Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Storkur

Lærum af fuglum himins

Lærum af fuglum himins

„Spyrðu ... fugla himins og þeir munu skýra þér frá. [Hver] þeirra skyldi ekki vita að hönd Drottins hefur gert þetta?“ – Jobsbók 12:7, 9.

FYRIR meira en 3.000 árum veitti ættfaðirinn Job því athygli hve margt við getum lært af fuglum himins um Guð og verk hans. Atferli þeirra er þar að auki góður efniviður í líkingar og myndhvörf. Í Biblíunni er oft vísað í fugla himinsins til að kenna okkur ýmislegt mikilvægt um lífið og samband okkar við Guð. Skoðum nokkur dæmi.

ÞAR SEM SVALAN GERIR SÉR HREIÐUR

Svala

Jerúsalembúar þekktu svöluna en hún er vön að gera sér hreiður undir þakskeggjum. Svölur hreiðruðu meðal annars um sig í musteri Salómons. Eflaust hefur svölunum, sem gerðu sér hreiður í musterinu ár hvert, fundist það öruggur staður til að koma upp ungum sínum óáreittar.

Einn af sonum Kóra orti Sálm 84. Hann þjónaði í musterinu í eina viku í senn á sex mánaða fresti. Hann tók eftir hreiðrunum á musterissvæðinu og þráði að vera í sporum svölunnar sem bjó í húsi Jehóva. Hann sagði löngunarfullur: „Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna. Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins ... Jafnvel fuglinn hefur fundið hús og svalan á sér hreiður þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn.“ (Sálmur 84:2-4) Við höfum tækifæri til þess að safnast saman, ásamt börnum okkar, með söfnuði Guðs nú á dögum. Kunnum við að meta það líkt og sálmaritarinn? – Sálmur 26:8, 12.

STORKURINN ÞEKKIR SINN TÍMA

„Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sinn ákveðna tíma,“ sagði Jeremía spámaður. Hann þekkti án efa farflug storksins því að hann hefur viðkomu í fyrirheitna landinu. Á vorin hafa sést fleiri en 300.000 hvítir storkar á farflugi sínu frá Afríku til Norður-Evrópu með viðkomu í Jórdandalnum. Innbyggt tímaskyn segir þeim hvenær þeir eiga að snúa aftur til varpstöðvanna. Storkarnir „snúa aftur á réttum tíma“ eins og aðrir farfuglar. – Jeremía 8:7.

„Það undraverðasta við farflug er að það er eðlislægt,“ segir í bókinni Collins Atlas of Bird Migration. Jehóva Guð gaf farfuglum meðfædda visku til að fljúga á milli búsvæða á réttum tíma en gaf manninum hæfileika til að bera skyn á tímann. (Lúkas 12:54-56) Ólíkt eðlislægri visku storksins þurfa menn að afla sér þekkingar á Guði til að geta skilið þýðingu atburða á okkar tímum. Gyðingar á dögum Jeremía gerðu sér ekki grein fyrir táknum tímans. Guð útskýrði hvers vegna: „Þeir hafa hafnað orði Drottins, hvers virði er þeim þá eigin viska?“ – Jeremía 8:9.

Við höfum nægar vísbendingar um að við lifum tímann sem Biblían kallar ,síðustu daga‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Líkirðu eftir storkinum með því að gera þér grein fyrir táknum tímans?

ÖRNINN SÉR LANGAR LEIÐIR

Örn

Örninn er oft nefndur í Biblíunni og það er algeng sjón í fyrirheitna landinu að sjá hann bera við himinn á flugi sínu. Frá hreiðri sínu, hátt uppi í klettum, „skyggnist hann eftir bráð, augu hans horfa langt í fjarska“. (Jobsbók 39:27-29) Hann hefur svo skarpa sjón að sagt er að hann geti komið auga á kanínu í eins kílómetra fjarlægð.

Rétt eins og örninn sér langar leiðir getur Jehóva séð langt inn í framtíðina. Hann gat þess vegna sagt: „Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það sem eigi var enn fram komið.“ (Jesaja 46:10) Við njótum gagns af hæfileika Jehóva til að sjá fram í tímann með því að fylgja ráðum hans. – Jesaja 48:17, 18.

Í Biblíunni er þeim sem treystir Guði líkt við erni: „Þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir.“ (Jesaja 40:31) Örninn nýtir sér hitauppstreymi til að hækka flugið. Þegar hann finnur hitauppstreymi breiðir hann út vængina og hnitar hringi í uppstreyminu sem ber hann hærra og hærra. Örninn treystir ekki á eigin styrk til að hækka flugið og svífa langar leiðir. Eins geta þeir sem treysta á Jehóva leitað til hans eftir meiri krafti en þeir eiga sjálfir til því að „krafturinn mikli kemur frá Guði“. – 2. Korintubréf 4:7, 8.

„EINS OG HÆNAN SAFNAR UNGUM SÍNUM“

Hæna með unga

Stuttu áður en Jesús dó tók hann sér stund til að horfa yfir Jerúsalem, höfuðborg Gyðinga. Hann sagði andvarpandi: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi?“ – Matteus 23:37.

Eitt sterkasta eðli fugla er að vernda unga sína. Fuglar eins og hænsni, sem gera sér hreiður á jörðinni, þurfa að vera mjög vel á verði gagnvart hættum. Ef hæna sér fálka hringsóla fyrir ofan sig gefur hún frá sér hátt viðvörunargagg og ungarnir flýta sér í skjól undir vængjum hennar. Undir vængjum hænunnar getur ungviðið líka skýlt sér fyrir heitri sólinni og hellirigningu. Jesús vildi á sama hátt bjóða Jerúsalembúum andlegt skjól og vernd. Jesús býður okkur að koma til sín og fá vernd og hvíld frá erfiði og áhyggjum lífsins. – Matteus 11:28, 29.

Við getum sannarlega lært margt af fuglunum. Mundu eftir myndlíkingum Biblíunnar þegar þú horfir á atferli fuglanna. Lærðu af svölunni að meta húsið þar sem Jehóva er tilbeðinn. Biddu Guð um styrk sem getur látið þið fljúga upp eins og örninn. Leitaðu til Jesú til að fá biblíusannindi sem geta verndað þig eins og hæna verndar unga sína. Og láttu storkinn minna þig á að vera vakandi fyrir tímanna táknum, eða atburðum okkar tíma.