Finnur Guð til samúðar?
HVAÐ LÆRUM VIÐ AF SKÖPUNARVERKINU?
Samúð hefur verið skilgreind sem „getan til að taka þátt í tilfinningum og reynslu annarra með því að gera sér í hugarlund hvernig væri að vera í sporum þeirra“. Dr. Rick Hanson er sérfræðingur á geðheilbrigðissviði. Hann segir: „Samúðin er okkur í blóð borin.“
HUGLEIDDU ÞETTA: Hvers vegna finnum við til samúðar betur en nokkrar aðrar lífverur? Í Biblíunni segir að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd. (1. Mósebók 1:26) Við erum sköpuð í mynd Guðs þannig að við getum endurspeglað góða eiginleika hans að vissu marki. Þegar fólk lætur sér annt um aðra og hjálpar þeim vegna þess að það finnur til samúðar með þeim er það að endurspegla samúð skapara okkar sem er umhyggjusamur. – Orðskviðirnir 14:31.
HVAÐ LÆRUM VIÐ AF BIBLÍUNNI UM SAMÚÐ GUÐS?
Jehóva Guð hefur samúð með okkur og honum finnst erfitt að sjá okkur þjást. „Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða,“ segir í Biblíunni um tilfinningar Guðs gagnvart Ísraelsþjóðinni til forna sem var þrælkuð í Egyptalandi og lifði í framhaldi af því við erfiðar aðstæður í eyðimörkinni í 40 ár. (Jesaja 63:9, Biblían 1981) Taktu eftir að Guð vissi ekki bara af neyð þeirra. Hann fann til með þeim. Hann sagði: „Ég þekki þjáningu hennar.“ (2. Mósebók 3:7) „Hver sá sem snertir við yður, snertir sjáaldur mitt,“ segir Guð. (Sakaría 2:12) Hann finnur til með okkur þegar aðrir særa okkur.
Þó að við kunnum sjálf að dæma okkur óverðug þess að njóta samúðar Guðs fullvissar Biblían okkur: „Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt.“ (1. Jóhannesarbréf 3:19, 20) Guð þekkir okkur betur en við gerum sjálf. Hann þekkir vel allar aðstæður okkar, hugsanir og tilfinningar. Hann hefur samúð með okkur.
Við getum leitað til Guðs til að fá huggun, visku og stuðning, fullviss um að hann hjálpar þeim sem þjást.
Í Biblíunni segir
-
„Þá muntu kalla og Drottinn svara, biðja um hjálp og hann mun segja: ,Hér er ég.‘“ – JESAJA 58:9.
-
„Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður.“ – JEREMÍA 29:11, 12.
-
„Þú hefur ... safnað tárum mínum í sjóð þinn, þau eru rituð í bók þína.“ – SÁLMUR 56:9.
GUÐ TEKUR EFTIR, SKILUR OG HEFUR SAMÚÐ MEÐ OKKUR
Getur það hjálpað okkur í erfiðleikum að vita að Guð hefur samúð með okkur? Lítum á reynslu Mariu:
„Mér fannst lífið erfitt og óréttlátt þegar ég upplifði þann gríðarlega sársauka að missa 18 ára son minn úr krabbameini eftir tveggja ára baráttu við sjúkdóminn. Ég var reið út í Jehóva fyrir að grípa ekki inn í og lækna hann.
Sex árum síðar talaði ég við umhyggjusama vinkonu í söfnuðinum. Ég sagði henni að mér fyndist Jehóva ekki elska mig. Hún hlustaði á mig í nokkrar klukkustundir án þess að grípa fram í fyrir mér. Síðan vitnaði hún í 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20 sem hafði sterk áhrif á mig, en þar stendur: ,Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt.‘ Hún minnti mig á að Jehóva skilur þjáningu okkar.
Þrátt fyrir það átti ég erfitt með að sleppa reiðinni. En svo las ég Sálm 94:19 þar sem segir: ,Þegar áhyggjur þjaka mig hressir huggun þín sál mína.‘ Mér fannst þessi biblíuvers vera skrifuð sérstaklega handa mér. Þá loksins fann ég huggun í því að geta talað við Jehóva um þjáningu mína því að ég vissi að hann hlustar á mig og skilur mig.“
Það er virkilega hughreystandi að vita að Guð skilur okkur og finnur til með okkur. En hvers vegna eru þá svona miklar þjáningar? Er Guð að refsa okkur fyrir að syndir okkar? Ætlar Guð að gera eitthvað til að binda enda á allar þjáningar? Það er umræðuefni næstu greina.