Eiga kristnir menn að tilbiðja Guð í helgidómum?
Á HVERJU ári heimsækja yfir sex milljónir manna afskekktan sedrusskóg á Shima-skaga í Japan. Ferðinni er heitið í hinn mikla Ise-helgidóm þar sem sjintó-sólgyðjan Amaterasu Omikami hefur verið tilbeðin í um tvö þúsund ár. Tilbiðjendur hennar byrja á því að hreinsa sig með því að þvo hendur sínar og munn. Fyrir framan bænahúsið (haiden) fylgja þeir ákveðnum helgisiðum þar sem þeir hneigja sig, klappa höndum saman og biðja til gyðjunnar. * Samkvæmt sjintótrú mega áhangendur hennar einnig iðka önnur trúarbrögð og mörgum finnst ekkert því til fyrirstöðu að fylgja helgisiðunum við þennan helgidóm þótt þeir tilheyri búddatrú, kristni eða öðrum trúarbrögðum.
Mörg af helstu trúarbrögðum heims eiga sér helgidóma * og milljónir manna leggja leið sína þangað. Í löndum, sem teljast kristin, er fjöldinn allur af kirkjum og helgidómum tileinkaðir Jesú, Maríu eða dýrlingum. Aðrir helgidómar eru reistir á stöðum þar sem atburðir úr Biblíunni eru taldir hafa átt sér stað, þar sem „kraftaverk“ eru sögð hafa gerst á síðari tímum og þar sem helgar minjar eru varðveittar. Margir heimsækja helgidóma vegna þess að þeir telja að Guð hlusti frekar á bænir þeirra ef þær eru bornar fram á helgum stað. Fyrir öðrum er koma í helgidóm hápunktur langrar pílagrímsferðar sem þeir fara í til merkis um trúrækni sína.
Eru meiri líkur á að Guð hlusti á bænir ef þær eru beðnar í helgidómum? Hefur Guð velþóknun á trúrækni þeirra sem fara í pílagrímsferðir í helgidóma eða á helga staði? Og síðast en ekki síst, ættu kristnir menn að tilbiðja Guð í helgidómum? Svörin við þessum spurningum upplýsa okkur ekki aðeins um hvernig við eigum að líta á tilbeiðslu í kirkjum, hofum og öðrum helgidómum, heldur hjálpa þau okkur að skilja hvers konar tilbeiðslu Guð hefur velþóknun á.
AÐ TILBIÐJA GUÐ „Í ANDA OG SANNLEIKA“
Af samtali, sem Jesús átti við samverska konu, má sjá hvaða viðhorf Guð hefur til þess að vera tilbeðinn á helgum stöðum eða í helgidómum. Hann var á leið um Samaríu og stoppaði til að hvíla sig við brunn í nágrenni borgarinnar Síkar. Þar fór hann að tala við konu sem kom að sækja vatn í brunninn. Í samtalinu nefndi konan meginmun á trúariðkun Gyðinga og Samverja. Hún sagði: „Feður okkar hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli en þið segið Jóhannes 4:5-9, 20.
að í Jerúsalem sé sá staður þar sem tilbiðja skuli.“ –Fjallið, sem konan talaði um, var Garísímfjall og stendur um 50 kílómetra norður af Jerúsalem. Áður fyrr áttu Samverjar musteri á þessu fjalli og héldu þar hátíðir eins og páska. Í stað þess að einblína á þennan mun sem menn deildu um sagði Jesús við konuna: „Trú þú mér, kona. Sú stund kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem.“ (Jóhannes 4:21) Þetta voru merkileg ummæli, ekki síst þar sem þau komu frá Gyðingi. Af hverju skyldu menn hætta að tilbiðja Guð í musterinu í Jerúsalem?
Jesús hélt áfram: „Sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda.“ (Jóhannes 4:23) Í aldaraðir litu Gyðingar á mikilfenglegt musterið í Jerúsalem sem miðstöð tilbeiðslunnar. Þeir lögðu leið sína þangað þrisvar á ári til að færa Jehóva Guði sínum fórnir. (2. Mósebók 23:14-17) En Jesús sagði að þetta myndi allt breytast og að „hinir sönnu tilbiðjendur“ myndu tilbiðja Guð „í anda og sannleika“.
Musteri Gyðinga var áþreifanleg bygging, staðsett á ákveðnum stað. En andi og sannleikur eru hvorki áþreifanlegir né takmarkaðir við ákveðinn stað. Jesús var því að segja að sönn tilbeiðsla kristinna manna yrði ekki bundin við neinn ákveðinn stað eða byggingu, hvorki Garísímfjall, musterið í Jerúsalem né nokkurn annan helgan stað.
Í samtali sínu við samversku konuna sagði Jesús líka að „sú stund“ kæmi að þessi breyting á tilbeiðslunni á Guði gengi í garð. Hvenær átti það að gerast? Sú stund rann upp þegar Jesús dó fórnardauða og batt enda á tilbeiðslufyrirkomulag Gyðinga sem byggt var á Móselögunum. (Rómverjabréfið 10:4) En Jesús sagði einnig: „Sú stund ... er nú komin.“ Hvers vegna sagði hann það? Vegna þess að Jesús, eða Messías, var þegar byrjaður að safna saman lærisveinum sem áttu að fara eftir fyrirmælunum sem hann gaf þessu næst: „Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:24) En hvað merkir það að tilbiðja í anda og sannleika?
Þegar Jesús talaði um að tilbiðja í anda átti hann við að heilagur andi Guðs myndi leiðbeina fólki, meðal annars með því að gefa því skilning á Biblíunni. (1. Korintubréf 2:9-12) Og sannleikurinn, sem Jesús talaði um, er nákvæm þekking á kenningum Biblíunnar. Tilbeiðsla okkar er því Guði þóknanleg ef hún samræmist kenningum Biblíunnar og við fylgjum leiðsögn anda hans, frekar en að tilbeiðslan fari fram á einhverjum ákveðnum stað.
HVERNIG EIGA KRISTNIR MENN AÐ LÍTA Á HELGIDÓMA?
Hvernig ættu kristnir menn að líta á pílagrímsferðir í helgidóma og tilbeiðslu þar? Jesús sagði að sannir tilbiðjendur ættu að tilbiðja Guð í anda og sannleika. Því er greinilegt að himneskur faðir okkar hefur ekki mætur á að vera tilbeðinn í helgidómum eða á öðrum slíkum stöðum. Þar að auki sýnir Biblían okkur hvernig Guð lítur á það að nota líkneski við tilbeiðslu. Hún segir: „Forðist ... skurðgoðadýrkun“ og „gætið ykkar á falsguðunum“. (1. Korintubréf 10:14; 1. Jóhannesarbréf 5:21) Þar af leiðandi myndu sannkristnir menn ekki tilbiðja Guð á stað sem álitinn er heilagur sem slíkur eða þar sem hvatt er til skurðgoðadýrkunar. Helgidómar og notkun þeirra er þess eðlis að kristnir menn eiga ekki að tilbiðja þar.
Þetta þýðir þó ekki að Biblían banni fólki að velja sér ákveðinn stað til að biðja til Guðs, lesa eða hugleiða andleg mál. Snyrtilegur og virðulegur samkomustaður er ágætur vettvangur til að læra um Guð og ræða andleg málefni. Það er heldur ekkert að því að koma fyrir minnisvarða eða legsteini til minningar um þann sem er látinn. Það getur einfaldlega verið merki um að okkur hafi þótt vænt um hinn látna. En það væri algerlega í mótsögn við orð Jesú að líta á slíkan stað sem heilagan eða koma þar fyrir líkneskjum eða minjagripum í tilbeiðsluskyni.
Þú þarft því ekki að heimsækja helgidóma í von um að Guð hlusti frekar á bænir þínar þar. Guð hefur heldur engar mætur á þú farir í pílagrímsferðir í helgidóma og hann blessar þig ekki sérstaklega fyrir það. Í Biblíunni segir: „Guð ... sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum sem með höndum eru gerð.“ En Jehóva Guð er samt ekki fjarlægur okkur. Við getum beðið til hans hvar sem er og hann heyrir bænir okkar því að „eigi er hann langt frá neinum af okkur“. – Postulasagan 17:24-27.
^ gr. 2 Helgisiðirnir geta verið breytilegir milli helgidóma.
^ gr. 3 Sjá rammann „ Hvað er helgidómur?“