Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dauðinn er sorgleg staðreynd

Dauðinn er sorgleg staðreynd

ÍMYNDAÐU þér að þú sért að horfa á bíómynd um fræga konu – kannski konu sem er þekkt fyrir tónlist og þú dáist að henni. Myndin hefst þegar hún er barn og er að læra á hljóðfæri. Hún æfir sig þrotlaust. Síðan sérðu hana spila á hljómleikum, ferðast um heiminn og verða heimsfræga. Fljótlega kemur kafli um efri ár hennar. Í lok myndarinnar deyr hún.

Bíómyndin er ekki skáldsaga heldur svipmyndir úr lífi konu sem er nú látin. Hvort sem persónan er þekkt fyrir tónlist, vísindi, íþróttir eða eitthvað annað væri sagan í stórum dráttum sú sama. Þó að sögupersónan hafi kannski áorkað miklu veltirðu sennilega fyrir þér hve miklu lengra hún hefði getað náð ef ekki væri fyrir þá sorglegu staðreynd að við eldumst öll og deyjum.

Þó að það sé ákaflega sorglegt bíða þessi örlög okkar allra. (Prédikarinn 9:5) Enginn kemst hjá því að eldast og deyja, sama hve mikið hann leggur á sig. Þar að auki getum við dáið fyrir aldur fram vegna slysa eða veikinda. Biblían lýsir því þannig að við séum eins og „gufa sem sést um stutta stund en hverfur síðan“. – Jakobsbréfið 4:14.

Sumum finnst lífið svo ótryggt og tilgangslaust að þeir haga lífi sínu eftir þessu viðhorfi: „Etum ... og drekkum, því að á morgun deyjum við!“ (1. Korintubréf 15:32) Þeir lifa þannig vegna þess að þeir hafa enga framtíðarvon og vita að þeir geta dáið hvenær sem er. Þú spyrð þig kannski hvort þetta líf sé allt og sumt – ekki síst ef þú verður fyrir erfiðri reynslu. Hvar finnum við svar við því?

Núna leita margir til vísindanna. Framfarir í vísindum og læknisfræði hafa lengt lífslíkur okkar. Og vísindamenn vinna að því að lengja lífið enn meira. Hvernig sem það gengur er því enn ósvarað hvers vegna við eldumst og deyjum og hvort við megum vonast til að óvinur okkar dauðinn verði sigraður. Í eftirfarandi greinum er rætt um það og við fáum svar við spurningunni: Er þetta líf allt og sumt?