„Hvar var Guð?“
„SPURNINGIN SEM LEITAR SÍFELLT Á HUGANN ER: HVAR VAR GUÐ?“ – Benedikt páfi sextándi, þegar hann heimsótti fangabúðirnar í Auschwitz í Póllandi.
HEFURÐU SPURT ÞIG EFTIR AÐ HARMLEIKUR ÁTTI SÉR STAÐ: „HVAR VAR GUÐ?“ EÐA HEFURÐU ORÐIÐ FYRIR ÞUNGBÆRRI REYNSLU SEM FÉKK ÞIG TIL AÐ VELTA FYRIR ÞÉR HVORT GUÐI SÉ Í RAUN ANNT UM ÞIG?
Ef til vill hugsar þú líkt og Sheila. Hún býr í Bandaríkjunum og var alin upp af mjög trúaðri fjölskyldu. Hún segir: „Frá unga aldri laðaðist ég að Guði því að hann skapaði okkur. En mér fannst ég aldrei náin honum. Ég trúði að hann fylgdist með mér, en þó úr fjarlægð. Ég hugsaði ekki að hann hataði mig en ekki heldur að honum væri annt um mig.“ Hvers vegna efaðist Sheila um að Guði væri annt um hana? Hún svarar: „Fjölskyldan mín lenti í hverju áfallinu á fætur öðru og það leit út fyrir að Guði væri alveg sama.“
Líkt og Sheila ert þú kannski viss um að almáttugur Guð sé til en veltir fyrir þér hvort honum sé annt um þig. Job var réttlátur maður sem trúði á visku og mátt skaparans en hann velti þessu samt sem áður fyrir sér. (Jobsbók 2:3; 9:4) Eftir að Job hafði orðið fyrir hverju áfallinu á fætur öðru – og hann sá ekki fyrir endann á þeim – spurði hann Guð: „Hvers vegna hylur þú auglit þitt og lítur á mig sem óvin þinn?“ – Jobsbók 13:24.
Hvað segir Biblían um málið? Á Guð sök á hörmungum manna? Höfum við einhverjar vísbendingar um að Guð láti sér annt um mannkynið í heild og um okkur sem einstaklinga? Getum við hvert og eitt vitað með nokkurri vissu hvort hann taki eftir okkur, skilji okkur, hafi samúð með okkur eða hjálpi okkur að leysa vandamál?
Í næstu greinum er rætt um hvernig sköpunin sýnir okkur að Guði er annt um okkur. (Rómverjabréfið 1:20) Síðan skoðum við hvað við getum lært af Biblíunni um umhyggju Guðs. Því betur sem við „þekkjum hann“, með því að virða fyrir okkur sköpunina og orð hans, því sannfærðari verðum við um að ,hann beri umhyggju fyrir okkur‘. – 1. Jóhannesarbréf 2:3; 1. Pétursbréf 5:7.