Við viljum að sjálfsögðu ekki vera þannig. En segjum að einhver segi okkur eitthvað í trúnaði. Systir gæti til dæmis sagt okkur frá heilsuvandamáli eða öðru sem hún glímir við og beðið okkur um að tala ekki um það við aðra. Við ættum að fara að ósk hennar. b (Lestu Orðskviðina 11:13.) Skoðum nú fleiri aðstæður þar sem er mikilvægt að við höldum trúnað.

9. Hvernig geta allir í fjölskyldunni sýnt að þeir séu traustir?

9 Í fjölskyldunni. Allir í fjölskyldunni hafa þá ábyrgð að halda sumum fjölskyldumálum innan veggja fjölskyldunnar. Kristin kona hefur kannski ávana sem manninum hennar finnst fyndinn. Væri í lagi að hann gerði hana vandræðalega með því að segja öðrum frá því? Auðvitað ekki. Hann elskar konuna sína og myndi aldrei vilja gera neitt sem særir hana. (Ef. 5:33) Unglingar hafa þörf fyrir að þeim sé sýnd virðing. Það er mikilvægt fyrir foreldra að hafa þetta í huga. Þeir ættu ekki að gera lítið úr börnunum sínum með því að segja öðrum frá mistökum þeirra. (Kól. 3:21) Og börn þurfa að læra að vera tillitssöm og tala ekki um það sem er vandræðalegt fyrir aðra í fjölskyldunni við þá sem eru fyrir utan hana. (5. Mós. 5:16) Það styrkir tengslin innan fjölskyldunnar þegar hver og einn gerir sitt til að halda einkamálum fjölskyldunnar innan hennar.

10. Hvað felst í því að vera sannur vinur? (Orðskviðirnir 17:17)

10 Í samskiptum við vini okkar. Fyrr eða síðar þurfum við flest á nánum vini að halda til að létta á okkur. Það getur stundum verið erfitt. Við erum kannski ekki vön að segja öðrum frá innstu hugsunum okkar og okkur fyndist hræðilegt ef við kæmumst síðar að því að vinur okkar hefði talað um þetta við einhvern annan. En við erum innilega þakklát ef við eigum vin sem við getum treyst fyrir hugsunum okkar. Það er „sannur vinur“. – Lestu Orðskviðina 17:17.

Öldungar segja fjölskyldu sinni ekki frá trúnaðarmálum. (Sjá 11. grein.) c

11. (a) Hvernig sýna öldungar og eiginkonur þeirra að þau séu traust og áreiðanleg? (b) Hvað getum við lært af því hvernig öldungur fer með trúnaðarmál? (Sjá myndina.)

11 Í söfnuðinum. Öldungar sem eru þekktir fyrir að halda trúnað eru bræðrum og systrum sem „skjól fyrir vindi og skýli í slagviðri“. (Jes. 32:2) Við getum talað við þá um hvað sem er því að við vitum að það sem við segjum fer ekki lengra. Við þrýstum ekki á þá til að segja okkur það sem þeir ættu að hafa út af fyrir sig. Við kunnum líka að meta eiginkonur öldunganna vegna þess að þær reyna ekki að hnýsast í upplýsingar sem eiginmenn þeirra búa yfir. Það er í raun eiginkonu öldungs fyrir bestu að vita ekki um persónuleg mál bræðra og systra. Eiginkona öldungs segir: „Ég er þakklát manninum mínum að tala ekki um það sem honum er treyst fyrir þegar hann hjálpar trúsystkinum að styrkja samband sitt við Jehóva. Hann segir mér ekki einu sinni hvaða bræður og systur þetta eru. Ég kann að meta það að burðast ekki með mál sem ég get ekkert gert í. Fyrir vikið get ég talað afslappað við alla í söfnuðinum. Og þegar ég treysti manninum mínum fyrir tilfinningum mínum og vandamálum get ég verið örugg um að það fer ekki lengra.“ Við viljum að sjálfsögðu öll vera álitin traust. Hvaða eiginleikar geta hjálpað okkur til þess? Skoðum fimm eiginleika.

RÆKTUM MEÐ OKKUR EIGINLEIKA SEM HJÁLPA OKKUR AÐ VERA TRAUST

12. Hvers vegna er hægt að segja að kærleikur sé grunnurinn að trausti? Nefndu dæmi.

12 Kærleikur er grunnurinn að trausti. Jesús sagði að tvö æðstu boðorðin væru að elska Jehóva og að elska náunga okkar. (Matt. 22:37–39) Kærleikur okkar til Jehóva fær okkur til að líkja eftir fullkomnu fordæmi hans í að vera traustur. Kærleikur okkar til bræðra og systra fær okkur til dæmis til að tala ekki við aðra um persónuleg mál þeirra. Við myndum aldrei vilja tala við aðra um það sem gæti skaðað þau, sært eða gert þau vandræðaleg. – Jóh. 15:12.

13. Hvernig hjálpar hógværð okkur að vera traust?

13 Lítillæti hjálpar okkur að vera traust. Kristinn einstaklingur sem er lítillátur reynir ekki að ganga í augun á öðrum með því að vera fyrstur með fréttirnar. (Fil. 2:3) Hann reynir ekki að gera sig merkilegri í augum annarra með því að gefa í skyn að hann viti eitthvað sem aðrir mega ekki vita. Lítillæti kemur líka í veg fyrir að við viðrum eigin hugmyndir vítt og breitt um mál sem eru ekki rædd í Biblíunni eða biblíutengdum ritum.

14. Hvernig hjálpar dómgreind okkur að vera traust?

14 Dómgreind hjálpar þjóni Guðs að vita hvenær er tími til að þegja og tími til að tala. (Préd. 3:7) „Ræðan er silfur en þögnin gull“ er þekkt orðtak í sumum menningarsamfélögum. Það er með öðrum orðum stundum betra að þegja en tala. Þess vegna er okkur sagt í Orðskviðunum 11:12 að ,hygginn maður þegi‘. Tökum dæmi. Öldungur sem býr yfir mikilli reynslu er oft beðinn um að aðstoða aðra söfnuði við að takast á við vandamál. Annar öldungur sagði um hann: „Hann passar sig að tala aldrei um trúnaðarmál annarra safnaða.“ Hann hefur þannig áunnið sér virðingu bræðra í öldungaráði safnaðar síns. Þeir vita með vissu að hann segir ekki öðrum frá trúnaðarmálum.

15. Nefndu dæmi sem sýnir að heiðarleiki getur hjálpað til við að ávinna traust annarra.

15 Heiðarleiki er annar eiginleiki sem við þurfum að hafa til að geta verið traust. Við treystum heiðarlegum manni vegna þess að við vitum að hann segir alltaf satt. (Ef. 4:25; Hebr. 13:18) Segjum að þú viljir verða betri kennari. Þú biður þess vegna einhvern að hlusta á þig flytja verkefnið þitt til að segja þér hvar þú getir bætt þig. Hverjum myndirðu treysta til að gefa þér heiðarleg ráð? Þeim sem segir þér það sem þú vilt heyra eða þeim sem bendir þér vingjarnlega á sannleikann? Það gefur augaleið. Biblían segir: „Betra er að ávíta opinskátt en leyna ást sinni. Betri eru sár frá tryggum vini en margir kossar óvinarins.“ (Orðskv. 27:5, 6) Heiðarlegar ábendingar koma sér best fyrir okkur til langs tíma litið þótt það geti verið erfitt að heyra þær.

16. Hvernig undirstrika Orðskviðirnir 10:19 þörfina á sjálfstjórn?

16 Sjálfstjórn er ómissandi eiginleiki ef við ætlum að ávinna okkur traust annarra. Þessi eiginleiki hjálpar okkur að hafa taumhald á tungunni þegar það er freistandi að segja frá einhverju sem okkur var sagt í trúnaði. (Lestu Orðskviðina 10:19.) Að tjá okkur á samfélagsmiðlum getur reynt á sjálfstjórn okkar. Ef við erum ekki varkár gætum við í gáleysi dreift trúnaðarupplýsingum til margra. Og þegar við erum búin að dreifa upplýsingum rafrænt missum við algerlega stjórn á því hvernig þær verða notaðar og hversu miklum skaða þær valda. Við gætum þess að segja ekkert þegar andstæðingar reyna að fá okkur til að gefa upplýsingar sem gætu skaðað bræður okkar og systur. Þetta getur átt við þegar lögreglan tekur okkur til yfirheyrslu í löndum þar sem hömlur eru á starfi okkar eða það er bannað. Við getum fylgt meginreglunni um að „múlbinda munn“ okkar við þessar og aðrar aðstæður. (Sálm. 39:1) Við þurfum að vera traust og áreiðanleg í samskiptum okkar við fjölskyldu okkar, vini, trúsystkini og aðra. Og til að vera traust þurfum við að hafa sjálfstjórn.

17. Hvernig getum við stuðlað að trausti í söfnuði okkar?

17 Við erum innilega þakklát að Jehóva skuli hafa safnað okkur saman í kærleiksríkt og traust bræðrafélag. Við höfum öll þá ábyrgð að ávinna okkur traust bræðra okkar og systra. Þegar við vinnum hvert og eitt okkar að því að sýna kærleika, lítillæti, dómgreind, heiðarleika og sjálfstjórn stuðlum við að trausti í söfnuðinum. Við þurfum að halda áfram að vinna að því að vera traustsins verð. Líkjum eftir Jehóva Guði okkar og höldum áfram að vera traust og áreiðanleg.

SÖNGUR 123 Verum hlýðin skipan Guðs

a Ef við viljum að aðrir treysti okkur þurfum við fyrst að sýna að við séum traust og áreiðanleg. Í þessari námsgrein skoðum við hvers vegna traust er svona mikilvægt og hvaða eiginleikar hjálpa okkur að vera þess konar persóna sem aðrir geta treyst.

b Ef við komumst að því að einhver í söfnuðinum hefur gerst sekur um alvarlega synd ættum við að hvetja hann til að leita sér hjálpar hjá öldungunum. Ef hann gerir það ekki ætti hollusta við Jehóva og kristna söfnuðinn að fá okkur til að láta andlega hirða vita um málið.

c MYND: Öldungur segir ekki fjölskyldu sinni frá trúnaðarmáli sem honum hefur verið treyst fyrir.