Paradís á jörð – ímyndun eða veruleiki?
Paradís! Litríkir ferðabæklingar bjóða spennandi ferðalög til fjarlægrar „paradísar“ til að slappa af og gleyma öllum áhyggjum okkar og erfiðleikum. En eins og við vitum hefur lífið ekkert breyst þegar við komum aftur heim.
Engu að síður er aðdráttarafl paradísar mikið. Við veltum eflaust fyrir okkur: „Er paradís ekkert annað en fallegt ævintýri? Ef svo er, hvers vegna er aðdráttaraflið þá svo mikið? Og mun paradís einhvern tíma verða að veruleika?“
SAGA PARADÍSAR
Paradís hefur í aldanna rás vakið áhuga manna. Áhugi margra er sprottinn af frásögu Biblíunnar þar sem hún talar um „aldingarð í Eden, í austri“. Hvað gerði þennan garð svona aðlaðandi? Frásagan segir okkur: „Drottinn Guð lét spretta af jörðinni alls konar tré, girnileg á að líta og góð af að eta.“ Þessi garður var dásamlegur. Það sem heillaði mest var „lífsins tré í miðjum garðinum“. – 1. Mósebók 2:8, 9.
Þar að auki nefnir 1. Mósebók fjögur fljót sem renna úr garðinum. Tvö þessara fljóta eru þekkt enn þann dag í dag – Tígris og Efrat. (1. Mósebók 2:10-14) Þessi tvö fljót renna í Persaflóa í gegnum Írak sem var hluti af Persíu til forna.
Það er því eðlilegt að paradís á jörð sé hluti af menningararfleifð Persíu. Á persnesku teppi frá 16. öld, sem er á safninu Philadelphia Museum of Art í Pennsylvaníu, er mynd af girtum garði með trjám og blómum sem fléttuð eru inn í hönnunina. Persneska orðið fyrir „girtan garð“ þýðir einnig „paradís“ og myndin á teppinu endurspeglar lýsingu Biblíunnar á blómlegum og fallegum Edengarðinum.
Sögur um paradís eru endursagðar víða um lönd á mörgum tungumálum. Þegar mannkynið fluttist til mismunandi heimshluta bar það með sér sína útgáfu af frásögunni sem með tímanum blandaðist trúarkenningum og þjóðsögum. Nú á dögum lýsir fólk gjarnan mikilli náttúrufegurð sem paradís.
LEITIN AÐ PARADÍS
Nokkrir landkönnuðir telja sig hafa fundið Edengarðinn. Einn þeirra, breskur hershöfðingi að nafni Charles Gordon, ferðaðist um Seychelles-eyjar árið 1881. Hann varð svo heillaður af fegurð og grósku Vallée de Mai – sem nú er á heimsminjaskrá – að hann lýsti því yfir að hann hefði fundið Edengarðinn. Á 15. öld velti ítalski sæfarinn Kristófer Kólumbus fyrir sér hvort hann hefði fundið Edengarðinn þegar hann kom að landi á eyjunni Hispaníólu, sem nú er Haítí og Dóminíska lýðveldið.
Nýlegt sagnfræðirit, Mapping Paradise, hefur að geyma meira en 190 forn kort sem mörg hver sýna Adam og Evu í Edengarðinum. Þeirra á meðal er óvenjulegt kort frá 13. öld úr handritasafni Beatus frá Liébana. Efst á kortinu er rétthyrningur sem sýnir paradís. Þaðan renna fjögur fljót hvert út í sitt horn, merkt Tígris, Efrat, Píson og Gíhon. Talið er að þetta tákni útbreiðslu kristninnar til fjögurra skauta jarðar. Þó að staðsetning upprunalegu paradísarinnar sé óþekkt benda lýsingar sem þessar til að aðdráttarafl hennar sé greinilega enn þá sterkt.
John Milton, enskt skáld frá 17. öld, er þekktur fyrir ljóðið Paradísarmissir sem er byggt á frásögninni
í 1. Mósebók af synd Adams og því þegar hann var rekinn úr Edengarðinum. Þar beinir hann athyglinni að loforði um að eilíft líf á jörð verði endurheimt og segir: „Þá verður öll jörðin paradís.“ Seinna skrifaði Milton framhald sem heitir Paradísarheimt.BREYTT VIÐHORF
Það er greinilegt að hugmyndin um týnda paradís á jörð er rauður þráður í gegnum sögu mannkyns. Hvers vegna er henni þá ekki veitt athygli nú til dags? „Guðfræðingar hafa ... snúið baki við hugmyndinni um að staðsetja paradís,“ segir í Mapping Paradise.
Flestum kirkjugestum er kennt að endanlegt hlutskipti þeirra sé að fara til himna, ekki líf í jarðneskri paradís. Samt segir Biblían í Sálmi 37:29: „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ Hvaða von er um að þetta loforð verði einhvern tíma uppfyllt þar sem heimur nútímans er varla nein paradís? *
RAUNVERULEG PARADÍS UM ALLA JÖRÐ
Jehóva Guð, sem skapaði upprunalegu paradísina, hefur lofað að endurreisa það sem glataðist. Hvernig? Mundu að Jesús kenndi okkur að biðja: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Þetta ríki er heimsstjórn í höndum Jesú Krists og það mun koma í stað allra mannlegra stjórna. (Daníel 2:44) Undir stjórn þessa ríkis mun vilji Guðs, varðandi paradís á jörð, ná fram að ganga.
Spámanninum Jesaja var áður innblásið að lýsa því hvernig lífið yrði í paradís framtíðarinnar þegar átök og spenna, sem við búum við nú á dögum, heyra sögunni til. (Jesaja 11:6-9; 35:5-7; 65:21-23) Við hvetjum þig til að taka þér nokkrar mínútur til að lesa þessa ritningarstaði í biblíunni þinni. Það mun gefa þér trúartraust á það sem Guð hefur í hyggju með hlýðið mannkyn. Þeir sem þá lifa munu njóta paradísar og velþóknunar Guðs, en Adam glataði hvoru tveggja. – Opinberunarbókin 21:3.
Hvernig getum við verið viss um að vonin um paradís á jörð sé ekki bara ímyndun heldur raunveruleg? Biblían segir okkur: „Himinninn er himinn Drottins en jörðina gaf hann mannanna börnum.“ Vonin um paradís á jörð er von sem „sá Guð, sem aldrei lýgur, hefur heitið frá eilífð“. (Sálmur 115:16; Títusarbréfið 1:2) Hvílík von sem Biblían lofar – paradís að eilífu!
^ gr. 15 Það er líka athyglisvert að 105. vers í 21. þætti Kóransins, Spámönnunum, segir: „Hinir réttlátu meðal þjóna minna skyldu jörðina erfa.“