Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | HVAR GETUM VIÐ FENGIÐ HUGGUN?

Hvernig veitir Guð huggun?

Hvernig veitir Guð huggun?

Páll postuli segir að Jehóva * sé ,Guð allrar huggunar sem hughreystir okkur í sérhverri þrenging okkar‘. (2. Korintubréf 1:3, 4) Þannig fullvissar Biblían okkur um að Guð geti hjálpað öllum mönnum og að enginn harmleikur sé svo mikill að himneskur faðir okkar geti ekki huggað okkur.

Við verðum að sjálfsögðu að gera eitthvað sjálf til að hljóta huggun og hughreystingu frá Guði. Læknir getur ekki hjálpað okkur nema við leitum til hans. Amos spámaður spurði: „Verða tveir menn samferða nema þeir hafi áður mælt sér mót?“ (Amos 3:3) Biblían hvetur okkur þess vegna: „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ – Jakobsbréfið 4:8.

Hvernig getum við verið viss um að Guð muni nálgast okkur? Í fyrsta lagi vegna þess að hann hefur ítrekað sagt að hann vilji hjálpa okkur. (Sjá  meðfylgjandi ramma.) Þar að auki höfum við rækilegan vitnisburð frá fólki sem Guð hefur hughreyst – bæði á okkar dögum og fyrr á tímum.

Davíð konungur þekkti hörmungar af eigin raun rétt eins og margir sem leita hjálpar Guðs nú á dögum. „Heyr þú grátbeiðni mína þegar ég hrópa til þín á hjálp,“ bað hann Jehóva eitt sinn. Var hann bænheyrður? Já, því að hann bætti við: „Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt.“ – Sálmur 28:2, 7.

JESÚ GEGNIR MIKILVÆGU HLUTVERKI Í AÐ HUGGA ÞÁ SEM ERU HRYGGIR

Jesú átti að gegna lykilhlutverki í því að hugga og hughreysta fólk. Eitt af verkefnunum sem Guð fól Jesú var „að græða þá sem hafa sundurmarin hjörtu“ og „að hugga þá sem hryggir eru“. (Jesaja 61:1, 2) Eins og spáð var fyrir sýndi Jesús sérstakan áhuga á fólki sem ,erfiðaði og var þunga hlaðið‘. – Matteus 11:28-30.

Jesús hughreysti fólk með viturlegum ráðum og hlýlegu viðmóti. Suma læknaði hann meira að segja af veikindum. Dag einn sárbændi holdsveikur maður Jesú: „Ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“ Jesús fann til með manninum og svaraði: „Ég vil, verð þú hreinn!“ (Markús 1:40, 41) Og maðurinn læknaðist af holdsveikinni.

Nú á dögum er sonur Guðs ekki á jörðinni til að hugga okkur og hughreysta í eigin persónu. En faðir hans sem er „Guð allrar huggunar“ heldur áfram að hughreysta þá sem eru hjálparþurfi. (2. Korintubréf 1:3) Skoðum fjórar mikilvægustu leiðirnar sem Jehóva Guð notar til að hugga og hughreysta fólk.

  • Biblían. „Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa.“ – Rómverjabréfið 15:4.

  • Heilagur andi Guðs. Skömmu eftir dauða Jesú þurfti kristni söfnuðurinn sárlega á huggun að halda. Biblían segir að Guð hafi veitt þeim hana með heilögum anda sínum. (Postulasagan 9:31) Heilagur andi, það er að segja kraftur Guðs, er mjög öflugur. Guð getur notað hann til að hugga og hughreysta fólk við hvaða aðstæður sem er.

  • Bænin. „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði,“ ráðleggur Biblían. Hún segir jafnframt: „Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir.“ – Filippíbréfið 4:6, 7.

  • Trúsystkini geta reynst sannir vinir sem við getum reitt okkur á í erfiðleikum. Páll postuli sagði um samverkamenn sína: „Þeir [hafa] verið mér styrkur“ og „huggun í neyð minni og þrengingu“. – Kólossubréfið 4:11; 1. Þessaloníkubréf 3:7.

En þú veltir kannski fyrir þér hvernig þetta virki í raun. Skoðum nánar reynslu einstaklinga sem lentu í þeim erfiðleikum sem nefndir eru í inngangsgreininni. Þú getur kynnst því af eigin raun að Guð stendur enn í dag við þetta hlýlega loforð: „Eins og móðir huggar barn sitt, eins mun ég hugga yður.“ – Jesaja 66:13.

^ gr. 3 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.