Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig verður dauðinn sigraður?

Hvernig verður dauðinn sigraður?

ÞÓ AÐ óhlýðni Adams og Evu, foreldra mannkyns, hafi leitt synd og dauða yfir alla afkomendur þeirra breytti Guð ekki fyrirætlun sinni með mannkynið. Í orði sínu, Biblíunni, staðfestir hann margsinnis að fyrirætlun hans hafi ekki breyst.

  • „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ – Sálmur 37:29.

  • „Hann [mun] afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ – Jesaja 25:8.

  • „Dauðinn er síðasti óvinurinn sem verður að engu gerður.“ – 1. Korintubréf 15:26.

  • „Dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ – Opinberunarbókin 21:4.

Hvernig mun Guð „afmá dauðann“ og gera þennan óvin „að engu“? Eins og sjá má segir Biblían að hinir réttlátu muni lifa að eilífu. En hún segir líka: „Enginn réttlátur maður er til á jörðinni sem gert hefur gott eitt og aldrei syndgað.“ (Prédikarinn 7:20) Þýðir það að Guð muni fara á bak við sína eigin staðla til að sigra dauðann? Nei, það myndi hann aldrei gera því að hann er „Guð, sem aldrei lýgur“. (Títusarbréfið 1:2) Hvað mun Guð þá gera til að uppfylla kærleiksríka fyrirætlun sína með manninn?

GUÐ MUN „AFMÁ DAUÐANN AÐ EILÍFU“. – JESAJA 25:8.

DAUÐINN SIGRAÐUR MEÐ LAUSNARGJALDI

Jehóva Guð gerði kærleiksríka ráðstöfun til að leysa mannkynið undan dauðanum. Hann greiddi lausnargjald. Grunnhugmyndin að lausnargjaldi er að bæta fyrir skaða eða fullnægja réttlæti. Gjaldið þarf að samsvara því sem greitt er fyrir. Allir menn eru syndugir og seldir undir dauðann. Því segir Biblían berum orðum: „Enginn fær keypt bróður sinn lausan eða greitt Guði lausnargjald fyrir hann, lausnargjaldið fyrir líf hans væri of hátt, ekkert mundi nokkru sinni nægja.“ – Sálmur 49:8, 9.

Ófullkominn maður sem deyr getur aðeins greitt fyrir sínar eigin syndir. Hann getur ekki leyst sjálfan sig undan syndinni eða greitt fyrir syndir annarra. (Rómverjabréfið 6:7) Við þurftum einhvern sem var fullkominn og syndlaus og þurfti ekki að greiða fyrir eigin syndir heldur gæti fórnað lífi sínu fyrir syndir okkar. – Hebreabréfið 10:1–4.

Guð sá einmitt fyrir því. Hann sendi Jesú, son sinn, frá himnum. Jesús fæddist fullkominn og syndlaus. (1. Pétursbréf 2:22) Hann sagðist hafa komið til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“. (Markús 10:45) Hann dó til að sigra óvin okkar dauðann svo að við gætum lifað. – Jóhannes 3:16.

HVENÆR VERÐUR DAUÐINN SIGRAÐUR?

Nú á dögum sjáum við rætast spádóm Biblíunnar um „örðugar tíðir“. Það sýnir að við lifum á „síðustu dögum“ þessa illa heims. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þessir síðustu dagar ná hámarki þegar „óguðlegir menn verða dæmdir og tortímast“. (2. Pétursbréf 3:3, 7) En þeir sem elska Guð komast lífs af og fá að njóta „eilífs lífs“. – Matteus 25:46.

Jesús kom til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“. – Markús 10:45.

Milljónir annarra fá tækifæri til að lifa að eilífu þegar þeir verða reistir upp frá dauðum. Jesús reisti mann upp frá dauðum þegar hann heimsótti borgina Nain. Einkasonur ekkju hafði dáið og þegar Jesús sá það „kenndi hann í brjósti um hana“ og reisti son hennar upp til lífs á ný. (Lúkas 7:11–15) Og Páll postuli sagði: „Þá von hef ég til Guðs ... að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ Guð sýnir kærleika sinn til mannkynsins á einstakan hátt með því að gefa því þessa traustu von. – Postulasagan 24:15.

Milljarðar manna eiga þá framtíð fyrir sér að lifa að eilífu. Í Biblíunni segir: „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ (Sálm. 37:29) Þá sjá þeir þessi áhrifamiklu og huggandi orð rætast sem Páll postuli færði í letur fyrir um 2.000 árum: „Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?“ (1. Korintubréf 15:55) Dauðinn – þessi skelfilegi óvinur mannkyns – hefur verið sigraður!