Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er hægt að vera hamingjusamur núna?

Hvernig er hægt að vera hamingjusamur núna?

SÚ STUND kemur að enginn verður veikur, ellihrumur eða deyr. Hvílíkar framtíðarhorfur! En við þurfum enn að glíma við mikla erfiðleika og vandamál. Hvað getur hjálpað okkur að vera hamingjusöm núna? Í Biblíunni er að finna leiðsögn sem getur hjálpað okkur að lifa hamingjuríku lífi. Skoðum nokkur dæmi um hvernig Biblían getur hjálpað okkur að takast á við erfiðleika.

VERUM ÁNÆGÐ MEÐ ÞAÐ SEM VIÐ HÖFUM

Ráð Biblíunnar: „Verið ekki fégráðug en látið ykkur nægja það sem þið hafið.“ – Hebreabréfið 13:5.

Við finnum fyrir miklum þrýstingi til að verða okkur úti um alls konar hluti og þjónustu sem fólk telur nauðsynlega. Samt segir Biblían að við getum ,látið okkur nægja það sem við höfum‘. Hvernig getum við það?

,Verum ekki fégráðug.‘ Fólk fórnar heilsunni, fjölskyldunni, vináttu, siðferði sínu og jafnvel sjálfsvirðingunni fyrir peninga. (1. Tímóteusarbréf 6:10) Það er sannarlega dýrkeypt! Þegar upp er staðið ,seðst sá aldrei sem elskar peninga‘. – Prédikarinn 5:9.

Metum fólk meira en hluti. Efnislegir hlutir geta vissulega verið nytsamir. En aðeins fólk getur elskað okkur eða kunnað að meta okkur, það geta hlutir ekki. Að eiga sanna vini gerir lífið ánægjulegra. – Orðskviðirnir 17:17.

VIÐ GETUM VERIÐ HAMINGJUSÖM NÚNA MEÐ ÞVÍ AÐ FYLGJA LEIÐSÖGN BIBLÍUNNAR.

HÖLDUM ÚT Í VEIKINDUM

Ráð Biblíunnar: „Glatt hjarta veitir góða heilsubót.“ – Orðskviðirnir 17:22.

Gleði er ,góð heilsubót‘ og hjálpar okkur að takast á við veikindi. En hvernig getum við verið glöð þegar við erum veik?

Sýnum þakklæti. Ef við hugsum aðeins um vandamál okkar ,lítum við aldrei glaðan dag‘. (Orðskviðirnir 15:15) Biblían hvetur okkur öllu heldur til að ,vera þakklát‘. (Kólossubréfið 3:15) Lærðu að meta það góða í lífinu, sama hve smátt það er. Fallegt sólsetur, ljúf gola og bros ástvinar – allt þetta getur bætt líf okkar.

Hjálpum öðrum. „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Þetta á alltaf við, jafnvel þó að við búum við lélega heilsu. Það veitir okkur ánægju þegar aðrir kunna að meta það sem við gerum og þá hugsum við ekki eins mikið um vandamál okkar. Við getum bætt líf okkar með því að hjálpa öðrum að bæta líf sitt.

STYRKJUM HJÓNABANDIÐ

Ráð Biblíunnar: „Metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ – Filippíbréfið 1:10.

Hjón sem verja litlum tíma saman eiga á hættu að fjarlægjast hvort annað. Það er því skynsamlegt að láta hjónabandið hafa forgang – það er mikilvægara en margt annað.

Gerið eitthvað saman. Það er gott að taka frá tíma til að gera eitthvað saman í stað þess að stunda afþreyingu hvort í sínu lagi. „Betri eru tveir en einn,“ segir í Biblíunni. (Prédikarinn 4:9) Þið gætuð eldað saman, stundað hreyfingu, fundið ykkur sameiginlegt áhugamál eða sest saman yfir kaffisopa.

Tjáið hvort öðru ást ykkar. Biblían hvetur hjón til að elska og virða hvort annað. (Efesusbréfið 5:28, 33) Hlýlegt bros, innilegt faðmlag eða lítil gjöf getur átt stóran þátt í að styrkja hjónabandið. Og auðvitað ættu hjón aðeins að sýna hvort öðru kynferðislegan áhuga. – Hebreabréfið 13:4.