Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við erum sköpuð til að lifa

Við erum sköpuð til að lifa

ALLIR vilja lifa löngu og hamingjuríku lífi. Hugsaðu þér hvað væri dásamlegt ef við gætum lifað að eilífu – hraust og ánægð. Þá gætum við verið meira með fjölskyldu og vinum, ferðast um heiminn, lært eitthvað nýtt, aukið við þekkingu okkar og notið þess að ná færni í öllu sem okkur langar til.

Slík þrá er engan veginn óeðlileg. Biblían segir að Guð hafi skapað okkur með þessa löngun. (Prédikarinn 3:11) Hún segir líka: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Kærleiksríkur Guð myndi ekki áskapa okkur löngun til að lifa að eilífu án þess að hægt væri að láta hana verða að veruleika.

Enginn vill deyja. Í Biblíunni er dauðanum lýst sem óvini. (1. Korintubréf 15:26) Sumir deyja ungir en aðrir ná háum aldri. En allir deyja að lokum. Mörgum finnst óþægilegt eða jafnvel skelfilegt að hugsa um dauðann. Verður þessi óvinur nokkurn tíma sigraður? Er hægt að sigra hann?

VIÐ GETUM VERIÐ VONGÓÐ

Kæmi þér á óvart að heyra að Guð ætlaði manninum aldrei að deyja? Í 1. Mósebók eru færð rök fyrir því að fyrirætlun Guðs með manninn hafi verið að hann lifði að eilífu á jörðinni. Jehóva * Guð skapaði jörðina með öllu sem þurfti til að maðurinn gæti búið þar. Síðan skapaði hann fyrsta manninn, Adam, og setti hann í paradísargarðinn Eden. Eftir það „leit [Guð] allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott“. – 1. Mósebók 1:26, 31.

Guð skapaði Adam fullkominn. (5. Mósebók 32:4) Kona Adams, Eva, var líka fullkomin á huga og líkama. Jehóva Guð sagði þeim: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“ – 1. Mósebók 1:28.

Það tæki þau tíma að fylla jörðina með afkomendum sínum. Eva myndi fæða börn, þau börn síðan eignast börn og þannig koll af kolli þar til búið yrði að fylla jörðina eins og Guð ætlaðist til. (Jesaja 45:18) Er rökrétt að ætla að Jehóva myndi bjóða Adam og Evu þessar framtíðarhorfur ef þeim var aðeins ætlað að lifa nógu lengi til að fylgjast með börnum sínum og kannski barnabörnum og sjá jörðina aldrei fyllast?

Og hugsaðu um það verkefni að ríkja yfir dýrunum. Adam átti að gefa dýrunum nöfn. Það tæki tíma. (1. Mósebók 2:19) En til að ríkja yfir þeim þyrfti hann að þekkja þau og skilja hvernig hann ætti að sjá um þau. Það tæki enn lengri tíma.

Þegar Guð sagði fyrstu hjónunum að fylla jörðina og ríkja yfir dýrunum gaf hann til kynna að þau væru sköpuð til að lifa lengi. Og Adam lifði reyndar mjög lengi.

FYRIRÆTLUN GUÐS ER AÐ MENN LIFI AÐ EILÍFU Í PARADÍS Á JÖRÐ.

ÞEIR LIFÐU LENGI

Adam varð 930 ára.

Metúsala varð 969 ára.

Nói varð 950 ára.

Núna verða menn 70–80 ára.

Af Biblíunni má sjá að einu sinni lifðu menn mun lengur. Þar stendur: „Allir ævidagar Adams urðu níu hundruð og þrjátíu ár.“ Síðan eru taldir upp sex aðrir menn sem urðu yfir 900 ára gamlir. Það voru Set, Enos, Kenan, Jared, Metúsala og Nói. Allir þessir menn voru uppi fyrir flóðið á dögum Nóa. Og Nói lifði í 600 ár áður en flóðið kom. (1. Mósebók 5:5–27; 7:6; 9:29) Hvernig var hægt að lifa svona lengi?

Allir þessir menn voru uppi nálægt þeim tíma þegar mannkynið var fullkomið. Sennilega átti það stóran þátt í langlífi þeirra. En hvernig tengist fullkomleiki langlífi? Og hvernig verður dauðinn sigraður? Til að fá svar við því þurfum við að skilja hvers vegna við eldumst og deyjum.

^ gr. 6 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.