Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Öll sköpunin naut friðar og einingar undir stjórn Guðs.

Hvers vegna þurfum við á ríki Guðs að halda?

Hvers vegna þurfum við á ríki Guðs að halda?

Í upphafi mannkyns var skapari okkar, sem heitir Jehóva, eini stjórnandinn. Hann beitti valdi sínu á kærleiksríkan hátt. Hann bjó mönnunum fallegt heimili í aldingarðinum Eden. Hann sá þeim fyrir meira en nóg af mat. Og hann fékk þeim auk þess gefandi starf. (1. Mósebók 1:28, 29; 2:8, 15) Mennirnir hefðu notið friðar ef þeir hefðu haldið sig undir kærleiksríkri stjórn Guðs.

Fyrstu mannhjónin höfnuðu Guði sem stjórnanda.

Í Biblíunni er sagt frá uppreisnargjörnum engli sem var seinna kallaður Satan Djöfullinn. Hann dró í efa rétt Guðs til að stjórna og gaf í skyn að mennirnir myndu vera ánægðari án leiðsagnar og stjórnar Guðs. Því miður fylgdu Adam og Eva, foreldrar mannkyns, stefnu Satans og gerðu uppreisn gegn Guði. – 1. Mósebók 3:1–6; Opinberunarbókin 12:9.

Adam og Eva misstu heimili sitt í paradís og vonina um að lifa við fullkomna heilsu að eilífu vegna þess að þau höfnuðu Guði sem stjórnanda. (1. Mósebók 3:17–19) Ákvörðun þeirra hafði einnig áhrif á börnin sem þau eignuðust. Biblían segir um afleiðingu syndar Adams: „Syndin kom inn í heiminn ... og dauðinn með syndinni.“ (Rómverjabréfið 5:12) Syndin hafði aðra slæma afleiðingu: „Einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Prédikarinn 8:9) Með öðrum orðum verða alltaf vandamál þegar menn stjórna sér sjálfir.

STJÓRNIR MANNA VERÐA TIL

Nimrod gerði uppreisn gegn Jehóva.

Fyrsti mennski stjórnandinn sem nefndur er í Biblíunni var Nimrod. Hann gerði uppreisn gegn stjórn Jehóva. Allt frá dögum Nimrods hafa valdamiklir menn misnotað vald sitt. Fyrir um 3.000 árum skrifaði Salómon konungur: ,Tár hinna undirokuðu streyma en enginn huggar þá. Af hendi kúgara sinna sæta þeir ofbeldi.‘ – Prédikarinn 4:1.

Við glímum enn við sömu vandamál. Árið 2009 sagði í riti frá Sameinuðu þjóðunum að litið væri í auknum mæli á slæma stjórnarhætti sem „eina meginástæðu allrar illsku í þjóðfélögum okkar“.

TÍMI TIL AÐGERÐA

Við þurfum á betri stjórnendum og betra stjórnarformi að halda. Og skapari okkar hefur lofað því.

Jafnvel bestu mannlegu stjórnunum hefur ekki tekist að leysa alvarleg vandamál mannkyns.

Guð hefur stofnsett ríki, eða stjórn, sem kemur í stað allra mannlegra stjórna og það mun „standa sjálft að eilífu“. (Daníel 2:44) Milljónir manna biðja um þetta ríki. (Matteus 6:9, 10) En Guð er ekki stjórnandi þessa ríkis sjálfur. Hann hefur öllu heldur falið einhverjum sem lifði sem maður að vera stjórnandi þess. Hvern hefur hann valið?