Loforð sem munu rætast
Verið er að boða fagnaðarerindið um ríkið um allan heim eins og Jesús spáði fyrir. (Matteus 24:14) Í Daníelsbók kemur fram að þetta ríki sé stjórn Guðs. Í öðrum kafla bókarinnar er að finna spádóm sem rekur framvindu áhrifamestu ríkja heims allt frá Babýlon til forna fram á okkar daga. Í Daníel 2:44 segir um framtíðina:
„Guð himnanna [mun] magna upp ríki sem aldrei mun hrynja og ekki verða selt annarri þjóð í hendur. Það mun eyða öllum þessum ríkjum og gera þau að engu en standa sjálft að eilífu.“
Þessi biblíuspádómur og fleiri segja fyrir um að ríki Guðs komi í stað allra mannlegra stjórna og komi á stöðugleika og reglu meðal manna á jörðinni. Hvernig verður lífið undir stjórn Guðsríkis? Lítum á nokkur stórkostleg loforð sem rætast í náinni framtíð.
-
ENGIN STRÍÐ FRAMAR
Sálmur 46:10: „[Guð] stöðvar stríð til endimarka jarðar, brýtur bogann, mölvar spjótið, brennir skildi í eldi.“
Hugsaðu þér hvernig heimurinn væri ef allir fjármunir og þekking, sem er notuð í að framleiða vopn, væri notuð til að koma fólki að gagni í stað þess að drepa það. Þetta loforð rætist undir stjórn Guðsríkis.
-
ENGIN VEIKINDI FRAMAR
Jesaja 33:24: „Enginn borgarbúi mun segja: ,Ég er veikur.‘“
Hugsaðu þér heim þar sem engir þjást af hjartasjúkdómum, krabbameini, malaríu eða öðrum sjúkdómum. Það verður ekki lengur þörf á spítölum og lyfjum. Fullkomin heilsa bíður jarðarbúa í framtíðinni.
-
EKKERT HUNGUR FRAMAR
Sálmur 72:16: „Gnóttir korns verði í landinu, bylgist það á fjallatindunum.“
Jörðin mun gefa af sér nægan mat handa öllum og allir hafa aðgang að honum. Hungur og vannæring heyrir sögunni til.
-
ENGIN KVÖL, SORG OG DAUÐI FRAMAR
Opinberunarbókin 21:4: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“
Það þýðir að menn njóta þess að lifa fullkomnir að eilífu í paradís á jörð. Kærleiksríkur skapari okkar, Jehóva Guð, hefur lofað þessu.
ÞETTA MUN FÁ FRAMGANG
Er þetta of gott til að vera satt? Flestir eru sammála um að framtíðin, eins og henni er lýst í Biblíunni, sé sannarlega eftirsóknarverð. Þó eru ýmsar ástæður fyrir því að margir eiga erfitt með að skilja hugmyndina um eilíft líf. Það kemur ekki ekki á óvart þar sem ekkert okkar þekkir það af eigin raun.
Mannkynið hefur verið hneppt í ánauð syndar og dauða og þurft að þola kvalir, sorg og erfiðleika í óralangan tíma. Margir eru því farnir að líta á þjáningarnar sem eðlilegan hluta lífsins. En það er langt frá því sem skapari okkar, Jehóva Guð, ætlaðist fyrir með mennina.
Til að auðvelda okkur að skilja hversu áreiðanleg loforð Guðs eru sagði hann um orð sitt: „Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast og framkvæmir það sem ég fel því.“ – Jesaja 55:11.
Í Biblíunni er Jehóva sagður vera „sá Guð, sem aldrei lýgur“. (Títusarbréfið 1:2) Þar sem hann hefur lofað þessari dásamlegu framtíð væri skynsamlegt að velta fyrir sér eftirfarandi spurningum: Geta menn lifað að eilífu í paradís á jörð? Hvað þurfum við að gera til að njóta góðs af loforðum Guðs? Á næstu blaðsíðum þessa tímarits finnur þú gagnlegar upplýsingar sem svara þessum spurningum.