LESENDUR SPYRJA ...
Ættu kristnir menn að halda jól?
Milljónir manna um allan heim trúa því að jólin séu haldin til að fagna fæðingardegi Jesú Krists. En hefur þú einhvern tíma velt fyrir þér hvort frumkristnir menn, þeir sem voru nánustu vinir Jesú, hafi haldið jólin hátíðleg? Og hvað segir Biblían um afmæli? Svörin við þessum spurningum geta hjálpað okkur að komast að því hvort kristnir menn ættu að halda jól.
Í fyrsta lagi er hvergi minnst á það í Biblíunni að Jesús eða nokkur annar trúfastur tilbiðjandi Guðs hafi haldið upp á afmæli. Biblían nefnir aðeins tvo einstaklinga sem héldu upp á afmæli sitt. Hvorugur þeirra tilbað Jehóva, Guð Biblíunnar, og slæmir atburðir gerðust í báðum afmælisveislunum. (1. Mósebók 40:20; Markús 6:21) Samkvæmt alfræðibókinni Encyclopædia Britannica fylgdu frumkristnir menn ekki þeirri „heiðnu siðvenju að halda afmæli“.
Hvaða atburðar sagði Jesús lærisveinum sínum að minnast?
Biblían segir ekki nákvæmlega hvenær Jesús fæddist. Í Cyclopedia McClintocks og Strongs segir: „Hvorki er hægt að sjá í Nýja testamentinu né öðrum heimildum hver fæðingardagur Krists var.“ Jesús hefði án efa fullvissað sig um að fylgjendur hans vissu fæðingardag hans ef hann hefði viljað að þeir héldu upp á hann.
Í öðru lagi er hvergi sagt frá því í Biblíunni að Jesús eða nokkur lærisveinn hans hafi haldið jól. Samkvæmt New Catholic Encyclopedia var fyrst minnst á jólahald „í dagatali Philocalusar, sem er rómverskt almanak þar sem finna má heimildir frá árinu 336 [e.Kr.]“, löngu eftir að lokið var við að skrifa Biblíuna og nokkrum öldum eftir að Jesús var á jörðinni. Þess vegna segja McClintock og Strong: „Siðurinn að halda jól er ekki innleiddur af Guði og hann á sér heldur ekki upptök í Nýja testamentinu.“ *
Hver er fæðingardagur Jesú?
Jesús, kennarinn mikli, gaf fylgjendum sínum skýrar leiðbeiningar um hvað hann vildi að þeir gerðu. Þessar leiðbeiningar er að finna í Biblíunni og jólahald er ekki ein þeirra. Rétt eins og kennari í skóla vill ekki að nemendurnir fari lengra en leiðbeiningarnar segja til um vill Jesús ekki að fylgjendur sínir ,fari lengra en ritað er‘ í Biblíunni. – 1. Korintubréf 4:6.
En þó er einn mikilvægur atburður sem frumkristnir menn þekktu vel – að minnast dauða Jesú. Jesús sagði lærisveinum sínum frá því sjálfur hvenær og hvernig þeir ættu að minnast þessa atburðar. Þessar nákvæmu leiðbeiningar, ásamt dánardegi Jesú, eru ritaðar í Biblíuna. – Lúkas 22:19; 1. Korintubréf 11:25.
Eins og fram hefur komið eru jólin afmæli og frumkristnir menn fylgdu ekki þeirri heiðnu siðvenju. Auk þess minnist Biblían hvorki á að Jesús né nokkur annar hafi haldið jól. Í ljósi þessara staðreynda hafa milljónir kristinna manna um heim allan komist að þeirri niðurstöðu að jólahald sé ekki fyrir þá.
^ gr. 6 Nánari upplýsingar um uppruna nokkurra jólasiða er að finna í greininni „Hvað segir Biblían um jólin?“ á www.pr418.com/is. Sjá BIBLÍAN OG LÍFIÐ > BIBLÍUSPURNINGAR.